2 minute read
Berglind Guðmundsdóttir
Ég hef í gegnum tíðina keypt vítamín en hætt að taka þau þegar líðanin hefur batnað. En eftir því sem aldurinn færist yfir þá hef ég fundið fyrir mikilvægi þess að taka inn bætiefni að staðaldri, að sjálfsögðu með staðgóðu mataræði.
Ég, ásamt svo mörgum öðrum konum, glími af og til við járnskort og þarf að passa mig að taka járn reglulega. Járnskorturinn laumast aftan að manni og allt í einu er það orðið eðlilegt að vera stöðugt þreytt, móð og orkulítil. Sem betur fer er ég orðin meðvitaðri um þetta og fer reglulega í blóðprufu. Það sem skiptir máli við inntöku járns er að sjálfsögðu virknin og einnig að sleppa við aukaverkunina sem fylgir mörgum tegundum af járni, en það eru magaverkir.
Nýlega greindist ég svo með B12 skort en það lýsti sér svipað og járnskorturinn. Sama hvað ég svaf mikið þá þráði ég ekkert heitar en að leggjast niður og sofna. Það er gríðarleg skerðing á lífsgæðum að upplifa svona mikla þreytu og mjög gott að fá úr því skorið að þetta væri ekki komið til að vera heldur einfaldalega skortur á B12 sem hægt er að bæta upp. Auk þess að upplifa mikla þreytu þá hafði ég í nokkurn tíma fundið fyrir náladofa í útlimum sem er ein af aukaverkunum B-vítamínsskorts.
Annað bætiefni sem ég tek að staðaldri er magnesíum sem gefur mér góðan nætursvefn og hefur jákvæð áhrif á taugakerfið. Það virkar líka vel gegn fótapirringi sem ég glími stundum við. Eins er D-vítamín bráðnauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga. Ég man þegar ég vann sem hjúkrunarfræðingur og sá niðurstöður úr gríðarlega mörgum blóðprufum sem gerðar voru á börnum. Þar sá maður svart á hvítu að langflest glímdu þau við D-vítamínskort og sum mjög alvarlegan. Einkenni D-vítamínskorts geta verið þreyta, slen, veikt ónæmiskerfi, skapsveiflur, leiði og jafnvel þunglyndi, hárlos og vöðvaverkir. Skilaboðin sem ég vil senda út er að passa sig að taka ekki einkennum eins og til dæmis þreytu, sleni og depurð sem sjálfsögðum hlut. Þetta ásamt svo mörgu öðru er eitthvað sem mikilvægt er að gefa gaum og láta kanna með læknisheimsókn og blóðprufu. Hver dagur er dýrmætur og við viljum gera það sem við getum til þess að vera upp á okkar besta bæði andlega og líkamlega. Berglind Guðmundsdóttir er hjúkrunarfræðingur, ástríðukokkur og athafnakona. Hún hefur frá árinu 2012 haldið úti vefsíðunni Gulur, rauður, grænn og salt, sem er eitt vinsælasta matarblogg landsins, og gefið út þrjár matreiðslubækur. Berglind er einn af þáttastjórnendum Dagmála á mbl.is ásamt því að taka að sér ýmis verkefni sem tengjast uppskriftasíðunni. Síðustu mánuði hefur hún bólusett landann í hjáverkum. Ásamt þessu rekur hún stórt heimili með fjórum börnum og kettinum Kókos.