Afmælisrit Kvenfélags Lágafellssóknar

Page 1

kvenfélag lágafellssóknar

100 1909 - 2009 afmælisrit

ára


Afmælisrit þetta er gjöf frá Mosfellsbæ til Kvenfélags Lágafellssóknar í tilefni af 100 ára afmæli þess. Ritstjóri: Sigríður Dögg Auðunsdóttir Ritnefnd: Sigríður Indriðadóttir og Birna Mjöll Sigurðardóttir Prentun: Ljósrit og prent Í stjórn Kvenfélags Lágafellssóknar eru: Ingimunda Loftsdóttir formaður Esther B. Gunnarsdóttir varaformaður Sigrún Sigurðardóttir gjaldkeri Aðalheiður Úlfsdóttir ritari Herdís Kristinsdóttir meðstjórnandi Áshildur Þorsteinsdóttir meðstjórnandi Mosfellsbær óskar kvenfélaginu til hamingju með afmælið.


Efnisyfirlit Kveðja frá bæjarstjóra . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 4 Ávarp formanns . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 5 Ágrip úr 100 ára sögu Kvenfélags Lágafellssóknar . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 6 Guðrún Hafsteinsdóttir (viðtal) . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 9 Tvær úr sveitinni (kvæði) . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 10 Þorrablótskvæði ( e. Helga Seljan) . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 11 Margrét Ólafsdóttir (viðtal) . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 12 Salóme Þorkelsdóttir (viðtal) . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 13 Upp úr fundargerðum Kvenfélags Lágafellssóknar . . . . . . . . . . . . . . . . . 14 Valdís Ólafsdóttir (viðtal) . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 16 Fríða Bjarnadóttir (viðtal) . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 17 Helga Magnúsdóttir (grein eftir Salóme Þorkelsdóttur) . . . . . . . . . . . . . 18 Afmælisdagskrá . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 22

3


Ávarp bæjarstjóra

Lagði grunn að samfélagi okkar Kveðja frá Haraldi Sverrissyni, bæjarstjóra Mosfellsbæjar Kvenfélag Lágafellssóknar fagnar þeim merkisviðburði nú um stundir að hafa verið starfandi í heila öld. Mosfellingar fyrr og nú hafa notið góðs af öllu því góða starfi sem kvenfélagið hefur innt af hendi og má til sanns vegar færa að félagið hafi lagt grunn að því samfélagi sem við búum nú í. Það hélt út öflugu starfi á sviði félagsþjónustu, fræðslu og menningar og var í raun, ásamt ungmennafélaginu, kjölfestan í félagslífi Mosfellinga fram eftir 20. öldinni. Hlutverk kvenfélagsins hér á árum áður var afar mikilvægt, jafnt fyrir kvenfélagskonurnar sjálfar, sem og fyrir aðra Mosfellinga sem nutu góðs af starfi þess. Með stofnun Kvenfélags Lágafellssóknar eignuðust konur sóknarinnar kærkominn vettvang til að efla samkennd og sinna framfara- og góðgerðamálum og Mosfellingar, sem þess þörfnuðust, nutu aðstoðar kvenfélagskvenna af ýmsum toga.

Aðstoð við sveitungana mikilvæg Á þeim tímum, sem félagþjónusta sveitarfélaganna og almannatryggingar þekktust ekki, var aðstoð við sveitungana einkar mikilvægur hluti starfs kvenfélagsins. Í bókinni Mosfellsbær, saga byggðar í 1100 ár, eftir Bjarka Bjarnason og Magnús Guðmundsson, kemur fram að kvenfélagið hafi gefið fátækum mæðrum sængurgjafir, konur hafi verið fengnar til þvotta á barnmörgum heimilum og keypt voru jólatré handa fjölskyldum sem ekki höfðu efni á því, svo dæmi séu tekin. Kvenfélagið hefur lagt drjúgt af mörkum við uppbyggingu menningarmannvirkja hér í Mosfellsbæ. Eitt af baráttumálum kvenfélagsins á fyrstu árum þess var bygging á nýju samkomu- og skólahúsi í sveitinni og var Brúarland byggt m.a. fyrir tilstuðlan kvenfélagsins og það tekið í notkun árið 1922. Kvenfélagið átti þátt í uppbyggingu félagsheimilisins Hlégarðs sem hefur um áratugabil verið miðpunktur menningarstarfsemi í Mosfellsbæ. Kvenfélagið safnaði og til byggingar Varmárlaugar á sínum tíma og hefur um árabil safnað í sjóð til byggingar hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ en undirbúningur að byggingu þess hefst á næsta ári. Ég vil fyrir hönd bæjarstjórnar og Mosfellinga allra færa ykkur kvenfélagskonum hjartans þakkir fyrir framlag ykkar til þess samfélags sem við njótum nú öll og óska ykkur til hamingju með þetta merka afmæli.

4

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.


Ávarp formanns

Félagið dafni í önnur 100 ár Sunnudaginn 26. desember árið 1909, kl. 12 á hádegi var stofnfundur Kvenfélags Kjalarneshrepps haldinn á Völlum á Kjalarnesi, stofnendur voru 11 konur. Fyrsti formaður félagsins var Guðrún Jósefsdóttir frá Völlum. Samþykkt var á fyrsta fundi að félagið skyldi vinna að því að styðja og styrkja fátæka. Í lögum félagsins í dag er lögð áhersla á mikilvægi þess að auka menntun og menningu kvenna með námskeiðum og fyrirlestrum, einnig að liðsinna þeim er þess þurfa í samfélaginu. Árið 1912 er nafni félagsins breytt í „Kvenfélag Lágafellssóknar„ og eru þá félagar orðnir 15 talsins. Í fyrstu voru fundir í kvenfélaginu haldnir heima hjá kvenfélagskonum vor og haust, í dag eru fundir einu sinni í mánuði frá október til maí.

Stuðningur við ýmis málefni Kvenfélagið hefur látið margt gott af sér leiða. Naumast er hægt að nefna það framfaramál hér í bæ þar sem kvenfélagskonur lögðu ekki hönd á plóg, t.d. skólahúsnæði að Brúarlandi, Hlégarður, sundlaug að Varmá og íþróttahús að Varmá, öll þessi mannvirki voru reist með dyggum stuðningi kvenfélagsins. Þá eru ónefnd framlög til ýmiskonar líknarmála og stuðningur við þá sem stóðu höllum fæti í samfélaginu, tækja til Reykjalundar, til kirkjunnar, og ýmsa fleiri styrki. Árið 1974 var haldinn kynningarfundur í Hlégarði sem bar mikinn árangur, þá gengu 20 nýjar konur í félagið, þar á meðal ég sem þetta ritar, og sé ég ekki eftir þeirri inngöngu, því ég var nýflutt í sveitina og þekkti fáa, en þarna kynntist ég mörgum góðum konum sem gaman hefur verið að starfa með.

Fróðlegt og skemmtilegt starf Við gerðum margt fróðlegt og skemmtilegt, vorum með fjölbreytileg námskeið, fórum í ferðir saman til útlanda s.s. til Grænlands, Hollands og Baltimore, auk ferða innanlands. Kvenfélagið var með jólaböll fyrir börn, jólabasar og þorrablót, en það mynduðust oft langar biðraðir við miðasölu áður en sala hófst.

Ingimunda Loftsdóttir, formaður kvenfélagsins. Aðalfjáröflun okkar var hestamannakaffið, en þá komu Fáksfélagar ríðandi uppí Mosfellsbæ og keyptu af okkur kaffi og meðlæti, þá var sko mikill handagangur í öskjunni, og mikið gaman, en þetta er liðin tíð því miður. Kvenfélagið var mjög öflugt allt fram til aldamóta, en síðustu 10 -15. ár fór að draga úr starfsemi þess, flestar konur komnar út á vinnumarkaðinn, jafnvel farnar að bæta við sig menntun, og svo má ekki gleyma öllum kórunum og ýmsum félagasamtökum sem eru starfandi hér í bæ, sem félagið er þá í samkeppni við um félaga. Í dag eru skráðar 40 konur í félaginu þar af eru 10–12 konur 70 ára og eldri og við hinar erum flestar að nálgast þann aldur, við þurfum því nauðsynlega fleiri konur með ferskar hugmyndir til að styrkja það og gera það að því sterka félagi sem það var. Er ekki enn þörf fyrir svona félag, sem getur eflt félagskonur í að stuðla að sínum metnaðarmálum og verið þeim til gleði og ánægju í góðum félagsskap? Að lokum óska ég kvenfélaginu okkar til hamingju með 100 árin og vona að það eigi eftir að dafna vel í önnur 100 ár. Ingimunda Loftsdóttir formaður

5


Skemmtilegir fundir og mikil upplyfting Ágrip úr 100 ára sögu Kvenfélags Lágafellssóknar Þetta er samantekt úr fundargerðarbókum frá stofnun Kvenfélagsins 1909 og eigin reynslu sem félagskona í mörg ár. Á annan í jólum kl. 12 á hádegi árið 1909 komu 11 konur saman að Völlum á Kjalarnesi til að stofa Kvenfélag. Aðalhvatamaður var Guðrún Jósefsdóttir húsfreyja að Völlum og varð hún fyrsti formaður félagsins. En eins og segir í fundargerðinni þá voru þetta allt mjög vel félagslega þroskaðar konur. Þá var fátítt að sveitarkonur létu sig varða nokkuð í málum utan heimilis, síst þó í félagi við aðra. Í þá daga voru konur mjög einangraðar frá hvor annarri. Svo virðist sem félagið hafi verið stofnað í þeim tilgangi að koma þeim sem minna máttu sín til hjálpar því ekki voru sjúkrasamlög eða tryggingar fyrir hendi í þá daga. Í fyrstu fundargerð segir að tilgangur félagsins sé, að vinna að því að eftir kröftum að styðja og styrkja fátæka. Félag sitt nefndu konurnar Kvenfélag Kjalarneshrepps. Allar fundargerðir og fundargerðabækur hafa varðveist og þar má sjá að konur voru mjög starfsamar. Eitt af því fyrsta sem þær ræddu var fjáröflun. Þær héldu samkomur í sveitinni með menningarbrag, veittu kaffi í réttum og höfðu upp úr því dálítið fé. Og þannig hefur það verið síðan. Allar konur gefa vinnu sína.

Nafni félagsins breytt Árið 1912 verða töluverðar breytingar hjá félaginu. Konum á Kjalarnesi fækkar og um svipað leyti ganga konur úr Mosfellssveit í félagið því þær voru orðnar nokkuð fleiri en Kjalarneskonurnar. Þá kemur upp sú tillaga að breyta nafni félagsins og nefna það Kvenfélag Lágafellssóknar. Mætti segja mér að þar hafi ekki allar verið sammála, þó var þetta einróma samþykkt á fundi sem því miður er ekki dagsettur í fundargerðinni. Um val á nafninu hefur sennilega ráðið

6

Kvenfélagskonur árið 1961. sameining Kjalarneshrepps og Mosfellshrepps, í eina sókn, Lágafellssókn. Fyrsti formaður eftir nafnabreytinguna var Jóhanna Sigfúsdóttir húsfreyja á Reykjum.

Fundir að degi til lengst framan af Fundirnir hafa verið mjög skemmtilegir og mikil upplyfting fyrir konur að koma saman og ræða málin. Fundirnir byrjuðu kl. 12 á hádegi, þær borðuðu saman og stóðu þeir fram eftir degi. Fundina sóttu konurnar vel þrátt fyrir erfiðleika í samgöngum og þurftu sumar að fara fótgangandi langar leiðir. Það var ekki fyrr en árið 1964 að fundirnir voru haldnir að kvöldi til. Fyrstu árin var félagsgjaldið 1 kr. þá var líka sérstakt inntökugjald, 50 aurar- takk-. Rann þetta fé í félagssjóð og margt gert í fjáröflunarskyni, t.d. voru konurnar með happdrætti og hlutaveltu, svona til að herða á fjáröflun. Félagskonur áttu veitingatjald sem þær leigðu út á kr. 50.og stundum meira að segja 60.- og jafnvel lögðu sumar fram peninga þegar fé skorti til að gera það sem þær höfðu ákveðið að styrkja hverju sinni. Reynt var að hjálpa með peningagjöfum og stundum útveguðu þær stúlkur til hjálpar á heimilum þar sem erfiðleikar voru t. d. vegna veikinda, og greiddi félagið laun þeirra.

Ákveðni og reglusemi Innan félagsins ríkti ákveðni og reglusemi. Það var greitt fyrir leigu á húsnæði vegna funda á bæjunum og leigu fyrir það land sem þær héldu skemmtanir á. Árið 1921 er Kvenfélagskonum boðið að senda 2 konur á


Hreppsnefndarfund til að fylgjast með undirbúningi að byggingu samkomuhúss fyrir Mosfellshrepp og frá þeim tíma fara kvenfélagskonur að hafa áhrif á félagsstarf innan sveitar-innar og sjá að þær geti haft áhrif á gang mála í Hreppnum. Eitt sinn á árum áður lánaði kvenfélagið hreppsnefndinni kr. 2000.- Þess má geta að árið 1925 eru félagskonur aðeins 21 en félagsandinn mikill.

Öllum konum boðið á fund Kvenfélagið boðaði til almenns kvennafundar 4. apríl 1929 og var öllum konum í sveitinni boðið að koma. Aðalbjörg Sigurðardóttir var aðalræðukona fundarins og hvatti þar konur til að fylgjast með framvindu nýja tímans. Varaði hún þær við að einangra sig um of og taldi að þeim væri nauðsynlegt að fylgjast með umræðum í þjóðfélaginu, það kæmi sér vel fyrir þær að aðstoða börnin út í lífið.

Krabbameinsfélags Reykjavíkur, Slysavarnafélags Íslands, Barnahjálpar Mið-evrópu, Hallveigastaða, Húsmæðraskóla á Suðurlandi, Noregssöfnun á stríðsárunum, Ungverjalandssöfnun, orlofshús í Gufudal Krísuvíkursamtakanna og ótal margt fleira sem of langt mál er að telja upp hér. Innansveitar er félagið aðili að Skógræktarfélagi Mosfellssveitar og einn af eigendum Félagsheimilisins Hlégarðs. Félagið hefur einnig sinnt skólum sveitarinnar með gjöfum og styrkjum. Á 50 ára afmæli Ungmennafélags Aftureldingar 1959 gaf það 20 þúsund krónur til íþróttavallar og 1961 gaf það 200 þúsund krónur til sundlaugarbyggingar.

1924 taka 3 félög í sveitinni, Kvenfélagið, Ungmennafélagið og Lestrarfélagið sig saman um að fá fyrirlesara annan hvern mánuð að vetrinum og gátu allir í sókninni komið fyrir lítið gjald. Þótti þetta mikil menningarstarfsemi. Kvenfélag Lágafellssóknar er eitt af stofnendum Kvenfélags Gullbringu- og Kjósarsýslu og elsta félagið.

Innan sveitar sem utan Til þess að gefa örlitla innsýn í hvað Kvenfélagið lét sig varða utan sveitar á árunum 1930 – 1950 má nefna að það gaf fé til: Unglingaskóla í Keflavík, Árnasafns,

Kvenfélagskonur í skógrækt við Skarhólabraut.

Kvenfélagskonur afhenda Siv Friðleifsdóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra, undirskriftarlista vegna hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ. 7


Halldór Laxness í kaffi eldri borgara á vegum kvenfélagsins

Kvenfélagskonur í heimsókn hjá forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, á Bessastöðum.

Í mörg ár gaf félagið 10% af allri fjáröflun í orgelsjóð Lágafellskirkju og einnig hefur félagið gefið margar góðar gjafir til kirkjunnar t.d. messuklæði, skírnarfont, fermingarkirtla, borð undir Guðbrandsbiblíuna og margt fleira ásamt því að sérstök nefnd innan Kvenfélagsins sá um að fegra kirkjugarðinn til margra ára. Líknarmálin voru ætíð efst á dagskrá.

Allar fengu Húsfreyjuna Frá 1955 og langt fram á 8. áratuginn keypti félagið Húsfreyjuna blað K.Í. fyrir allar félagskonur og þótti það mikil uppörvun fyrir félagslífið og gaf það konum færi á að fylgjast með öðrum kvenfélögum. Lengi vel var aðal tekjulind félagsins basarsala og Hestamannakaffið á vorin. Þorrablótin hafa gegnum tíðina verið vinsælustu skemmtanir félagsins- eða sveitarinnar allrar – og ekki síst undirbúningurinn við laufabrauðsbakstur og æfingar á skemmtiatriðum. Við skemmtum okkur jafnvel betur við undirbúninginn en á ballinu sjálfu. Eins þegar verið var að vinna að basarnum þá var gleði og gaman í hávegum höfð. Félagskonur stóðu einnig fyrir nokkrum utanlandsferðum, sem sagt til Grænlands, Hollands og Ameríku, fyrir utan allar skemmtilegu sumarferðirnar sem farnar voru innanlands.

Breyttir tímar Tíðarandinn hefur breyst, miklar breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu hin síðustu 20 til 30 ár, flestar konur eru útivinnandi, og fleira í boði til afþreyingar, mikið og fjölbreytt nám í boði, þær efla hug og hönd, stunda líkamsrækt o.fl. að sumu leyti er þetta jákvætt, konur hugsa kannski frekar um það hvað þær geta gert fyrir sig sjálfar. En í þessu þjófélagi eru samt ennþá minni máttar sem þurfa að fá aðstoð frá samfélaginu en núna eru tryggingar, lífeyris-sjóðir og hverskonar bætur sem koma við sögu. Síðustu ár hafa verið erfið hjá félaginu og illa gengur að fá nýjar félagskonur en samt er barist og hjálpað eins og

8

Kvenfélagið stóð fyrir námskeiði í þjóðbúningagerð. Hér er afraksturinn sýndur. hægt er t.d. var farið af stað með undirskriftasöfnun vegna hjúkrunarheimilis aldraðra og fengust 2422 nöfn á listann. Árið 1990 var borin upp tillaga að styrkja íbúðir aldraðra að Hlaðhömrum til tækjakaupa sem og var samþykkt. Og núna 2009 er eina fjáröflun félagsins til styrktar tækjakaupum fyrir nýja hjúkrunarheimilið sem á að rísa að Hlaðhömrum á næstu árum. Til gamans má geta þess að félagið keypti Geitapar af Kvenfélagasambandi Íslands til styrktar fólki á flóðasvæði í Asíu. Við skulum hins vegar láta hér staðar numið, og þó svo félagskonum hafi fækkað í félaginu okkar skulum við ekki vera með neitt samviskubit, við höfum gert margt gott og skemmtilegt og við höldum áfram að gera gott hvar á vettvangi sem okkar nýtur við. Ólöf Örnólfsdóttir


Gefandi að koma saman Guðrún Hafsteinsdóttir hefur starfað með Kvenfélaginu frá því um 1970 og mætir enn á fundi félagsins. Hún segir að hlutverk Kvenfélagsins á þessum árum sem hún hafi byrjað í félaginu hafi verið tvíþætt. „Í fyrsta lagi var það félagslegt. Það gaf konunum mikið að koma saman með þessum hætti enda voru margar konur heimavinnandi á fyrri árum, þótt sumar hafi verið útivinnandi, líkt og ég,“ segir hún, en Guðrún kenndi um árabil í Varmárskóla. „Í öðru lagi var það fjáröflunarstarf Kvenfélagsins sem skipti okkur einnig verulegu máli.“ Það sem henni er efst í huga úr starfinu voru grænu markaðirnir sem hún stóð fyrir að vori tvisvar sinnum í fjáröflunarskyn i. Einnig minnist hún jólakorta sem Kvenfélagið gaf út og seldi í fjáröflunarskyni, og enn eru til sölu. „Margrét Ólafsdóttir og Hólmfríður í Hlíðartúninu máluðu myndir og ég sá um að gefa kortin út,“ segir Margrét. Ágóði jólakortanna hefur verið lagður í sérstakan sjóð sem nota á í uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ.

Þrammað um allar götur „Eitt af því skemmtilegasta sem ég man eftir var þegar ég þrammaði hér um allar götur til þess að safna undirskriftum á lista til þess að þrýsta á að hér yrði byggt hjúkrunarheimili,“ segir Guðrún og lýsir yfir ánægju sinni með að það verði loks að veruleika en ráðgert er að hefja undirbúning þess í samvinnu við ríkisvaldið á næsta ári. Hún minnist einnig jólaskemmtana sem kvenfélagskonur héldu fyrir börn í Mosfellsbæ í fjölda ára og skemmtana sem haldnar voru fyrir eldri borgara. „Það er nokkuð síðan við hættum því enda hefur Mosfellsbær tekið við hvoru tveggja með sínu öfluga starfi,“ segir hún.

Guðrún Hafsteinsdóttir, félagskona. að, eins og nú. Félagið var upphaflega að hjálpa konum og fjölskyldum sem áttu erfitt og nú er tvímælalaust þörf á slíkri aðstoð aftur,“ segir Guðrún.

Hún segist vonast til þess að Kvenfélagið geti dafnað áfram. „Það eru allt of fáar sem eru starfandi í dag og fyrst og fremst eldri konur. Það væri gaman ef hægt væri að hafa öflugra starf, sem væri hægt ef fleiri yngri konur tækju þátt. Það er ýmislegt hægt að gera, ekki síst þegar kreppir

9


Tvær úr sveitinni

Við erum héðan úr sveitinni Og lítið veröld séð, Hundfúlar á streitunni Og leiðindunum hér, Eftir tuttugu ár við pottana Að greiða fagra lokkana Og fara í utanreisuna Viðlag:

Kvæði sem kvenfélagskonur ortu og fluttu á skemmtun sinni. Sungið við lagið Tvær úr tungunum.

Við erum hundleiðar á barnapössun Skeinustandi og bleyjuþvott, Tiltektum og matarstússi Auraleysi og púkahátt Leiðinlegum karluglum Sem komnir eru í keng, Með ístru niðri í hnésbótum Og alltaf hreint í spreng.

Nú förum við til Baltimore Að kíkja á Kansans lið, Borða steik og Hamborgar Að Amerískum sið Líta svo í búðirnar Og kaupa kannske smá Því hér á þessu útskeri Er ekkert hægt að fá. Viðlag Hve yndælt er að koma heim Í sæluna á ný. Buddan tóm, hvað varð um aur Æ, ekki spyrja að því Vioð lifum núna lofti á Borðum aðeins skyr, Ef ætlið þið í aðra ferð Þá erum við sko til. Viðlag: Við erum :Ánægðar með barnapössun Skeinustand og bleyjuþvott, Tiltektina matarstússið Auraleysi og púkahátt. Elskum gömlu karlana Sem komnir eru í keng Með ístru niðri í hnésbótum Og alltaf hreint í einum spreng.

10


1. Hið árlega ferðalag engum hér gleymist Og þó enn væri rifist um makanna fylgd. Og minningin vermir og minningin geymist En mörgu skal gleyma, já bara eftir vild. Já, Edenslund blóma við óðum í klof, En Adam var fjarri, æ, Guði sé lof. Tra – la.

