Vegurinn til himna - Smasaga

Page 1

Guðmundur R Lúðvíksson

Vegurinn til himna Smásaga

Bók þessi er gjöf til vina minna á Facebook 2011



Þverhaus ! Hann kannaðist mjög vel við þetta orð. Það höfðu margir sagt það við Steingrím og það marg oft. Ekki það að hann gæti skilið hvernig öðru fólki finnst hann vera einhver þverhaus. Hann vildi bara hafa hlutina í lagi. Lét ekki hvern sem er segja sér til. Breytingar, breytinganna vegna, var ekkert til hrósa sér yfir. Þetta var ágætt eins og það hafði alltaf verið. Steingrímur var sannfærður um að tíminn væri besti kennarinn á alla hluti. Ef menn notuðu tímann rétt var besta lausnin oftast fundin. Þolinmæði. Já þolinmæði, það væri frekar rétta orðið yfir hann. Eða svo fannst Steingrími. Það var til dæmis alveg furðulegt hvernig Vegagerðin gat upp á sitt einsdæmi breytt vegakerfinu, rétt eins og þeir ættu það sjálfir, og notuðu það einir, hann var búinn að sýna þeim hjá vegagerðinni þolinmæði, það var sko alveg á tæru. Aldrei var hann spurður álits. Ekki í eitt einasta skipti. Ef einhver vissi hvernig hlutirnir ættu að vera þá var það Steingrímur Guttormsson, Steini andskoti, eins og félagar hans kölluðu hann. Hann sem hafði verið vörufluttningabílstjóri í þrjátíu ár og bölvað og ragnað í jafnmörg ár. Og nú var komið nóg.

Þolinmæði Steina hlaut að taka enda. Þessar helvítis beygjur ! Hver fann þær eiginlega upp ? Eða holurnar ! Þessir andskotar nenna ekki að hefla vegina ? Í mestalagi gerðu þeir það tvisvar á ári. Á vorin og á haustin. Og það héldu þeir að væri nóg. Steini var með það á hreinu að það var ekki nóg. Í hvað fóru skattpeningarnir sem hann borgaði alltof mikið af. Það voru að minnstakosti milljón holur á veginum Vestur á firði. Hann hafði að vísu aldrei talið þær allar en hann hafði eitt sinn gert stikkprufu þegar hann stoppaði og fékk sér kaffisopa í einni sjoppunni á leiðinni. Á planinu fyrir framan sjoppuna taldi hann hundraðogtólf holur, stórar og smáar. Og það var ekki nema á svona þrjúhundruð metra kafla. Svo hvaða heilvitamaður gat reiknað út hversu margar holur væru á leiðinni frá Reykjavík að Ísafirði. Það var einfalt margföldunnardæmi sem allir læra í barnaskóla. Til þess þurfti ekki sérfræðinga. Og Steingrímur var tilfinningavera. Það skildi enginn efast um það. Hann fann til með bílnum sínum. Höggin dundu á bílnum. Á hverju ári komu ný hljóð í bílinn hans. Flutningabílinn var orðin eins og heil sinfóníuhljómsveit. Hann þekkti hvern og einn einasta hljóðfæraleikara eins og fingurnar á sér. Á hverju ári bættust nýjir við og hljómsveitin varð stærri og stærri. Steingrímur vissi ekki hvað hann var búinn


að keyra margar ferðir vestur. Hann vissi ekki heldur hvað hann var búinn að flytja mörg tonn af allskonar varningi: búslóðir, timbur, járn, hross; og hvaðeina sem fólk bað um. Eitt vissi þó Steingrímur að biði hans. Bókhaldið. Að telja allar eldspíturnar í hanskahólfinu. Það var orðið fullt. Eins og allir vissu sem þekktu Steingrím var hann ekkert fyrir skrifinsku og hvað þá að halda eitthvað helvítis bókhald. Það vissu þeir hjá skattinum manna best, því mörg bréfin voru þeir búnir að senda Steingrími síðustu árin. Fyrirspurnir og hótanir. Þeir vildu fá skýringar á öllu. Töldu hann forríkan mann eftir þrjátíu ára strit. Væri eins og flest allir aðrir Íslendingar. Bölvaður skattsvikari. Stelur frá ríkunu eins og hann mögulega getur. Hann væri ekki undantekning í því ! Hann sem aldrei hafði verið upp á nokkurn mann kominn. Unnið frá blautu barnsbeini með berum höndunum fyrir hverri krónu sem hann hafði eignast. Það sem mönnum gat dottið í hug til að gera einfalda hluti flókna. Steingrímur gat aldrei fundið rétta orðið sem gat lýst þessum fíflagangi. En það skipti engu. Fyrir hann var nóg að ein eldspíta í hanskahólfið þýddi ein ferð vestur. Og ef hann fór eina ferð vestur, hlaut hann að fara aðra ferð suður. Svo einfalt var þetta.

Og þetta gátu hálærðir menn með háskólapróf ekki skilið. Að aurarnir sem komu inn fyrir flutninginn fóru hvort eð er aftur í reksturinn á bílnum og hann sjálfan. Var þetta eitthvað flókið, - inn og út - inn og út ! Steingrímur bölvaði í öðruhverju orði þegar hann hugsaði um þetta. Hann borgaði vegaskattinn þegar hann keypti olíu á bílinn. Plús þungaskatt. Og líka skatta af öllu því sem hann þurfti til þess að halda lífi. Hvað vilja þeir meira ? Hvern fjandann varðaði einhverjum skrifstofupungum suður í Reykjavík hvernig hann notaði peningana sína. Ætli þeir hafi ekki nóg með sjálfan sig? Þetta var hans einkamál og ekki orð um það. Steingrímur strauk sig um kviðinn eftir að hafa borðað tvo fulla diska af saltkjöti og baunum. Fyrir hverja ferð kom hann við í Múlakaffi og borðaði með félögum sínum. Sátu við sama borðið dag eftir dag og ef það var upptekið þegar þeir komu á staðinn stóðu þeir eins og aular í miðjum salnum með matarbakkann í höndunum og biðu þar til sætin þeirra losnuðu. Þrisvar á ári var hátíð hjá Steingrími. Fyrst voru það auðvitað jólin, en þá fengu allir brjálæðiskast og hann hafði ekki undan að flytja allskonar drasl í hvert einasta kaupfélag sem fyrirfannst fyrir Vestan. Þá græddi Steingrímur mest. Og svo var það bílstjóraballið. Einu sinni á ári fór Steini í ríkið fyrir sjálfan sig. Keypti þrjár íslenskar brennivín til að eiga á bílstjóraballinu.


Í raun var það eini dagurinn á árinu sem hann klæddi sig í brúnköflóttu jakkafötin sín, kom við hjá rakara og hélt sig til. Þá datt hann svo rækilega í það, að hann hét því eftir hvertja árshátíð að hætta að drekka. Hann var þunnur í margar vikur á eftir. Honum fannst bara ekki réttur tími til að hætta þegar bílstjóraballið var haldið. Þriðja hátíðin gat komið upp nokkru sinnum á ári en það var þegar kokkarnir í Múlakaffi elduðu saltkjöt og baunir. Þeir höfðu það á orði, borðfélagarnir hans, að það væri í raun ekkert undarlegt þótt Steingrímur hefði aldrei náð sér í konu. Hver sem sá hann borða saltkjöt og baunir gat sagt sér það. Þá var hann hvorki líkur hundi eða ljóni. Hann varð eitthvað annað dýr því smjattið, stunurnar, bölvið og hljóðin sem hann gaf frá sér voru engu líkt. Sem betur fer var ekki mikið um það að kvenfólk borðaði á kvöldin í Múlakaffi. Næstum eingöngu bílstjórar. Ef það kom fyrir að veikara kynið gekk í salinn sló þögn á mannskapinn og öll athygli bílstjóranna beindist að því. Það var eins og þeir hefðu aldrei áður séð kvenmann. Samt var aðalumræðuefnið við matarborðið ævinlega kvenfólk og bílar. Annars var sjónin farin að gefa sig hjá Steingrími. Hann þurfti að píra augun ef hann var ekki með lesgleraugun til að sjá betur. Steingrímur vildi meina það að hún hefði farið að gefa sig eftir að Vegagerðin breytti einni beygjunni sem varð til þess að hann ók út af.

Borðfélagarnir gerðu oft grín af þessu atviki. En Steingrími fannst þetta var ekkert til að gantast með. Þetta var alvöru mál. Ef hann hefði nú misst sjónina eða aðra höndina ? Hvað þá ? Hvernig gátu félagar hans velt sér upp úr þessu og hlegið eins og skepnur. Steina varð heitt í hamsi þegar þetta mál kom til tals. Þeir breyttu bara helvítis veginum á einni viku þessir asnar, og létu hvorki kóng né prest vita ! Allavega ekki Steingrím. Og ef hann hefði ekki henst út um framrúðuna væri hann sennilega engill hjá Guði, já - eða flutningabílstjóri í helvíti eins og vinirnir hans sögðu. Á einni viku ! Já ákkúrat þessa einu viku sem Steingrímur var veðurteftur á Suðureyri fyrir einu og hálfu ári síðan. Hann hefði aldrei keyrt útaf ef honum hefði verið sagt frá beygjunni. Þetta var það eina sem komið hafði fyrir hann á þrjátíuára vörufluttningaævi. Allt helv… Vegagerðinni að kenna. Já,- og eftir þetta bilaði sjónin. Hann var handviss um það. Þessar ofsjónir sem hann sá stundum komu eftir slysið. Hann hafði ekki sagt nokkrum manni frá þeim ekki einu sinni borðfélögunum. Sem bertur fer kom það bara fyrir þegar hann var að keyra. En það var samt bölvanlegt, já hreint djöfullegt að sjá eitthvað sem var svo ekki neitt. En hann tók enga áhættu.


Hann hafði aldrei í lífinu tekið nokkra áhættu. Ef það kom bíll á móti þá vék hann, hvort sem það var bíll eða ekki bíll. Bíllin var fullur af vörum eins og venjulega og það var farið að hausta. Vetur konungur mættur með allann sinn veðraher. Innan skamms mundi hann láta til skarar skríða. Eins og venjulega öllum að óvörum. Grár liturinn á kolli fjallanna minnti Steingrím á sjálfan sig þegar hann leit í spegil, nema það var algjör vetrarstemming á höfðinu á honum. Liturinn kom eina nóttina fyrir svona tíu árum og hefur ekkert farið síðan. Steingrímur leit út um gluggan á matsalnum í Múlakaffi og í huganum dáðist hann af bílnum sínum. Ein ferðin enn Vestur var að hefjast. Þarna beið bíllin á planinu eftir honum eins og traustur vinur. Bíllinn var honum allt. Félagi, vinur og sá sem hann gat treyst fyrir öllum sínum dýpstu leyndarmálum. Flutningabíllinn klikkaði ekki, það var Steini með á hreinu. Svo voru menn að tala um að hann þyrfti að eiga konu. Til hvers, hann átti vöruflutningabílinn ? Hann fór ekki svo glatt frá honum það eitt var víst. Margir af æskuvinum hans höfðu náð sér í konu og sumir fleiri en eina. Einn góðan veðurdag stukku þær í burtu frá þeim með allt. Steini var fyrir löngu búinn að gera það upp við sig að hann ætlaði ekki að láta svoleiðis henda sig. Steingrímur stóð upp frá matarborðinu. Það var kominn tími til að leggja í hann.

Hann gekk með matarbakkann að afgreiðsluborðinu og þakkaði fyrir matinn. Það hafði hann aldrei gert áður. Hann kvaddi félagana og rölti út í bílinn sinn. Tók eina eldspítu og henti henni í troðfullt hanskahólfið. Ferðin var hafin. Steingrími fannst þægilegt að keyra þegar farið var að rökkva. Bæði var minni umferð svo var gamla góða Gufan með svo skratti góða dagskrá á kvöldin. Þetta voru eiginlega bestu stundirnar í lífi Steingríms. Vélarhljóðið malaði undir útvarpinu og bíllinn dansaði á veginum í takt við tónlistina. Fyrir kom að hann tók lagið með þeim sem var að syngja í útvarpinu. Steingrímur var nú frægur fyrir annað en sönghæfileika. En einn í bílnum hélt hann sína eigin tónleika. Hvalfjörðurinn var að baki og Borgarfjörðurinn tók við. Sjötíu kílómetra hraði var ágætis ferð fyrir flutningabílinn. Steingrímur kemur að einni blindhæðinni og honum sýndist hann sjá bílljós hinumegin við hæðina. Hann sló örlítið af. Ljósin sem hann hélt sig hafa séð voru þá lengra í burtu. En það var bíll að koma á móti. Vegurinn þrengdist og Steingrími sýndist bíllinn sem kom á móti vera á ofsa ferð og ekki gera sig líklegan til að víkja. Steingrímur vék eins og hann mögulega gat fyrir helvítinu sem kom æðandi á móti. En … búmm… svo hurfu bara ljósin. Hver þremillinn er þetta hugsaði Steingrímur ? Hann hefur þó ekki ekið útaf bölvuð druslan ?


Steingrímur ók hægt af stað og leit í kringum sig. Það voru engin merki um hjólför eftir bíl. Hann hefði séð það greinilega því það hafði snjóað örlítið á veginn. Hjólförin hefðu átt að sjást. Æ, þetta hafði truflað hann aðeins frá útvarpssögunni. Hann náði söguþræðinum fljótt upp aftur. Öðruhverju datt hugur hans í vangaveltur um hvað gæti verið að gerast hjá honum. Ljósin sem hann sá voru svo greinileg. Þetta voru bílljós, ekki nokkur vafi. Hann var farinn að sjá ofsjónir og heyra hljóð sem voru svo engin hljóð. Hann varð þó að viðurkenna að þetta hafði svo sem gerst áður, en mesta lagi tvisvar í ferð. Var hann að sturlast ? Þetta er búið hugsaði hann og reyndi að íta þeirri hugsun frá. Eftir atvikið mætti hann nokkrum bílum og vék alltaf eins og hann var vanur að gera. Engan séns. Hann ætlaði ekki að verða valdur að einhverju óhappi og skemma flutningabílinn. Kaffið var búið. Steingrímur tók hvíld á keyrslunni í nokkrar mínútur í Hreðavatnsskálanum og lét fylla á kaffibrúsann sinn. Nú var versti kaflinn eftir og sá sem hafði reynst öllum bílstjórum hvað erfiðastur á vetrum. En sem betur fer var enn bara haust og það hafði lítið snjóað á heiðarnar. Það mundi breytast. Náttúran hafði reglu á hlutunum. Steingrímur hækkaði útvarpið í botn þegar

lagið með Stefáni Íslandi var leikið. “Hamraborgin mín há og fögur…………. “ Hann pírði augun og rýndi út. Þarna hefur einhver ekið út af ? Nei, bíðum við þetta er árekstur ? Steingrímur hægði á bílnum. Hann var ekki í vafa. Þarna stóð fólk og það voru bílar í kantinum. Hann átti eftir svona fjögur til fimm hundruð metra að staðnum, en þá hvarf allt. Hvorki ljós né nokkra hræðu að sjá. Steingrímur barði í stýrið með þykkum lófunum. Hvur djöfulinn er þetta, öskraði hann svo glumdi í öllum bílnum. Aftur ? Hann steig olíugjöfina í botn. Vélin glamraði á ventlunum og svartur reykur spýttist út um púströrið. Tvisvar með stuttu millibili var of mikið fyrir hann. Svona gat þetta ekki gengið. Steingrímur fór að velta því fyrir sér hvort hann ætti að nefna þetta við lækni þegar hann kæmi vestur. Sennilega væri best að segja ekki nokkrum manni frá þessu. Þeir myndu hirða af honum prófið og álíta hann klikkaðan. Nei ekki orð um þetta við nokkurn mann. Tvisvar í sömu ferðinni og nú hlaut þessu að vera lokið. Hann hélt sínu striki. Hann var búinn að aka í um það bil klukkutíma þegar hann tekur eftir því í hliðarspeglinum að það er bíll á eftir honum. Öðruhverju köstuðust ljósin frá bílnum í spegilinn


og blinduðu Steingrím. Honum datt í hug að bílstjórinn væri að gefa sér merki og vildi komast framúr. Steingrímur setti stefnuljósið á og gaf til kynna að það væri óhætt að fara fram úr sér. Hann hægði aðeins á ferðinni og leit í spegilinn. Ætlar helvítið ekki að drulla sér framúr ? Bílljósin virtust hanga alveg í afturendanum á flutningabílnum. Steingrími fannst að ef hann hægði meira á sér eða stigi á bremsurnar þá mundi bíllinn fyrir aftan skella á flutningabílnum. Hann skrúfaði niður rúðuna á bílstjórahurðinni og ætlaði að gefa þesum aftanídurg merki með höndunum þar sem hann virtist ekki skilja stefnuljósið. Steingrímur stakk annari höndinni út um gluggann og gaf honum merki um að drífa sig framúr. Hljóðin í flutningabílnum yfirgnæfðu hljóðin frá bílnum fyrir aftan og Steingrímur öskraði í huganum ,, andskotastu frammúr maður -”en ekkert gerðist. Nú ef helvítið skilur ekki einfaldar umferðareglur og bendingar þá fær hann bara ekkert að fara frammúr, tuðaði Steingrímur við sjálfan sig. Hann ók flutningabílnum af kantinum og inn á miðjan veginn. Leit í baksýnisspegilinn til öryggis en bíllinn fyrir aftan var horfinn. Engin ljós, sama hvað hann gáði. Þetta getur nú ekki verið í raunveruleikanum hugsaði Steingrímur og ákvað að stöðva flutningabílinn. Hann hægði á og nam staðar og steig út. Það var niðamyrkur úti en tunglið lýsti upp nóttina.

Klukkan var langt gengin í ellefu. Hann gekk afturfyrir bílinn og gáði af þeim sem hann áður hafði gefið merki um að fara frammúr sér. Það sást hvorki tangur né tetur eða nokkur hreyfing á veginum svo langt sem augað eygði. Hann rýndi í myrkrið. Þögnin var algjör. Aðeins malið í bílnum hans. Steingrímur stakk höndunum í vasa, klóraði sér á pungnum og var áhyggjufullur. Hann leit upp í stjörnubjartan himinninn svona eins og hann væri að biðja Guð um hjálp. Hann var aleinn þarna á miðri heiði. Steingrímur velti því fyrir sér hvort hann ætti að rifja upp bænirnar sem hann lærði sem barn. Hann trúði á Guð þótt nokkur ár væru síðan hann hefði sótt messu. Enda fannst honum það ekki vera neinn mælikvarði á trúnna hvort menn væru rápandi út og inn um kirkjur. Þetta sem hafði gerst olli honum hugarangri og það var enginn sem hann gat talað við á þessari stundu. Steingrímur gekk ofurhægt út að vegkantinum. Hann leit aftur upp til himna. Síðan dró hann þykku hendurnar sínar úr vasanum og kraup á kné þarna á veginn fyrir aftan bílinn sinn. Hann lokaði augunum og bað. Byrjaði á Faðirvorinu, en talaði síðan til Hans sem allt heyrir og sá. Buxurnar blotnuðu á hnjánum en Steingrímur lét sig ekki varða neitt um það.


