2 minute read
Grundarfjarðarhöfn
Markviss uppbygging skilar sér í aukinni umferð
„Við höfum markvisst unnið að uppbyggingu hafnarinnar m.a. með því að auka viðlegurými og það hefur skilað sér í aukinni umferð,“ segir Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri Grundarfjarðarhafnar. Höfnin er frá náttúrunnar hendi góð, innsigling greið og aðkoma eins og best gerist. „Við erum miðsvæðis og leiðir héðan bæði suður og norður eru góðar og greiðar. Það hefur því færst í aukana að fiskiskip landi afla hér og að honum sé síðan ekið þangað sem hann á að fara.“
Hafsteinn segir að undanfarna tvo áratugi hafi Grundarfjarðarhöfn verið byggð upp, en hafist var handa við nýjan bryggjukant, Norðurgarð . Hann var nýverið lengdur um 135 metra . „Það bætir mjög úr þörf fyrir aukið pláss fyrir stóru skipin,“ segir hann og bætir við að um mikið verk hafi verið að ræða og því ætli menn að anda aðeins áður en byrjað verði á frekari framkvæmdum . „En þetta stoppar auðvitað aldrei, það er alltaf hægt að bæta og laga mannvirki sem eru í stöðugri notkun . Við sjáum fyrir okkur í náinni framtíð að fara í landfyllingu sunnan við Miðgarð,“ bægir Hafsteinn við en Grundarfjarðarhöfn hefur áður farið í landfyllingar við Norðurgarð og þar varð til gott byggingarland á sínum tíma þar sem er margs konar hafnsækin starfsemi .
Fyrstu fimm mánuðirnir mjög góðir
Hafsteinn segir að fyrstu fimm mánuðir ársins hafi verið mjög góðir en á því tímabili hafi verið landað um 16 þúsund tonnum af afla . Til samanburðar var 24 þúsund tonnum landað allt árið í fyrra . Sumarið var í slakara lagi, en farið að lifna yfir með haustinu . „Það er oft mikil skipaumferð hér á haustmánuðum og það lítur bara ágætlega út hjá okkur,“ segir hann . „Við liggjum vel við miðunum, það er stutt að fara með fiskinn héðan á höfuðborgarsvæðið, Suðurnesin og einnig norður í land og það hafa skipin verða að nýta sér í auknum mæli . Þau landa hér og spara sér að sigla langar leiðir .
Skemmtiferðaskipum fjölgar
Skemmtiferðaskip hafa í vaxandi mæli haft viðkomu í Grundarfirði og verða ríflega 40 talsins þetta sumarið . „Það koma sífellt fleiri skemmtiferðaskip hingað . Hér í eina tíð þótti gott að fá um 20 skip yfir sumarið en þau eru orðin 40 núna í ár og þegar búið að bóka yfir 70 komur næsta sumar,“ segir Hafsteinn .
Við höfnina hefur verið byggð upp aðstaða til að þjónusta skemmtiferðaskipin sem best . Sérstök flotbryggja með landgangi er á nýrri uppfyllingu á milli Norðurgarðs og Miðgarðs og nýtist hún vel farþegum sem eru ferjaðir í land af skipunum .
grundarfjordur.is
Grundarfjarðarhöfn er góð frá náttúrunnar hendi, innsiglingin greið og aðkoman eins og best gerist.
Markvisst hefur verið byggt upp og skilar það sér í aukinni umferð bæði fiskiskipa og skemmtiferðaskipa.