1 minute read

Norðurland

Next Article
5 RÁÐ

5 RÁÐ

Spákonufell er bæjarfjall Skagastrandar og svo rækilega er það tengt Skagstrendingum að það er í merki sveitarfélagsins. Fellið er fallega formað með ávölum hlíðum og krýnt klettaborg efst sem kallast Borgin. Fellið, hlíðarnar og Spákonufellshöfði eru samfellt útivistarsvæði sem er óspart nýtt af Skagstrendingum og ferðamönnum. Spákonufellið er kennt við Þórdísi spákonu og spunnust ýmsar misgóðar sagnir um hana. Sagt er að hún hafi komið fyrir fjársjóði í fellinu og að það þurfi konu til að finna hann. Gangan er fyrir alla sem eru í sæmilegri þjálfun og er gengið í grónum hlíðum og framan af sumri á snjó ofarlega. Af Borginni er útsýni mjög fallegt yfir þorpið og Húnaflóa.

Súlur í Eyjafirði eru bæjarfjall Akureyrar og tignarlegar þar sem þær rísa ljósar að lit upp af breiðum blágrýtisstalli. Tindar fjallsins eru tveir. Syðri-Súla er 1213 m y.s., en norðar er Ytri-Súla, um 1200 m y.s. Austan við Súlur er Glerárdalur. Hann opnast út í Eyjafjörð við Akureyri. Vinsælt er að ganga á Súlur og á færi flestra, sem eru í ágætis formi, að ganga þar upp. Leiðin er stikuð og greiðfær, örlítið brött efst en þó hvergi klifur í klettum eða slíkt. Gott útsýni er ofan af Ytri-Súlu yfir Eyjafjörð, Glerárdalinn, austur yfir Vaðlaheiði og víðar. Í góðu færi er upplagt að fara yfir á Syðri-Súlu og bætist þá við útsýni til suðurs.

Advertisement

Múlakolla Ólafsfjarðarmúlinn er svipmikill og áberandi úti á Eyjafirði og eins og útvörður Ólafsfjarðar. Hæsti tindur Múlans kallast Múlakolla og er vinsæl til göngu á sumrin og haustin en á veturna er algengara að fara upp með fjallaskíði og þá renna menn sér niður. Af Múlakollu er útsýni stórkostlegt og sést vítt um fjöll og dali. Fyrir fótum liggja Ólafsfjörður og Eyjafjörður og hægt að sjá út til Grímseyjar. Ef skyggni er sérstaklega gott má sjá reykina í Námaskarði liðast til himins í austri. Á sumrin er þessi ganga fyrir flesta í ágætisþjálfun en gæta þarf þess að hafa viðeigandi öryggisbúnað ef farið er á veturna.

Mælifellshnjúkur er hæstur fjalla vestan megin í Skagafirði. Er það alla jafna kallað vestan vatna enda skiptu Jökulsárnar vestari og austari byggðinni að fornu. Mælifellshnjúkur er tilkomumikill að norðan að sjá og hefur þá píramídalögun en þegar horft er til hans að austan sést betur að hann er í raun fjallshryggur. Gangan upp á Mælifellshnjúk er ekki eins erfið og ætla mætti því að leiðin er greiðfær í góðu sumarveðri. Þó ber að gæta þess að skjótt skipast veður í lofti og því rétt að vera vel búinn og með gott nesti þegar lagt er á fjallið. Útsýnið er gríðarfallegt og sést vel til allra átta í góðu skyggni.

This article is from: