4 minute read

Námskeiðslotur á besta áfangastað Lonely Planet 2022

Peter Weiss

forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða

Rík áhersla er lögð á hagnýta nálgun í námskeiðum Háskólasetursins.

Námskeiðslotur á besta áfangastað Lonely Planet 2022

Háskólasetrur Vestfjarða býður upp á tvær námsleiðir á meistarastigi í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Sjávarbyggðafræði og Haf- og strandsvæðastjórnun. Námið hannað þannig að það er aðgengilegt fyrir þátttakendur úr atvinnulífi, þó það sé eingöngu í boði í staðnámi.

Kennsluáætlun Háskólaseturs er byggð upp í lotum og auðveldar þetta fyrirkomulag þátttakendum mjög að sækja stök námskeið. Loturnar taka frá einni og upp í þrjár vikur, og eru stútfullar af kennslu, vettvangsferðum og verkefnum, svo ekki er ráðlagt að taka þær með mikilli vinnu. Kosturinn er hinsvegar sá að þær dragast ekki á langinn, þegar lotan er búin er hún búin. Þetta fyrirkomulag getur því hentað vel sem endur- og símenntun starfsmanna í sjávartengdum greinum. Eins og góðir veiðitúrar er þetta törn en hún borgar sig.

Vorið 2022 verða nokkrar námslotur tengdar saman eftir efni. Á myndinni má sjá það helsta sem er er í boði.

Lotukerfið gerir það að verkum að Háskólasetrinu tekst að fá til sín mjög sérhæfða kennara. Sumir þeirra eru mikilvirkir í vísindum en aðrir starfandi í viðkomandi greininni með fullt af reynslu. Auk þess er reglulega farið í vettvangsferðir og fyrirtækjaheimsóknir þar sem við á til að fá betri innsýn í viðfangsefnið. Nemendur hafa einmitt nefnt þetta tvennt sem það besta í náminu fyrir vestan, að hingað komi sérhæfðir kennararnir alls staðar að, og að námið sé fjölbreytt og áhugavert.

Vorið 2022 mun Háskólasetrið í fyrsta sinn tengja saman lotur sem eiga vel saman. Til dæmis verður í boði röð lota sem tengjast nýsköpun: Frá lok mars og fram í lok apríl eru tvær tveggja vikna lotur í boði, Innovation and Entrepreneurship eða Nýsköpun og frumkvölastarf fyrir páska og svo Business Incubator eftir páska sem er nokkurskonar viðskiptahraðall. Kjörið fyrir þá sem luma á viðskiptahugmynd og vilja komast áfram með hana. Í námskeiðinu verður ekki síst horft til nýsköpunar innan fyrirtækja, enda er hún oft vanmetin. Svo sakar ekki að eiga skemmtilegan tíma á Ísafirði um páskana enda líf og fjör í bænum með Aldrei fór ég suður og Skíðaviku.

Í maí eru svo í boði tvær tveggja vikna lotur um sjávartengd matvæli annars vegar og um þróun svæða frá frumframleiðslu, eins og matarframleiðsla er, yfir í ferðamennsku. Þar sem vitað er að ferðamennska hefur mikið með matarmenningu að gera tengjast þessi námskeið meira en titlarnir gefa til kynna við fyrstu sýn. Í Fæðukerfi strandsvæða, eins og matvælanámskeiðið heitir formlega, er einmitt lögð áherslu á verðmætasköpun og virðiskeðju, að gera meira úr matvælum og selja seinna í virðiskeðju fyrir hærra verð, en sala til ferðamanna getur þar skipt máli. Fæðuöryggi, fæðusjálfræði, fæðuréttlæti, sjálfbærni og seigla fæðukerfa út frá matvælum tengja námskeiðið út í hinn víða heim og opna augu nemenda fyrir samhenginu á heimsvísu. Ferðamálanámskeiðið ber undirtitilinn „frá auðlindahagkerfi í aðlöðunarhagkerfi“ og setur þessa þróun, sem hægt er að skynja á Íslandi í dag, á oddinn.

Þeir sem hafa mest áhuga á auðlindastjórnun og skipulagi ættu að skreppa til Ísafjarðar upp úr miðjum febrúar þegar þrjár stjórnunartengdar lotur hefjast, koll af kolli: Stjórnun verndaðra hafsvæða ríður á vaðið. Strax á eftir, í byrjun mars, er í boði tveggja vikna lota um Fiskveiðistjórnun og fiskvieðitækni, sem James Kennedy sérfræðingur hjá Hafró á Ísafirði kennir. Loks tekur við tveggja vikna lota um Hafskipulag, kennd af David Goldsborough, sem kennir við háskóla í Hollandi og er starfandi meðlimur í fimm ICES-sérfræðingahópum. Hann er gott dæmi um kennara sem tengir nemendur út fyrir háskólaumhverfið á sviði haf- og strandsvæðastjórnunar. Í öllum þessum stjórnunartengdum námskeiðum er í forgrunni að nýta auðlindir hafs og stranda á sjálfbæran hátt, án þess að ganga á auðlinda og í sátt og samlyndi við hagsmunaaðila.

Í báðum námsleiðum er lögð mikil áhersla á stjórnun og hagnýta nálgun. Í Haf- og strandsvæðastjórnun er fengist við stjórnun og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafs og strandsvæða og í Sjávarbyggðafræði er fengist við þróun byggða og hvernig hægt er að hafa áhrif á hana. Í mörgum námskeiðum kynnast nemendur ólíkum verkfærum sem nota má við stjórnun. Til dæmis í námskeiðinu Coastal Arctic Scenarios, eða Sviðsmyndir fyrir strandsvæði norðursins, þar sem nemendur fá ekki aðeins þekkingu um strandsvæði á norðurskautssvæðinu, heldur kynnast í verki þeim verkfærum sem þarf til að setja upp sviðsmyndir, vinna úr þeim og túlka, enda eru sviðsmyndir mikilvæg verkfæri til að greina nútíðina og gera sér grein fyrir hugsanlegum framtíðum. Annað námskeið sem setur hagnýta nálgun á oddinn er lotan Bjargráð við hamförum, sem er kennt í mars. Hér verða ekki eingöngu lesnar faggreinar, því einnig verða til skoðunar heimildarmyndir, hlaðvörp og listaverk sem fást við hamfarir en einnig verður farið í vettvangsferð til að gefa enn betri innsýn í viðfangsefnið.

Þegar hefur verið minnst á námskeiðið Business Incubator sem er nokkurskonar viðskiptahraðall þar sem nemendur þróa sínar eigin hugmyndir áfram, en námskeiðslotan Verkfæri fyrir samfélags- og byggðaþróun, sem kennt er á sumarönn, leiðir hugann að þeim verkfærum sem menn nota víða í heiminum til að hafa áhrif a þróun byggða. Námskeiðið er hagnýtt þar sem unnið verður úr dæmum, þó kenningar þurfi vissulega vera á sínum stað í meistaranámi.

Innritun í stakar lotur er töluvert einfaldara en að sækja um í fullt nám. Umsóknarfresturinn er fremur skömmu fyrir upphaf viðkomandi lotu og umsækjendum sem eru langt komnir í grunnnámi er velkomið að sækja um. Vissara er þó að tryggja sér gistingu snemma, enda húsnæði af skornum skammti í “háskólaborg” á Vestfjörðum, sem Lonely Planet valdi besta áfangastað í heimi.

Sjávarafl óskar starfsmönnum sínum og lesendum um land allt, gleðilegra jóla með ósk um farsæld, frið og gæfu á nýju ári.

This article is from: