1 minute read

Austurland

Next Article
5 RÁÐ

5 RÁÐ

Stórurð – Borgarfirði eystri er eitt stórfenglegasta náttúrufyrirbrigði á Austurlandi. Talið er að hinar stóru steinblokkir, sem einkenna hana, hafi fallið niður á ís úr Dyrfjöllum og ísinn síðan flutt þær fram dalinn og mótað þannig þessa undraveröld. Hið sérstæða landslag Stórurðar er stórbrotið svo að vægt sé til orða tekið. Sléttir grasbalar og hyldjúpar tjarnir innan um björg á hæð við fjölbýlishús. Yfir þessu ævintýralega landslagi gnæfa svo Dyrfjöll sem eru tignarleg úr öllum áttum. Snjóþungt er í Stórurðinni og almennt ekki talið ráðlegt að fara þar um án leiðsagnar fyrr en um miðjan júlí.

Valtýshellir Hjálpleysa er dalur á mörkum Valla og Skriðdals. Leiðin liggur upp í dalinn og að litlum hellisskúta sem heitir Valtýshellir. Í hellisskútanum á „Valtýr á grænni treyju“ að hafa hafst við eftir að hann rændi og myrti sendimann Péturs sýslumanns á Ketilsstöðum á fyrri hluta 18. aldar. Gengið er frá þjóðvegi austan (utan) við Gilsá, farið hjá rústum

Advertisement

Hátúna en það var myndarbýli í árdaga Íslandsbyggðar og sjást þar enn merki um hlaðna grjótgarða. Valtýshellir er lítill skúti innan við lítinn urðarrana skammt innan við og norður af Hjálpleysuvatni. Friðsæld ríkir í Hjálpleysudal og er gott að dvelja þar um stund.

Strútsfoss í Strútsá steypist fram af brúnum Villingadals sem gengur inn af Suðurdal. Fossinn er tvískiptur, neðri hluti hans er um 100 m hár og sá efri um 20 m. Neðan fossins fellur áin í djúpu gili, Strútsgili, og sameinast Fellsá litlu neðar. Áin og fossinn draga nafn sitt líklega af strýtulaga klettadrangi eða dröngum í gilinu. Þetta er ekki erfið ganga og hæfir flestum á sumrin og haustin en færðin getur orðið erfiðari á veturna og snemma á vorin vegna snjóa. Þess má geta að fossinn veit í norðvestur, er því oft í skugga og best að skoða hann síðla nætur um hásumar.

This article is from: