Sæheimar, ársskýrsla 2010

Page 1

Fiska- og náttúrugripasafn Ársskýrsla 2010


Fiska- og náttúrugripasafn Vestmannaeyja Ársskýrsla 2010

Gestir Alls komu 13.653 gestir á Fiska og náttúrugripasafn Sæheima árið 2010. Þar af voru fullorðnir gestir 7.321 talsins en börnin 6.332. Er þetta talsverð aukning frá fyrri árum og kemur þar margt til. Má þar nefna:  Opið hús í tengslum við Þrettándagleði í fyrsta sinn og komu alls 439 gestir.  Glerlistasýning Berglindar Kristjánsdóttur dró að sér 647 gesti yfir sjómannadagshelgina.  Hið svokallaða pollamót, sem er knattspyrnumót yngri flokka var óvenju fjölmennt í ár og komu yfir 1000 gestir á safnið dagana sem það stóð yfir.  Þegar Herjólfur hóf siglingar frá Landeyjahöfn í lok júlí, jókst mjög aðsókn að safninu og má nefna að árið 2009 komu um 1000 gestir á safnið í ágúst en í ár voru þeir yfir 3000 á sama tíma.

Opnunartími Sumaropnunartími safnsins frá 16. maí til 15. september er klukkan 11:00 til 17:00, alla daga vikunnar. Yfir vetrartímann frá 16. september til 15. maí er safnið opið á laugardögum klukkan 13:00 til 16:00. Breyting varð á vetraropnunartíma safnsins þann 6. mars en fram að þeim tíma var safnið opið á sunnudögum klukkan 15:00 til 17:00 yfir vetrartímann. Á öðrum tímum er safnið opið eftir samkomulagi.

Aðgangseyrir Aðgangseyrir inn á safnið er 500 krónur fyrir fullorðna (hækkaði úr 400 krónum þann 6.mars). Börn 14 ára og yngri greiða ekki aðgangseyri. Eldriborgarar og öryrkjar greiða sama verð og aðrir.

Starfsmenn Margrét Lilja Magnúsdóttir var í 75% vinnu sem safnstjóri. Georg Skæringsson í 20% starfi sem umsjónarmaður safnsins. Aðrir starfsmenn í sumarvinnu við vörslu og afgreiðslu voru Örn Hilmisson, Hlynur Georgsson, Guðný Hilmisdóttir og Viktoria Ayn Pethypiece.

2


Sýningar Fastar sýningar Aðaláhersla safnsins er sýning á lifandi fiskum og öðrum sjávarlífverum. Á safninu eru 12 sjóker þar sem finnast helstu nytjategundir okkar íslendinga auk fágætari tegunda. Um 30 metra djúp borhola er utan við safnið og upp úr henni er dælt mörg þúsund lítrum af sjó daglega og er því stöðugt gegnumstreymi af hreinum sjó í búrum safnsins. Einnig eru á safninu fuglasafn, steinasafn, skordýrasafn, skeljasafn og eggjsafn auk annarra náttúrugripa.

Sérsýningar Auk hinna hefðbundnu sýninga á safninu eru þar tvær sérsýningar. Önnur þeirra fjallar um sambýli manns og lunda en hin segir frá Surtseyjargosinu sem hófst árið 1963. Auk þessara sýninga eru myndir af lækningajurtum í Flóru Vestmannaeyja í stigagangi safnsins. Árið 2010 voru settar upp tvær nýjar sýningar. Um sjómannadagshelgina var sett upp glerlistasýning í fiskabúrunum en þar var á ferðinni Berglind Kristjándóttir glerlistakona. Sýningin féll í góðan jarðveg hjá gestum safnsins og setti hún skemmtilegan svip á safnið. Hin sýningin var hefðbundnari en þá voru sýndar neðansjávarljósmyndir og –kvikmyndir teknar af Erlendi Bogasyni kafara.

Safnabúð Lítil safnabúð er rekin í afgreiðslu safnsins. Hún er mjög smá í sniðum en hefur ágætt úrval minjagripa sem tengjast flestir náttúru Eyjanna en lundinn er þar mest áberandi. Úrvalið jókst talsvert árið 2010 en þá var boðið í auknum mæli upp á handgerðar íslenskar vörur.

Fræðslustarf Skólahópar Fjöldi skólahópa kemur árlega á safnið en sterk hefð er fyrir því að skólarnir í Vestmannaeyjum komi með nemendur sína á safnið til fróðleiks og skemmtunar. Þessar heimsóknir byrja strax í leikskóla og mörg börn koma árlega á safnið upp allan grunnskólann með bekknum sínum. Börnin leysa ýmis verkefni í þessum heimsóknum sem sniðin eru að hverju aldursskeiði fyrir sig. Einnig hefur safnið verið í samvinnu við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum þar sem nemendur við skólann fá að nota safnið til rannsókna og verkefnavinnu og skila svo jafnvel verkefnum sem nýtast safninu.

Fræðsluefni á heimasíðu Unnið er að fræðsluefni fyrir börn á grunnskólaaldri þar sem Aðalnámsskrá Grunnskóla í náttúrufræði er höfð að leiðarljósi. Þar verður aðaláherslan lögð á lífið í sjónum við Ísland. Þetta fræðsluefni verður aðgengilegt á heimasíðu safnsins www.saeheimar.is og nýtist til kennslu í náttúrufræði hjá öllum grunnskólum landsins.

3


Fjárhagur Samkvæmt ársreikningi voru heildartekjur safnsins kr. 14.560.480 á móti útgjöldum kr. 14.053.331 og var því rekstrarafkoma sem nemur kr. 507.149. Meðhöndlun á rekstrarafkomu verður í samræmi við samning Vestmannaeyjabæjar og Þekkingarsetursins og notast til að vinna að frekari uppbyggingu á safninu og verkefnum í tengslum við safnið. Framlag samkvæmt samningi Vestmannaeyjabæjar við Þekkingarsetur Vestmannaeyja er kr. 10,8 milljónir á ári. Inni í því framlagi eru 2 milljónir í rekstrarfé frá fjárlögum vegna 2010 og kr. 500 þúsund frá Safnaráði.

Sæheimar, fiskasafn 10.800.000

Tekjur 2010 Samningur við Vestmannaeyjabæ (Hlutur ríkis á fjárlögum 2.000.000) Aðgangseyrir Sala minjagripa Aðrir styrkir

2.638.550 696.930 425.000

Samtals Útgjöld 2010 Launakostnaður Annar rekstrarkostnaður Húsnæðiskostnaður Rekstur áhalda og tækja Aðkeyptur akstur og rekstur bifreiða Skrifstofukostnaður Gjaldfærður kostnaður v/áætlunar Stjórnun og umsýsla Vörunotkun Samtals Afkoma

14.560.480

9.739.586 1.269.512 1.407.544 20.107 489.522 563.455 563.605 14.053.331 507.149

4


Nýjungar Breyting á rekstrarfyrirkomulagi Þekkingarsetur Vestmannaeyja tók yfir rekstur Fiska- og Náttúrugripasafns Vestmannaeyja þann 1. janúar 2010. Vestmannaeyjabær hafði áður rekið safnið frá stofnun þess árið 1964. Kristján Egilsson sem verið hefur forstöðumaður safnsins frá árinu 1975 lét af störfum vegna aldurs um áramótin. Páll Marvin Jónsson framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja er nú yfirmaður safnsins og framkvæmdastjórn Þekkingarsetursins er jafnframt stjórn Fiskasafnsins. Auk Páls Marvins sitja í stjórninni þeir Arnar Sigurmundsson og Elliði Vignisson. Margrét Lilja Magnúsdóttir var ráðin safnstjóri og Georg Skæringsson umsjónarmaður safnsins. Bókhald fyrir safnið verður unnið á Þjónustuskrifstofu Þekkingarsetursins. Menningar- og fræðsluráð Vestmannaeyjabæjar fer með faglega stjórnun.

Breyting á nafni safnsins Á þessum tímamótum var nafni safnsins breytt í Sæheimar – Aquarium. En söfnum bæjarins og starfsemi þeim tengd er skipt upp í Sæheima, Sagnheima og Eldheima. Innan Sæheima er einnig rekin sjávarrannsóknamiðstöð.

Nýtt logo Ákveðið var að hann nýtt vörumerki (logo) fyrir safnið vegna nafnabreytingarinnar. Sæþór Vídó, sem er grafískur hönnuður, hannaði merkið eftir hugmyndum starfsmanna safnsins. Nýja merkið var prentað á boli fyrir starfmenn safnsins. Einnig var sett plastfilma í útihurð með nýja merkinu ásamt upplýsingum um opnunartíma safnsins, símanúmer o.fl.

Breytingar á opnunartíma Áður var vetraropnun á sunnudögum frá kl.15:00 til kl.17:00. Það var mjög algengt að hringt væri í starfsmenn safnsins til að fá það opnað á laugardegi því þessi opnunartími hentaði ekki þeim sem voru gestkomandi í Eyjum og ætluðu heim á sunnudeginum, en Herjólfur fór seinni ferð sína kl.16:00. Því var ákveðið að prófa að flytja opnunartímann yfir á laugardaga og lengja hann um eina klukkustund. Nýji vetraropnunartíminn er frá kl. 13:00 til kl.16:00 á laugardögum. Þessi breyting tók gildi 6. mars 2010.

Styrkir Rekstrarstyrkur frá Safnaráði Safnið hlaut 500.000 króna rekstrarstyrk frá Safnaráði. Styrkurinn var notaður í almennan rekstur safnsins. Ekki var sótt um verkefnastyrki fyrir safnið fyrir árið 2010.

Styrkir frá Menningarráði Suðurlands Menningarráð Suðurlands veitti safninu tvo styrki á árinu vegna sýningahalds. Annan styrkinn fékk safnið vegna sýningar Berglindar Kristjánsdótttur glerlistakonu á verkum hennar í búrum safnsins, sem opnaði 4. júní. Seinni styrkurinn var veittur vegna sýningar Erlendar Bogasonar kafara á neðansjávarljósmyndum og –kvikmyndum sem opnuð var í tengslum við Safnahelgi á Suðurlandi þann 5. nóvember. Báðir styrkirnir voru 300.000 krónur.

5


Viðburðir Þrettándahátíð Þrettándahátið var haldin í Vestmannaeyjum dagana 8. til 10. janúar. Hápunktur hennar er þegar jólasveinar, tröll og álfar safnast saman og dansa við bálköst áður en þau halda til síns heima. En einnig eru ýmsir smærri viðburðir í boði þessa helgi og þar á meðal er opið hús á Fiskasafninu. Þessa helgi komu á safnið 439 gestir (220 börn og 219 fullorðnir).

Fjölskylduhelgi Árlega stendur Vestmannaeyjabær fyrir fjölskylduhelgi yfir hvítasunnuna. Er þá boðið upp á ýmislegt s.s. tuðruferðir, klifur og sprang með Björgunarfélaginu, frítt er í sund ofl. Þessa helgi er opið hús hjá Fiskasafninu og frítt inn. Alls voru gestir safnsin þessa helgi 718 talsins (362 börn og 356 fullorðnir).

