1 minute read
ÞAÐ GETUR ENGINN VALHOPPAÐ Í FÝLU
from Göngubók UMFÍ 2023
by UMFÍ
Ágæta göngufólk
Fátt er betra en að ganga úti í náttúrunni, anda að sér hreinu lofti, upplifa umhverfið, njóta samveru með öðrum og eignast nýjar minningar. Göngubókin er lykill að þessari gleði, þessari góðu upplifun. Þess vegna gleður það okkur að vita til þess að þú hefur þessa göngubók UMFÍ undir höndum.
Advertisement
Göngubók UMFÍ hefur komið út á hverju ári í meira en tuttugu ár. Markmið útgáfunnar hefur ætíð verið það sama; að hvetja fólk til hreyfingar og útivistar, bæði eitt og á eigin vegum en ekki síður í góðum félagsskap. Þá á bókin að hjálpa fólki að bæta þekkingu sína á umhverfinu og landinu okkar. Hreyfing og útivist sameinar ýmis leiðarstef ungmennafélagshreyfingarinnar og verður að segjast að fátt á betur við á þessum tímum.
Gönguferðir skipta mál
Í fljótu bragði getur bókin virkað sem sakleysislegur bæklingur en áhrifin geta verið mikil. Gönguferðir hafa mikið gildi og skipta verulegu máli. Við sjáum það í fjölda gagna, bæði í Ánægjuvoginni og Lýðheilsuvísum Embættis landlæknis, að gönguferðir og í raun hvaða reglulega hreyfing sem er telur í bættri lýðheilsu. Hreyfingin liðkar líkamann og heldur honum við, líkamlega og andlega.
Við vinnum að því á hverju ári að uppfæra Göngubók UMFÍ, bæta leiðir og laga þær til. Gönguleiðirnar eru nú að nálgast þriðja hundraðið vítt og breitt um landið og gætt er að því að þær hæfi sem flestum, jafnt stuttum og ungum fótum og þeirra sem stærri eru. Í því liggur jafnframt viðleitni þess að hvetja til samverustunda fjölskyldunnar og vinahópa úti í náttúrunni, njóta samskiptanna og styrkja tengslin.
Sumt fólk kýs að ganga eitt um hóla og hæðir. Aðrir ganga með öðrum, fjölskyldu sinni og vinum. Ganga er góð hreyfing sem bætir og lagar, styrkir líkama og hefur afar jákvæð áhrif á sálarlífið, þetta andlega sem við gleymum svo oft að huga að.
Hreyfing og ganga er því heilsubót, sem hefur jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega líðan. Heilsan er á meðal dýrmætustu og persónulegustu eigna okkar. Ganga úti í náttúrunni viðheldur heilsunni, getur bætt hana og heldur hinum gangandi heilbrigðari.
Góða ferð
Göngubókin er framlag UMFÍ til betri lýðheilsu. Nú er um að gera að nýta sér hana til þess að setja sér eftirsóknarverð markmið og upplifa þann einstaka ungmennafélagsanda sem fólk getur fundið í gleðinni af því að taka þátt og vera virkir þátttakendur á gönguferðum vítt og breitt um landið.
Ég hlakka til að sjá myndir frá gönguferðum vina minna og ættingja og það er aldrei að vita nema ég hitti þig, lesandi góður, valhoppandi úti í náttúrunni.
Með ungmennafélagskveðju, Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