Vargöld á vígaslóð - Frásagnir tengdar Íslandi úr seinni heimsstyrjöldinni

Page 1

Vargöld á VÍgaslóð

Vargöld á vígaslóð

Magnús Þór Hafsteinsson hefur áður sent frá sér einstakar bækur um þátt Íslands í sögu seinni heimsstyrjaldar. Þær eru: Dauðinn í Dumbshafi, Návígi á norðurslóðum og Tarfurinn frá Skalpaflóa. Í þessari bók dregur hann upp frásagnir af ótrúlegum atburðum sem allir tengdust Íslandi með einum eða öðrum hætti en hafa verið Íslendingum lítt kunnir fram til þessa. Enginn með áhuga á sögunni má láta þessa bók fram hjá sér fara.

FRÁSAGNIR TENGDAR ÍSLANDI ÚR SEINNI HEIMSSTYRJÖLDINNI

Ísland var eitt mikilvægasta vígi Bandamanna þegar staðan í seinni heimsstyrjöldinni var sem tvísýnust 1940–1942. Þá urðu miklir atburðir sem ófust með ýmsu móti saman við sögu þjóðarinnar. Bretar náðu glænýjum þýskum kafbáti undan Suðurlandi síðla sumars 1941, tóku áhöfnina til fanga og færðu bátinn til Hvalfjarðar. Aðstaðan á Íslandi var lykillinn að því að þetta tókst. Fyrsta sjóorrusta stríðsins var háð undan Hornafirði í byrjun vetrar 1939. Hundruðum manna var slátrað. Mesti skipskaði í sögu Bretaveldis varð er bresku liðsflutningaskipi var sökkt við Frakkland í júní 1940. Nokkrum dögum fyrr flutti skipið fyrstu bresku hermennina til Íslands. Viðgerðaskipið Hecla kom glænýtt til Íslands í júlí 1941 og lá í Hvalfirði. Þýskur kafbátur sökkti skipinu síðar og hlaust af mikið manntjón. Hernám Íslands hafði djúpstæð áhrif á íslensk börn. Valinkunnir Íslendingar rifja upp reynslu sína af stríðsárunum á mótunarárum bernsku og æsku.

vargöld Á vígaslóð FRÁSAGNIR TENGDAR ÍSLANDI ÚR SEINNI HEIMSSTYRJÖLDINNI

stórmerkur fróðleikur um þátt íslands í styrjöldinni

MAGNÚS ÞÓR HAFSTEINSSON


Magnús Þór Hafsteinsson

2


Vargöld á vígaslóð

Vargöld á vígaslóð

1


Magnús Þór Hafsteinsson

2


Vargöld á vígaslóð

Magnús Þór Hafsteinsson

Vargöld á vígaslóð Frásagnir tengdar Íslandi úr seinni heimsstyrjöldinni

2017 3


Magnús Þór Hafsteinsson

Vargöld á vígaslóð Frásagnir tengdar Íslandi úr seinni heimsstyrjöldinni ©2017 Magnús Þór Hafsteinsson | magnushafsteins@simnet.is | www.magnusthor.is

Útgefandi: Bókaútgáfan Hólar, Reykjavík holar@simnet.is www.holabok.is Umbrot og hönnun: Handritslestur: Prófarkalestur: Kápuhönnun: Prentun og bókband:

G10 ehf., umbrot og hönnun | gunnar@g10.is | www.g10.is Helgi Magnússon og Örnólfur Thorlacius Helgi Magnússon Gunnar Kr. Sigurjónsson Oddi ehf.

Forsíðumynd: Breski vopnaði togarinn Northern Chief heldur vörð við þýska kafbátinn U-570 suður af Íslandi 28. ágúst 1941. Daginn áður hafði kafbáturinn fallið í hendur Breta. Myndin er tekin úr breskum Catalina-flugbáti. Djúpsprengja hangir undir væng vélarinnar. Ljósmynd: IMW. Baksíðumyndir: Seinni heimsstyrjöldin dró Ísland skyndilega inn í hringiðu stríðs og alþjóðastjórnmála. Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, heimsótti Ísland 16. ágúst 1941. Hér gengur hann ásamt fylgdarliði fram hjá áhorfendum framan við Alþingishúsið við Austurvöll í Reykjavík. Ljósmynd: IMW. Magnús Þór Hafsteinsson, höfundur þessarar bókar, um borð í varðskipinu Tý í Hvalfirði 23. júní 2017. Týr leiddi þar siglingu skipalestar sex herskipa og kafbáts NATO-ríkja til minningar um að 75 voru liðin frá brottför Íshafsskipalestanna úr Hvalfirði til Norðvestur-Rússlands í seinni heimsstyrjöld. Ljósmynd: Guðjón Sigmundsson. Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta til eða í heild, þar með talið tölvutækt form, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda. ISBN: 978-9935-490-07-0

4


Vargöld á vígaslóð

Efnisyfirlit

Inngangur og þakkarorð . . . . . . . . . . . . . 7 I. þáttur Bretar ná þýskum kafbáti við Ísland . . . . . . Ísland – bækistöð kafbátaleitarflugvéla . . . . Óreyndri áhöfn stefnt í stríð . . . . . . . . Timbraðir og sjóveikir . . . . . . . . . . . U-570 finnst suðaustur af Eyjum . . . . . . Skelfingu lostnir kafbátsmenn . . . . . . . Ákveður að yfirgefa bátinn . . . . . . . . . Á valdi flugvélanna . . . . . . . . . . . . ENIGMA eytt – Þjóðverjum tekst ekki að koma til hjálpar . . . . . . . . . . . . Skipafloti sendur á vettvang . . . . . . . . Breskir leggja á ráðin . . . . . . . . . . . Norðmenn gera árás . . . . . . . . . . . . Þjóðverjarnir verða enn skelkaðri . . . . . . Bretar stíga um borð . . . . . . . . . . . . Dreginn til Íslands . . . . . . . . . . . . Dýrmætu herfangi skutlað upp í sandfjöru . . Bjargað í öruggt skjól í Hvalfirði . . . . . . Bandaríkjamenn koma í heimsókn í Hvalfjörð Lítt hrifnir af frammistöðu Þjóðverja . . . . . Kafbátur rannsakaður í þaula . . . . . . . . Áhöfn U-570 yfirheyrð af Bretum . . . . . . Þýskir kafbátsmenn skipa eigin fangabúðadómstól . . . . . . . . . . . „Niðurdrepandi tíðindi“ fyrir Þýskaland . . . . Graph gagnaðist lítt í stríði . . . . . . . . . Heimildir Bækur . . . . . . . . . . . . . . . Greinar í blöðum og tímaritum, skýrslur og skjöl á netinu . . . . . . . . . Kvikmyndir/Myndbönd/Hljóðritanir . II. þáttur Indlandsfari sökkt í Íslandsála . . . . Vígabarðar í víking . . . . . . . . Flækjur í milliríkjamálum . . . . . Ógn sem varð að uppræta . . . . . Borgaraleg skip tekin til hernaðarnota Rawalpindi kemur til sögunnar . . . Skollaleikur við Ísland . . . . . . . Bryndrekar sendir á Íslandsmið . . . Leitað eftir breskum . . . . . . . . Hjálparbeitiskip fundið . . . . . . Viðbrögðin um borð í Rawalpindi . . Þjóðverjar hefja skothríð . . . . . . Fyrsta sjóorrustan . . . . . . . . . Vonlítil barátta upp á líf og dauða . . Bjargi sér hver sem best hann má . . Bretar vakna við vondan draum . . . Bretar reyna eftirför . . . . . . . . Þjóðverjar hverfa á brott . . . . . . Rawalpindi hverfur í gröf sína . . . . Bretar bregðast við með stóraðgerð . Þjóðverjar leika á Breta . . . . . . . Rýnt í veðurspár . . . . . . . . . Laumast í skjóli lægðar . . . . . . Álitshnekkir og tjón Breta . . . . . Margt fór úrskeiðis . . . . . . . . Heimildir Bækur . . . . . . . . . . .

. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

. . . . . . . .

. . . . . . . .

9 10 12 14 16 18 20 22

. . . . . . . . . . . . .

. . . . . . . . . . . . .

28 32 36 38 41 43 46 48 51 52 54 59 61

Greinar í blöðum og tímaritum, skýrslur og skjöl á netinu . . . . . . . . . . 129 Kvikmyndir/Myndbönd/Hljóðritanir . . 129

III. þáttur Frá Íslandi til tortímingar og dauða . . . . . . Ófriðarblikur verða að fárviðri . . . . . . . Lancastria dregst inn í ófriðinn . . . . . . . Lagt í Íslandsför . . . . . . . . . . . . . Uppskipun og landganga í Reykjavík . . . . Úr Íslandsferð í björgunarleiðangur til Noregs Ósigrar á franskri foldu . . . . . . . . . . Ögurstundir í Frakklandi . . . . . . . . . Hershöfðingjar og stjórnmálamenn í vonlausri stöðu . . . . . . . . . . . . Björgunarfloti fer til Frakklands . . . . . . . Háskalegt ástand á legunni við St. Nazaire . . Örlagarík bið eftir brottför . . . . . . . . . Hætta af himnum ofan . . . . . . . . . . . Endalok Lancastriu . . . . . . . . . . . . Björgunaraðgerðir og óvissa um manntjón . . Sorglegur endir á dapurlegu undanhaldi . . . Ólánsfregn þögguð niður . . . . . . . . . Margt fór úrskeiðis . . . . . . . . . . . . Heimildir Bækur . . . . . . . . . . . . . . . .

. . 65 . . 72 . . 74

IV. þáttur Þriðji hver maður hlaut að deyja . . . . . Smíðuð og nefnd Hecla . . . . . . . . . Churchill kemur í heimsókn . . . . . . Slompaður forsætisráðherra og þýskur kafbátur . . . . . . . . . . . . . . Vetrarríki Hvalfjarðar og suðrænni slóðir . Manntjón og til móts við ný verkefni . . Í fyrirsát kafbátskappa . . . . . . . . . Tvö tundurskeyti hæfa . . . . . . . . . Annað fórnarlamb . . . . . . . . . . Eltingaleikur upp á líf og dauða . . . . . Þriðjungur áhafnar fórst . . . . . . . . Heimildir Bækur . . . . . . . . . . . . . .

. . 77 . . 77 . . 78 . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

. . . . . . . . . . .

79 80 82 84 85 89 90 92 96 97 99 102 103 105 107 109 111 112 114 117 120 122 123 124 126

. . . . .

. . . . .

. . . . .

. . . . .

. . . . .

. . . . .

. . . . .

. . . . .

130 132 134 136 139 143 144 147

. . . . . . . . . .

149 154 159 164 165 168 171 174 181 184

. 189

. . . 190 . . . 190 . . . 191 . . . . . . . .

. . . . . . . .

. . . . . . . .

192 192 193 194 195 195 196 197

. . . 198

V. þáttur Hernám í hugum ungra drengja — minningabrot . . . . . . . . . . . . . Samskiptin við hernámsliðið . . . . . . . . Bandaríkjafloti siglir upp að ströndum Íslands „Njósnarar“ við Hvalfjörð . . . . . . . . . Segjast hafa séð síðustu siglingu Hood . . . . Heimildir Bækur . . . . . . . . . . . . . . . . Skrár Staðir og stofnanir . . . Persónur . . . . . . . Skipanöfn og skipalestir Ýmislegt . . . . . . . Ljósmyndir . . . . . .

. . . . . . . .

. . . . .

. . . . .

. . . . .

199 202 209 210 212

. 215 . . . . .

216 219 220 221 222

Bækur eftir Magnús Þór Hafsteinsson áður gefnar út af Bókaútgáfunni Hólum . . . . . . 224

. . . . . 129

5


Magnús Þór Hafsteinsson

Hér blessum vér minning hvers bróður, sem blóð fyrir frið vorn gaf, hvers hermanns, er blæddi í hjarnið, hvers háseta, er barst í kaf. Vér erum svo ofurfáir, að engum má gleyma af þeim: Þeir fylgja oss til dáða, þeir dauðu, þann dag, er vér komum heim!

Lokaerindi ljóðsins „Sautjándi maí 1940“ eftir norska skáldið Nordahl Grieg. Birtist í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar í ljóðaþýðingabókinni Meðan sprengjurnar falla (Reykjavík: Helgafell, 1945).

6


Vargöld á vígaslóð

Örnólfur Thorlacius (9. september 1931–5. febrúar 2017) í herbergi sínu á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík með síðustu bók sína, Flugsögu, sem kom út 2016.

Inngangur og þakkarorð Mig hefur lengi langað til að færa í letur þá frásagnarþætti sem birtast í þessari bók. Mér finnst mjög áhugavert að skoða hvernig Ísland tengdist með ýmsum hætti stærri atburðum seinni heimsstyrjaldar. Það er mikilvægt að öðlast skilning á þessu til að gera sér grein fyrir því hver þýðing landsins var í þessum mikla hildarleik. Einhvers staðar segir að þeir sem dragi ekki lærdóm af sögunni séu dæmdir til að endurtaka hana. Vonandi mun Ísland aldrei aftur dragast inn í stríðsátök milli þjóða. Sú bók sem hér birtist fyrir augum lesenda er á vissan hátt rökrétt framhald þriggja fyrri bóka minna um sögu heimsstyrjaldar. Allar eiga þær það sameiginlegt að skýra hlut Íslands í seinni heimsstyrjöld. Það er engum vafa undirorpið að landið hafði geysiþýðingarmikið hlutverk. Aðstaða Bandamanna á Íslandi réði miklu um að það tókst að þrauka af í styrjöldinni þegar útlitið var hvað svartast á árunum 1940–1942. Kannski réð hún úrslitum. Þegar ég fylgi þessari bók úr hlaði og lít um öxl til hinna fyrri hlýt ég að minnast vinar og velgjörðamanns sem féll frá 85 ára gamall 5. febrúar 2017. Þetta var Örnólfur Thorlacius, fræðimaður og rektor. Hann var að öðrum ólöstuðum mikil hjálparhella við skrif bóka minna um sögu styrjaldaráranna. Örnólfur var ávallt boðinn og búinn til að lesa yfir handrit og koma með góð ráð um texta og efnistök. Þessu sinnti hann ásamt ótal öðrum fræðastörfum í herbergi sínu á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík. Þar hafði hann komið sér fyrir, sat við skriftir og sendi frá sér bæði ritgerðir sem birtust 7


Magnús Þór Hafsteinsson

í tímaritum og bækur sem fjölluðu um náttúrufræði, sögu kafbáta og sögu flugvéla. Örnólfur var afar fjölfróður maður með frjóan huga og iðinn með afbrigðum. Fæddur 1931 hafði hann sjálfur upplifað hernámsárin sem barn og unglingur. Örnólfur hafði óslökkvandi áhuga á sögu þessa umbrotatímabils. Það var aldrei komið að tómum kofunum hjá Örnólfi og heimsóknir til hans á Grund eru ógleymanlegar. Hann var fyrirmynd sem veitti innblástur. Ég fór ávallt frá honum með þá tilfinningu að ég væri vísari að fundi loknum. Örnólfur las yfir hluta af handriti þessarar bókar sem er III. þáttur um örlög Íslandsfarsins Lancastriu. Ég þakka honum góð kynni og ómetanlega aðstoð á liðnum árum. Öðrum ber einnig að þakka. Helgi Magnússon las yfir handrit og prófarkir. Gunnar Kr. Sigurjónsson, útlitshönnuður hjá G10, braut handritið um og útbjó bókina með vinnslu á kortum, ljósmyndum og hönnun kápu. Guðjón Ingi Eiríksson, útgefandi hjá Bókaútgáfunni Hólum, hefur sem fyrr reynst styrkur útgefandi. Auk þessa þriggja vil ég koma á framfæri þökkum til fimmmenninganna Björns Sigurbjörnssonar, Friðþjófs Björnssonar, Jóns Fr. Sigvaldasonar, Ólafs Ólafssonar og Sigurjóns Vilhjálmssonar. Allir tóku mér af stakri ljúfmennsku þegar ég bað þá um að rifja upp fyrir mér minningabrot sín úr stríðinu sem þeir urðu vitni að sem drengir og unglingspiltar við Hvalfjörð og á Suðurnesjum. Það var merkilegt að heyra hvernig þeir höfðu upplifað þessa atburði sem mörkuðu vissulega djúp spor í sögu íslensku þjóðarinnar. Vonandi er sá fróðleikur sem kemur fram á þessum spjöldum bútar sem gætu raðast inn í heildarmynd sem við getum dregið lærdóm af á tímum þegar menn fara enn á ný um með gáleysislegu vopnaglamri og hótunum á alþjóðavettvangi. Vítin eru til þess að varast þau. Akranesi, 15. september 2017, Magnús Þór Hafsteinsson

8


Vargöld á vígaslóð

U-570 kominn upp í fjöru á Hafnarskeiði vestan Ölfusárósa.

I. þáttur Bretar ná þýskum kafbáti við Ísland Hér segir frá einu ótrúlegasta klúðri seinni heimsstyrjaldarinnar, þegar Bretar klófestu þýskan kafbát suðaustur af Vestmannaeyjum. Áhöfn hans gafst upp. Báturinn varð herfang Breta sem fluttu hann í Hvalfjörð. Þar var hann rannsakaður áður en honum var siglt til Bretlands. Þetta hnoss færði Bretum gríðarlegar upplýsingar um gerð þýsku kafbátanna og varð eflaust mikilvægur þáttur í því að þeim tókst að lokum að brjóta þessa úlfa undirdjúpanna á bak aftur og hafa sigur í orrustunni um Atlantshafið. Winston Churchill forsætisráðherra kallaði þetta „einstakan atburð“ í endurminningum sínum um seinni heimsstyrjöldina. Ágústmánuður 1941 var að renna skeið sitt á enda. Seinni heimsstyrjöldin var í algleymingi. Aðeins réttir tveir mánuðir voru liðnir frá því að Þjóðverjar gerðu innrás í Sovétríkin. Það var ofboðslegasta árás sem mannkyn hafði orðið vitni að. Nú var barist upp á líf og dauða á vígstöðvum sem teygðu sig allt sunnan frá Svartahafi norður í Barentshaf. Þjóðverjar virtust óstöðvandi. Vorið og sumarið 1940 höfðu þeir náð gervallri Vestur-Evrópu á sitt vald. Svar Breta við því var meðal annars að hernema Ísland í maí 1940 og styrkja þannig stöðu sína í Norður-Atlantshafi. Strax var hafist handa við að koma upp flotastöð í Hvalfirði og gera flugvöll í Kaldaðarnesi í Flóa sunnan Selfoss. 9


Magnús Þór Hafsteinsson

Ef breska þjóðin átti að komast af varð að verja siglingaleiðir til landsins og frá því. Bretar voru afar háðir innflutningi á ýmsum hráefnum til iðnaðarframleiðslu. Þau var aðeins hægt að flytja sjóleiðina. Ef tækist ekki að verja farmskipaflutningana væri stríðið tapað. Af þessum sökum var svo mikilvægt að ná Íslandi og koma þar upp aðstöðu fyrir herskip og flugvélar. Hvort tveggja mætti senda út frá Íslandi til að verja dýrmætar skipalestir sem sigldu suður af Íslandi á milli Bretlandseyja og Norður-Ameríku.

Ísland – bækistöð kafbátaleitarflugvéla Þjóðverjar vissu þetta mætavel. Þess vegna höfðu þeir byggt upp kafbátaflota sinn af kappi. Hann stækkaði stöðugt. Sumarið 1941 höfðu tíu til fimmtán nýir bardagahæfir kafbátar bæst við þýska flotann í hverjum mánuði. Í maí, júní og júlí héldu um 20 kafbátar til hafs í stríðsleiðangra í hverjum þessara mánaða. Í ágústmánuði hófst svo stórsókn þegar 38 kafbátar lögðu úr höfnum til að herja á skip óvinanna. Aldrei fyrr í þessu stríði höfðu fleiri þýskir kafbátar verið við hernað í hafi. Það voru einmitt skipalestirnar, sem fóru vestur og austur um Norður-Atlantshaf, sem þeir þýsku reyndu helst að gera óskunda. Þjóðverjar reyndu að njósna um siglingar þeirra og láta kafbáta sína sitja fyrir þeim. Áhafnir þessara kafbáta áttu síðan að freista þess að sökkva kaupskipunum með því að skjóta í þau tundurskeytum þaðan sem kafbátarnir lágu neðansjávar. Flugvélar frá flugvellinum í Kaldaðarnesi og frá Reykjavík fóru í stanslausar kafbátaleitarferðir yfir hafið suður af landinu. Þær voru vopnaðar vélbyssum og djúpsprengjur voru festar undir vængina. Ef sást til óvinakafbáts í yfirborði sjávar var ráðist á hann án frekari málalenginga og reynt að granda honum. Bandaríkjamenn voru enn ekki orðnir þátttakendur í stríðinu en þeir höfðu engu að síður heitið því að verja skip á leið til Bandaríkjanna og frá þeim fyrir árásum Þjóðverja. Kanada stóð með breska samveldinu enda hluti þess. Á þessum vígaferlum gekk um sumarið. Þjóðverjar töldu sig hafa komist á snoðir um að stór skipalest myndi sigla suður af Íslandi áleiðis frá NorðurAmeríku til Bretlandseyja í síðustu viku ágústmánaðar. Hún færi óvenju nálægt ströndum Íslands. Í reynd voru þetta þrjár skipalestir. Fremst fór skipalestin Halifax 144 (einkennisstafir HX144). Um 150 sjómílum á eftir henni í vestri færi svo hægfara skipalestin SC140. Síðan var það skipalestin Halifax 145, um 150 mílum á eftir SC140. Bráðin var þannig stærri en Þjóðverjum var ljóst. Yfir hundrað flutningaskip hlaðin dýrmætum varningi frá höfnum í Bandaríkjunum og Kanada stefndu til Bretlands. 10


Vargöld á vígaslóð

Að sama skapi yrði gæsla Breta á hafinu með öflugasta móti eins og hún hafði reyndar verið allt sumarið. Bætt var við kafbátaleitarflugflota Breta á Íslandi þegar sex stórar sprengjuflugvélar, sérbúnar til kafbátaleitar, lentu á Reykjavíkurflugvelli sunnudaginn 24. ágúst eftir flug frá Bretlandseyjum. Þrjár vélanna voru af gerðinni Armstrong-Whitworth Whitley en hinar þrjár af Vickers Wellington-gerð. Umsvifin í kafbátaleitarfluginu jukust til muna. Kafbátaleitarflugvélar Breta fóru 30 til 50 eftirlitsferðir á dag yfir hafsvæðið suður af landinu. Flugvöllurinn í Kaldaðarnesi kom að ómetanlegu gagni við þetta. Hann var ein helsta bækistöð landflugvéla þeirra auk Reykjavíkurflugvallar og aðstöðunnar sem flugbátar og sjóflugvélar höfðu í Skerjafirði. Yfirstjórn þýska kafbátaflotans vissi af þessu viðamikla eftirliti og að það væri hættulegt að senda kafbáta nærri suðurströnd Íslands. Samt var tekin ákvörðun um að láta slag standa. Alls fengu áhafnir 16 kafbáta skipanir um að safnast saman í „úlfahóp“ á væntanlegri siglingaleið kaupskipanna, um það bil 80 til 100 sjómílur suður af Íslandi. Þar skyldi háð orrusta um þessa stóru skipalest sem Þjóðverjar töldu að væri á leið til Bretlands. Bretar hleruðu þessi fyrirmæli og þeim tókst að ráða dulmál Þjóðverjanna. Stjórnendur skipalestanna fengu fyrirmæli um að sigla sunnar til að þær færu þannig fram hjá þýsku kafbátunum. Um leið var kafbátaleitarflugi suður af Íslandi haldið áfram af fullu kappi. Þetta skilaði árangri strax klukkan 7 að morgni 25. ágúst þegar Catalina-flugbátur frá 209. strandgæsluflugsveitinni bresku (Coastal Command), sem hafði bækistöðvar í Reykjavík, og vopnaði togarinn Vascama grönduðu þýska kafbátnum U-452 um 150 sjómílur suð-suðaustur af Vík í Mýrdal. Flugbáturinn hafði lagt upp frá Skerjafirði við Reykjavík síðdegis 24. ágúst. U-452 var nýr kafbátur í fyrsta stríðsleiðangri sínum. Kafbáturinn var VII-Cgerð sem var sú algengasta í þýska úthafskafbátaflotanum. Hann hafði verið tekinn í notkun 29. maí og hafði nú lagt úr höfn 20. ágúst frá Þrándheimi í Noregi. Nú, tæpum fimm sólarhringum síðar, komu Edward A. Jewiss, flugstjóri Catalina-flugbátsins, og áhöfn hans auga á þennan kafbát á haffletinum þarna djúpt suður af Íslandi. Jewiss og áhöfn hans höfðu þá verið 14 stundir á flugi. Þeir gerðu tafarlausa árás og vörpuðu fjórum 450 punda djúpsprengjum að kafbátnum sem var að kafa. Sprengjurnar voru stilltar á að springa grunnt undir haffletinum. Tvær höfnuðu á og við framhluta bátsins sem kastaðist aftur á bak við sprengingarnar og lyftist upp úr sjónum. Áhöfn Catalina-flugbátsins sá hvernig kafbáturinn valt um í nokkar mínútur áður en hann hvarf undir yfirborðið og skildi eftir sig loftbólur á haffletinum sem var þakinn olíu. 11


Magnús Þór Hafsteinsson

Flugmennirnir vissu að vopnaði togarinn Vascama væri í nágrenninu. Þessi togari var búinn djúpsprengjum og hljóðsjá (ASDIC-búnaði) til að leita að kafbátum neðansjávar. Vascama var aðeins í um fjögurra mílna fjarlægð frá þeim stað þar sem kafbáturinn hvarf og á leið á vettvang eftir að hafa verið gert viðvart frá flugvélinni. Kafbáturinn var kominn aftur úr úr kafi og áhöfn Catalina-flugbátsins lét vélbyssuskothríð dynja á turni hans sem maraði í yfirborðinu. Við þetta seig kafbáturinn aftur í djúpin. Þetta gilti einu því að nokkrum mínútum síðar var Vascama kominn á staðinn þar sem þýski kafbáturinn hvarf sjónum í seinna skiptið. Tuttugu djúpsprengjum, sem allar voru stilltar á að springa djúpt, var varpað í hafið frá Vascama. Skömmu síðar sáu skipverjar Vascama hvar spýtnabrak flaut upp á yfirborðið. U-452 var horfinn með 42 manna áhöfn og spurðist aldrei til þeirra meir.1

Óreyndri áhöfn stefnt í stríð Þennan sama dag var annar þýskur kafbátur staddur um 80 sjómílur suður af Vík í Mýrdal og þannig nokkru nær landi en hin ógæfusami U-452. Þetta var U-570. Aftur var hér á ferð einn af nýju kafbátunum í flotanum, bátur sömu gerðar og U-452. Það voru aðeins liðnar um níu vikur frá því að kafbáturinn var tekinn í notkun 15. maí. Áhöfnin hafði eytt lunganum úr sumrinu við æfingar undir stjórn Hans-Joachim Rahmlow skipherra. Hann var á 32. aldursári, kvæntur og átti eina unga dóttur. Rahmlow hafði gengið í þýska sjóherinn 18 ára gamall árið 1928 þar sem hann var í áhöfnum herskipa, og þá einkum hraðskreiðra byssu- og tundurskeytabáta þýska flotans, sem voru notaðir í aðgerðum með ströndum. Sérsvið Rahmlows var skothernaður og strandvarnir. Hann var nýlega genginn í raðir kafbátaforingja sjóhersins og U-570 var fyrsti kafbáturinn sem hann stjórnaði í herleiðangri. Áður hafði hann þjónað stuttan tíma sem skipherra á litlum æfingakafbáti í Eystrasalti. Mannskapurinn, sem starfaði undir stjórn Rahmlows, bar öll merki þess að þýski kafbátaflotinn stækkaði mjög hratt. Aðeins fjórir skipverjar af 43 höfðu reynslu af því að sigla í kafbátahernaðarleiðöngrum. Þetta voru Erich Menzel yfirvélstjóri, tveir undirforingjar og einn háseti. Hinir, og þar með talinn skipherrann, höfðu enga stríðsreynslu um borð í kafbátum. Sá elsti var Menzel yfirvélstjóri. Hann var 35 ára. Næstelstur um borð var svo Rahmlow skipherra. Hinir voru á aldursbilinu 19 til 27 ára. Meðalaldur skipverja U-570 var 23 ár. 1 Edward Jewiss, flugstjóri Catalina-flugbátsins, yrði heldur ekki langlífur. Fjórum mánuðum síðar fórst hann í flugslysi.

12


Vargöld á vígaslóð

Um það bil helmingur undirmanna kafbátsins hafði gengið í flotann í apríl 1940 en hinn helmingurinn síðar. Flestir skipverjar með einhvers konar tækniþjálfun höfðu fengið æfingu og kennslu um borð í kafbátum um þriggja til sex mánaða skeið en óbreyttir hásetar voru með styttri þjálfunartíma að baki. Af þessu mátti sjá að flestir í áhöfn U-570 voru því sem næst viðvaningar. Kafbáturinn U-570 var smíðaður í Blohm & Voss-skipasmíðastöðinni í Hamborg. Honum hafði verið hleypt af stokkunum um miðjan apríl 1941. Hann var, sem fyrr er greint, af gerðinni VII-C, þeirri sömu og áðurnefndur U-452. Hinir svokölluðu VII-kafbátar voru algengasta gerð úthafskafbáta Þjóðverja í seinni heimsstyrjöld. Fyrstu bátarnir, sem smíðaðir voru eftir þessari hönnun, höfðu verið teknir í notkun fyrir stríð. Seinni tíma endurbættar útgáfur fengu kenniheitin VII-B og VII-C, til aðgreiningar frá hinum fyrstu. Þessir 67 metra löngu kafbátar af VII-C gerð þóttu liprir og traustir „vinnuhestar“, knúnir tveimur 1.400 hestafla díselvélum, og tveimur 750 hestafla rafmótorum til að nota í kafi og voru með tvær skrúfur. Fyrir framan stjórnturninn var fallbyssa með 88 millimetra hlaupvídd og á palli aftan á turninum var komið fyrir fjögurra hlaupa loftvarnabyssu með 20 millimetra hlaupvídd. Kafbátur af þessari gerð bar 14 tundurskeyti sem skjóta mátti út um fjögur tundurskeytarör í stefni og eitt í skut. Svona kafbátur gat verið mjög skeinuhætt vopn í höndum reyndrar áhafnar. Eftir tveggja mánaða þjálfun og prófun á ýmsum tæknibúnaði í Eystrasalti sigldi áhöfnin kafbátnum til Noregs í annarri viku júlímánaðar. Fyrst var siglt frá Kiel í Þýskalandi norður um Kattegat til hafnarbæjarins Horten, utanvert við Óslóarfjörð í Noregi. Siglt var alla leið í yfirborðinu enda þýskir kafbátar öruggir á þessum slóðum. Danmörk og Noregur höfðu verið hersetin af Þýskalandi í rúmt ár og Svíþjóð var yfirlýst hlutlaust ríki. Þeir komu til Horten 13. júlí. Næsta vika leið við æfingar. Þann 20. júlí var svo siglt af stað í nýjum áfanga á leið til þátttöku í hernaðinum. Stefnan var stungin út suður fyrir Noreg og upp með vesturströndinni með Þrándheim sem áfangastað. Þar voru Þjóðverjar með ört stækkandi bækistöð fyrir kafbáta sína. Á þessari siglingu fékk áhöfn U-570 sinn fyrsta smjörþef af stríðinu. Þegar kafbáturinn var á siglingu miðja vegu norður á bóginn innan skerja milli Björgvinjar og Álasunds steypti bresk sprengjuflugvél sér skyndilega niður úr skýjunum og gerði loftárás á norskt flutningaskip sem var í nokkurra mílna fjarlægð frá U-570. Kafbáturinn kafaði í skyndi svo að bresku flugmennirnir kæmu ekki auga á hann og gerðu árás. Óðagotið var svo mikið að U-570 rakst harkalega í hafsbotninn. Af ótta við flugvélina var þó ekki komið aftur úr kafi 13


Magnús Þór Hafsteinsson

fyrr en eftir tæpan klukkutíma þegar menn þóttust þess fullvissir að vélin væri horfin á brott. Þá var haldið rakleiðis til lands og lagst við litla bryggju svo að kanna mætti skemmdir á kafbátnum. Í ljós kom að tjón hafði orðið á stefni og stýrisjafnvægisugga á stafnhlutanum, auk þess sem loka fyrir þriðja tundurskeytaröri varð fyrir tjóni. Við áreksturinn við sjávarbotninn höfðu botnstykki á kafbátnum, sem voru notuð til að hlusta eftir vélarhljóðum frá skipum neðansjávar, einnig orðið fyrir skemmdum. Engin leið var að gera við þetta þarna. Ekki var annar kostur í boði en að halda siglingu áfram til Þrándheims og þangað kom kafbáturinn 25. júlí. Þar var kafbáturinn settur í þurrkví í Lo-firði sem er innfjörður nokkrum kílómetrum norðan við Þrándheimsborg. Þetta var gert til að kanna skemmdir enn frekar og gera nauðsynlegar lagfæringar. Það tókst að gera við allt nema botnstykkið. Til þess þurfti sérhæfða tæknimenn og þeir voru ekki til staðar þarna í Þrándheimi. Í komandi stríðsleiðangri yrði áhöfn U-570 þannig að spjara sig án þess nota hlustunarbúnaðinn sem tengdist því. Þetta olli nokkurri gremju meðal margra í áhöfninni. Þeir töldu að skorturinn á tæknimönnum stafaði af því að þýski kafbátaflotinn stækkaði nú svo ört að ekki hefðist lengur undan að þjálfa nægilega marga tæknifræðinga svo að sinna mætti nauðsynlegum viðgerðum á sérstökum búnaði bátanna. Viðgerðirnar og prófanir í kjölfar þeirra ollu frekari töfum á því að U-570 héldi í sinn fyrsta herleiðangur. Bátnum var siglt um Þrándheimsfjörðinn í æfinga- og prófanaskyni. Það var kafað og æfð notkun á vopnabúnaði kafbátsins. Síðan voru vistir, díselolía, skotfæri og tundurskeyti tekin um borð. Báturinn var útbúinn til fjögurra vikna leiðangurs.

Timbraðir og sjóveikir Það reið vissulega á að drífa kafbátinn út til vígaferla. Áhöfnin á U-570 var meðal þeirra 16 sem fengu nú fyrirmæli um að halda á hafsvæðið suður af Íslandi til að sitja þar fyrir skipunum sem voru á leið frá Norður-Ameríku til Bretlands. U-570 skyldi halda til hafs í fylgd annars kafbáts og vopnaður þýskur togari átti að fylgja þeim fyrsta spölinn. Að loknum leiðangri suður af Íslandi skyldi U-570 svo stefnt til hafnar í La Rochelle við norðanverðan Biskajaflóa á vesturströnd Frakklands. Þar var nú voldugt vígahreiður þýsku kafbátanna. Nú átti allt loksins að verða klárt. Hans-Joachim Rahmlow og menn hans héldu veglega veislu í Þrándheimi þar sem drykkjarföngin voru hvergi spöruð áður en þeir héldu af stað árla dags 24. ágúst. Þar gekk á með söngvum og 14


Vargöld á vígaslóð

ræðuhöldum þar sem menn töluðu kjarkinn í félaga sína, sögðu frá einkahögum sínum og rifjuðu í sameiningu upp stutta hrakfallasögu farkostsins sem átti að verða vopn þeirra í komandi stríðsátökum suður af Íslandi. Þetta virtist öðrum þræði gert til að reyna að lappa upp á samstöðu og liðsanda um borð. Strax þegar komið var á haf út kom í ljós að kafbáturinn var alls ekki sjóklár og allra síst í stríðsleiðangur. Sennilega voru það skemmdir, sem höfðu orðið við að taka niðri, sem nú komu í ljós þegar í alvöru reyndi á búnaðinn. Sjór lak inn í bátinn við tundurskeyta- og útblástursrör og loftpressa reyndist biluð. Einnig tók önnur díselvélanna að ofhitna vegna bilunar og það varð að drepa á henni meðan gert var við. Dælur voru líka í ólagi. Nokkrir rafgeymar voru lausir og það hafði ekki verið gengið nægilega tryggilega frá fjórum tundurskeytum í stafnhluta kafbátsins. Eitt þeirra losnaði og féll á dunka með koppafeiti þar sem einn tættist í sundur með tilheyrandi óþrifnaði. Ekki bætti svo úr skák að flestir skipverja voru í byrjun leiðangursins illa haldnir af timburmönnum eftir veisluhöldin rétt fyrir brottförina. Andrúmsloftið í kafbátnum varð fljótt súrefnissnautt og illa lyktandi. Þegar kom út á rúmsjó urðu flestir ákaflega sjóveikir. Menn ældu í opnar fötur niðri í bátnum og það bætti ekki lyktina um borð. Margir urðu svo veikir að þeir gátu ekki staðið vaktir. Þeir sem á annað borð gerðu það voru máttlausir og sinnulausir. Þetta var sjóveiki eins og hún gerist verst. Andinn var slæmur um borð. Undirmönnum kafbátsins þótti sem foringjarnir sýndu þeim kuldalegt viðmót, lítilsvirðingu og hroka. Þrátt fyrir þetta skelfilega ástand um borð hélt kafbáturinn áfram siglingu ofansjávar vestur í hafið, norður fyrir Færeyjar með stefnu á svæðið djúpt suðaustur af Vestmannaeyjum. Þar áttu Rahmlow og menn hans að bíða átekta þar til kaupskipin birtust eða áhafnir annarra kafbáta fyndu þau og vísuðu hinum á slóðina. Þann 25. ágúst sáu þeir til ferða flutningaskips og síðan birtist annað daginn eftir. Þeir fengu líka fregnir með loftskeytum um að einn þýsku kafbátanna hefði sökkt fjórum skipum sem höfðu siglt undir verndarvæng bandarískra tundurspilla. Þjóðverjar töldu að Bandaríkjamenn hefðu, á þessu stigi í stríðinu, litla reynslu af kafbátahernaði, enda voru Bandaríkin enn ekki orðin virkur aðili í seinni heimsstyrjöld og stríðinu gegn Þýskalandi. Það myndi ekki gerast fyrr eftir árás Japana á Perluhöfn á Hawaii í desember þetta sama ár 1941. Þegar nálgast tók Íslandsmið sigldu þeir á U-570 fram á þrjú tundurdufl á reki í haffletinum. Þeir töldu þau þýskrar gerðar. Þetta var áminning um þær hættur sem nú biðu þeirra. Aðfaranótt 27. ágúst barst svo annað skeyti um að 15


Magnús Þór Hafsteinsson

kafbátur hefði sökkt skipi í grennd við það hafsvæði sem U-570 stefndi til og yrði nú brátt staddur á. Fregnirnar léttu vissulega brúnir manna og gáfu vonir um góða veiði í þessum leiðangri.

U-570 finnst suðaustur af Eyjum Þeir komu loks á þetta svæði að morgni 27. ágúst. Þar sem hljóðnemakerfið var bilað gat Rahmlow ekki látið bát sinn liggja langdvölum kyrran undir yfirborði sjávar og hlustað eftir vélarhljóðum skipa. Þess í stað varð hann að halda bátnum í yfirborðinu svo að menn gætu staðið á útkikki með sjónauka á stjórnpalli í von um að koma auga á skipaferðir. Þetta var auðvitað stórháskalegt á hafsvæði þar sem allt moraði af kafbátaleitarflugvélum en þeir áttu engra annarra kosta völ. Úrvinda af sjóveiki veltust þeir um á haffletinum. Rahmlow sá að menn hans voru engan veginn á sig komnir til að sinna verkum sínum eins og þeim bar. Klukkan var 8:00 að morgni. Þar sem allt benti til að skipalestin, sem þeir áttu að veita fyrirsát, kæmi ekki á svæði þeirra fyrr en daginn eftir ákvað Rahmlow að gefa mönnum sínum smáfæri á að jafna sig eftir siglinguna. Hann fyrirskipaði köfun niður á um 40 metra dýpi. Þar stöðvaði hann kafbátinn og hugðist veita skipverjum hvíld í tvo tíma. Kafbáturinn lá kyrr neðansjávar í algerri þögn. Loks fengu þeir smáhlé frá þessum bölvaða veltingi sem var að gera þá vitlausa. Hans-Joachim Rahmlow hafði ekki hugmynd um að þennan sama dag væri áætlað að fara í alls 36 kafbátaleitarflug frá Íslandi, allt frá sólarupprás fram á nótt. Flugvélarnar kembdu hafsvæðið suður af landinu í leit að stjórnturnum eða sjónpípum kafbáta. Þarna árla um morguninn hafði tveggja hreyfla Lockheed Hudson-vél frá 269. flugsveit bresku strandgæslunnar á Kaldaðarnesflugvelli í Flóa verið í slíku eftirlitsflugi á svipuðum slóðum og U-570 var nú staddur á. Flugmenn hennar töldu sig hafa séð umrót í haffletinum eftir kafbát. Þeir merktu staðinn með reykblysi og sendu loftskeytaboð til bækistöðvanna í Kaldaðarnesi. Nokkru síðar töldu þeir sig sjá kafbát og reyndu að varpa djúpsprengjum. Þær losnuðu hins vegar ekki úr festingum. Kafbáturinn hvarf sjónum í undirdjúpin án þess að séð yrði að áhöfn hans hefði orðið vör við flugvélina. Þetta atvik varð hins vegar til þess að önnur flugvél af sömu gerð, tilheyrandi sömu flugsveit, var send síðan síðar þennan sama morgun frá Kaldaðarnesi til þessa svæðis. Fjögurra manna áhöfnin, undir stjórn hins 31 árs gamla James H. „Tommy“ Thompson, flugstjóra og flokksforingja í 269. flugsveitinni, hafði fengið fyrirmæli um að kanna betur svæðið austur af Vestmannaeyjum þar sem sést hefði til kafbáts fyrr um morguninn. Þeir fóru í loftið klukkan 8:45 og flugu um fram og aftur yfir endalausu hafinu í leiðindaveðri. 16


Vargöld á vígaslóð

„Við vissum þarna árdegis að það væri kafbátur einhvers staðar þarna á þessum slóðum í Atlantshafinu. Önnur Hudson-vél frá flugsveit minni var búin að sjá hann tvisvar en hann kafaði og komst undan í bæði skiptin. Atlantshafið tók ekki vel á móti okkur þegar við hófum flugið þennan morgun. Sjórinn var úfinn og þakinn reiðilegum hvítum öldutoppum. Það var lágskýjað og við vorum alltaf að fljúga inn í regnskúrir og slæm veðurskilyrði. Við flugum langar leiðir lágt yfir haffletinum og það var ekkert að sjá nema ský, öldur og rigningu. Þetta var farið að verða ansi einsleitt,“ sagði Thompson flugstjóri síðar í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC. Á svona tilbreytingarlausu kafbátaleitarflugi var oftast flogið með sjálfstýringuna á eftir fyrirfram ákveðnum leiðum á leitarsvæðinu, fram og aftur yfir haffletinum. Þetta voru vanir menn sem vissu að kafbátaleit yfir úthafinu var þolinmæðisvinna. Flugið kallaði á einbeitni þó að veðurskilyrðin væru oft erfið yfir úthafinu suður af Íslandi þar sem skipalestirnar fóru um og helst mátti vænta þýskra kafbáta. Aðstoðarflugstjóri Thompsons var Jack Coleman, einn reyndasti siglingafræðingur 269. flugsveitarinnar. Duggie Strode og Freddie Drake sinntu störfum loftskeytamanns og byssuskyttu. Flugvélin var búin traustum kúlulaga vélbyssuturni sem komið var fyrir aftan til ofan á skrokk Hudsonflugvélarinnar. Klukkan var 10:50 og þeir voru staddir um 80 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum. Coleman aðstoðarflugmaður sat frammi í nefi flugvélarinnar. Þar voru gluggar sem hægt var að skyggnast út um við leitina. Í nefhluta vélarinnar var einnig ratsjárbúnaður sem átti að greina kafbáta á haffletinum. Allt í einu sá Coleman merki á ratsjánni sem gaf til kynna að þar gæti verið kafbátur á ferð. Og nú sá hann kafbátinn með eigin augum. „Þarna er einn, beint fyrir framan þig!“ kallaði hann til Thompsons flugstjóra sem tók umsvifalaust sjálfstýringuna af vélinni. Thompson steypti flugvélinni niður að kafbátnum sem var einungis í um kílómetra fjarlægð. Kafbáturinn var lítið eitt á hægri hönd séð frá flugstjóranum. Áhöfn hans hafði greinilega orðið vör við flugvélina og kafbáturinn var að byrja skyndiköfun. Þó að kafbáturinn væri í dauðafæri máttu þeir engan tíma missa og þeir fengju aðeins þetta eina tækifæri til að ná honum. Thompson lét Hudson-vélina rétta sig úr dýfunni og hún æddi yfir kafbátinn aftan frá í um það bil 30 gráðu horni miðað við kjölfar hans. „Aðstoðarflugmaðurinn stóð nú með andlitið klesst við rúðuna í stjórnklefanum og hann sá betur til en ég úr sæti mínu svo að ég kallaði til hans: „Láttu mig vita hvenær við sleppum sprengjunum, Jack.“ Hann kinkaði kolli og nokkrum sekúndum síðar heyrði ég alla áhöfnina hrópa í kór: „Núna!““ 17


Hudson-vél frá Kaldaðarnesi á leið á kafbátamiðin á flugi við ströndina fram af Öræfum.

Hans-Joachim Rahmlow, skipherra U-570.

Tommy Thompson, flugstjóri og flokksforingi.

Ljósmynd úr nefi Lockheed Hudson-vélar frá Kaldaðarnesi sem sýnir hvar aðstoðarflugmaður situr í nefi vélarinnar og fylgist með tækjum og því sem fram undan er í fluginu. Þarna sat Coleman þegar hann sá kafbátinn.

II


Þýskir kafbátsmenn rýna í sjónpípuna.

Ein fyrsta ljósmyndin sem tekin var af U-570 eftir að kafbáturinn náðist. Hún er greinilega tekin úr Catalinaflugbátnum sem kom á vettvang laust fyrir klukkan 14:00. Djúpsprengja hangir undir væng flugvélarinnar. Kafbáturinn er siginn að framan. Menn eru uppi á stjórnpalli og loftvarnabyssupalli stjórnturnsins. Svo er að sjá sem hvítur fáni sé þar aftast á rekkverkinu. Þessi ljósmynd varð síðar umdeild og Rahmlow skipherra U-570 fullyrti að „fáninn“ væri teiknaður inn á hana til fölsunar. Einnig má sjá að þilfarslúgur björgunarbáta aftan við stjórnturn og framan við þilfarsfallbyssu eru opnar. Af öldunum má sjá að þarna er kaldi eða stinningskaldi (5 eða 6 vindstig). Þetta er eina þekkta ljósmyndin sem hugsanlega sýnir hvítan uppgjafarfána á U-570.

III


Vargöld á VÍgaslóð

Vargöld á vígaslóð

Magnús Þór Hafsteinsson hefur áður sent frá sér einstakar bækur um þátt Íslands í sögu seinni heimsstyrjaldar. Þær eru: Dauðinn í Dumbshafi, Návígi á norðurslóðum og Tarfurinn frá Skalpaflóa. Í þessari bók dregur hann upp frásagnir af ótrúlegum atburðum sem allir tengdust Íslandi með einum eða öðrum hætti en hafa verið Íslendingum lítt kunnir fram til þessa. Enginn með áhuga á sögunni má láta þessa bók fram hjá sér fara.

FRÁSAGNIR TENGDAR ÍSLANDI ÚR SEINNI HEIMSSTYRJÖLDINNI

Ísland var eitt mikilvægasta vígi Bandamanna þegar staðan í seinni heimsstyrjöldinni var sem tvísýnust 1940–1942. Þá urðu miklir atburðir sem ófust með ýmsu móti saman við sögu þjóðarinnar. Bretar náðu glænýjum þýskum kafbáti undan Suðurlandi síðla sumars 1941, tóku áhöfnina til fanga og færðu bátinn til Hvalfjarðar. Aðstaðan á Íslandi var lykillinn að því að þetta tókst. Fyrsta sjóorrusta stríðsins var háð undan Hornafirði í byrjun vetrar 1939. Hundruðum manna var slátrað. Mesti skipskaði í sögu Bretaveldis varð er bresku liðsflutningaskipi var sökkt við Frakkland í júní 1940. Nokkrum dögum fyrr flutti skipið fyrstu bresku hermennina til Íslands. Viðgerðaskipið Hecla kom glænýtt til Íslands í júlí 1941 og lá í Hvalfirði. Þýskur kafbátur sökkti skipinu síðar og hlaust af mikið manntjón. Hernám Íslands hafði djúpstæð áhrif á íslensk börn. Valinkunnir Íslendingar rifja upp reynslu sína af stríðsárunum á mótunarárum bernsku og æsku.

vargöld Á vígaslóð FRÁSAGNIR TENGDAR ÍSLANDI ÚR SEINNI HEIMSSTYRJÖLDINNI

stórmerkur fróðleikur um þátt íslands í styrjöldinni

MAGNÚS ÞÓR HAFSTEINSSON


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.