Hann varð að ná athygli Guðs og fá hann í lið með sér. Svona ofsjónir gátu ekki gengið lengur. Steingrímur opnaði augun og vonaði að þetta allt væri bara draumur og að hann væri að vakna í rúminu heima hjá sér. En tunglið var þarna á sínum stað, bíllinn í gangi og hann orðinn rennandi blautur á hnjánum. Þegar hann stóð upp eftir bænastundina var eins og þungu fargi væri af honum létt. Hann átti þá ósk heitasta að hann hafi náð sambandi við almáttugan og að hlutirnir væru nú komnir í lag. Kannski tæki Hann ekkert marka á honum, hann hafði ekki ræktað samband sitt við Hann. Svo þessi kækur að vera sífellt að bölva, var sjálfsagt ekki til að auka álit Guðs á honum. Steingrímur gerði þó tilraun og nú var bara að sjá hvort hann hefði verið bænheyrður. Hann gekk hring í kringum bílinn sinn, svona til að athuga hvort ekki væri allt í lagi. Það urraði í gírkassanum þegar hann tók af stað. Það var ekki svo langt eftir á Ísafjörð. Aðeins tvær heiðar eftir. Það fannst Steingrími ekki svo mikið. Fyrir hann var svona ferð eins og fyrir venjulegan Reykvíking að aka úr Breiðholti og niður í miðbæ. Munurinn fólst aðeins í vegakerfinu. Hann þurfti að aka holótta og vonda vegi en þeir fyrir sunnan óku á malbikuðum götum en voru samt sífellt vælandi um vegakerfið í borginni. Steingrímur hafði aðeins ekið nokkur hundruð

metra þegar hann sér að það kemur bíll á móti sér. Honum sýnist þetta vera flutningabíll. Á þessum tíma vissi hann ekki til þess að nokkur annar ætti að vera á ferð. Aðeins hann ók þessa leið á þessum tíma. Ljósin á bílnum sem kom á móti voru nánast eins og ljósin á bílnum hans. Hann var með tvö gul ljós á toppnum og eitt á húddinu. Gat það verið að hann væri að mæta sjálfum sér ? Nei þetta gat ekki verið. Það hlýtur að vera ofsjón. Það var ekki óeðlilegt þótt Steingrímur áliktaði sem svo. Hann treysti ekki lengur sinni eigin sjón. Hvað átti hann að gera ? Ætti hann að taka sinn fyrsta séns í lífinu og víkja ekki. Halda sínu striki eins og ekkert væri. Vegurinn lá aðeins niður í móti og flutningabíllinn hans jók ferðina. Bilið á milli þeirra minnkaði. Ef hann ekki hægði á ferðinni myndi hann aka beit framan á bílinn sem kom á móti. Hendurnar á honum byrjuðu að skjálfa á stýrinu. Skyndilega greip hann um gírstöngina, rak hana í fjórða gír og gaf olíugjöfinni í botn. Nú var hann ákveðinn. Hann ætlaði að taka sína fyrstu áhættu í lífinu. Taka ekkert marka á því sem hann taldi sig sjá. Ljósin sem lýstu beint í andlitið á honum voru orðin svo sterk að hann sá ekki lengur veginn. Það var um seinan. Steingrími fannst sem hann svifi um. Leiðin sem hann ók var bein og engar holur.



Vélarhljóðið í flutningabílnum var svo mjúkt að það nánast heyrðist ekki. Honum leið órúlega vel. Vegurinn til himna var einstefna og allur upplýstur.

Loksins var hann á leiðinni heim.


Guðmundur R Lúðvíksson

Vegurinn til himna Smásaga Bók þessi er gjöf til vina minna á Facebook 2011


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.