Footnotes

Page 1

1) Dúðaðir sjóliðar á breska beitiskipinu Suffolk, sem er statt norður í höfum, standa vakt á útsýnispalli herskipsins yfir stjórnpallinum og skima yfir hafið eftir flugvélum, kafbátum og herskipum óvinarins. Svona stóðu menn sólarhringum saman, daga og nætur.

2) Úlpuklæddur sjóliði á bresku herskipi stendur við loftvarnabyssu og horfir yfir Íshafið.

3) Morsmerki, sem send voru út með ljósalömpum, og merkjaflögg voru notuð til að koma á orðsendingum milli skipa í skipalestunum. Notkun loftskeytatækja var alla jafna óheimil af ótta við að óvinurinn lægi á hleri og gæti miðað skipalestirnar út. Það gat verið kalsamt að standa vaktina við morslampann.


4) Gamlir fjendur urðu vinir á einni nóttu þegar Þýskaland réðst inn í Sovétríkin 22. júní 1941. Breskir hermenn og kona í borgaralegum klæðum skoða áróðursveggspjöld í Bretlandi sem hvetja til samstöðu með Sovétríkjunum: „Barátta Rauða hersins er þín barátta! Hjálpum Sovét – Mölum Hitler.“

5) Bresk skólabörn skoða áróðurssýningu breska upplýsinga­ ráðuneytisins sem var sett upp til að afla stuðnings við Sovétríkin í baráttunni við Þýskaland. Churchill og Stalín var nú stillt upp sem perluvinum þó þeir í raun hefðu löngum haft ímugust á hver öðrum og þeirri hugmyndafræði sem þeir stóðu fyrir hvor um sig.

6) Breskir verkamenn stilla sér upp til myndatöku á skriðdrekum sem eiga að fara með skipalest til Rússlands.


7) Franklin Roosevelt og Winston Churchill hittust við Nýfundnaland 9. – 12. ágúst 1941. Hér er þeir við guðsþjónustu undir berum himni ásamt herforingjum og embættismönnum aftan við fallbyssuturninn á afturþilfari Prince of Wales.

8) Roosevelt heldur heim. Winston Churchill horfir á bandaríska beitiskipið Augusta, með Roosevelt Bandaríkjaforseta um borð, fjarlægjast Prince of Wales við Argentia á Nýfundnalandi. Sögulegum fundi, sem markaði tímamót, var lokið.

9) Winston Churchill, forsætisráðherra Breta, stígur á land af breskum tundurspilli í Reykjavíkurhöfn 16 . ágúst 1941. Hann kom siglandi úr Hvalfirði á heimleið af fundinum með Roosevelt.


10) Breski forsætisráðherrann gengur framan við Alþingishúsið og heilsar upp á mannfjölda sem hefur safnast saman til að heiðra leiðtogann og berja hann augum.

11) Þýski kafbáturinn U-570, sem tekinn var við suðurströnd Íslands 27. ágúst 1941, var mikill happafengur. Hann var fluttur til Hvalfjarðar. Um borð fundust mikilvægar upplýsingar um ENIGMA-dulmálskerfi Þjóðverja. Hér gætir vopnaður togari U-570 á meðan Catalina-flugbátur sveimar yfir vettvangi.

12) Korvetturnar voru lítil skip og að mörgu leyti vanbúnar til að takast á við vernd skipalesta á leiðinni milli Ís­lands og Norðvestur-Rússlands. En þær voru skipaðar harðsnúnum áhöfn­um. Hér er ein þeirra í Hvalfirði í lok janú­ar 1942 og ber þess greinileg merki að hafa verið á ferð í óblíðu umhverfi.


13) Ógnvaldurinn mikli. Þýska orrustuskipið Tirpitz liggur vel varið þétt upp við land í firði í grennd við Þrándheim í Noregi. Búið er að setja upp felubúnað við stefni og skut. Netgirðing til varnar tundurskeytum umlykur skipið. Myndin var tekin úr breskri njósnaflugvél 15. febrúar 1942.

14) Skipalest þokast síðasta spölinn gegnum ís til hafnar í Norðvestur-Rússlandi.

15) Flugmóðurskipið Victorious við festar í Hvalfirði í lok janúar 1942. Stálrampar, sem skýla flugvélum á þilfari, eru reistir upp.


16) Áhöfn Victorious dregur fram tundurskeytin til að vopna flugvélar skipsins til árásar á þýska herskipið Tirpitz undan ströndum Noregs að morgni 9. mars 1942. Í baksýn má sjá flugvélar af Fairey Fulmar-gerð.

17) Fairey Albacore-tundurskeytaflugvél í flugtaki af þilfari Victorious til árásar á Tirpitz.

18) Breskur sjóliði hallar sér upp að djúpsprengjukastara um borð í tundurspilli sínum á meðan hann skimar yfir hafið eftir kafbátum. Skip í skipalestinni sjást í fjarska.


19) Breska beitiskipið Trinidad á leið frá Íslandi til Norðvestur-Rússlands með skipalestinni PQ13. Myndin er tekin úr tundurspillinum Fury, skömmu áður en herskipin lentu í orrustu við þýska tundurspilla þar sem eigið tundurskeyti Trinidad hæfði stjórnborðshlið skipsins og stórskemmdi það.

20) Kaupskipið Ballot, skráð í Panama. Pétur H. Ólafsson sigldi með þessu skipi í PQ13. Sjá má að það er með skriðdreka á þilfari. Þessi ljósmynd er tekin í júlí 1942, nokkrum mánuðum eftir Rússlandsförina. Vopnabúnaður hefur verið stórbættur síðan þá, en í þeirri för var skipið nánast vopnlaust. Búið er að koma upp fallbyssum í skut og stefni og byssustæði eru fremst og aftast á yfirbyggingu skipsins.

21) Pétur H. Ólafsson (1920–2009) var ungur togarasjómaður frá Reykjavík þegar hann réði sig í siglingar með Ballot.

22) Haraldur Sigurðsson Íshólm (1923–1941) sigldi með Induna í skipalestinni PQ13. Hann fórst þegar kafbátur sökkti skipi hans í Barentshafi 30. mars þegar það átti aðeins skamma leið eftir til Múrmansk. Heima á Íslandi lét hann eftir sig son sem hafði fæðst fjórum dögum fyrr.


23) Induna, hið skoska skip Haraldar Íshólm, á Merseyánni við Liverpool í Englandi fyrir stríð.

24) Beitiskipið Edinburgh varð fyrir tundurskeyti kafbátsins U-456 í Barentshafi 30. apríl 1942 þegar það fylgdi skipalestinni QP11 frá Rússlandi áleiðis til Íslands. Bretar sökktu löskuðu skipinu eftir harða orrustu við þýska tundurspilla og kafbáta. Um borð voru tíu tonn af gullstöngum. Flestum þeirra var bjargað í frækilegri köfunaraðgerð síðsumars árið 1981.

25) Hugh Faulkner skipherra (t. v.) og Stuart Bonham-Carter á stjórnpalli beitiskipsins Edinburgh nokkrum dögum áður en skipinu var sökkt.


26) Breska orrustuskipið King George V á Seyðisfirði með eyðilagt stefni eftir að hafa lent í árekstri við tundurspillinn Punjabi og saxað hann í tvennt í Austfjarðaþokunni 1. maí 1942. Skipið var úr leik í fleiri mánuði á meðan gert var við það.

27) Þreyttir skotliðar breska beitiskipsins Sheffield hvílast í fallbyssuturni sínum á meðan óveður geisar. Skipið fylgdi PQ5 í desember 1941, og PQ18/QP14 í september 1942.

28) Sir Dudley Pound, æðsti aðmíráll Breta, á stjórnpalli. Pound var yfir flotanum fyrstu stríðsárin og náinn vinur og ráðgjafi Winstons Churchill. Hann gaf hina afdrifaríku skipun um að skipalestin PQ17 skyldi sundrast í júlí 1942. Hann lést af völdum sjúkdóms síðla í október 1943.


29) Tundurspillirinn Ashanti sigldi fimm sinnum með Íshafsskipalestum til og frá Rússlandi árið 1942. Hér öslar hann inn utanverðan Hvalfjörð á móts við Innra-Hólm þar sem Hvalfjarðargöng liggja í dag.

30) Breska beitiskipið London (næst) og bandaríska orrustuskipið Washington sigla inn í Hvalfjörðinn sem er fullur af kaupskipum rétt fyrir brottför PQ16 í maí 1942. Kaupskipin liggja á flutningaskipalegunni undan bænum Ferstiklu.

31) Breska kaupskipið Empire Lawrence siglir út Hvalfjörð í PQ16skipalestinni 21. maí 1942. Þetta var eitt af svokölluðum CAM-skipum, búið skotsliskju fyrir Hurricane-orrustuflugvél í stafni. Hún skaut niður þýska flugvél og skemmdi aðra áður en hún varð að nauðlenda á sjónum. Daginn eftir, þann 27. maí, sökktu þýskar flugvélar skipinu í Barentshafi.


32) Skip breska heimaflotans í Hvalfirði rétt fyrir brottför PQ16. Fremst er tundurspillirinn Icarus en orrustuskipið Duke of York ber í fjallið Brekkukamb. Flugmóðurskipið Victorious er svo lengra í burtu ásamt beitiskipinu Norfolk.

33) Vopnaði togarinn Northern Gem siglir út Hvalfjörð í júní 1942. Nokkrum vikum síðar fór hann með PQ17 til Rússlands.

34) Flutningaskipið Empire Tide liggur við festar í Hvalfirði tæpum 3 vikum fyrir brottför skipsins með PQ17. Eins og sjá má, þá var Empire Tide CAM-skip. Í baksýn, til vinstri, eru fjallið Þyrill og Harðarhólmi.


35) Farmaður á stríðstímum. Vegabréf Guðbjörns E. Guðjónssonar (1921–2008), gefið út réttum mánuði áður en hann sigldi ásamt þremur íslenskum félögum sínum með bandaríska kaupskipinu Ironclad frá Hvalfirði með PQ17. Það var upphafið á hættulegri för.

36) Sir John Tovey, aðmíráll breska heimaflotans, á þilfari orrustuskipsins King George V.

37) Karl Dönitz, aðmíráll þýska kafbátaflotans, heilsar mönnum sínum.


38) Kondórinn. Focke-Wulf Condorflugvélar Þjóðverja voru fjögurra hreyfla og mjög langfleygar. Þær hentuðu því vel til njósnarflugs yfir og í kringum Ísland. Þessar vélar flugu oft yfir Hvalfjörð. Tvær þeirra voru skotnar niður síðsumars og haustið 1942.

39) Þýskar flugvélar fóru oft í njósnarflug yfir Íslandi og tóku loftljósmyndir til greiningar þegar vélarnar voru aftur lentar í Noregi. Þjóðverjar höfðu mestan áhuga á að fylgjast með skipaumferð við Ísland, ekki síst í tengslum við Íshafsskipalestirnar. Þeir flugu því mest yfir Hvalfjörð, Reykjavík og Austfirði. Þessi ljósmynd er tekin yfir Hvalfirði um hádegisbil 4. október 1942. Hún er af herskipalæginu innan við Hvítanes. Neðst til hægri má sjá flotastöð Breta í Hvítanesi sem var nær fullreist. Þarna eru bryggjur og stórt hverfi bragga og annarra húsa. Skip liggja við festar og rýkur úr skorsteinum sumra. Efst til vinstri skagar Þyrilsnes niður eftir myndinni. Þar má greina braggaþyrpingar. Í Þyrilsnesi voru loftvarnabyssur til varnar skipalæginu.


