Vefrit starfsmanna LRH

Page 1

MEÐAL EFNIS

Vefrit starfsmanna LRH 2 .

Sævar Stefánsson rannsóknarlögreglum. -viðtal á bls 2-3

T B L .

M A R S

2 0 1 3

Nýja lögreglustöðin við Hverfisgötu

Byggingarframkvæmdir -sjá bls 4-5 Nýtt símanúmer 10763 Neyðarsími lögreglunnar verður áfram 11166, en sú breyting verður á, að tekið verður upp nýtt símanúmer — 10763, sem fólk á að nota, ef það vill fá einhverjar upplýsingar hjá lögreglunni, eins og t.d. hvar sé hægt að ná í lækni, hvaða apótek sé opið og af hverju sé rafmagnslaust — þegar svo ber undir — svo og aðrar upplýsingar, sem lögreglan hefur gefið, ef einhver hefur hringt í 11166 til að fá að vita eitt og annað. Fólk er því beðið um að hringja í númer 10763 en ekki 11166, sem eingöngu skal nota í neyðartilfellum. -Úr Tímanum 4. 11 1972

Hornsteinn lagður -sjá bls 8-9

Lögreglustöðin risin við Hlemm en enn nokkuð í að lögreglan flytti alla sína starfsemi í nýja húsið. Laugardagurinn 4. nóvember 1972 er merkisdagur í sögu lögreglunnar. Þá flutti lögreglan í Reykjavík úr Pósthússtræti 3 í nýja og glæsilega aðallögreglustöð við Hverfisgötu 113-115. Bygging hússins hófst snemma á 7. áratugnum en hornsteinn að nýju lögreglustöðinni var lagður sumarið 1963. Þremur árum síðar flutti umferðardeildin úr

bragga við Snorrabraut í kjallara hússins og Lögreguskólinn fékk líka inni í nýju lögreglustöðinni um svipað leyti, en á fyrstu hæðinni. Í ársbyrjun 1970 fjölgaði enn húsinu, en þá var tekin þar í notkun fullkomin fangageymsla á 2. hæð. Fangageymslan er enn á sínum stað en klefunum hefur fækkað nokkuð frá því sem áður var. Í vefritinu er fjallað um þessi

miklu tímamót lögreglunnar, en öll aðstaða hennar batnaði til mikilla muna við flutninginn. Menn voru stórhuga þegar kom a ð b y g g i n g u lögreglustöðvarinnar, en öll áform þeirra gengu þó ekki eftir. Á myndinni hér að neðan má sjá líkan af lögreglustöðinni eins og Gísli heitinn Halldórsson teiknaði hana í upphafi.


Sævar Stefánsson rannsóknarlögreglumaður man tímana tvenna:

„Fannst nýja lögreglustöðin vera afskaplega stór“

Það var auðvitað mikill munur á gömlu og nýju aðstöðunni, líkt og sjá má á þessum myndum. Önnur tekin í Pósthússtræti en hin á Hverfisgötu.

„Það var mjög mikil breyting að flytja hingað á Hverfisgötuna úr Pósthússtrætinu. Aðstaðan var auðvitað á allan hátt betri, við fengum t.d. fataskápa og gátum farið í sturtu. Það var nú ekki í boði á gömlu stöðinni enda þröngt þar á þingi og allir lögreglumenn nánast í einum hnapp. Nýja lögreglustöðin var svo gott sem fullbúin þegar við fluttum inn. Kaffistofan var tilbúin og líka setustofan og það var nú aldeilis munur á þessum vistaverum í samanburði við þær gömlu,“ segir Sævar Stefánsson rannsóknarlögreglumaður þegar hann rifjar upp þau merku tímamót þegar lögreglan flutti í nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar við Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík þann 4. nóvember árið 1972. „Okkur yngri mönnunum þótti frekar spennandi að flytja úr lögreglustöðinni við Pósthússtræti 3 og á Hverfisgötuna. Þeir eldri voru hins vegar dálítið kvíðnir og fannst nýja lögreglustöðin vera afskaplega stór. Svo stór reyndar að þeir skildu ekki alveg hvað átti að gera við allt þetta húsnæði. En flutningarnir gengu ágætlega fyrir sig og samheldnin á meðal lögreglumannanna var áfram jafn mikil og