Glerlistasýning Berglindar Þann 4. júní opnaði Berglind Kristjánsdóttir glerlistakona sýningu á verkum sínum í búrum Fiskasafnsins. Opnun sýningarinnar var í tenglsum við Sjómannadaginn en þá helgi er ávallt opið hús á Fiskasafninu. Verkin voru unnin sérstaklega með Fiskasafnið í huga og í hverju búri er tekið mið af lífverunum sem þar eru. Glerlistaverkin lífguðu mjög upp á umhverfið í búrunum og var ekki annað að sjá en að fiskar og aðrir íbúar búranna væru ánægðir með tilbreytinguna. Ljósmyndir voru teknar af vinnuferlinu og einnig voru teknar myndir af verkunum eftir að þeim hafði verið komið fyrir í búrunum. Sérstaklega var lögð áhersla á samskipti lífveranna við verkin. Menningarráð Suðurlands veitti styrk til sýningarinnar. Sýningin stóð fram eftir sumrinu og mörg verkanna voru enn í búrunum í lok ársins. Sjómannadagshelgina komu 647 gestir á sýninguna en yfir 10.000 gestir hafa heimsótt safnið síðan og séð sýninguna um leið.

Íslenski safnadagurinn Sunnudaginn 11. júlí var gestum boðinn frír aðgangur að safninu í tilefni íslenska safnadagsins. Markmið safnadagsins er að vekja athygli á því hlutverki sem söfn gegna í samfélaginu.

6


Ljósmyndasýning Erlendar Sýning Erlendar Bogasaonar kafara var opnuð þann 5. nóvember á Fiskasafninu. Sýningin er í tengslum við Safnahelgi á Suðurlandi og Menningarráð Suðurlands veitti styrk til sýningarhalsdsins. Erlendur sýnir ljósmyndir og kvikmyndabrot sem hann hefur tekið neðansjávar. Einnig hélt hann tvo fyrirlestra í máli og myndum um rannsóknir sínar neðansjávar. Annars vegar fyrirlestur um fund hverastrýtanna í Eyjafirði, sem eru einstakt náttúrufyrirbæri og hafa þegar verið friðaðar. Erlendur var fyrstur manna til að kafa niður að strýtunum og hafa ljósmyndir hans þaðan ratað í tímarit á borð við Nature. Hins vegar hélt hann fyrirlestur um rannsóknir sínar á aukinni veiðni kyrrstæðra veiðarfæra þar sem hann sýndi myndir af því hvernig fiskurinn hegðar sér í námunda við ýmis veiðarfæri og mismunandi beitu. Sýningin var sett upp í fiskasalnum þar sem fjórir digital rammar eru staðsettir milli fiskabúranna og voru ljósmyndirnar látnar rúlla þar, u.þ.b. 20 myndir í hverjum ramma. Þar voru ljósmyndir af mörgum þeirra tegunda sem finnast í búrum safnsins. Fimmti ramminn er staðsettur í steinasalnum og þar sýndi Erlendur ljósmyndir af fuglum undir yfirborðinu og ljósmyndir sem teknar eru í ferskvatni. Kvikmyndabrotin voru sýnd á stórum sjónvarpsskjá í fiskasalnum. Bæði ljósmyndirnar og kvikmyndirnar verða sýndar áfram á safninu og hafa nemendur í náttúrufræði við Grunnskóla Vestmannaeyja komið og skoðað þær.

Tónleikar á Fiskasafninu Í tengslum við Safnahelgi á Suðurlandi kom til Vestmannaeyja fjöldi listamanna og urðu margir þeirra veðurtepptir á sunnudeginum þegar gerði hið versta veður. Einhverjir hafa sjálfsagt blótað ástandinu en þau Margrét Pálsdóttir og Áskell Másson tónlistarmenn sem voru í Föruneyti Gísla Helgasonar gerðu gott úr þessu. Þau höfðu samband við Erlend Bogason sem var með ljósmyndasýningu á Fiskasafninu og buðust til að syngja og spila á sýningunni hans. Þau fluttu nokkur suðræn lög fyrir gesti safnsins. Var þetta bæði óvænt og skemmtileg uppákoma, gestunum til mikillar ánægju. Fiskarinir létu sér þó flestir fátt um finnast nema blágóma ein sem dansaði í takt við tónlistina.

7


Framkvæmdir Kör fyrir báta Keypt voru tvö 800 líta kör til að hafa um borð í bátum en þau eru sérútbúin til að flytja lifandi fiska og aðrar sjávarlífverur. Annað karið hefur verið um borð í Brynjólfi VE frá upphafi og hafa þeir komið með fjölda lifandi fiska að landi fyrir safnið. Hitt karið hefur verið í mismunandi bátum og fór meðal annast um borð í loðnuskipið Sighvat Bjarnason VE, sem kom með um 500 loðnur á safnið.

Hlýsjávarbúr Í byrjun maí var sett upp 300 lítra hlýsjávarbúr í fiskasalnum. Þar má finna fisktegundir þær sem voru aðalpersónur í teiknimyndinni “Leitin að Nemó”.

Snetibúr Þann 18 maí var kommið upp snertibúri í fiskasalnum. Þar gefst gestum safnsins tækifæri til að handfjatla og skoða nánar ýmsar sjávarlífverur s.s. krossfiska, krabba, ígulker og sprettfiska (fyrir þá allra sneggstu). Börnin hafa sérstaklega gaman af þessu og eru oft vandræði fyrir foreldrana að koma þeim frá búrinu. Snertibúrið er hringlaga um 1 ,5 m í þvermál og 30 cm djúpt. Þar er gegnumstreymi af hreinum sjó og komið var fyrir lýsingu í botni þess.

Eftirlitsmyndavélar Settar voru upp þrjár eftirlitsmyndavélar á safninu. Ein þeirra var staðsett í afgreiðslu safnsins en tvær voru settar upp bakatil í safninu þar sem hægt er að fylgjast með því hvort að sjór flæðir upp úr búrunum. En það flæðir ósjaldan upp úr búrunum ef frárennslisop þeirra stíflast. Hefur þá gjarnan lekið sjór niður á neðri hæð hússins þar sem Slökkvistöðin er til húsa.

Ljósmyndarammar Í lok september voru keyptir fimm digital ljósmyndarammar sem settir voru á milli búranna í fiskasalnum. Hægt er að hlaða fjölda ljósmynda inn í minni þeirra og fletta þeim. Einnig er hægt að sýna í römmunum styttri kvikmyndabrot. Smíðaðar voru festingar utan um rammana úr krossvið og plexigleri. Rammarnir voru notaðir í tengslum við glerlistasýningu Berglindar, þar sem sýndar voru myndir frá vinnuferlinu auk mynda sem teknar voru í búrunum eftir að glerlistaverkunum hafði verið komið fyrir þar. Einnig voru neðansjávarljósmyndir Erlendar Bogasonar kafara látnar rúlla í römmunum.

8


Sjónvarpsskjár og flakkari Þann 4. nóvember var settur upp 52 tommu sjónvarpsskjársjár í enda fiskasalarins. Við hann var tengdur harður diskur eða svokallaður flakkari. Frá því um Safnahegina 5.-7. nóvember hafa verið sýndar á skjánum kvikmyndir sem Erlendur Bogason kafari hefur tekið neðanskjávar.

Heimasíða Stofnuð var heimasíða fyrir safnið sem var opnuð í byrjun desember 2010. Slóðin inn á hana er www.saeheimar.is. Margmiðlunarfyrirtækið Smartmedia í Vestmannaeyjum sá um uppsetningu síðunnar. Unnið er að gerð fræðsluefnis fyrir síðuna.

Viðgerðir Á hverju ári þarf að huga að búrunum og öðru á safninu. Búrin eru upprunaleg og hafa verið nánast óbreytt frá uppsetningu þeirra árið 1964. Reglulega þarf að huga að þeim, gera við leka, hreinsa frárennslisrör, hreinsa það sem í þeim er, þétta glerið og mála botn og hliðar. Oftast er um smærri viðgerðir að ræða en einstöku sinnum er um stórar skemmdir að ræða og hundruðir lítra af sjór flæða út á gólf. Þegar starfsmenn safnsins mættu til vinnu þann 12. nóvember mætti þeim talsvert mikið flóð en frárennslisrör undir einu búranna hafði gefið sig. Um helmingur sjávarins (um 2000 lítrar) hafði þegar flætt úr búrinu og þurfti að hafa snör handtök við að stöðva lekann og bjarga dýrunum úr búrinu. Búrið var alveg tæmt og gert við það auk þess sem það var málað og skipt um allt sem í því var.

Ýmis verkefni Fiðrildagildra Í samvinnu við Náttúrstofu Suðurlands var sett upp fiðrildagildra í Stórhöfða. Gildran var sett upp 6. maí og farið var vikulega og gildran tæmd og aflinn greindur. Náttúrustofur víðs vegar um landið ásamt Náttúrfræðistofnun Íslands, standa fyrir vöktun á fiðrildum sem finnast á landinu.

Gerð tilraun með að ala loðnuseyði Sighvatur Bjarnason VE kom með um 500 loðnur þann 8. mars. Morgunin eftir urðu starfsmenn vitni að hrygningaratferli loðnunar. Sighvatur Jónson fréttaritari Ríkissjónvarpsins í Vestmannaeyjum var með frétt um þetta í fréttatíma sjónvarpsins. Þann 25. mars var tekinn sandur úr botni búrsins, sem loðnan hafði hrygnt í og farið með hann í sjávarrannsóknamiðstöð Sæheima. Þar var sandurinn ásamt hrognunum settur í sérútbúin ker fyrir seiðaeldi. Talsvert af hrognunum klöktust en illa gekk að finna fæðu sem seiðin gátu tekið. Nokkrar tegundir af fæðu voru prófaðar í kerjunum en eftir nokkrar vikur vöru öll seiðin dauð.

Verkefni nemenda Framhaldsskólans Nemendur á lokaári náttúrufræðibrautar Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum gerðu verkefni í tengslum við safnið. Fengu þau úthlutað nokkrum tegundum sem finnast á safninu og gert að skrifa um líffræði þeirra. Starfsmenn safnsins hönnuðu verkefnin og lásu þau yfir. 9


Náttúruvísindadagar Náttúruvísindadagar grunnskólans voru síðustu vikuna í apríl og komu nemendur skólans að venju í heimsókn á safnið og leystu þar ýmis náttúrutengd verkefni.

Pysjueftirlitið Eins og fyrri ár tók safnið að sér hið svokallaða pysjueftirlit en það er fólgið í því að þeir sem finna pysjur í bænum koma með þær á safnið þar sem þær eru vigtaðar og vængmældar. Með þessu móti má fylgjast með breytingum milli ára í fjölda pysja og ástandi þeirra. Aldrei hafa fundist jafn fáar pysjur og í ár en einungis var komið með 10 pysjur á safnið. Endurspeglar það afar lélegan varpárangur lundans í ár. Lundastofninn virðist eiga undir högg að sækja og voru veiðar nánast engar í ár vegna þess. Safnið er í samvinnu við Náttúrustofu Suðurlands við þessa vöktun. Kristján Egilsson tók myndirnar hér fyrir neðan af pysjueftirlitinu árið 2007, en þá var komið með yfir 1600 pysjur á safnið.

Uppeldi rituunga Komið var með óvenju marga rituunga á safnið. Í flestum tilvikum var um að ræða unga sem fundust undir fuglabjörgum. Þeir voru margir horaðir og illa haldnir við komuna á safnið. Svo virðist sem foreldrarnir afræki ungana og mögulega er það vegna skorts á æti. Sumarstarfsmaður á safninu, Hlynur Georgsson, tók að sér umsjón með ungunum og annaðist þá mjög vel og gaf þeim nóg að éta. Útbúin var girðing fyrir utan safnið þar sem rituungarnir dvöldu yfir daginn. Nokkrir þeirra flugu úr girðingunni þegar þeir voru tilbúnir til þess en öðrum var sleppt suður á eyju.

10


Hrygning Ár hvert hrygna einhverjar af þeim lífverum sem á safninu eru. Þann 6. febrúar hrygndi steinbítur í einu búranna. Hrygningin misfórst og átu steinbítarnir hrognaklasann og hrygnan var þar enginn eftirbátur hinna steinbítanna. Þann 16. febrúar hrygndi önnur steinbítshrygna í sama búri. Þá voru flestir aðrir steinbítar fjarlægðir úr búrinu og aðeins tveir skildir eftir auk hrygnunnar, sem taldir voru hængar. Lítill áhugi var hjá meintum hængum á öðru en að éta hrognin. Þeir náðu fljótlega að eyðileggja kökkinn. Hrygnan var særð á eftir. Þann 8. mars var komið með 500-600 loðnur og þær settar í búr með sandi í botninum. Morguninn eftir þegar ljósin voru kveikt hófst hrygningaratferli loðnunnar. Næstu morgna var fylgst með hrygningu hennar og rataði atferlið í fjölmiðla. Í febrúar komu þeir á Brynjólfi VE með nokkrar grásleppur og rauðmaga. Fljótlega var ljóst að grásleppurnar voru farnar að þykkna talsvert og greinilega hrognafullar. Aðeins einn af rauðmögunum tók að roðna og sýna grásleppunum áhuga. Önnur grásleppan hryngdi 25. maí á stað sem sá rauði hafði valið fyrir hana og eftir að hafa frjóvgða hrognin tók hann við að vernda þau. Hann gætti þess að þau fengju nægjanlegt súrefni og hélt óvinum frá hrognaklasanum. Rauðmagar taka þetta hlutverk sitt mjög alvarlega og hefur jafnvel sést til rauðmaga ráðast á stóran steinbít sem var komin of nærri hrognaklasa hans. Við vorum því mjög undrandi þegar við tókum eftir því að annar af gráu körlunum tók til við að hjálpa þeim rauða við að vernda hrognin. Þeir félagarnir gættu hrognanna saman en kerlingin lét þau alveg afskiptalaus. Grái karlinn rækti hlutverkið af enn meiri hörku en sá rauði og leit á gesti safnsins sem svarna óvini og reyndi að bægja þeim í burtu. Hann gékk reyndar svo nærri sér við verndun hrognanna að hann drapst. Þá tók þriðji rauðmaginn til við að passa hrognin en hann hafði alveg haldið sig til hlés fram að þessu. Seinni grásleppan hrygndi þann 28.júní og sami rauðmaginn virðist vera makinn en það er greinilega nokkuð af honum dregið enda drapst hann þremur dögum síðar. Svo virðist sem hrognin hafi ekki frjóvgast og klaktist úr hvorugum klasanum. Þann 3. júní þegar verið var að koma glerlistaverkum fyrir í einu búranna tókum við eftir því að kolkrabbi sem gengið hafði undir nafninu Vídalín hafði fest egg sín á eitt listaverkanna. Því miður voru hornsílin sem voru með henni í búrinu helst til gráðug og átu eggin jafnóðum.

11


Komið með dýr á safnið Eins og ávallt voru sjómenn iðnir við að færa safninu gjafir á árinu (tafla 1). Bæði komu þeir með fjölda lifandi fiska og einnig óvenjulega og sjaldgæfa fiska til uppstoppunar (sjá töflu). Hér á eftir verður farið yfir það sem óvenjulegt má telja, en auk þessa var safninu færðir fjöldi fiska og annara sjávardýra sem eru algengari en þau sem hér eru nefnd.

Óvenjuleg lifandi dýr 29. janúar Áhöfnin á Brynjólfi VE kom með lifandi dílamjóra (Lycodes esmarki), sem veiddist á um 300 faðma dýpi á Halamiðum. Hann er djúpsjávarfiskur og er því aðlagaður að öðrum aðstæðum en eru í búrum Fiskasafnsins. Sérstaklega er þrýstingsmunurinn gífurlegur. Dílamjórinn lifði í tvær vikur. Þetta er í annað sinn sem dílamjóri lifir á safninu en í janúar 1989 kom áhöfnin á Valdimar Sveinssyni VE með dílamjóra sem lifði í fjóra mánuði á safninu. Er það í fyrsta skipti sem hann hefur lifað svo lengi en yfirleitt eru þeir dauðir nokkrum tímum eftir að þeir veiðast. 9.febrúar Áhöfnin á Portlandi VE kom með 7 háfa (Squalus acanthias) að landi sem þeir færðu safninu. Háfar eru nokkuð algengir í hlýja sjónum út af suður- og suðvesturlandi en það er ekki algengt að fá þá á safnið. Það hefur reynst erfitt að fá þá til að taka æti og átti það einnig við um þessa. Aðeins einn af þeim byrjaði að éta þegar settur var lifandi makríll í búrið til þeirra og hefur hann tekið æti síðan. Hann var sá eini þeirra sem enn var á lífi nú um áramótin og var vel í holdum. 17. febrúar Áhöfnin á Jóni Vídalín VE kom með óvenju stóran kolkrabba að landi, sem veiðst hafði á um 130 m dýpi út af Reykjanestánni. Um var að ræða vörtusmokk (Eldone chirrhosa) sem er nokkuð algengur hér við land. Kolkrabbinn, sem gekk undir nafninu Vídalín, var ekki bara óvenju stór heldur var hann einnig ófeimin við að sýna sig, en kolkrabbar fela sig gjarnan í holum eða bak við steina. Hann vakti því mikla athygli safngesta og rataði í kastljós fjölmiðla. Þegar verið var að koma fyrir glerlistaverkum í búrinu hjá Vídalín fyrir sjómannadagshelgina kom í ljós að Vídalín var kvenkyns því hún hrygndi og festi egg sín á eitt listaverkanna. Kolkrabbar drepast eftir hrygninu og Vídalín kvaddi þennan heim um haustið.