40) Skipherra á breskum tundurspilli ásamt foringjum sínum við liðskönnun í skipi sínu á meðan það liggur í Hvalfirði.

41) Tundurspillirinn Fury leggur af stað út Hvalfjörð einn fagran vordag í maí árið 1942. Fury fylgdi fjölmörgum Íshafsskipalestum árið 1942. Skipið lenti í þungamiðju átaka þegar þýskir tundurspillar sóttu að skipalestinni PQ13 í mars. Beitiskipið Trinidad laskaðist illa í sjóorrustunni.

42) Stund milli stríða. Breski tundurspillirinn Oribi (merktur G66 á skut) liggur ásamt fleiri minni herskipum utan á þjónustu- og viðgerðaskipinu Hecla á herskipalæginu innan við Hvítanes í Hvalfirði. Kanadískar korvettur liggja bakborðsmegin við Hecla. Fremst á myndinni má sjá illúðlega djúpsprengju um borð í skipinu sem ljósmyndin er tekin úr. Þessi mynd var tekin í nóvember árið 1941. Ári síðar sökkti þýskur kafbátur Hecla undan ströndum Norður-Afríku.


43) Skip springur í loft upp í loftárásum Þjóðverja á skipalestina PQ18. Slík endalok skipa vöktu hrylling og skelfingu allra sem sáu til.

44) Dauði Mary Luckenbach. Þetta bandaríska kaupskip var fulllestað skotfærum. Að morgni 14. september hæfði þýsk flugvél skipið með tundurskeyti. Það hvarf í geysilegri sprengingu sem jafnframt grandaði þýskri flugvél. Öll loftvarnaskothríð frá skipum skipalestarinnar féll niður í nokkur augnablik á meðan menn horfðu í agndofa skelfingu á eldtungur og reykjarmökk sem steig mörg hundruð metra til himins frá þeim stað þar sem Mary Luckenbach hafði verið í skipalestinni.

45) Önnur mynd frá endalokum Mary Luckenbach. Þessar myndir voru teknar af herljósmyndara breska flotans af þilfari flugmóðurskipins Avenger. Reyk leggur af sködduðu skipi í fjarska.


46) Skip og áhafnir voru undir mjög miklu álagi í Íshafskipalestunum. Hvalfjörður var því ekki síst mikilvægur sem bækistöð sem veitti þreyttum áhöfnum hvíld milli stríða og hægt var að sinna viðhaldi á skipunum áður en kom að því að sigla með næstu skipalest. Hér liggja tundurspillarnir Ashanti og Faulknor utan á viðgerðaskipi sem liggur við festar í firðinum. Bæði Ashanti og Faulknor fóru margar ferðir milli Íslands og Norðvestur-Rússlands með skipalestum árið 1942.

47) Vordagur í Hvalfirði. Sjóliðar raða sér upp í stafni breska tundurspillisins Wheatland þegar siglt er inn á herskipalægið við Hvítanes. Það er runninn upp maímánuður 1942 og PQ16-skipalestin undirbýr brottför. Fram undan Wheatland á bakborða (til vinstri á mynd) er breski tundurspillirinn Icarus. Olíuskip er innar á legunni. Slík skip fylgdu oftast tundurspillum og minni skipum á siglingunni milli Íslands og Norðvestur-Rússlands þar sem þau skorti nægilega stóra olíutanka til að bera eldsneyti alla leið án áfyllingar í hafi. Botnssúlur ber við ský í austri.

48) Fairey Fulmar-árásarflugvél kemur inn til lendingar á flugmóðurskipinu Victorious. Bandaríska beitiskipið Wichita er næst á eftir Victorious. Myndin er tekin þegar skipin sigla inn Hvalfjörð í lok apríl árið 1942.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.