hún hafði verið á gamla staðnum. Það breyttist ekkert.“ Á þessum tímamótum lögreglunnar má segja að Sævar hafi ennþá verið nýliði í starfi. ÓRÁÐINN MEÐ FRAMTÍÐINA „Ég byrjaði sem héraðslögreglumaður á Blönduósi, en fór svo í bæinn og var óráðinn með framtíðina. Haustið 1971 var ég sölumaður hjá Ræsir en hitti þá Guðmund Hermannsson, aðstoðaryfirlögregluþjón og síðar yfirlögregluþjón, en hann færði þetta í tal, þ.e. lögreglustarfið. Það varð síðan úr að ég sendi inn umsókn og var fljótlega kallaður í viðtal þar sem þeir Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri og yfirlögregluþjónarnir Óskar Ólason og Bjarki Elíasson lögðu fyrir mig spurningar. Þeim hlýtur að hafa litist ágætlega á piltinn því ég var ráðinn og fékk inngöngu í lögregluna. Í framhaldinu sagði ég upp sölumannsstarfinu og tók sæti í Lögregluskólanum. Og þann 10. desember 1971, eftir að hafa lokið fyrri önninni í skólanum var ég kominn í lögreglubúninginn og farinn út á götu að sinna verkefnum í jólaösinni í Reykjavík.“

Sævar segir þetta hafa verið eftirminnilegt tímabili en hann var á svokallaðri millivakt þetta tæpa ár sem hann var á lögreglustöðinni í Pósthússtrætinu. Aðbúnaðurinn var kannski ekki upp á marga fiska en menn létu það ekki á sig fá. „Kaffistofan á gömlu lögreglustöðinni var ekki stór. Í henni var skenkur og tveir bekkir og menn gátu því lagt sig ef svo bar undir. Í kaffistofunni voru líka tvö borð. Á öðru var spilað á spil en á hinu var teflt. Á hæðinni var líka herbergi en þar inni var unnið við skýrslugerð og teikningar. Vissulega var þetta þröngt en svona var þetta bara. Ég man að Guðmundur Hermannsson og Bjarki Elíasson deildu herbergi á efri hæðinni en þar uppi var líka skrifstofa Sigurjóns lögreglustjóra. Reyndar voru Guðmundur og Bjarki ekki aðeins í sama herberginu heldur máttu þeir einnig gera sér að góðu að nota sama skrifborðið.“ HÁTT TIL LOFTS OG VÍTT TIL VEGGJA Það gat orðið nokkuð hávaðasamt á lögreglustöðinni en Sævar segir að þar hafi oft verið erilsamt á daginn. Trégólf var á stöðinni og það dró víst lítið úr hávaðanum. SÍÐA

2


Í nýju aðallögreglustöðinni, eins og hún var kölluð, var hátt til lofts og vítt til veggja enda húsakynnin samanlagt um 6000 fermetrar. Í byrjun var ekkert kallkerfi í húsinu og þótti bagalegt en þar var hins vegar strax komið upp fjarskiptamiðstöð, sem þótti flott. Ný tæki voru keypt vegna þessa og óhætt er að segja að hugur hafi verið í mönnum. Einnig var rætt um að fjölga í lögregluliðinu í Reykjavík og því voru þetta á margan hátt spennandi tímar. „Ég fór á D-vaktina en henni stýrði þá Greipur Kristjánsson og var á þeirri vakt í allmörg ár. Í gegnum tíðina hef ég auðvitað unnið með mörgum eftirminnilegum mönnum og má nefna menn eins og Gísla Guðmundsson og Björn Jónsson, en sá síðarnefndi var mikill áhugamaður um kveðskap. Af yfirmönnum má nefna Pál Eiríksson, en upplesturinn hjá honum gat verið hressilegur. Ég hafði ekki mikið af lögreglustjóranum að segja og minnist þess ekki að Sigurjón hafi komið og drukkið kaffi í setustofunni hjá okkur. Aðrir lítu þó þar við og ég minnist sérstaklega Óskars Ólasonar, yfirlögregluþjóns og pípureykingamanns.“ SMURT BRAUÐ ALLA DAGA Til glöggvunar má geta þess að setustofan, sem Sævar vísar til, var staðsett á Hverfisgötunni þar sem í dag er upplestrarsalur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Kaffistofan var og er enn í hinum enda hússins, en hefur verið minnkuð frá því sem áður var. „Kaffistofan var tilbúin þegar við fluttum inn og þar var hægt að fá smurt brauð alla daga vikunnar. Þetta fyrirkomulag var lengi við lýði því mötuneytið á 4. hæðinni var ekki opnað fyrr en löngu seinna. Á gömlu stöðinni var það þannig að menn komu með nesti að heiman. Því hættu flestir þegar á Hverfisgötuna var komið. Á þessum árum var líka bannað að fara heim í hádeginu og um jól og áramót var því líka borðað á stöðinni.“ Sævar segir margt annað hafa breyst í gegnum árin og segir raunar ótrúlegt að hugsa til þess tíma þegar lögreglumenn höfðu engar talstöðvar á sér. Allt gekk samt sinn vanagang og þetta var bara spurning um að aðlagast aðstæðum hverju sinni. Tölvur voru auðvitað ekki komnar til sögunnar á upphafsárum Sævars í lögreglunni og því var t.d. skýrslugerð með öðrum hætti. SKÝRSLURNAR HANDSKRIFAÐAR „Í Pósthússtrætinu voru skýrslurnar auðvitað handskrifaðar lengi vel. Sjálfur man ég hvað eldri mennirnir áttu erfitt með að vélrita. Það verður líka að segjast að ritvélarnar voru oft ansi lélegar og það auðveldaði mönnum ekki verkið. Löngu seinna fengum við rafmagnsritvélar og það var mikil framför.“ Sævar brosir þegar hann rifjar upp árin í lögreglunni, en hann lét sáttur af störfum fyrir nokkrum mánuðum. „Mér leið vel í

Fangageymslunni í Pósthússtræti var lokað áður en Sævar kom til starfa í lögreglunni, en vistin þar var ansi dapurleg og stundum flæddi inn í klefana. lögreglunni og leiddist aldrei. Það var tekið vel á móti mér strax í Lögregluskólanum og ég sótti þar seinna mörg námskeið, sem hefðu jafnvel mátt vera enn fleiri. Mér líkaði vel að starfa sem lögreglumaður og sé ekki eftir því að hafa valið það. Hvort sama fag yrði fyrir valinu í dag, ef ég væri ungur maður, veit ég ekki. Í dag er nefnilega úr svo miklu að velja og tækifærin eru óþrjótandi. Ég ítreka samt að mér leið afskaplega vel í lögreglunni og það var gott að starfa á lögreglustöðinni á Hverfisgötu.“

Sævar Stefánsson Eftir árin á D-vaktinni sinnti Sævar, sem er menntaður búfræðingur, ýmsum störfum innan lögreglunnar. Hann vann m.a. í svokallaðri boðunardeild og var líka í SRD (slysarannsóknum). Um tíma var Sævar í skýrsluskráningunni og síðan alllengi í veitingahúsaeftirlitinu, en starfsmenn þess höfðu aðstöðu í Borgartúninu. Síðasta hluta

starfstímans var Sævar í „Búrinu“ og tók þá jafnan á móti fólki með bros á vör. Um leið og Sævari er þakkað fyrir að rifja upp þessa gömlu tíma fáum við hann að endingu til að segja okkur frá einu eftirminnilegu útkalli. „Það er svo sem af nógu að taka og t.d. voru útköll í skipin oft mjög erfið. Þá kannski logaði allt í slagsmálum, ástandið var hreinlega kolvitlaust og við þurftum að stilla til friðar og handjárna menn. Það var nú eitt en annað kannski öllu verra var að koma hinum sömu upp úr skipunum. Það gat verið þrautin þyngri. Annars held ég að hræddastur hafi ég orðið þegar við vorum kallaðir að húsi í Teigunum eitt kvöldið. Við fórum tveir á staðinn og hittum fyrir áhyggjufullan mann, sem var kominn á miðjan aldur. Sonur hans, sem stóð í skilnaði, var í kjallaraíbúðinni og svaraði engu, en útidyrahurðin var læst. Pabbinn óttaðist hið versta og hafði því óskað eftir hjálp lögreglunnar. Við bönkuðum líka árangurslaust á hurðina en svo sá ég opinn glugga á íbúðinni og íhugaði að skríða inn um hann. Aftur var kallað inn en sem fyrr kom ekkert svar og þá var ekki um annað að ræða en að fjarlægja stormjárnið. Síðan skreið ég inn um gluggann en innandyra var kolniðamyrkur og ég sá því ekki handa minna skil. Ég reyndi að fálma þarna í myrkrinu og rak þá fótinn í eitthvað. Í sömu andrá kviknaði ljósið í herberginu og yfir mér stóð ungi maðurinn stjarfur af hræðslu og með kreppta hnefana. Mér brá rosalega við þetta en ég náði að tala við hann á rólegum nótum og afstýra því sem hefði allt eins getað orðið mjög hættulegt ástand.“ SÍÐA

3


Byggingarframkvæmdir á byrjunarreit

Bygging lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu hófst í árslok 1961, en húsið teiknaði hinn landskunni arkitekt og íþróttamálafrömuður, Gísli Halldórsson. Lögreglustöðin var tekin í notkun í áföngum eftir því sem byggingarframkvæmdum miðaði áfram. Á þessum stað var Gasstöðin áður til húsa, en ætla má að á neðstu myndinni sé verið að ryðja leifum hennar á brott þegar hinar eiginlegu framkvæmdir hófust. Á efstu myndinni er hins vegar líkan af lögreglustöðinni eins og menn sáu hana fyrir sér í upphafi. Ekki varð þó af því að lóðin yrði nýtt með þeim hætti og húsið austanmegin við lögreglustöðina var aldrei byggt. Sama á við um húsið á norðanverðri lóðinni, en ímynda má sér að Lögregluskólinn hafi átt að fá inni í þessum húsum. Ekki er heldur ósennilegt að ætla að annað húsanna hafi verið hugsað undir íþróttastarfsemi. Þá var ennfremur fallið frá því að byggja 6. hæðina og þakhýsi þar ofan á. Hér til hliðar má sjá Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóra og Ásgeir Ásgeirsson forseta virða fyrir sér líkan af lögreglustöðinni, en myndin er tekin á Hótel Sögu og að öllum líkindum í boði sem Bjarni Benediktsson dóms– og kirkjumálaráðherra hélt sama dag og hornsteinn var lagður að lögreglustöðinni 1963.

SÍÐA

4


Lögreglustöðin rís af grunni

Ýmislegt hefur breyst í nágrenni lögreglustöðvarinnar frá því að bygging hennar hófst. Dæmi þess má glögglega sjá á myndunum hér á síðunni, en leigubílastöð og bensínstöð var að finna á lóðinni þar sem síðar var byggð ein af aðalskiptistöðvum Strætó í Reykjavík. Þá var vörubílastöðin Þróttur til húsa þar sem núna er bílastæði starfsmanna LRH, en bæði húsið og vörubílana má sjá á myndunum. Litla myndin sýnir hins vegar Gasstöð Reykjavíkur, sem var starfrækt frá 1910 til 1956. Hún stóð þar sem lögreglustöðin er nú, en í gasstöðinni var framleitt gas til eldunar og lýsingar úr innfluttum kolum. Þegar gasinu hafði verði náð úr kolunum með upphitun, varð til kox, sem Gasstöðin seldi. Gasið var síðan notað til lýsingar og eldunar og koxið til brennslu og upphitunar. Eftir stofnun Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1921 var gasið nær einvörðungu nýtt til eldamennsku. SÍÐA

