1 minute read
Byggingarframkvæmdir sjá bls
Bygging lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu hófst í árslok 1961, en húsið teiknaði hinn landskunni arkitekt og íþróttamálafrömuður, Gísli Halldórsson. Lögreglustöðin var tekin í notkun í áföngum eftir því sem byggingarframkvæmdum miðaði áfram. Á þessum stað var Gasstöðin áður til húsa, en ætla má að á neðstu myndinni sé verið að ryðja leifum hennar á brott þegar hinar eiginlegu framkvæmdir hófust. Á efstu myndinni er hins vegar líkan af lögreglustöðinni eins og menn sáu hana fyrir sér í upphafi. Ekki varð þó af því að lóðin yrði nýtt með þeim hætti og húsið austanmegin við lögreglustöðina var aldrei byggt. Sama á við um húsið á norðanverðri lóðinni, en ímynda má sér að Lögregluskólinn hafi átt að fá inni í þessum húsum. Ekki er heldur ósennilegt að ætla að annað húsanna hafi verið hugsað undir íþróttastarfsemi. Þá var ennfremur fallið frá því að byggja 6. hæðina og þakhýsi þar ofan á.
Hér til hliðar má sjá Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóra og Ásgeir Ásgeirsson forseta virða fyrir sér líkan af lögreglustöðinni, en myndin er tekin á Hótel Sögu og að öllum líkindum í boði sem Bjarni Benediktsson dóms– og kirkjumálaráðherra hélt sama dag og hornsteinn var lagður að lögreglustöðinni 1963.
Ýmislegt hefur breyst í nágrenni lögreglustöðvarinnar frá því að bygging hennar hófst. Dæmi þess má glögglega sjá á myndunum hér á síðunni, en leigubílastöð og bensínstöð var að finna á lóðinni þar sem síðar var byggð ein af aðalskiptistöðvum Strætó í Reykjavík. Þá var vörubílastöðin Þróttur til húsa þar sem núna er bílastæði starfsmanna LRH, en bæði húsið og vörubílana má sjá á myndunum.
Litla myndin sýnir hins vegar Gasstöð Reykjavíkur, sem var starfrækt frá 1910 til 1956. Hún stóð þar sem lögreglustöðin er nú, en í gasstöðinni var framleitt gas til eldunar og lýsingar úr innfluttum kolum. Þegar gasinu hafði verði náð úr kolunum með upphitun, varð til kox, sem Gasstöðin seldi. Gasið var síðan notað til lýsingar og eldunar og koxið til brennslu og upphitunar. Eftir stofnun Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1921 var gasið nær einvörðungu nýtt til eldamennsku.