3 minute read

Sykurlaus jól

Next Article
Sparnaðarráð

Sparnaðarráð

með Maríu Kristu Jólin, jólin, já þau koma víst á hverju ári og fyrir þá sem eiga erfitt með að standast freistingar þá eru jólin ansi krefjandi tími.

Ég ákvað fyrir um það bil sjö árum að taka út allan sykur í mínu mataræði en fylgja lágkolvetna mataræði í staðinn og þegar sykurinn var horfinn úr lífi mínu þá einfölduðust svona tímabil mikið. Ég hætti að líta á páska og jól sem afsökun til að dýfa mér í sykurinn og nú næ ég algjörlega að halda mér frá sykruðum freistingum sem fylla allar hillur fyrir hátíðarnar. Já, það er kannski pirrandi að heyra þetta og eflaust efast einhverjir um staðfestu mína en ég get alveg lofað því að ef sykurinn er ekki til staðar þá fær maður ekki þessa löngun enda stórefast ég um að mér myndi líka bragðið af sykruðum konfektmola í dag.

Ég vona að ég geti sannfært einhverja um að sykurlaust líferni sé alls ekki svo ómögulegt og sérstaklega ekki um jólin, ég elska mest af öllu sörur og kryddkökur og mig langar til að láta tvær dásamlegar uppskriftir fylgja þessum pistli.

Ég vona að þið sláið til og hver veit nema ykkur líði betur og þið njótið jólanna án þess að vera afvelta í sykurvímu og öðlist aukaorku til að fara út að leika í snjókasti í staðinn.

Með kærri jólakveðju, María Krista Hreiðarsdóttir

Sörur Botnar:

120 g ljóst möndlumjöl (eða 80 g möndlumjöl og 40 g hakkaðar möndlur) 120 g Sukrin Melis 4 eggjahvítur 1/4 tsk salt 1/2 tsk möndludropar

Krem:

240 g mjúkt smjör 4 eggjarauður 80 g Sukrin Melis 2 tsk kakó 1 msk skyndikaffiduft

Hjúpur:

100 g sykurlaust súkkulaði

Aðferð:

Stífþeytið hvítur og salt. Mæli með að skola skál með borðediki og þurrka fyrir hvern marengsbakstur. Blandið fínmalaðri sætunni saman við í pörtum og þeytið þar til hægt er að snúa skál á hvolf. Setjið möndludropana saman við. Veltið möndlumjölinu og möndlum út í hvíturnar með sleif. Setjið blönduna síðan í sprautupoka og sprautið um 40 sörubotnum á smjörpappír. Bakið á 140° hita í um það til 15-20 mín. Látið þær kólna alveg áður en þær eru losaðar af pappír.

Krem:

Þeytið eggjarauður þar til ljósar, bætið við sætunni, kaffidufti og kakó og þeytið áfram. Bætið svo mjúku smjörinu saman við og þeytið áfram þar til kremið er létt og ljóst. Smyrjið hvern kökubotn og myndið lítið fjall. Það má líka sprauta kreminu með fallegum stút og láta það duga. Frystið kökurnar í að minnsta kosti 30 mín. Súkkulaðihúðið hverja köku, annaðhvort dýfið í súkkulaði eða sprautið súkkulaðitaum yfir hverja köku.

Lagkaka

Innihald:

180 g mjúkt smjör 180 g Sukrin Gold 4 egg 2 msk kakó, ég nota Nóa siríus 60 g kókoshveiti , Funksjonell 40 g möndlumjöl, hefðbundið en ekki fituskert 120 g sýrður rjómi 1 dl soðið vatn 1 tsk kanell 1 tsk negull 1 tsk matarsódi 1/2 tsk Xanthan gum

Krem:

180 g ósaltað smjör 100 g fínmöluð sæta, Sukrin Melis 1 tsk vanilludropar 1 eggjarauða

Aðferð:

Hrærið mjúkt smjör og sætu þar til ljóst og létt, passið að smjörið sé við stofuhita. Bætið eggjum við og hrærið áfram, síðan bætið þið við sýrðum rjóma og vatni og blandið saman. Setjið næst þurrefnin saman í skál, vigtið nákvæmlega og blandið svo varlega við hræruna. Dreifið síðan deiginu á smjörpappírsklædda plötu, ég notaði bakka sem er um 20 x 30 cm að breidd. Bakið í 15-20 mín á 180° hita með blæstri. Látið kökuna kólna alveg áður en þið setjið kremið á. Skiptið henni í 3 bita og setjið krem á milli hvers lags. Kælið og skerið svo til þegar hún hefur náð að stífna.

Krem:

Þeytið mjúkt smjörið með sætunni, bætið vanillu við og eggjarauðu og þeytið með K spaða í hrærivél þar til létt og ljóst. Berið kremið á hvern kökuhelming og raðið kökunni saman. Fallegt að strá smá sykurlausri strásætu yfir í lokin.

This article is from: