3 minute read

Öndum okkur í gegnum þetta

Björgvin Páll Gústavsson er þekktastur fyrir afrek sín inni á handboltavellinum en hann er líka menntaður bakari með: BS í Viðskiptafræði, íþrótta- og einkaþjálfarapróf, öndunarþjálfari frá bæði Buteyko og Oxygen Advantage og verðandi NLP markþjálfari.

Öndum okkur í gegnum þetta

Nú þegar ég er kominn heim eftir 11 ár sem atvinnumaður í handbolta verður mér hugsað til orða sem góður maður sagði við mig á leið minni út: „Aldrei að spara þegar kemur að húsnæði eða mat“. Það tók mig smá tíma að átta mig en þegar leið á fór ég að sjá mikilvægi þess að láta mér líða vel heima – og eins hversu mikilvægt það er að næra líkamann til þess að fúnkera bæði innan vallar sem utan.

Fyrir íþróttamann snýst allt um að hámarka sjálfan sig og halda heilsu. Það getur oft verið flókið samspil í heimi sem er fullur af streitu, áreiti, pressu og öðru andlegu álagi. Ég hef verið duglegur að prófa hluti en það var ekki fyrr en síðustu ár sem ég fann týnda hlekkinní minni andlegu heilsu – rétta öndun. Öndun hefur áhrif á allt; hvernig okkur líður, hvernig við stöndum okkur inni á vellinum og meira að segja hvernig við meltum matinn okkar.

Í upphafi skal öndun skoða

Ég hef verið með öndun á heilanum síðustu ár en oft þegar ég byrja að tala um öndun er einhver grínari tilbúinn að henda í: „Ég hef nú andað meira eða minna síðan ég fæddist.” Vandamálið er hins vegar að flest öndum við of mikið miðað við þörf. Oföndun er fyrirbæri sem við skiljum sífellt betur en talið er að við öndum 15 sinnum á mínútu að meðaltali. Sú tala æpir ekki á okkur fyrr en að við skoðum t.d. tölur frá 1929, en þá andaði fólk að að meðaltali 4,9 andardrætti á mínútu. Umhverfi okkar hefur breyst mikið á þessum annars stutta tíma. Þetta gæti útskýrt að hluta til hvernig fólk gat átt 10 börn hér áður fyrr! Og eins af hverju hlutir eins og kulnun þekktust ekki. Mikil einföldun auðvitað en þessar tölur ríma ágætlega við þá auknu streitu sem fylgir okkar tímum.

Það þekkja flestir kvöldmatartímann sem einkennist af stressuðu foreldrunum og börnunum sem annaðhvort geta ekki setið kyrr eða borða ekki matinn sinn.

Streita

Matur getur verið stór streituvaldur í okkar lífi en strax bara spurningin: „Hvað á að vera í matinn?“ getur valdið manni streitu. Eins það að fylgja ákveðnu mataræði eða fara í „megrun”, sem snýst oft um að æfa meira og borða minna. Það er ekki vænlegt til árangurs, því þá erum við farin að bæta streitu ofan á streitu. Í flestum tilvikum endar það á að fólk gefst upp og týnir hvatningunni, enda er hvatningin það fyrsta sem hverfur með orkuleysinu. Með því að setja inn aðra breytuna fyrst, t.d. æfa meira, og velta svo fyrir sér mataræðinu, þegar mesta streitan er yfirstaðin, þá aukum við líkur á árangri. Eins það að velja að borða hollari og næringarríkari mat frekar en að einbeita sér að því að borða bara minna.

Við matarborðið

Það þekkja flestir kvöldmatartímann sem einkennist af stressuðu foreldrunum og börnunum sem annaðhvort geta ekki setið kyrr eða borða ekki matinn sinn. Hvað veldur því að þessi stund, sem á að vera tíminn þar sem að fjölskyldan sameinast eftir daginn og ætlar njóta saman kvöldmatar, endar ekki eins og planað var? Gæti það spilað inn í þegar við setjumst við borðið að við séum hreinlega ekki í ástandi til þess að borða? Mamma og pabbi búin að vera á milljón allan daginn, fara svo beint að undirbúa matinn og krakkarnir á sama tíma sett fyrir framan sjónvarpið, í iPad-inn eða símann til þess að „róa” þau niður? Hvað er til ráða? Eitt af því sem að hefur virkað vel á mínu heimili er mataröndun. Öndunaræfing sem er nokkuð einföld í framkvæmd:

∙ Setjum upp 5 fingur og ímyndum okkar að fingurnir séu kerti

∙ Drögum djúpt andann ofan í maga í gegnum nefið og blásum svo á rólega og fellum eitt kertið í einu

∙ Útöndunin þarf að vera löng og hæg til þess að koma okkur meira inn í sefkerfið þar sem að líkaminn slakar á og gerir sig kláran í að melta matinn.

Þegar búið er að blása á 5-10 fingur ættu allir við borðið að vera komnir í betra ástand og klárir saman í fallega stund.

This article is from: