3 minute read
Árið 2021 á Seyðisfirði
yfirhafnarvörður á Seyðisfirði
Árið 2021 hefur verið viðburðaríkt hér á Seyðisfirði líkt og annars staðar. Það var nóg að gera í upphafi árs við hreinsunarstörf eftir hamfarirnar miklu 18. desember 2020 og sá Seyðisfjarðarhöfn til þess að starfsmenn verktaka, viðbragðsaðila og sveitarfélags hefðu húsaskjól til að nærast og hvílast. Ferjuhúsið okkar var notað til þessa verks og nýttist vel á þessum tíma sem verkið stóð yfir.
Ferjan Norröna sigldi ekki fyrstu tvo mánuði ársins vegna mikilla breytinga sem unnið var við og leysti M/S Frijsenborg hana af á meðan og sigldi með þann farm sem fluttur var inn á því tímabili. Norröna var komin aftur á áætlun í mars og má segja að skipið hafi verið hið glæsilegasta eftir andlitslyftinguna sem breytti ásýnd skipsins mikið. Covid hefur vitaskuld sett strik í reikninginn en samt sem áður hafa siglingar gengið vel og ekki komið upp nein alvarleg tilfelli af þeirri leiðu pest. Áhöfn og útgerð Norrönu hafa staðið sig með miklum sóma í baráttunni gegn covid-19 og eiga þau hrós skilið fyrir það. Við bindum vonir við að á næsta ári verði kominn stöðugleiki í baráttuna við vírusinn og Norröna geti tekið upp þráðinn að nýju og flutt farþega óhindrað til og frá landinu.
Togari Síldarvinnslunnar, Gullver NS-12, landaði reglulega allt árið og sá frystihúsi SVN á Seyðisfirði fyrir nægu hráefni. Þegar þetta er ritað hefur Gullver landað í 53 skipti og vel ríflega 4.000 tonn komin á land. Einnig hafa Bergey VE-144 og Vestmannaey VE-54 ásamt nokkrum öðrum minni skipum og smábátum landað nokkur skipti sem er ánægjuleg viðbót við skipakomur hingað. Fiskimjölsverksmiðja SVN tók á móti Kolmunna fyrr á árinu og bárust tæplega 20.000 tonn hingað til Seyðisfjarðar. Nú þegar loðnuvertíð er að hefjast þá erum við bjartsýn og eigum von á að Loðnu verði landað til bræðslu hér sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkar litla hagkerfi. Við bíðum spennt eftir að sjá hvernig veiðar ganga og vonum vitaskuld að allt gangi að óskum og Loðnan láti ekki hafa of mikið fyrir sér.
En það sem er að verða okkar helsta verkefni eru skemmtiferðaskipin og allt það sem þeim fylgir. Árið 2019 var metár og skipakomur voru 68. 2020 setti covid allt í uppnám og hingað kom 1 skip. En útgerðirnar misstu ekki móðinn og í sumar komu 13 skip í 47 heimsóknir og fluttu með sér 16.500 farþega. Það þótti okkur mjög gott miðað við heimsfaraldurinn sem glímt er við og farþegar sem komu í heimsókn til okkar voru himinlifandi með að geta ferðast til Íslands. Við hafnarstarfsmenn á Seyðisfirði lögðum hart að okkur að gera allar komur sem þægilegastar og umfram allt að sjá til þess að gestir okkar upplifðu sig velkomna. Miðað við öll brosin og þakklætið sem við fengum voru gestirnir klárlega að njóta sín. En það voru ekki bara hafnirnar sem gerðu góða hluti. Skipin sem sigldu hér við land voru vel undirbúin og varúðarráðstafanir voru miklar, sýni tekin úr farþegum reglulega og allt skilaði þetta sér í vel heppnuðu sumri. Lítið var um smit um borð í skipunum og það sýndi að þær ráðstafanir sem nýttar voru virkuðu vel. Nú er horft björtum augum til ársins 2022 því það eru 70 skipakomur bókaðar til Seyðisfjarðar og því skemmtilegt sumar í vændum.
Nú þegar líða fer að lokum árs 2021 langar mig að þakka þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu Seyðisfjörð við uppbygginguna eftir skriðuföllin. Það er ekki hægt að meta það að fullu hversu mikils virði allur samhugurinn og hlýju kveðjurnar eru fyrir okkur Seyðfirðinga og því segi ég aftur kærar þakkir allir þeir sem lögðu hönd á plóg og studdu okkur í þessu mikla þrekvirki.
Að því sögðu óska ég landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.