12


8. mars Þó að loðna sé algengur fiskur við Íslandsstrendur þá hefur hún ekki oft sést í búrum safnsins, enda kemur hún aðeins upp á grynningar til að hrygna og drepst svo að hrygningu lokinni. Áhöfnin á Sighvati Bjarnasyni VE fékk um borð kar frá Sæheimum sem er sérstaklega útbúið til að flytja lifandi fiska. Þeir voru á loðnuveiðum rétt austan við Eyjar og settu 500-600 loðnur í karið og færðu safninu. Við höfðum því litla loðnutorfu í einu búrana og gátum fylgst með mökunaratferli og hrygningu hennar. 22. apríl Valgeir Valgeirsson á Bergey VE færði safninu langfótung (Paromola cuvieri), sem kom í netin rétt austan við Eyjar. Langfótungar eru einnig oft kallaðir nornakrabbar og eru mjög sjaldgæfir hér við land. Áberandi einkenni langfótungs er að aftasta fótaparið er veigalítið og klærnar á enda þeirra eru áberandi krepptar inn á við. Þetta fótapar situr einnig ofar og nær skildinum en aðrir fætur krabbans. Það var fyrir nokkrum árum sem uppgötvaðist að krabbinn notar þessa fætur til að halda péturskipi eða öðrum flötum hlutum eins og hlífiskildi yfir búknum. Þetta atferli sást fyrst á Fiska- og náttúrugripasafni Vestmannaeyja. Langfótungur þessi drapst eftir nokkra daga en þeir á Bergey VE færðu okkur annan skömmu síðar, sem var enn hinn sprækasti í lok ársins. 6. júní Landselskópur fannst yfirgefinn í Klettsvík að kvöldi sjómannadagsins. Mikið var um að vera þennan dag í höfninni og farnar margar tuðruferðir í Klettsvíkina. Hugsanlega hefur urtan kvekkst við þessa miklu umferð og yfirgefið kópinn þess vegna. Einnig er hugsanlegt að hann hafi verið eitthvað veikur því að morguninn eftir var hann dauður. Hann verður að öllum líkindum stoppaður upp. 18 júní Skipverjar á Arnarfellinu komu með leðurblöku sem þeir höfðu fundið um borð. Skipið var að koma frá Hollandi og Bretlandi. Hún vakti mikla hrifningu gesta, sérstaklega þó þeirra yngri og voru nokkrir drengir sem tóku að sér það verkefni að veiða handa henni lifandi skordýr. Það var því talsverð sorg hjá þeim þegar þurfti að svæfa leðurblökuna vegna beiðni frá héraðsdýralækni. Leðurblökur eru taldar geta borið með sér sjúkdómsvaldandi vírusa og er því ólöglegt að halda slík dýr á Íslandi.

13


27. ágúst Þann 26. ágúst veiddi Hvalur 8 RE 388 langreið, sem við var föst sæsteinsuga (Petromyzon marinus). Starfsmenn Hvals hf losuðu hana af hvalnum og sendu til okkar í Sæheimum. Var hún hin hressasta við komuna og var svo tillitssöm við gesti safnsins að festa sig á rúðuna í búrinu, þannig að hringlaga munnurinn með öllum beittu tönnunum blasti við. Sæsteinsugur eru mjög óvenjuleg dýr og gaman að fá eintak á safnið. Þær lifa af því að sjúga blóð úr fiskum og hvölum og því er aðeins flóknara að gefa henni að éta en öðrum dýrum sem á safninu eru. Í júli kom áhöfnin á Vestmannaey með tvær sæsteinsugur og drápust þær báðar fljótlega. Um 30 tegundir steinsuga þekkjast og finnast þær bæði í fersku vatni og sjó. Aðeins ein þessara tegunda, sæsteinsugan, hefur fundist á Íslandsmiðum og þá sem flækingur. Sæsteinsugan drapst mánuði eftir komuna á safnið. Hennar er sárt saknað þó að hún hafi verið frekar ófrýnileg, enda ólík öllum öðrum dýrum sem á safninu eru. Starfsfólk safnsins hafði sett til hennar fiska sem hún ætti að geta sest á til að nærast, en hún leit ekki við þeim. Kannski hefur henni fundist meðalstór þorskur vera óspennandi eftir að hafa verið á stórum hval, en eins og gefur að skilja gátum við ekki boðið henni upp á hval. Steinsugur verða ekki langlífar í fiskasöfnum nema að þær finni sér fórnarlamb til að nærast á. 1 .nóvember Í byrjun nóvember fannst útselskópur við Breiðdalsvík sem var illa á sig kominn og grét hástöfum. Finnendur hans, þeir Njáll Torfason og Snjólfur Gíslason gáfu honum volgan rjóma og hresstist hann talsvert við það. Þeir höfðu samband við Sæheima og óskuðu eftir að þar yrði kópurinn fóstraður áfram. Flugfélagið Ernir flaug með kópinn endurgjaldslaust til Eyja. Þar tók Georg Skæringsson á móti honum og kom honum fyrir í húsnæði Þekkingarsetursins á hæðinni fyrir ofan Miðstöðina. Þar hefur kópurinn aðgang að hreinum sjó til að synda í og einnig lítilli eyju sem hann getur legið upp á. Kópurinn fékk nafnið Golli í höfuðið á þeim Gogga og Palla starfsmönnum Sæheima, en þeir hafa í sameiningu séð um uppeldið. Það veitti ekki af tveimur karlmönnum til að gefa honum að éta í upphafi því hann var mjög matvandur og alveg þrælsterkur. Þeir fengu upplýsingar um matargjafir frá Húsdýragarðinum og Selasetri í Friedrichskoog í Þýskalandi. Þegar kópurinn fannst var hann alþakinn ljósum hárum en þannig eru útselskópar við fæðingu og fyrstu vikurnar. Þeir missa hárin eftir nokkrar vikur og fá þá sama lit og fullorðnir selir. Á þessum tíma eru kóparnir á spena og þyngjast mjög mikið. Þeir liggja á landi í u.þ.b. fjórar vikur eftir fæðingu. Urturnar koma á land á hverju flóði og gefa þeim að sjúga en virðast annars halda sig í sjónum við staðinn þar sem kóparnir liggja uppi. Að fjórum vikum liðnum yfirgefur urtan kópinn. Þá er hann búinn að missa ljósu hárinn og farinn að synda og kafa í flæðarmálinu. Hann yfirgefur þó ekki kæpistöðvarnar fyrr en nokkru seinna. Miðað við þessar upplýsingar (úr bókinni „Villt íslensk spendýr“ frá 1993) og að Golli missti ljósu hárin á þremur vikum hjá okkur, þá hefur hann líklega verið um viku gamall þegar hann fannst . Um áramótin var hann farinn að sporðrenna heilu síldunum og hafði náð 50 kg þyngd, en það er sú þyngd sem miðað er við þegar kemur að því að sleppa útselskópum. 14


14. desember Áhöfnin á Brynjólfi VE kom með rauðháf (Lepidorhinus squamosus) en hér við sunnanvert landið eru norðurmörk útbreiðslusvæðis hans. Hann er botnfiskur sem heldur sig á 500-800m dýpi. Því miður drapst hann fljótlega eftir komuna á safnið. Brynjólfur kom einnig með geirnyt eða rottufisk (Chimaera monstrosa) í sömu ferð. Þar er einnig um að ræða tegund sem er við norðurmörk útbreiðslusvæðis síns og er sömuleiðis botnfiskur sem hefur fundist á 100-1000m dýpi. Rottufiskurinn lifði aðeins í nokkra daga á safninu.

Óvenjulegir fiskar til uppstoppunar Þann 14. janúar kom áhöfnin á Guðmundi VE með stóra bramafisk (Brama brama) í góðu ástandi, sem þeir færðu safninu. Stóri bramafiskur er flækingur hér við land. Þann 1. júlí færði Vinnslustöðin safninu nokkuð stóran tunglfisk (Mola mola) til uppstoppunar. Hann veiddist á Reykjaneshrygg af Kap VE . Útbreislusvæði tunglfisks er í Miðjarðarhafi og í Atlantshafi að Skandinavíu. Hann kemur hingað að landinu sem flækingur. Lítið er vitað um lífshætti hans en er talinn lifa á talsverðu dýpi. Þann 28. október kom Óskar Ólafsson með rauðserk (Beryx decadactylus) sem hafði veiðst suður af Horni. Rauðserkur er botnfiskur með útbreiðslu frá Miðjarðarhafi til Noregs og hefur fundist hér einstöku sinnum sinnum sem flækingur. Þann 15. nóvember kom Valþór NS 123 með gjölni (Alepocephalus bairdii), sem þeir veiddu á talsverðu dýpi SA af Vík. Hér við land finnst gjölnir eingöngu á miklu dýpi undan S og SV ströndinni og þar er hann nokkuð algengur á 700-850 m dýpi.

Fuglar á safninu Komið er með fjölda fugla á safnið ár hvert. Oft er um að ræða særða eða vængbrotna fugla, sem lítið er hægt að hjálpa en sem betur fer er einnig oft komið með fugla þar sem góð umönnun og matargjafir duga til að koma þeim á ról á ný. Þeim er sleppt út í náttúruna þegar þeir virðast tilbúnir til þess. Eins og áður hefur verið nefnt var komið með fjölda rituunga s.l. sumar sem fundust svangir og hraktir undir fuglabjörgum. Því miður var þetta of seint fyrir suma en aðrir hresstust mjög á nokkrum dögum og flugu út í frelsið þegar þeir voru tilbúnir til þess. Rita var algengasta fuglategundin, sem komið var með á safnið árið 2010, sem er mjög óvenjulegt.

15


Alla jafna eru það lundapysjur sem eru algengasta fuglategundin sem komið er með á safnið. Í ár voru þær einungis 10 talsins og endurspeglar það afar lélegan varpárangur hjá lundanum þetta ár. Þær lundapysjur sem komið er með á safnið fljúga í átt að ljósunum í bænum í stað þess að halda á haf út. Börnin í bænum fara í leiðangra á kvöldin til að bjarga pysjunum og sleppa þeim daginn eftir í sjóinn. Komið er með pysjurnar á safnið til að vigta og vængmæla þær. Einnig er komið með litlar og dúnaðar pysjur sem við höldum eftir og reynum að fita. Olíublautar pysjur eiga einnig athvarf hjá okkur og eru þær hreinsaðar áður en þeim er sleppt. Auk rituunga og pundapysja er einnig nokkuð algengt að komið sé með skrofuunga og sjósvöluunga þegar þeir lenda í því sama og pysjurnar er þeir ætla á haf út. Einnig er komið er með nokkurn fjölda fýlsunga ár hvert. Fýlsungarnir reyna yfirleitt að æla á bjargvætti sína og og er því stundum hringt á safnið og óskað eftir að starfsfólk þess komi fýlsungum til bjargar. Reynt er að sinna því eins og kostur er. Einnig er komið með nokkra langvíuunga á hverju sumri sem finnast yfirgefnir á sjónum.