Kvæði eftir Helga Seljan sem hann orti fyrir þorrablót Kvenfélags Lágafellssóknar árið 1986 um stjórn félagsins það árið.

2. þó nóg væri eystra af kökum og kaffi var kuldi í lofti og barasta svalt. Í tívolí strekkings við undum í straffi Og stundum af hrolli, æ fjári var kalt. En þá gripu einhverjar töskunnar til Og tóku upp „la – la“ með birtu og yl Tra – la. 3. mig rámar í kvöldverð í Hveranna dölum en hvað þar var etið, ég man ekki par. Þó margt væri hvíslað og sungið í sölum Síst flugu tvíræðir brandarar þar. Til byggða var farið og fiðringur jókst. Við fórum á ball þar sem ýmislegt skókst. Tra – la. 4. nítjánda júní með náttúru í blóma nú skyldi halda á Þingvelli beint. Á búninga fagra sló leiftrandi ljóma Litadýrð þeirri menn gleyma víst seint. Með gleði og hlátri við lékum af list Því lukkudýr Sólveigar var þarna kysst. Tra – la. 5. Á Blikastöðum ég bý með sóma Marta mín – Marta mín Og búsýslu mína flestir róma. Marta mín – Marta mín. Að öðru leyti ég elska frið Og ekki tala ég meira en þið Marta mín – 6. kvenskörung sem sumir mig kalla vilja Sara mín – Því karlar borðfánans prýði skilja. Sara mín – Ég teikna allt sem teikna á Og töluvert auglýsi ég mig þá. Sara mín –

11


Allar konur velkomnar Margrét Ólafsdóttir gekk í Kvenfélag Lágafellssóknar árið 1976 og tók fljótt virkan þátt í starfi þess. Hún var formaður félagsins á árunum 1980-84 og svo aftur árið 1992. „Ástæðan fyrir því að ég gekk í Kvenfélagið var fyrst og fremst vegna þess félagsskaps sem þar var að finna,“ segir Margrét. „Hópur af konum gekk í félagið um sama leyti og ég enda hafði Kvenfélagið haldið nokkurs konar kynningarfund fyrir allar konur í Mosfellssveit. Ég var nýflutt í sveitina og þekkti engan en kynntist fjölda góðra kvenna í gegnum starfið í Kvenfélaginu. Margar þeirra eru góðar vinkonur mínar enn þann dag í dag,“ segir Margrét.

Námskeiðin eftirminnilegust Margrét segir að eitt það eftirminnilegasta við starfið var að sækja öll þau námskeið sem Kvenfélagið stóð fyrir. „Ég var alla daga og öll kvöld á námskeiðum. Ég skráði mig í sem flest og það var æðislega gaman. Ég hefði ekki viljað hafa farið á mis við þá reynslu. Ég lærði að mála og svo kom kjólasaumsmeistari sem kenndi okkur að sníða og sauma föt og svo héldum við sýningu á fatnaði sem við höfðum búið til,“ segir hún jafnframt. Hún segir að mörg námskeiðanna hafi verið afar hagnýt. „Við héldum námskeið í jólaföndri fyrir jólin og héldum síðan basar þar sem við seldum afraksturinn til styrktar góðu málefni. Þetta var virkilega gaman.“ Kvenfélagið setti á stofn eins konar námsflokka þar sem kennd voru námskeið á bor við tungumálanámskeið, námskeið í vélritun, bókfærslu, skrautskrift, garðyrkju og ýmsu fleira. „Það var mikil eftirspurn eftir þessum námskeiðum en nú eru mikið breyttir tímar. Framboðið er orðið svo mikið af öllu að fólk kemst ekki yfir allt. Það er ef til vill ekki eins mikil þörf á Kvenfélaginu eins og var. Þær sem gengu í Kvenfélagið og störfuðu með því sjá þó ekki eftir þeim tíma. Ég var nú svo heppin að ná í skottið á gömlu sveitinni, öllu því gamla sem nú er horfið.“

12

Helga Ólafsdóttir, fyrrum formaður í kvenfélaginu.

Félagið þarf að breytast Þegar hún er spurð um framtíð Kvenfélagsins segir hún að félagið þurfi sjálfsagt að breytast. „Það eru nánast engar ungar konur í félaginu og er okkur alltaf að fækka. Við, sem gengum í félagið í kring um 1976 erum bara orðnar ellismellirnir. Svo er svo mikið framboð af ýmsu öðru, til að mynda er mikið félagsstarf í kringum kórana og margar konur sem eru í kórstarfi.“ Hún segir að þrátt fyrir þróunina sé mikil samheldni í konunum sem eftir eru í félaginu og þær vilji náttúrulega ekki gefast upp. „Ég hef heyrt að konur í Mosfellsdal hafi stofnað sitt eigið kvenfélag svo er nýstofnaður félagsskapur kvenna í Mosfellsbæ sem ég myndi vilja bjóða velkomnar í Kvenfélagið. Það eru allir velkomnir í kvenfélagið, það er að segja allar konur - nokkrir karlar hafi verið að reyna að komast inn en ekki fengið,“ segir hún. Þegar hún er spurð um áhrifavalda í starfi Kvenfélagsins nefnir hún Helgu á Blikastöðum. „Hún var svo fróð um alla skapaða hluti. Ef mann vantaði eitthvað fór maður bara til hennar. Hún var formaður í 13 ár og mikill áhrifavaldur á starfið. Einnig Oddný á Ökrum, Áslaug kona Höskuldar og Halldóra á Mosfelli. Þetta voru miklar fyrirmyndir og höfðu allar mikil áhrif á starf kvenfélagsins.“ Hún segir að Kvenfélagið hafi haft mikil áhrif í sveitinni á fyrri árum og það hafi verið mjög þýðingarmikið. „Þarna voru konur sem voru mjög samstilltar og höfðu mikil áhrif í samfélaginu, enda hefur félagið látið margt gott af sér leiða í gegnum árin,“ bætir hún við að lokum.


Mér var tekið ljúflega Salome Þorkelsdóttir gekk í Kvenfélag Lágafellssóknar rúmlega tvítug að aldri, nýflutt í sveitina. Hún var kjörin í stjórn Kvenfélagsins frá 1963-1977, var gjaldkeri 1963-66 og varaformaður árin 1967-77. „Ég var svo mikið barn að ég hélt að allar konur gengju í kvenfélagið, „segir hún og minnist fyrsta fundarins sem hún mætti á. „Ég var langyngst, sá ég, en mér var tekið ljúflega.,“ segir Salome. „Þetta var lifandi félagsskapur sem gerði ýmislegt gott. Það var mikil upplyfting að taka þátt í félagsstarfi Kvenfélagsins enda var ekki margt í boði á þessum tíma,“ segir hún ennfremur.

Lærði að standa upp og tala Spurð hvað hún hafi sjálf fengið persónulega út úr því að starfa með Kvenfélaginu segir Salome: „Ég lærði að standa upp og tala í Kvenfélaginu og fékk þar mitt félagslega uppeldi. Ég lærði þar einnig fyrst fundarsköp,“ segir Salome sem var þingmaður og einnig forseti Alþingis um árabil. „Í félaginu voru framákomur, svo sem Helga Magnúsdóttir á Litlalandi, Helga Magnúsdóttir á Blikastöðum, Kristrún í Stardal og Ingibjörg á Reykjum, sem voru allt mjög frambærilegar konur,“ segir hún og bætir við hversu þakklát hún sé fyrir að hafa fengið að kynnast þessum konum sem hafi miðlað af reynslu og þekkingu sinni.

Salóme Þorkelsdóttir, fyrrum gjaldkeri og varaformaður í kvenfélaginu.

„Ég starfaði fyrst og fremst undir handarjaðri Helgu Magnúsdóttur á Blikastöðum sem sá til þess að öll fundarsköp voru höfð í heiðri. Við þurftum að standa upp og tala. Mér lá oft mikið á hjarta, til að mynda varðandi skólana eða dansfélagið en var óskaplega „nervus“. Það tók mikið á að standa upp og tala og hrundi ég svo niður í sætið aftur þegar ég var búin,“ segir Salome. „Ég öðlaðist með þessu reynslu af því að koma fram og sjálfstraust sem hefur nýst mér í starfi mínu.“ Hún hefur ekki verið virkur félagi í kvenfélaginu um nokkra hríð en segist vissulega sakna þess. Hún fylgist þó með starfinu úr fjarlægð og óskar Kvenfélaginu til hamingju með aldarafmælið.

13


Upp úr fundargerðum Kvenfélags Lágafellssóknar

24. febrúar 1927 - Spunavélin sem mikið var notuð af heimilum í Mosfellssveit

7. febrúar 1946 - Upplestur og skemmtun á fundarkvöldi

„…til tals kom að keypt yrði spunavél til að spinna til vefnaðarins, en ekki urðu konur sammála um það, hver ætti að kaupa hana; vildu sumar að heimilin í sveitinni eignuðust hana en aðrar að fjelögin (Kven- og Ungmennafélögin) keyptu hana. Loks kom tillaga frá Guðrúnu í Grafarholti um að vélin yrði keypt, heimilunum boðin hún, og vilji þau ekki eignast hana þá tækju fjelögin hana að sjer. Var þetta samþykkt og Kristínu á Blikastöðum falið að sjá um að kaupa spunavélina næstkomandi sumar.“

„… fóru konur að skemmta mér upplestri. Bjarnveig í Seljabrekku, las upp sögu sem hér „Sokkaleitin“. Kristrún í Stardal las kvæði „Drottningin í Algeirsborg“. Hildur á Skeggjastöðum sagði frá fyrstu ferð sinni frá Þykkvabæjarklaustri til Reykjavíkur, en hún var að fara á Ljósmæðraskólann þar. Eftir kaffið spilaði, Unnur í Varmadal á píanó, og sungu konur nokkur lög.“

14

8. janúar 1953 - námskeiðið „hjálp í viðlögum“ „Þá var það námskeiðið „hjálp í viðlögum.“ Ingibjörg á Reykjum gaf nokkrar upplýsingar, og verður þetta námskeið, sennilega seinnipart vetrar, ef þátttaka fæst nóg.“ 3. desember 1953 „Frú Ingibjörg á Reykjum, sagði frá námskeiðinu „Hjálp í


viðlögum.“ Gekk það á allan hátt ágætlega, var í 5 kveld, var bæi verkleg og munnleg kennsla auk fræðandi myndasýninga.“

10. nóvember 1953 - góðgerðir félagskvenna „Formaður spurði fundar konur, hvort þær væru með því að, félagði gæfi hlý ullarteppi, yfir rúm heimavistarbarna í Hlégarði, og ættu teppin þá að fylgja heimavistinni, en ekki vera sér-eign barnanna. Var þetta rætt, og síðan samþykkt. Einnig sagði formaður frá nýjum, fallegum, íslenskum gardínum, sem Ingunn Finnbogadóttur á Álafossi gaf kvenfélaginu fyrir gluggana á vinnuherbergjum félagsins í Hlégarði. Voru nokkrar félagskonur nýbúnar að sauma gardínurnar, og koma þeim fyrir gluggana.“

3. desember 1953 - góðverk til félagskonu. „Þá var sagt frá, gjöf frá félaginu til einnar félagssystir, sem búin er að liggja veik í fleiri vikur, var þetta hlýr sloppur, er henni var færður að sjúkrahúsið.“

3. október 1974 - Framlag kvenfélagsins til íþróttamannvirkja að Varmá „Samþ. að koma á Bingó kvöldum í Hlégarði til styrktar íþróttahúsbyggingu sem fyrirhugað er að reisa á skólasvæðinu að Varmá, ef félagskonur samþ. slíkt.“

28. nóvember 1994 - Orgelsjóðurinn „Orgelsjóður Lágafellskirkju. Svava bað Sigrúnu Ásgeirsdóttur að afla upplýsinga um stöðu sjóðsins. Sigrún sagði að búið væri að greiða upp orgelið. 10% af hestakaffinu hafa farið í orgelsjóð.

15


Samheldni og vinátta einkenndu starfið Valdís Ólafsdóttir hefur verið virk í starfi Kvenfélagsins frá árinu 1976, stuttu eftir að hún flutti í Mosfellssveit. Hún segir að samheldni hafi einkennt starf félagsins og vinátta. „Það var mikil upplifun hér áður fyrr, að starfa í Kvenfélaginu, og vorum við heilmargar sem störfuðum af fullum krafti,“ segir Valdís þegar hún er beðin um að rifja upp fyrstu kynni sín af Kvenfélaginu. „Fyrst fór starf félagsins fram í Brúarlandi en við sprengdum utan af okkur húsnæðið enda var kvenfélagið mjög vinsælt á þessum tíma. Þá fluttum við í Hlégarð en síðan aftur í Brúarland þegar fór að tínast úr hópnum og við urðum færri. Þetta var mjög notalegt og þar var góð stemmning,“ segir hún. Þegar hún er beðin um að rifja upp það eftirminnilegasta í starfinu nefnir hún hiklaust hestamannakaffið og Þorrablótin, en mörgum kvenfélagskonum eru þeir viðburðir ofarlega í huga. „Hestamannakaffið var mjög eftirminnilegt. Það var alltaf gaman að halda það og var það orðinn reglulegur viðburður í sveitinni. Það var ekkert auðvelt því afgreiða þurfti milli fimm og sexhundruð gesti nánast á sömu stundu.

Tímarnir breyst mikið Hún segir að tímarnir hafi reyndar breyst mikið og starfið sömuleiðis. Hvers kyns fjáraflanir hafi verið stór hluti af starfinu. Safnað hafi verið í orgelsjóð Lágafellskirkju, keypt hefðu verið tæki í bíla hjá björgunarsveitinni, nýtt mjaltatæki í Heilsugæslustöðina, tækjabúnaður á Hlaðhamra, Hlégarður hafi verið byggður með stuðningi Kvenfélagsins og sundlaugin að Varmá. Kvenfélagið hafi stutt uppsetningu heimilisfræðistofu í Varmárskóla og margt fleira. Þá hafi skógrægt verið fastur liður í starfinu. Kvenfélagskonur hafi hist í skógræktinni í Skarhólamýri eina kvöldstund árlega og plantað. „Plönturnar komu frá Guðrúnu Hafsteins sem lét okkur þær í té endurgjaldslaust,“ bætir Valdís við. Hún nefnir einnig öll námskeiðin sem félagið hélt. „Það var mjög gaman að halda öll námskeiðin. Þegar við byrjuðum á þeim þurftum bókstaflega að moka út úr kjallaranum á Brúarlandi til að geta búið þar til aðstöðu. Við stofnuðum til að mynda myndlistarklúbb og vorum með mörg skemmtileg námskeið í myndlist sem gaf mörgum konum mikið. Konur sem héldu að þær gætu ekki neitt komust bara að því að þær gátu ýmislegt. Við máluðum á tré og postulín og svo að sjálfsögðu myndir. Sverrir Haraldsson listmálari kenndi á einu námskeiðinu

16

Valdís Ólafsdóttir, félagskona. og var það sérstaklega eftirminnilegt. Hann kveikti mikinn áhuga hjá okkur og miðlaði að einstakri þekkingu sinni,“ segir Valdís. Þegar rætt er um framtíð Kvenfélagsins segist Valdís á þeirri skoðun að breyta þurfi nafni félagsins til þess að gera það aðgengilegra. „Ég vil meina að nafn félagsins sé dálítið fráhrindandi fyrir þær sem ekki þekkja til. Nafnið Kvenfélag Lágafellssóknar bendir til þess að um kirkjustarf sé að ræða en svo er ekki. Við höfum rætt þetta í kvenfélaginu og velt því fyrir okkur hvort við ættum að breyta nafninu í Kvenfélag Mosfellsbæjar, það yrði meira lýsandi og ef til vill höfða betur til ungra kvenna, en við höfum ekkert gert í því enn að breyta því,“ segir hún að lokum.


Mikil sjálfsstyrking að vera í kvenfélaginu Fríða Bjarnadóttir gekk í kvenfélagið árið 1986 og hefur tvívegis verið formaður þess. Hún minnist ýmissa skemmtilegra viðburða sem félagið stóð fyrir. Þráum að fá yngri konur í starfið „Í gegnum árin hefur það verið mikil sjálfsstyrking að vera í félaginu og við þráum það innilega að fá yngri og ferskari konur til að taka við þessu starfi. Mig langar til að hvetja konur til að ganga í félagið, því þetta er mjög hvetjandi og gefandi starf. Þótt maður sé ekki að gera annað en sitja með handavinnu og spjalla, þá er það gott að geta spjallað um það sem er að gerast,“ segir Fríða.

Fríða Bjarnadóttir, félagskona.

„Við vorum oft búin að ræða það að leggja félagið niður þegar það verður 100 ára, en við ætlum nú ekki að gera það því við höfum fulla trú á því að það eigi eftir að fjölga í félaginu á nýjan leik,“ segir hún að lokum.

„Það eru margar skemmtilegar ferðirnar sem við höfum farið saman í,“ segir Fríða, „og ég á fjölda góðra minninga úr starfinu.“ Hún nefnir ferð um Borgarfjörðinn, ferðalag í Stykkishólm og Breiðafjörð, utanlandsferðir og margar fleiri. „Það hefur gefið mér rosalega mikið að hafa verið að stússast í þessu. Á erfiðleikatímum gerði það mikið fyrir mig að starfa í félaginu.“ Hún segir að því miður hafi hallað undan fæti hjá starfi félagsins undanfarin ár. „Við búum í þannig bæjarfélagi að hér er mikið félagsstarf og erfitt að höfða til kvenna í bænum. Áður fyrr var kvenfélagið kannski það eina sem konur höfðu fyrir stafni,“ segir Fríða. „Mig hefur alltaf langað rosalega að hægt væri að rífa upp starfsemina og fá fleiri ungar konur um borð,“ segir Fríða. „Ég held að það væri alveg hægt. Konur í dag halda að þær þurfi alltaf að prjóna og baka fyrir fundi, en það er bara liðin tíð. Við erum hættar í þessu basarstandi og farin að gera meira fyrir okkur sjálfar og gera meira í þágu heimabyggðar,“ segir hún.

17


Frumkvöðull og fyrirmynd annarra kvenna Helga Magnúsdóttir á Blikastöðum var merk heiðurskona sem átti ríkan þátt í starfi Kvenfélags Lágafellssóknar um árabil. Hún var framsýn og opin fyrir ýmsum nýjungum sem hún taldi vera til framfara fyrir sveitarfélagið. Hún varð oddviti Mosfellshrepps árið 1958 og var fyrsta konan sem gegndi því embætti á Íslandi. Salome Þorkelsdóttir leitar hér svara við spurningunni: „Hver var Helga Magnúsdóttir? Til þess að fræðast um Helgu Magnúsdóttur leitaði ég m.a. upplýsinga í bók sem ver heitið „Bóndinn faðir minn“. Í henni segir Helga frá föður sínum Magnúsi Þorlákssyni. Einnig leitaði ég í merka bók sem Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hefur ritað um föðursystur Helgu, Björgu Karitas Þorláksson. Á báðum þessum stöðum er ýmsan fróðleik að finna um forfeður Helgu og þann jarðveg sem hún er sprottin út. Helga Jónina eins og hún hét fullu nafni var fædd 18. september 1906 að Vesturhópshólum í Þverárhreppi, Vestur Húnavatnssýslu. Að henni stóðu sterkir stofnar embættismanna og bænda. Föðuramma hennar Margrét Jónsdóttir var dóttir hjónanna Bjargar Benediktsdóttur Vidalín og sr. Jóns Eiríkssonar prests að Undirfelli í Vatnsdal og afi hennar Þorlákur Símon Þorláksson, bóndi og hreppsstjóri, var sonur sr. Þorláks Stefánssonar, einnig prests að Undirfelli og síðari konu hans Sigurbjargar Jónsdóttur. Í Vesturhópshólum var vinnusemi í hávegum höfð og Margrét amma Helgu hélt börnum sínum að verki ekki síður en öðrum. Jafnhliða var hugsað fyrir bóklegri mennt barnanna og heimiliskennari haldinn þar á vetrum og á hverju kvöldi var lesinn húslestur. Daglegt líf í Vesturhópshólum einkenndist af iðjusemi og reglufestu og þar var lögð áhersla á uppfræðslu og menntir.

Dóttir hreppstjóra Margrét og Þorlákur eignuðust 5 börn og fjögur þeirra sem upp komust létu að sér kveða í íslensku þjóðlífi, hvert með sínum hætti. Sigurbjörg Jósefína var kennslukona í Reykjavík, Björg Karitas, rithöfundur og doktor frá

18

Sorbonne í París, Þorlákur Magnús faðir Helgu, bóndi og hreppstjóri og Jón verkfræðingur, forsætisráðherra og borgarstjóri í Reykjavík. Öll höfðu þau leitað sér menntunar erlendis. Magnús (sem hét fullu nafni Þorlákur Magnús) faðir Helgu og fyrri kona hans Marsibil Jónsdóttir giftust 1903 og tóku við jörðinni Vesturhópshólum 1907. Þau eignuðust fjögur börn, en árið 1908 hafði Magnús misst konu sína Marsibil og tvö börnin Margréti sem var elst og eina soninn Þorlák sem var yngstur barnanna. Átti hann þá aðeins eftir tvær dætur Sigurbjörgu og Helgu og einnig flutti Margrét móðir hans með honum til að annast systurnar. Þegar suður var komið keypti Magnús Blikastaði í Mosfellssveit, sem þá var „örreytiskot“. En með óbilandi atorku og dugnaði breytti hann þessari jörð í stórbýli. Og þarf nú ekki að hafa mörg orð þar um, reisulegar byggingar og túnin á Blikastöðum blasa enn við þeim sem ferðast um Vesturlandsveginn þó að almennur búskapur hafi nú lagst þar af. Magnús faðir Helgu kvæntist síðari konu sinni, Kristínu Ingunni Jósafatsdóttur, árið 1910. Hún var ættuð úr austur Húnavatnssýslu.

Sneri öllu til góðs Magnús og Kristín eignuðust tvo drengi, sem þau misstu fárra daga gamla og varð þeim ekki fleiri barna auðið. Kristín gekk dætrum Magnúsar þeim Sigurbjörgu og Helgu sem þá var 4 ára í móðurstað. Um Kristínu er sagt „að hún hafi verið frábærlega góð móðir og húsmóðir er snéri öllu til góðs á heimili sínu með glaðværð, geðprýði og drenglyndi og mun rígur eða illindi aldrei hafa mátt þrífas í námunda við hana.“ Á þessum tíma var ekki venja að sækja skemmtanir á hverju kvöldi út af heimilinu, heldur safnast saman að dagsverki loknu og farið í leiki, lesið, sundið og spilað á ljóðfæri eða gripið í spil allt eftir árstíðum. Þau hjón Kristín og Magnús voru bæði gestrisin og gripu oft í spil þegar gesti bar að garði. Kristín starfaði mikið í Kvenfélagi Lágafellssóknar. Var formaður þess í mörg ár og að síðustu heiðursfélagi. Hún var einn af stofnendum Kvenfélagasambands Gullbringuog Kjósarsýslu árið 1929 og formaður þess fyrstu 20 árin. Magnúsi föður Helgu dugðu ekki bústörfin til að svala athafnaþrá sinni, hann var mikill félagsmálamaður og kom víða við í málefnum sveitar sinnar og framfara- og félags málum héraðsins og bændastéttarinnar í heild. Hann var lengstum í hreppsnefnd og oddviti í mörg ár, formaður Búnaðarfélags Mosfellshrepps, og Búnaðars-


Björg föðursystir Helgu var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi. Og var brautryðjandi meðal íslenskra kvenna á sviðum vísinda og fræða. Hún var rithöfundur og doktor frá Sorbonne í París, fyrri kona Sigfúsar Blöndal sem gaf út íslensk/dönsku orðabókina, og er talið að Björg hafi átt stóran hlut í samningu þeirra bókar, þó að hennar sé að litlu getið í því sambandi. Í ævisögu Sigríðar Dúnu um Björgu kemur fram að þær systur Helga og Sigurbjörg voru í nánu sambandi við Björgu frænku sína, sem þær báru mikla virðingu fyrir. Björg fór ævinlega að Blikastöðum þegar hún kom til Íslands og heimsótti bróður sinn Magnús og fjölskyldu hans. Þegar Helga og Sigurbjörg uxu úr grasi urðu þær miklar vinkonur Bjargar og hún vildi allt fyrir bróðurdætur sínar gera og þær fyrir hana. Hún reyndist þeim vel og studdi þær og aðstoðaði eftir þörfum ekki síst meðan þær stunduðu námið í Kaupmannahöfn.

Helga Magnúsdóttir ambands Kjalarnesþings, sat á Búnaðarþingi, í stjórn Mjólkurfélags Reykjavíkur, og Búnaðarfélags Íslands auk margra annarra nefndarstarfa. Hann var annálaður fyrir vinnusemi; þótti nokkuð aðhaldssamur húsbóndi, og var sagt að hann hafi ætíð þurft og viljað vera viss um að eiga fyrir útgjöldum. Þau hjón bjuggu rausnarbúi á Blikastöðum þar til Magnús lést árið 1942 (en Kristín 1960).

Lauk Kvennaskólaprófi Helga lauk námi við Kvennaskólann í Reykjavík 1924. Hún og Sigurbjörg systir hennar sem giftist dönskum manni voru við nám í Kaupmannahöfn á sama tíma og Björg föðursystir þeirra dvaldi þar. Sigurbjörg stundaði nám í fótsnyrtingu en Helga verslunarnám við Købmandsskolen í Kaupmannahöfn 1930-31. Skólanum lauk síðari hluta septembermánaðar og tók hún þá burtfararpróf ásamt fleiri Íslendingum sem þar stunduðu nám. Þeir náðu allir góðu prófi og segir Guðlaugur Gíslason, fyrrverandi alþingismaður, frá Vestmannaeyjum, sem var einn af skólafélögum hennar, frá því í æviminningum sínum að Helga hafi hlotið hæstu einkunn í hópnum enda afburða námsmaður. Að loknu því námi vann hún skrifstofustörf í Reykjavík á árunum 1931-41, hjá Mjólkurfélagi Reykjavíkum Mjólkursamsölunni og Mjólkursamlagi Kjalarnesþings.

Menntun kvenna og nauðsyn þess að konur hefðu sama rétt til að menna sig og karlar varð eitt af hjartans málum Bjargar. Hún var uppi á þeim tíma sem konur áttu ekki upp á pallborðið í þeim efnum og leið fyrir kynferði sitt. Undir lok ævinnar lét hún svo um mælt um bróðurdætur sínar, þær Sigurbjörgu og Helgu að hún vonaðist til að þær fengju tækifæri til að þroska hæfileika sína á Íslandi enda ættu þær fleiri kosta völ þar, en þegar hún var ung. Það sem ég hef þegar skrifað hér er byggt á þeim fróðleik sem er að finna í bókum Sigríðar Dúnu um Björgu og það sem Helga ritar um föður sinn og ég hef áður skýrt frá. Jafnframt hef ég átt viðræður við Sigstein eiginmann Helgu.

Stórhugur og myndarskapur Helga giftist árið 1939 Sigsteini Pálssyni sem ættaður var frá Tungu í Fáskrúðsfirði, og tóku þau hjón við búi á Blikastöðum eftir föður hennar. Þau eignuðust tvö börn, Kristínu kennara og Magnús bygginga- og bútækniráðunaut hjá Búnaðarfélagi Íslands. Hann sat í hreppsnefnd og var oddviti Mosfellshrepps 1982-87. Eins og áður sagði ber jörðin Blikastaðir vitni stórhugar og myndarskapar enda þau hjón Helga og Sigsteinn vel þekkt og nutu virðingar innan sveitar og utan fyrir myndarskap og dugnað við búreksturinn. Ég kynntist Helgu þegar ég var nýflutt í Mosfellssveit fyrir 60 árum, þá 21 árs að aldri. Mér er það minnisstætt þegar ég sá hana fyrst. Það hafði verið boðaður fundur í Kvenfélagi Lágafellssóknar, í gegnum sveitasímann eins og þá tíðkaðist, og látið berast að nýjar konur bæru velkomnar í félagið. Það má segja að það hafi verið í barnaskap mínum að ég fór á þennan fund sem haldinn var á Litlalandi heima hjá

19


Helgu heitinni Magnúsdóttur, ljósmóður. Ég hélt að allar konur gengu jú kvenfélagið! En á þessum tíma voru fundir haldnir á heimilum félagskvenna til skiptis, þá var ekki kostur á húsnæði en Hlégarður var einmitt í byggingu og var tekinn í notkun árið 1951. Eftir það voru félagsfundir haldnir í félagsheimilinu. Þegar ákvarða skyldi næsta fund reis ein félagskona úr sæti sínu, sem ég vissi ekki þá hver var, en það var Helga, og bauð að fundurinn yrði haldinn heima hjá henni á Blikastöðum. Á þessum tíma var Kristrún heitin Eyvindsdóttir í Starfdal formaður félagsins. Ég má til með að skjóta því hér inn að í kvenfélaginu voru margar frábærar og hæfileikaríkar konur, sem sópaði af og létu til sín taka á fundum.

Formaður 1951-64 Svo var það árið 1951 að stjórnarskipti urðu í kvenfélaginu og Helga var kosin formaður félagsins. Hún gegndi því embætti til ársins 1964. Á þessum tíma var starfsemi kvenfélaganna í landinu með miklum blóma, enda sá vettvangur heima í héraði, sem konur höfðu til að vinna að sínum áhugamálum. Flestar voru heimavinnandi húsmæður og fundir haldnir á eftirmiðdögum. Helga lagði ríka áherslu á að virkja ungar og óreyndar konur í félaginu til þátttöku í félagsstarfinu og fela þeim ýmis verkefni sem upp komu. Má segja að það hafi verið góður skóli að starfa undir hennar handarjaðri. Hún var framsýn og opin fyrir ýmsum nýjungum sem hún taldi vera til framfara fyrir sveitarfélagið og ekki síst í því sem sneri að skólunum, m.a. var á vegum kvenfélagsins ráðinn danskennari úr Reykjavík og komið á dans-kennslu skólabarnanna sem haldin var í Hlégarði. Einnig var píanó og kvikmyndasýningavél keypt og gefin skólunum. Þetta hljómar kannski dálítið undarlega nú á nýrri öld tækni og framfara, en á þessum tíma voru slíkar gjafir vel þegnar og ekki sjálfsagður hlutur hvorki á heimilum eða skólum. Helga var kölluð til margvíslegra trúnaðarstarfa utan heimabyggðar. Hún var formaður Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu 1948-66, formaður Kvenfélagasambands Íslands 1963-71 og í aðalstjórn Kvenfélagasambands Norðurlanda á sama tíma. Þá var hún í stjórn Húsmæðra-kennaraskóla Íslands í nokkur ár. Kosin í Landsdóm af Alþingi 1969 til 6 ára og endur kosin næsta tímabil. Hún var heiðursfélagi Kvenfélags Lágafellssóknar og Kvenfélagasambands Íslands. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu 1969 og Stórriddarakrossi 1976.

Salome Þorkelsdóttir, Auður Sveinsdóttir, Halldóra á Mosfelli og Anna Bjarnason. 1954-62 og var kosin varaoddviti 1958 en tók við oddvitastörfum í ágúst sama ár eftir að Magnús Sveinsson oddviti féll frá. Helga var fyrsta konan sem gegndi störfum oddvita í hreppsnefndum á Íslandi og reyndar fyrsta konan sem var kosin í hreppsnefndina. Í oddvitatíð hennar var tekin ákvörðun um framtíðarskipulag skóla- og íþróttasvæðis að Varmá og hafist handa við byggingu nýs barnaskóla og sundlaugar. Hvorutveggja eru mannvirki sem standa enn fyrir sínu á hinu glæsilega íþróttasvæði að Varmá. Jafnframt því að standa fyrir heimili og stórbúi gegndi hún oddvitastarfi frá heimili sínum en oddvitinn var í senn líka innheimtumaður sveitafélagsins og því áreiðanlega oft í ónæðissamt á heimilinu vegna þeirra sem áttu við hana erindi. Á þessum tíma voru nú ekki bílar á hverjum bæ og nokkur spölur að Blikastöðum en til að koma til móts við íbúana kom hún jafnframt á laugardagsmorgnum með tösku sína í Hlégarð og tók þar á móti íbúum sem áttu erindi við oddvitann. Það er svo strax á næsta kjörtímabili eftir að Helga lét af embætti að ráðinn var sveitarstjóri og hreppsskrifstofa sett á laggirnar í Hlégarði.

Fyrsta konan í stóli oddvita

Mér er það mississtætt þegar leitað var til mín að gefa kost á mér í framboð til hreppsnefndar fyrir kosningar 192, að það kom ekki til greina af minni hálfu, ef Helga gæfi kost á sér áfram! Það var ekki fyrr en eftir að ég fór til Helgu og fékk það staðfest að hún ætlaði ekki aftur í frambið að ég gaf kost á mér!!! Svona var nú hugsunarhátturinn þá!! Helga var ávallt reiðubúin að veita mér góð ráð og stuðning á mínum fyrstu árum á þeim vettvangi, enda ég alls óvön og blaut á bak við bæði eyrum ef svo má að orði komast.

Á sjötta áratug síðustu aldar var hlutur kvenna ekki stór í sveitastjórnum. En Helga var snemma kölluð til starfa á þeim vettvangi og sat í hreppsnefnd Mosfellshrepps

Eins og ég nefndi hér áður stóð Helga fyrir mannmörgu myndarlegu heimili að Blikastöðum en hún og eiginmaður

20


Félagskonur í Kvenfélagi Lágafellssóknar í samsæti í Reykjavík seint á 6. áratugnum. Myndin er tekin heima hjá mæðgunum Mörtu Maríu Hálfdanardóttur og Láru Skúladóttur Norðdahl frá Mosfelli. hennar Sigsteinn Pálsson, bóndi og sem einnig gegndi embætti hreppsstjóra í 20 ár frá 1964-84 ráku stórbú sem orð fór af fyrir myndarskap í hvívetna. Til marks um það má nefna að þegar varaforseti Bandaríkjanna Lyndon B. Johnson og eiginkona hans Lady Bird komu í opinbera heimsókn til Íslands í september árið 1963, óskaði Lady Bird eftir að koma á íslenskan bóndabæ. Það var leitað til þeirra hjóna Helgu og Sigsteins um að taka á móti varaforsetafrúnni og fylgdarliði hennar. Það eru ánægjulegar minningar frá þeirri heimsókn, en Helga bauð okkur nokkrum kvenfélagskonum að vera viðstaddar og áttum við að klæðast íslenskum búningi. Þegar varaforsetafrúin og fylgdarlið komu í hlað á Blikastöðum stóðu hjónin Helga og Sigsteinn úti á hlaði ásamt okkur kvenfélagskonunum og heilsuðu gestum. Það má geta nærri að það var eftirminnileg upplifun á þeim tíma fyrir okkur að fá tækifæri til að hitta og drekka eftirmiðdagskaffi á myndarlegu heimili þeirra hjóna með svo virðulegum gestum.

vanheilsu að stríða seinustu árin sem hún lifði, en hélt andlegri reisn til hinstu stundar. Hún lést árið 1999. Þau hjón voru afar samrýmd og ég tel mig vita með vissu að þau áttu góðan stuðning hvors annars í þeim margvíslegu verkefnum sem þau tóku sér fyrir hendur, bæði á sviði félagsmála og við búreksturinn. Sigsteinn er nú orðinn 103 ára og býr enn að Hlaðhörhömrum við góða andlega og sæmilega líkamlega heilsu. Þau hjón Helga og Sigsteinn voru bændahöfðingjar í þess orðs fyllstu merkingu. Ég vil ljúka þessum minningum mínum um Helgu Magnúsdóttur á Blikastöðum með því að þakka Bæjarstjórn Mosfellsbæjar fyrir þá ákvörðun að heiðra minningu merkrar konu með því að gera fæðingardag hennar 18. september að árlegum Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar. Salome Þorkelsdóttir. Unnið upp úr erindi sem flutt var á Jafnréttisþingi í Mosfellsbæ 18. september 2008

Þó að starfsvettvangur Helgu á félagsmálasviðinu hafi fyrst og fremst verið á vettvangi sveitastjórnarmála og kvenfélaganna þá lét hún sig einnig varða landsmálin og var virk í starfi innan Sjálfstæðisflokksins. Það var alltaf uppbyggilegt og gott að eiga samræður við þau hjón Helgu og Sigstein hvort sem um var að ræða landsmálin eða málefni líðandi stundar heima í héraði. Eftir að hafa búið á Blikastöðum í 50 ár fluttu Helga og Sigsteinn árið 1992 að Hlaðhömrum í íbúð aldraðra, og áttu þar saman nokkur góð ár. Helga átti við nokkra

21


100 ára afmæli Kvenfélags Lágafellssóknar Afmælishátið 30. desember 2009 haldin í Hlégarði. Dagskrá: Lúðrasveit Mosfellsbæjar áður en formleg dagskrá hefst. 1. Ingimunda Loftsdóttir, formaður Kvenfélags Lágafellssóknar, flytur setningarávarp. 2. Valgerður Magnúsdóttir tekur við veislustjórn. 3. Kórsöngur - Skólakór Varmárskóla, stjórnandi Guðmundur Ómar Óskarsson. 4. Ávörp: Formaður K.Í. Sigurlaug G. Viborg. Formaður K.S.G.K Sigríður Finnbjörnsdóttir. Bæjarstjóri Mosfellsbæjar Haraldur Sverrisson. 5. Tónlistaratriði: Anna Guðný Guðmundsdóttir bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2002 og Sigurður Ingvi Snorrason bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2009 leika. 6. Ólöf Örnólfsdóttir flytur ágrip af sögu Kvenfélagsins. 7. Tónlistaratriði: Anna Guðný Guðmundsdóttir og Sigurður Ingvi Snorrason. 8. Tilkynnt um heiðursfélaga. 9. Ingimunda Loftsdóttir formaður kvenfélagsins flytur ávarp og slítur hátíðinni.

22


23


24


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.