5


Umfjöllun dagblaðanna um flutning lögreglunnar úr Pósthússtræti á Hverfisgötu:

„Lækjartorg er komið inn á Hlemm“ Fréttir af flutningi lögreglunnar úr Pósthússtræti á Hverfisgötu eru allnokkrar þegar flett er í gegnum dagblöðin í byrjun nóvember árið 1972. Kemur það ekki á óvart enda voru þetta mikil tíðindi. Blaðamaður Alþýðublaðsins gerði sér ferð í Pósthússtrætið fáeinum dögum fyrir flutninginn og spurði hvernig mönnun litist á nýju lögreglustöðina og hvort þeir myndu sakna þeirrar gömlu. Einn þeirra sem varð fyrir svörum er maður sem margir þekkja. „Við söknum sannarlega gömlu lögreglustöðvarinnar,“ sagði Magnús Einarsson varðstjóri þegar við litum inn í litlu varðstjórakompuna, sem er varla stærri en meðal fangaklefi. „En við verðum að hugsa um þjónustuna við borgarana,“ hélt hann áfram. „Það er ekki lengur hægt að annast fyrirgreiðslu í þessu litla afgreiðsluplássi, sem hér er. Samtímis því sem þarf að sinna fólki, t.d. í sambandi við flutning á lögheimili og veita ýmiss konar upplýsingar, þurfa sömu menn að svara í síma og annast talstöðvargæzlu. Þetta hefur einungis getað gengið hingað til vegna þess, að borgararnir hafa sýnt okkur mikla þolinmæði. Og það er heldur ekkert gaman fyrir þá sem koma hingað til að bera vitni, eða aðstoða okkur á annan hátt í sambandi við rannsókn mála, að eiga á hættu að vera bendlaðir við eitthvað

misjafnt, þegar þeir þurfa að fara um afgreiðsluna í fylgd með lögregluþjónum.“ -En versnar aðstaða ykkar ekkert við það að fara úr miðbænum? „Ef hún breytist eitthvað verður sú breyting til batnaðar. Að sjálfsögðu verða lögregluþjónar áfram staðsettir í miðbænum til að sinna honum og vesturbænum. Og núna fyrst um sinn verður talstöðvargæzlan hérna á gömlu stöðinni. En í rauninni má segja, að Lækjartorg sé komið inn á Hlemm, svo staðsetningin við Hverfisgötuna er sízt verri. Auk þess er kostur að komast undir sama þak og umferðarlögreglan, það auðveldar samvinnuna og sparar mikinn tíma.“ Og það er víst áreiðanlega hverju orði sannara, að tími er kominn til að kveðja gömlu lögreglustöðina við Pósthússtræti, þótt margir kveðji hana með söknuði. En húsið verður áfram á sínum stað til að setja svip sinn á miðbæinn, og að öllum likindum koma póstmenn í stað lögreglumannanna— og fá þar langþráða stækkun á húsnæði sínu. KALDRANALEGUR STEINKUMBALDI Vísir sendi líka blaðmann á stúfana til að heyra hljóðið í lögreglumönnum vegna fyrirhugaðra breytinga og sá skrifaði svohljóðandi pistil í blað sitt;

