3 minute read
Að byggja á góðum grunni
Una Emilsdóttir fer hér yfir nokkur atriði sem gott er að temja sér við val á matvælum ungbarna.
Á síðustu áratugum hefur skilningur okkar á mikilvægi næringar fyrir nýbura og börn aukist verulega. Þetta á til dæmis við um aukna þekkingu á æskilegri samsetningu næringarefna, mikilvægi góðgerla, hvenær hæfilegt sé að kynna meltingarkerfi ungbarna fyrir hugsanlegum ofnæmisvökum og fleira. Í takt við þá vaxandi þekkingu hafa framleiðendur matvæla, sem ætluð eru fyrir ungbörn, gert mikilfenglegar betrumbætur á framleiðslu sinni síðan fyrsta tilbúna varan kom á markað um 1865 . Samsetning matvælanna þarf þar að auki að uppfylla strangar kröfur reglugerðar Evrópusambandsins, til að tryggja að ungbörn fái sem flest nauðsynleg næringarefni, svo sem vítamín, steinefni, prótein, kolvetni og fitu - og það í réttum hlutföllum.
En hvers vegna er slíkur metnaður lagður í matvæli fyrir ungbörn? Jú, það er vegna þess, að rannsóknir hafa sýnt fram á að næring fyrstu mánuði og ár í lífi barna (fyrir utan næringu móður á meðgöngu) sé afgerandi fyrir framtíðarheilsu þeirra, og það sem meira er - einn þriggja mest afgerandi þátta fyrir heilastarfsemi þeirra. Það er nefnilega þannig, að þó svo að vitrænir, félagslegir og tilfinningalegir hlutar heilans haldi áfram að þróast alla ævi, þá er þroskaferli og vöxtur hans mismikill eftir tímabilum. Rannsóknir sýna fram á að mikill hluti af endanlegri uppbyggingu og getu heilans mótist fyrir 3ja ára aldur. Þetta eru stór tíðindi. Það að fyrstu árin séu skilgreind sem sérstaklega viðkvæmt tímabil er dýrmæt þekking sem hefur haft áhrif á stefnumótun stjórnvalda varðandi heilbrigði barna víða um heim. Röskun af einhverju tagi í þróun heilans er alvarlegt vandamál þar sem hún getur haft langtímaafleiðingar með tilliti til menntunar, atvinnumöguleika og geðheilsu á fullorðinsárum. Þá er helst tvennt sem þarf að gæta að. Matvælin þurfa að vera næringarrík en ekki síður vera laus við óæskileg aukefni og mengun með iðnaðarefnum. Það er því full ástæða fyrir uppalendur barna að vanda sig verulega þegar kemur að því að velja matvæli þeirra og velja einungis vörur frá áreiðanlegum framleiðendum.
Gott er að notast við lífræna vottun Evrópusambandsins, en slík vottun bannar notkun fjölda efna, tilbúins áburðar, erfðatækni í plönturæktun, notkun gervilitarefna, vaxtarhormóna, rotvarnarefna og bragðefna. Þessu til stuðnings hafa íhlutunarrannsóknir sýnt að þegar mataræði barna var breytt úr hefðbundnu yfir í lífrænt, lækkuðu mælanleg umbrotsefni skordýraeiturs í þvagi þeirra niður í næstum ógreinanlegt magn. Þar að auki hafa rannsóknir sýnt fram á að lífræn matvæli innihaldi að jafnaði marktækt meira magn af C-vítamíni, járni, magnesíum og fosfór en sambærileg ólífræn tegund.
Hér er vert að nefna að sum framleiðslufyrirtæki leggja gríðarlega mikla áherslu á hrein og góð hráefni, sérstaklega fyrir þau allra minnstu. HIPP er dæmi um fyrirtæki með lífræna vottun sem fer skrefinu lengra í gæðaeftirliti á framleiðslu sinni. Þar eru gerð fjölmörg og endurtekin gæðapróf þar sem yfir 1000 efni eru mæld í matvælunum og viðmið þeirra um ásættanlegt magn varnarefna í barnamat eru töluvert kröfuharðari en þær reglur sem Evrópusambandið kveður á um. Þessu til viðbótar leggur fyrirtækið mikla áherslu á umhverfisvernd og hefur fyrirtækið hlotið viðskiptaverðlaun Sameinuðu þjóðanna til viðurkenningar fyrir það. Ræktunar- og framleiðsluaðferðir fyrirtækisins eru sannarlega til fyrirmyndar og stuðla ekki einungis að því ungbörn fái hreina og næringarríka fæðu, heldur tryggja líka að framleiðsluferli matvælanna og umbúða þeirra séu loftslags-hlutlaus og kolefnisjöfnuð, bjóða upp á val um plastlausar umbúðir og beita sér einnig fyrir velferð dýra og rannsóknum til að halda vörð um líffræðilega fjölbreytni (e. biodiversity).
Okkur er vitaskuld annt um börnin okkar og þeirra velferð, en gleymum ekki mikilvægi þess að standa einnig vörð um jörðina sem þau og komandi afkomendur okkur munu búa á. Við sem neytendur höfum hér töluverðan áhrifamátt, því í hvert sinn sem við kaupum vörur frá ábyrgum fyrirtækjum sem leggja akkúrat áherslur á þessi sömu gildi, gefum við þeim okkar atkvæði og tökum þar með þátt í að skapa eftirspurn eftir hollum vörum, örvum vistvænar framleiðsluaðferðir og sköpum betra umhverfi.