Hávaðamengun

Page 1

AÐGERÐIR TIL AÐ MINNKA UMFERÐARHÁVAÐA

frá Vesturlandsvegi að Landa- og Ásahverfi í Mosfellsbæ Jarðvegsmanir og gróðursetning

Mars 2012


Inngangur Vesturlandsvegur er mikil umferðargata og um veginn meðfram Landa- og Ásahverfi fara um 10 þúsund bílar á sólarhring. Umferðinni fylgir hávaði og var umferðarhávaði við hús næst Vesturlandsveginum kominn upp í 60-64 dB áður en farið var í mótvægisaðgerðir. Slíkur hávaði er mjög óæskilegur þannig að íbúar forðast að dvelja í slíkum hávaða. Vegna mikillar umferðar um Vesturlandsveg var ákveðið að breikka veginn árið 2009. Jafnframt var ákveðið að gera ráðstafanir til að minnka umferðarhávaða við hús nærri Vesturlandsveginum.


Þverholti 2 - 270 Mosfellsbær - Sími 525 6700 - mos@mos.is - www.mos.is



Hljóð og hávaði Hljóð er bylgjuhreyfing í lofti. Eðlisfræðilega er enginn munur á hávaða og hljóði en frá sálrænu sjónarhorni er hljóð upplifun. Hávaði er hins vegar skilgreindur sem óæskilegt eða skaðlegt hljóð. Hávaði er talinn eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Þó hávaði sé ekki lífshættulegur getur hann haft mikil áhrif á heilsu okkar og lífsgæði. Áhrif hans fara eftir því af hvaða toga hávaðinn er, tíðnisviði hans og styrkleika, hvernig hann breytist með tímanum og á hvaða tíma sólarhringsins við heyrum hann. Mælieining fyrir hljóð er desiBel (dB) sem er lógaritmískur skali þannig að 3ja dB hækkun á hljóðstigi jafngildir tvöföldun á styrkleika þess. Til þess að taka tillit til breytilegrar næmni mannseyrans fyrir mismunandi tíðni hljóðs er við mælingar beitt ákveðinni síu og er þá talað um dB(A). Venjulegt samtal getur verið um 60 dB. Fari hávaði yfir ákveðin mörk getur hann farið að valda heyrnarskemmdum. Hættumörk eru talin vera við 80-85 dB jafngildishljóðstig eða við styttri hljóðtoppa 120-130 dB. Hætta á heyrnarskaða eykst með auknum hljóðstyrk og lengd þess tíma sem dvalið er í hávaða.

dB(A) Lofthöggbor í 40 m fjarlægð

110

Þota í flugtaki í 200m fjarlægð

90 Hæsta hljóðstig inni í íbúð við umferðargötu

70

Meðalhljóðstig á gangstétt við mikla umferðargötu

Venjuleg rödd í 1 m fjarlægð

50 Suð í ísskáp

30 Þytur í laufi í hægum vindi

10


Mótvægisaðgerðir Meðfylgjandi teikning 1 sýnir umferðarhávaða við hús meðfram Vesturlandsvegi áður en farið var í framkvæmdir og mótvægisaðgerðir árið 2009. Umferðarhávaði var of mikill, sérstaklega sunnan við Ásland að hringtorgi við Álafossveg. Í tengslum við breikkun Vesturlandsvegar var ákveðið að fara í mótvægisaðgerðir sem felast í að byggja jarðvegsmön meðfram Vesturlandsveginum og setja timburvegg ofan á jarðvegsmönina þar sem þörf er á enn frekari skermun frá hávaðanum. Ekki er búið að ljúka við þær mótvægisaðgerðir sem fyrirhugaðar eru. Búið er að byggja jarðvegsmön en skermveggir sem eiga að koma ofan á jarðvegsmanirnar hafa ekki verið byggðir. Hljóðmanir og skermveggir þurfa að vera það háir að hlustandinn sjái ekki farartækið á Vesturlandsveginum. Ef dregin er bein lína frá hlustandanum að dekkjum farartækis á Vesturlandsvegi, þá þarf skermveggur/jarðvegsmön að standa upp fyrir þessa sjónlínu. Því hærra sem veggurinn nær upp fyrir þessa sjónlínu þeim mun meiri dempun verður á umferðarhávaðanum. Skermveggurinn þarf að vera þéttur þannig að loft komist ekki undir hann og helst án opa. Ef koma þarf fyrir gönguleið í gegnum skermvegginn skal það gert þannig að tveir sjálfstæðir skermveggir

séu látnir skarast og gönguleið sé á milli skermveggjanna. Skörun skermveggjanna þarf að vera lengri en bil milli veggjanna. Teikning 2 sýnir jarðvegsmönina sem ákveðið var að byggja til mótvægis umferðarhávaða og staðsetningu skermveggja. Teikningin sýnir einnig staðsetningu sniða, sem sýnd eru á teikningum 3 og 4. Sniðteikningar 3 og 4 sýna með brotinni línu yfirborð lands fyrir framkvæmdir árið 2009. Landyfirborð eftir að jarðvegsmönin hefur verið byggð er sýnt með heilli línu. Við hvert hús á sniðunum er sýnt reiknað hljóðstig fyrir og eftir framkvæmdir. Teikning 5 er loftmynd sem sýnir reiknað hljóðstig við hús meðfram Vesturlandsvegi þegar lokið hefur verið við mótvægisaðgerðir, það er, byggingu jarðvegsmanar og skermveggja. Eins og áður sagði er þessari framkvæmd ekki lokið því eftir er að byggja skermveggi ofan á jarðvegsmönina. Eins og þessi gögn sýna munu áætlaðar mótvægisaðgerðir hafa umtalsverð áhrif til lækkunar umferðarhávaða í hverfinu. Hljóðstig við hús mun í flestum tilvikum verða minna en 55 dB(A), sem er viðunandi árangur.


Yfirborðsfrágangur jarðvegsmana Svæðið meðfram Vesturlandsvegi við Landa- og Ásahverfi hefur löngum verið kennileiti þeirra fjölmörgu sem eiga leið um Vesturlandsveg. Brekkan og gróskulegur trjágróðurinn öðrum megin og útsýnið yfir Varmá og Leiruvoginn hinum megin. Vilji er til þess að þetta svæði verði áfram fallegt kennileiti og mikilvægur hluti af ásýnd bæjarins. Við gerð jarðvegsmananna hefur verið reynt að halda í sem stærstan hluta af núverandi trjáröð. Gerð jarðvegsmananna og komandi skermveggur á suðurmöninni, sem mun standa á manartoppnum, veldur því að trjáröðin er ekki í eins góðum tengslum við Vesturlandsveginn og áður. Til að fegra jarðvegsmanirnar og um leið halda í hina gróskumiklu ásýnd hverfisins er ráðgert að útbúa stór gróðurbeð með fjölbreyttum trjá- og runnagróðri. Beðin verða alls 10 talsins með 26 tegundum og yfir 2000 plöntum. Við ákvörðun tegunda og samsetningar í beðin var tekið tillit til harðgerðis, blómgunar og haustlita. Sem dæmi um tegundir má nefna birki, stafafuru, fagursýrenu, birkikvist, bersarunna, rifstegundir, gljámispil, rósir, geislasóp og runnamuru. Á teikningu 5 má sjá hvar gróðurbeðin verða staðsett í jarðvegsmönunum og dæmi um gróðurplan.







Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.