Það er sennilega með semingi sem margur lögreglumaðurinn yfirgefur gömlu stöðina á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis. Þó að aðstaðan niðurfrá hafi verið orðin slæm, hefur húsið yfir sér ákveðinn persónuleika og andrúmsloft, sem ný hús vantar. Við fórum með myndavélina í heimsókn á báðar stöðvarnar í gær, en formlega verður aðsetur lögreglunnar flutt á morgun. Fyrsta vakt á Hlemmi verður síðdegisvakt á morgun. Það var að heyra á þeim sem við spjölluðum við að þetta umstang allt legðist vel í þá og skyldi raunar engan undra, því að eftir því, sem löggæzlu hefur orðið að auka þeim mun þrengra verður um mennina sem hana annast. Sumsstaðar eru gangar svo þröngir að varla mundu tvö börn geta mætzt þar, hvað þá fílefldir karlmenn. Óneitanlega verður það þó ópersónulegra og kaldranalegra að vinna í stórum steinkumbalda. Það mun líklega taka nokkur ár fyrir húsið að fá „sál“ . En sú „sál“ verður þó aldrei eins í nýja húsinu og því gamla. Starfsemi lögreglunnar mun þó ekki alveg flytjast úr húsinu við Pósthússtræti, þar verður áfram næsta árið svarað í síma og þar verða einnig talstöð og þjófabjöllukerfi fyrir bankana í bænum.

Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri ávarpar gesti sem heimsóttu lögreglustöðina á Hverfisgötu föstudaginn 3. nóvember 1972.

SÍÐA

6


Um áratugaskeið var lögreglan í Reykjavík til húsa í Pósthússtræti 3.

Morgunblaðið sendi fulltrúa sinn til athafnar í nýju lögreglustöðinni daginn áður en flutningar hófust, en þá var haldin móttaka á Hverfisgötu. Blaðið vitnar í ræðu lögreglustjóra þennan dag en þar segir; „Slæmar aðstæður og húsnæðisskortur hefir verið lögreglumönnum og öðru starfsfólki til mikilla óþæginda og hefur auk þess hamlað mjög löggæzlustarfi í borginni og dregið úr eðlilegri þóun þess. Hin nýja lögreglustöð við Hverfisgötu mun gjörbreyta til hins betra húsnæðisaðstöðu

lögreglunnar og skapa möguleika á nauðsynlegum skipulagsbreytingum.“ Áfram er vitnað í ræðu lögreglustjóra, en á öðrum stað í blaðinu segir; „Nú þegar hin gömlu húsakynni í Pósthússtræi 3 verða yfirgefin flytja lögreglumenn með sér margar minningar þaðan. Eins og tíðkast um trygglynda menn, munu ýmsir sakna vinnustaðar eftir margra ára viðkynningu. Samt sem áður er það mikið fagnaðarefni, að sá dagur skuli vera upprunninn, er lögreglumenn flytjast í ný og

glæsileg húsakynni, sem þeir hafa beðið eftir í langan tíma. Góðar óskir fylgja þeim þangað.“ EKKI GLERHÚS Forsætis– og dómsmálaráðherra tók líka til máls við þetta tækifæri, eins og lesa má um í Morgunblaðinu. „Nú er merkum áfanga náð til þæginda fyrir lögreglumenn og hinn almenna borgara, sem lögreglan á að þjóna,“ sagði Ólafur Jóhannesson, við vígsluhóf nýju lögreglustöðvarinnar í gær. „Þetta er vandað hús og traustlegt. Þetta er ekki glerhús, þó störf þeirra manna sem hér vinna séu oft unnin sem í glerhúsi væri. Þeir verða að þola það að störf þeirra séu stöðugt undir smásjánni. En starf lögregluþjónsins er mikilvægt fyrir þjóðfélagið.“ 122 MILLJÓNIR Í blaðinu var einnig vikið að kostnaði vegna framkvæmdanna og þar stóð; Heildargreiðslur vegna byggingakostnaðar lögreglustöðvarinnar nýju hafa til dagsins í dag numið tæplega 122 milljónum króna. Endanlegar tölur um fjárþörf til að ljúka byggingunni og til kaupa á fjarskiptabúnaði, stjórnunarmiðstöð, talsímakerfi og vararafstöð liggja ekki fyrir nú, en lögreglustjóri taldi, að til þeirra þyrfti á þriðja tug milljóna króna.

Minnisstæður atburður 1972 — Helgi Hóseasson slettir skyri á ráðamenn þjóðarinnar.

