1. kafli Upphafið
Hann vissi að hann þyrfti að fara. Haugur móður hans var nú grasi gróinn og á toppnum stóðu nokkrir litlir sprotar Smaragðsblóma og ekki vottaði fyrir neinum blómum. “Ef Smaragðsblómin blómstra ekki eftir að fyrsti snjór fellur, þá verð ég að sækja hana.” hafði faðir hans sagt, það var fyrir tæpu ári síðan. Faðir Úlfs hafði skilið hann einan eftir en sagðist koma aftur heim fyrir árslok. Veturinn hafði komið og Smaragðsblóm blómstruðu í fjallshlíðinni á öllum haugum nema tveimur. Grænar breiður lágu ofan á þykkum snjónum og þegar fullt tunglið skein lýstu krónublöðin. Þeir sem voru sérstaklega næmir gátu einnig heyrt söng blómanna. Úlfur grét sig í svefn á hverju fullu
3
tungli, þögnin var honum óbærileg. Árið leið og nýtt ár rann upp með meiri snjó og minni mat. Úlfur var afbragðs skytta en sorgin í hjarta hans óx með hverju fullu tungli hins nýja árs og erfiðara og erfiðara varð að spenna bogann. Faðir hans fór 2. september og nú var 28. júlí. Úlfur vildi fara áður en snjórinn kæmi, fólkið í þorpinu var farið að tala um hann og hann vissi það. Hann var sá eini sem ekki kom með blóm á Merend aina tinwe mori - hátíð hinnar heilögu stjörnunætur sem bar upp á 24. desember. Hann hafði bara staðið þarna fyrir framan alla og sagt sömu orð og hinir sem áttu að leggja til blóm í seyðið - Nai siluvat elen atta (megi tvær stjörnur skína) en í lófum hans lágu engin Smaragðsblóm, aðeins nokkur tár sem höfðu sprottið fram þegar hann leit niður. Hann lét tárin renna í pottinn og það var þá sem allt breyttist. Fyrir þann tíma hafði fólk vorkennt honum, litið á hann sem renglulegan, móðurlausan pilt með rauða hvarma en þegar tárin lentu í sjóðheitu vatninu reis upp úr pottinum reykur sem í örskotsstund myndaði vængjað dýr með stórt gin. Eftir þetta var fólkið hrætt við hann, kallaði hann skrítinn og óeðlilegan — jafnvel hættulegan. — Þetta var skrímsli - ég get svo svarið það! — Hann er dauðadæmdur, hann getur ekki verið hér… — Ég er ekki viss - en líkindin voru næg held ég … þetta var hann - var það ekki… Sjálfur sá Úlfur mætavel hvaða form reykurinn myndaði skepnuna sem tók móður hans frá honum.
4
Úlfur stóð frammi fyrir vali. Hann gæti haldið áfram með líf sitt í þorpinu - án foreldra sinna og með andúð þorpsbúanna og þá með smá von um að fólk gæti gleymt eða að fara á eftir föður sínum í leit að anda móður sinnar. Löngum var það sagt að ef Smaragðsblómin blómstruðu ekki, þá væri það til marks um að andi þess líkama sem í haugnum lá væri týndur, veglaus eða jafnvel fangi illra vætta. Síðasti haugur sem ekki blómstraði var meira en 200 ára gamall og enginn í þorpinu þekkti sögu hans í dag. Gamli haugurinn lá rétt við snælínu fjallsins sem bar haugana. Þar uppi var jarðvegurinn hrjóstrugur og grýttur og aðeins Smaragðsblóm blómstruðu. Þar var einnig Svartaland - land hrafnanna. Haugur móður Úlfs var neðarlega í fjallinu þar sem villiblómin uxu og rétt hjá lítilli lækjarsprænu. Úlfur stóð berfættur við haug móður sinnar og hlustaði á lækinn. Hann lét tærnar stingast í mjúkan svörðinn, leit niður og horfði á tár sín detta á skítugar tærnar. Hann féll niður og grúfði andlit sitt í mjúkt grasið. Moldin undir blautu grasinu ilmaði af rótum villiblómanna sem Úlfur þekkti svo vel. Móðir hans hafði gert seyði úr þessum rótum handa Úlfi þegar hann gat ekki sofið. Hún hafði tekið hann í fang sér og setið með hann við eldinn á meðan hún hrærði í pottinum og söng. Krunk krunk krá, krummarnir fara á stjá Í nóttinni skaltu ei rekast á þá.
5
Betra er að kúra sig og kúra sig og klukkur sjá, og með þeim heyra, hjartað sitt á himnum slá. Hollt er það að hlusta á, með því færðu forna sál og fuglamál. Krunk krunk krá, krummarnir fara á stjá Í nóttinni skaltu ei rekast á þá.
Hann vissi að hann þyrfti að fara, þetta var auðvitað ekkert val. Í huganum gekk hann inn í hauginn og faðmaði líkama móður sinnar að sér. Hann fann hvernig frostið beit í fingurgómana og skreið upp eftir handleggjunum í átt að hjartanu. Hann opnaði augun, stóð upp og hristi af sér myrkur frostsins. Sólin skein, fuglarnir sungu, villiblómin ilmuðu, hrafnarnir horfðu og Úlfur vissi hvað hann þyrfti að gera. Upp úr bakpoka sínum, tók Úlfur upp litla tréöskju. Hún var ekki eins falleg og sú sem faðir hans hafði smíðað. Úlfur hafði fylgst vel með hverri hreyfingu föður síns þegar hann smíðaði fyrri sálnaöskjuna. Hann hafði notað
6
reyni - uppáhaldstrjátegund Úlfs. Úlfur elskaði lyktina af trénu sjálfu og laufblöðum þess en einnig lá ástæðan í því að faðir hans hét Reynir. Margoft hafði hann heyrt söguna af því hvernig faðir hans var fæddur undir stóru og öldruðu reynitré í skóginum og þess vegna nefndur Reynir. Askjan hafði haft hjarir og lás úr silfri og á lokið hafði Reynir fest lítinn silfurskjöld sem á stóð Hrefna - almaarea morne wilin (blessaður svartur fugl). Askja Úlfs var einnig úr reyni og gerði hann sitt besta til að fylgja hverju fótspori föður síns í smiðjunni. Margir dagar og margar nætur fóru í að pússa viðinn svo hann yrði eins mjúkur og vangi móður hans hafði verið. Þegar Úlfur hafði lokið við að smíða öskjuna þá uppgötvaði hann að þó svo að hann kynni að búa til öskjuna þá hvorki átti hann silfur né kunni að smíða úr því. Úlfur tók þess í stað Muninsklukkur og sauð með krækiberjum en það gaf honum svart seyði sem hann notaði til að bera á öskjuna þar til hún varð gljáandi svört. Á lokið skar hann út mynd af hrafni og batt svo öskjuna saman með snæri. Hann tók upp öskjuna, opnaði hana og kraup niður. Varlega skar hann upp rúmlega lófastóran flipa í grasið og lyfti upp torfinu. Faðir hans hafði sagt honum að ekki mætti skera of mikið í hauginn því þá yrðu villiblómin í kring döpur og hrafnarir óánægðir. Úlfur hafði hjálpað föður sínum að sækja moldina því hans hendur voru enn litlar, stórar miðað við aldur en auðvitað minni en hendur Reynis sem voru stórar og sterkar og alltaf heitar. Úlfur saknaði
7
þessarar hlýju. Því næst seildist hann með litla hönd sína undir grasið og stakk fingrunum í moldina. Hún var mjúk og köld. Úlfur greip hnefafylli og setti í öskjuna. Þrjár hnefafyllir lagði Úlfur varlega í svarta öskjuna. Hann lagði grastorfuna aftur yfir sárið og gaf grasinu vatn að drekka úr læknum. Þegar hann stóð upp varð honum litið upp í fjallið, það voru læti í tveimur hröfnum sem hringsóluðu rétt við snælínuna. Úlfi varð hugsað til gamla haugsins og ákvað að hefja ferð sína með því að ganga á fjallið og heilsa hröfnunum. Hann stakk öskjunni niður í bakpokann sinn, þurrkaði moldina af blaði hnífsins og fyllti vatnsbelginn í læknum. Hann var tilbúinn. Á meðan Úlfur gekk sín fyrstu skref upp fjallið fór hann yfir það sem hann hafði tekið með sér. Hníf og brýni, tvo uppáhalds bogana sína, allar övarnar sem hann fann í smiðjunni og nokkrar nýjar sem hann hafði smíðað sérstaklega fyrir ferðina. Í nesti hafði hann tekið þurrkað kjöt sem hann hafði útbúið sjálfur og var afar stoltur af, þó svo að hann væri ekki stoltur af mörgu í sínu fari þá vissi hann að hann var góður í að reykja og þurrka kjöt - meira að segja þorpsbúarnir gátu ekki neitað því. Hann hafði náð að semja við bakarann og látið hann hafa einstaklega gott kjöt í skiptum fyrir nýtt brauð og ost. Einnig hafði hann með sér síðustu flöskuna af villirótarseyðinu sem móðir hans hafði gert, pott og lítinn skinnpoka með þurrkuðum Drerablómum. Síðast en ekki síst - greip hann með sér litla öskju af salti.
8
Hann gekk lengi á milli hauganna og skoðaði sofandi Smaragðsblómin. Stilkar þeirra voru aftur komnir inn í haugana og knúbbarnir mynduðu einskonar varnarbrodda sem huldu haugana. Blómin lágu í dvala yfir sumarið og vöknuðu ekki aftur fyrr en eftir að fyrsti snjór vetrarins féll. Lætin í hröfnunum voru ærandi og Úlfur leit upp og kallaði: — Æji, greyin mín - óttaleg læti eru í ykkur! Honum til mikillar furðu þögnuðu hrafnarnir og Úlfur fór hjá sér. — Afsakið en ég er á leiðinni til ykkar reyndar - mig langaði til að horfa yfir fjörðinn og þorpið eins og þið gerið… Hrafnarir krunkuðu og flugu niður. Það var enn töluverður spölur fyrir Úlf að snælínunni en hann var forvitinn og gekk hratt. Þegar hann nálgaðist staðinn þar sem hrafnarnir stóðu tók hann eftir því að þeir stóðu við gamla hauginn. Það virtist vera leikur í þeim - þeir hoppuðu og flögruðu hvor yfir annan með sínum stóru, gljáandi svörtu vængjum. Í fjarlægð hafði þetta litið út eins og einhverskonar rifrildi en nú þegar Úlfur stóð nær sá hann gleðina og fegurðina í hreyfingum þeirra. Hann velti því fyrir sér hvort þeir hefðu alltaf verið glaðir eða hvort þeir væru glaðir af því að hann var þarna. Eins og í leiðslu yfir fegurð þeirra gekk Úlfur að gamla haugnum - hann hafði aldrei gert sér almennilega grein fyrir því hversu stórir hrafnarnir í fjallinu voru og þarna stóðu þeir fyrir framan hann og horfðu á hann. Úlfur hrökk við þegar annar hrafninn tók að höggva
9
í hauginn með gogginum. Ekki leið á löngu þar til hinn hrafninn flögraði upp á hauginn líka og afar varlega stakk hann gogginum undir torfið sem félagi hans hafði hoggið til. Úlfur starði á þá. Hrafninn sem hjó í hauginn færði sig nær Úlfi, leit á hann og hallaði undir flatt. — Hvað? sagði Úlfur. — Hvað viltu? Hrafninn færði sig nær og Úlfur bakkaði frá honum. Hrafninn flögraði upp og lenti rétt hjá bakpoka Úlfs, þar sem hann hafði lagt hann frá sér. Hann rak gogginn í pokann og leit aftur á Úlf sem vissi ekki hvort hann ætti meira að horfa á hrafninn við bakpokann eða þann sem enn hélt uppi torfinu á haugnum. Í huga hans hljómaði rödd móður hans — Hollt er það að hlusta á, með því færðu forna sál … — og fuglamál, sagði Úlfur upphátt. Úlf grunaði hvað það var sem hrafnarnir vildu en hann trúði því samt ekki. — Ég skil þetta ekki, sagði Úlfur og gekk að bakpokanum. — Svo er ég ekki með auka sálnaöskju… Úlfur kraup niður og rótaði í öllum vösum bakpokans en fann ekkert nýtilegt. Leiður leit hann upp og í augu hrafnsins sem hjá honum stóð. Það kurraði í hinum hrafninum og Úlfur ákvað að gefast ekki svona upp, það þýddi ekkert. Út úr öllu finnum við, var faðir hans vanur að segja. Úlfur opnaði aftur bakpokann. — Ég gæti notað litla pokann undan Drerablómunum, hugsaði hann. — Ég set þau bara í buxnavasann og svo verð ég bara að passa mig að meiða mig ekki neitt…
10
Móðir Úlfs hafði kennt honum að nota Drerablóm en þau voru einstaklega græðandi - sérstaklega gagnvart brunasárum. Best var að nota blómin fersk og ný en einnig var hægt að þurrka þau og þá voru þau mulin og hrærð út í kalt vatn. Að vera með þurrkuð drerablóm var oft þægilegt á langferðalögum. Úlfur tók litla skinnpokann og helti varlega úr honum í lófann og stakk í buxnavasann sinn. Hann steig svo varlega upp á hauginn í áttina að hrafninum sem þar stóð, enn með gogginn undir torfinu. Hægt og rólega renndi hann hendinni undir torfið og greip lófafylli af mold. Rétt áður en hann setti moldina í skinnpokann tók hann eftir því að enn var svolítið af Drerablómum þar eftir. Hann leit á hrafninn og varlega hellti hann restinni á hauginn. Hrafninn sagði ekki neitt. Þá gat hann sett moldina í pokann og bundið fyrir og hrafninn gat lagt niður torfið. Hrafninn hristi sig, ýfði fjaðrirnar og nuddaði moldina af goggnum eftir bestu getu. Úlfur steig niður af haugnum, leit á litla skinnpokann og setti hann í bakpokann sinn, rétt við sálnaöskju Hrefnu. — Ég get auðvitað ekki lofað neinu, sagði Úlfur. — Ég veit ekki einu sinn hvar ég á að leita. Já, og ég veit ekki einu sinni hver á hauginn! Þetta var allt svo furðulegt að Úlfur gat ekki annað en farið að hlæja. Fyrst brosti hann svo hristi hann höfuðið og fór svo að hlæja. Hann var sannfærður um að hrafnarnir hlógu með honum. Þegar Úlfur setti á sig bakpokann og sneri
11
baki í hauginn leit hann niður eftir fjallinu. Þarna sá hann haug móður sinnar, lækinn og enn neðar sá hann litla húsið sitt og þarna lá þorpið hans við sjóinn. Fjörðurinn sneri í austur og stundum mátti sjá sólina rísa úr sænum beint fyrir miðju fjarðarins þegar staðið var í fjörunni. Sunnanmegin fjarðarins voru langir fjallgarðar þar sem Svartaland lá og tindur fjallsins sem haugarnir voru á var í vestur. Úlfur leit til norðurs og í fjarlægð sá hann skóginn. Hann var kallaður Rauðiskógur því í skóginum voru mörg Reynitré og á haustin voru þau alsett reyniberjum og skógurinn tók á sig rauðan blæ. — Jæja, það er ekki eftir neinu að bíða, sagði Úlfur við sjálfan sig og hrafnana. Hann gekk af stað niður fjallið og í áttina að skóginum.
2. kafli Úlfurinn í skóginum