Aðrir fuglar voru m.a. þrestir, starrar, dúfur, bæjarsvala, toppskarfur, hrossagaukur, keldusvín og mávar. Fuglarnir voru í mismunandi ástandi og örlög þeirra í samræmi við það. Sumum var hægt að bjarga en aðrir voru svæfðir. Greinilega voru fuglarnir ekki allir óánægðir með vistina á safninu og má þar nefna dæmi af dúfu sem komið var með til okkar þann 1. maí. Hún var hrakin og blaut þegar hún kom á safnið og var henni komið fyrir í stóru búri og fékk korn að éta. Eftir tvo daga í góðu yfirlæti var henni sleppt út og sama dag sást hún reyna að komast inn um glugga í húsinu. Hún hélt sig í nágrenni við safnið í nokkra daga.

16


Fuglar í pössun á safninu Lundapysjan Angie sem er frá síðasta ári var hjá okkur í tvær vikur í sumar þegar eigandi hennar brá sér til Danmerkur. Hún undi sér vel á safninu og vakti mikla lukku hjá gestum safnsins enda mjög gæf og skemmtileg. En hún hélt sig nánast alfarið í búri sínu meðan pollamótið stóð yfir. Líklega hefur henni þótt nóg um lætin í drengjunum. Lundapysja frá þessu ári hefur einnig verið af og til í pössun hjá okkur. Finnandi hennar ákvað í haust að halda henni þar sem að hún kom frekar seint og var lítil og létt. Þannig að lífslíkur hennar hefðu ekki verið miklar ef henni hefði verið sleppt í sjóinn. Pysjan hefur þyngst mikið og er spræk enda fengið nóg að éta og vel verið hugsað um hana. Smyrill var hjá okkur í nokkra daga fyrr í haust. Hann hefur líklega lent á bíl og laskast á væng en finnandi hanns tók hann í fóstur. Smyrillinn vakti mikla athygli hjá gestum safnsins enda glæsilegur fugl og óvenjulegt að geta skoðað ránfugla í návígi. Smyrillin tók flugið í haust og sást til hans við bæ á Suðurlandi nokkrum dögum seinna.

Síðast en ekki síst ber að nefna hann Rassmus, sem er páfagaukur og mikill spjallari. Hann hefur nokkrum sinnum verið í pössun hér og hefur kjaftað við starfsfólkið og gestina. Það hefur verið mjög gaman að hafa hann og margar páfagaukasögurnar verið sagðar.

Skordýr Árlega er komið með talsverðan fjölda skordýra til greiningar á safnið. Bæði er um að ræða skordýr sem fólk finnur úti í náttúrunni og þykja óvenjuleg og einnig skordýr sem fólk finnur í híbýlum sínum. Af skordýrum sem finnast í náttúrinni eru fiðrildi lang algengust. Margar yglutegundir hafa numið hér land á síðustu árum og einnig verið algengir flækingar. Bæði fullorðna dýrið og lirfan eru stór og áberandi og því hefur verið komið með nokkurn fjölda á safnið til greiningar. Ertuygla er þar algengasta tegundin. Skordýr sem fólk er að finna í hýbílum sínum eru oftast bjöllutegundir, sem eru nokkuð algengar í húsum. Einnig er oft komið með skordýr sem hafa einfaldlega flækst inn og gera engan skaða.

17


Tafla 1.

Dags.

Gefandi

Fisktegund

14. jan. 20.jan. 2. feb. 3. feb. 3. feb 8. feb. 9.feb. 17. feb. 8. mars 22. apr 2. júní 24. jún 1.júl 12.júl 15. júl 22.ágúst 27.ágúst 31.ágúst 3.sept 13. sept 17.sept 6.okt 13. okt 27.okt 28.okt 8 nóv 15.nóv 22.nóv 25.nóv 26.nóv 14.des

Guðmundur VE Brynjólfur VE Portland VE Brynjólfur VE Portland VE Portland VE Portland VE Jón Vídalín Sighvatur Bjarnason VE Bergey VE Sigurður Gíslason Frú Magnhildur VE Kap VE Vestmannaey VE Vestmannaey VE

Bramafiskur (til uppstoppunar) Hrognkelsi, tindabykkja, rauðsprettur, blágóma, dílamjóri Blár trjónukrabbi Tindabykkja, hlýri, hrognkelsi, ýsa, skötuselur, urrari Tindabikkja, ósalúra, sexstrendingur Kolkrabbar, urrarar Hrognkelsi, háfar Kolkrabbi Loðna Langfótungur Humar Háfur, skötuselur, urrari, tindabykkja Tunglfiskur (til uppstoppunar) Sæsteinsuga Sæsteinsuga Makríll Sæsteinsuga Þorskur, steinbítur, gaddakrabbar Skötuselur, kolkrabbi, urrari, þorskur, skeljar Kolkrabbi, rækjur, langimjóri Kolkrabbar, skötuselur, steinbítur, þorskur Kolkrabbar Kolkrabbar Skessukrabbar Rauðserkur (til uppstoppunar) Kolkrabbi, makríll, kuðungakrabbi Gjölnir (til uppstoppunar) Langfótungur, gaddakrabbi, sæbjúgu, kolkrabbi Háfar, hrossamakríll Kolkrabbi, rækjur Rottufiskur, rauðháfur

Hvalur hf Brynjólfur VE Brynjólfur VE Brynjólfur VE Brynjólfur VE Portland VE Portland VE Friðrik Jesson VE Óskar Ólafsson Brynjólfur VE Valþór NS Brynjólfur VE Portland VE Brynjólfur VE Bryjnólfur VE

18


Undirskriftir

Vestmannaeyjum 15. maí 2011.

Sign. Margrét Lilja Magnúsdóttir Margrét Lilja Magnúsdóttir, safnstjóri

Sign. Páll Marvin Jónsson Páll Marvin Jónsson Framkvæmdastjóri Þekkingarsetur Vestmannaeyja

19


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.