SÍÐA

7


Hornsteinn lagður að lögreglustöðinni

Hornsteinn að lögreglustöðinni var lagður laugardaginn 1. júní 1963. Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri flutti ávarp við athöfnina og þakkaði sérstaklega tveimur mönnum. Þeim Bjarna Benediktssyni dóms– og kirkjumálaráðherra fyrir að hafa stutt byggingu hússins og Geir Hallgrímssyni borgarstjóra fyrir að hafa beitt sér fyrir því að lögreglan fengi lóðina við Hverfisgötu. Á efstu myndinni sést Ásgeir Ásgeirsson forseti ganga frá lögreglustöðinni eftir að hornsteinninn var lagður.

SÍÐA

8


Innsiglað, múrað og sungið

Lögreglustjóri og múrarameistari hússins standa hjá meðan forsetinn múrar hornstein lögreglustöðvarinnar (til vinstri). Erlingur Pálsson yfirlögregluþjónn innsiglar blýhólk, sem settur var í hornsteininn (að ofan). Og hér að neðan sést Lögreglukórinn taka lagið við athöfnina.

SÍÐA

9


Fangageymsla lögreglunnar flytur úr Síðumúla í nýju stöðina við Hverfisgötu:

„Fyrsta kvenfangadeildin á landinu verður opnuð í dag“ Það væru „„listrænar ýkjur“ að kalla hina nýju fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu vistlega, enda verða fangelsi víst seint aðlaðandi. En fangageymsluaðstaðan breytist mjög til batnaðar með tilkomu fangageymslunnar, sem verður tekin í notkun í dag. Lögreglustjóri, Sigurjón Sigurðsson, kallaði fréttamenn á sinn fund í gær og sýndi þeim fangageymsluna er skiptist í tvær deildir; karladeild og kvennadeild. Bygging kvennadeildar í fangelsi er nýmæli hér á landi og hafa þegar verið ráðnir tveir kvenfangaverðir. Fangageymslan er til húsa á annarri hæð í S n o r r a b r a u t a r á l m u aðallögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu. Er gólfrými rúmlega 500 fermetrar. Þegar lögreglustöðin verður fullbyggð er gert ráð fyrir um 80 fermetra viðbótarrými við fangageymsluna í kjallara hússins. Í karladeildinni á annari hæð eru 18 eimenningsklefar, þar af fjórir í beinum tengslum við framtíðarhúsnæði rannsóknarlögreglu. Auk þess eru tveir margbýlisklefar, tvö snyrtiherbergi og steypibaðklefi. Aðalgangur er rúmgóður og varðmannsaðstaða hagkvæm. Við enda gangsins er stimpilklukka og er ætlunin að varðmaður láti stimpla á kort sitt þegar hann hefur gengið eftir ganginum og litið eftir föngunum, með vissu millibili. Lítið

Gangurinn í karladeildinni er rúmgóður. Þarna eru 18 einmenningsklefar og tveir margbýlisklefar.

eldhús er í fangageymslunni og er þar aðstaða til að framreiða mat fyrir fanga og er ætlunin að þeir fái heita súpu áður en þeir fara úr geymslunni. Auðvelt er að þrífa fangaklefana og er fullkomið loftræstingarkerfi til þeirra allra. Þessi fangageymsla gegnir því hlutverki að hýsa það fólk, sem lögreglan þarf að geyma

um stundarsakir, oftast nær vegna ölvunar — og í færri tilfellum vegna frumrannsókna afbrotamála. Hinsvegar er fangageymslunni að jafnaði ekki ætlað að hýsa fólk, sem dómari hefur úrskurðað í gæsluvarðhald né heldur til afplánunar refsingar. -Úr Þjóðviljanum 26. febrúar 1970

Lögregluskólinn var einu sinni til húsa þar sem nú er kaffistofan á 1. hæðinni á Hverfisgötu 113, en þessi mynd er einmitt tekin þar. Hér má m.a. þekkja Björgvin Björgvinsson, Sævar Stefánsson, Sæmund Pálsson og Harald Sigurðsson.

SÍÐA

10


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.