Almenningssamgöngur tilraunaverkefni skilablað stýrihóps

Page 1

Tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna 2012-2022 Framvindumat 2016 – skilablað stýrihóps verkefnisins. Í samningi SSH og Vegagerðarinnar frá 7. maí 2012 um 10 ára tilraunaverkefni til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu er ákvæði um að unnið skuli mat á framvindu verkefnisins á tveggja ára fresti. Tilgreindir eru níu ástandsvísar ásamt fleiri mælikvörðum um samgöngur sem hafa á til hliðsjónar. Í samræmi við ofangreint var Mannviti falið að taka saman upplýsingar um stöðu verkefnisins í dag og framvindu þess í ljósi tilgreindra ástandsvísa frá árinu 2011. Meginmarkmið samkomulagsins er að tvöfalda a.m.k. hlutdeild almennings-samgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum og sporna með þeim hætti við tilsvarandi aukningu eða draga úr notkun einkabílsins, og draga jafnframt úr þörf á fjárfrekum fjárfestingum í nýjum umferðarmannvirkjum. Samhliða þessu meginmarkmiði eru einnig sett fram markmið um bætt umferðaröryggi og minnkun í losun gróðurhúsaloft-tegunda og um þjóðhagslega hagkvæmni með betri nýtingu samgöngutækja og minna sliti á gatnakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir árlegu framlagi úr ríkissjóði til verkefnisins að upphæð 900 milljónum króna á verðlagi ársins 2012, sem skyldi verðbætt í samræmi við þróun verðlags á helstu rekstrarþáttum Strætó bs. (settur er fyrirvari í samningnum um fjárhæð árlegs framlags í fjárlögum hvers árs). Á móti þessu framlagi ríkisins skuldbundu sveitarfélögin sig til að rekstrarframlög sveitarfélaganna til Strætó bs. yrðu ekki lægri að raunvirði en framlög ársins 2012. Á þeim árum sem liðin eru af samningstímanum hafa árleg framlög ríkisins ekki náð að fylgja verðlagsbreytingum sbr. ákvæði samnings, en árleg rekstrarframlög sveitarfélaganna hafa hins vegar á sama tíma aukist að raungildi. Neðangreind tafla sýnir að á samningstímanum hafa framlög sveitarfélaganna haldið raungildi sínu og aukist m.v. þá verðlagsvísitölu sem tilgreind er í samningnum. Framlög ríkisins, eins og þau hafa verið ákvörðuð í fjárlögum hvers árs hafa hins vegar ekki fylgt þeirri verðtryggingu sem kveðið er á í samningnum, og þó svo að sú skerðing sem var á árunum 2013 – 2015 hafi að nokkru gengið til baka á árinu 2016, þá vantar enn u.þ.b 100 milljónir króna til að upphaflegt ársframlag haldi verðgildi sínu. Almenningssamgöngur á höfuðborgarsv: Framlög ríkis og sveitarfélaga. Framlög á verðl. hvers árs Sveitarfélög Ríki Framlög á verðl. 2016 Samningsvísitala Sveitarfélög Ríki

2012 m.kr 2.586 900* m.kr 100 2.816 980**

2013 m.kr 2.712 903 m.kr 103,2 2.859 952

2014 m.kr 2.822 822 m.kr 106,2 2.886 841

2015 m.kr 2.926 806 m.kr 107,9 2.926 806

2016 m.kr 3.058 886 m.kr 107,9 3.058 886

*Ríkisframlag var 350 m.kr. árið 2012 enda kom samningur til framkvæmda að hausti. **Samningsupphæðin á verðlagi ársins 2016 – verðbætt. Viðmiðunartala.


Þróun helstu ástandsvísa frá 2011 til 2015 er lýst í meðfylgjandi skýrslu Mannvits. Frá ársbyrjun 2011 til ársbyrjunar 2016 fjölgaði íbúum á höfuðborgarsvæðinu um 11 þús. Um 109 þús. starfandi einstaklingar voru á höfuðborgarsvæðinu árið 2011 en rúmlega 118 þús. árið 2015. Með vexti í íbúafjölda og fjölda á vinnumarkaði eykst fjöldi þeirra sem ferðast daglega um höfuðborgarsvæðið. Fyrirliggjandi talningar sýna að bílaumferð jókst um 12% á tímabilinu, en aukning á hvern íbúa var um 7%. Heildarfjöldi strætisvagnafarþega jókst um 19%, sem samvarar um 14% aukningu að teknu tilliti til fjölgunar íbúa á tímabilinu 2011-2015. Árið 2009 ferðaðist hver íbúi höfuðborgarsvæðisins að meðaltali 37 sinnum með strætisvagni en hlutfallið hafði verið um 40 frá árinu 2005. Árið 2015 ferðaðist hver íbúi að meðaltali yfir 50 ferðir með strætisvagni. Samkvæmt könnunum nota 20% þéttbýlisbúa á Íslandi almenningssamgöngur reglulega og fjöldi þeirra sem telja mikilvægt að bæta þjónustu Strætó hefur stóraukist síðustu ár. Innstigum í strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 24% frá 2011. Innstig í strætisvagna í okt. 2015 voru um 1,1 milljón og gangi markmið tilraunaverkefnisins eftir má ætla að innstigin verði yfir 2 milljónir á mánuði árið 2022. Efling almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu er langtímaverkefni. Að mati stýrihópsins fer verkefnið ágætlega af stað og framvindan er jákvæð. Fjölgun farþega þarf að jafnaði að vera yfir 10% á ári til loka tímabilsins svo markmið þess náist að fullu. Það bendir margt til að bæta þurfi almenningssamgöngukerfið frekar og auka fjárhagslega skilvirkni þess til að ná enn betri árangri næstu árin, t.d. með því að verja stærri hluta af rekstrarfjármagni í þjónustu þar sem eftirspurn er mikil og vaxandi og minni hluta þar sem farþegagrunnur er takmarkaður. Bílaumferð hefur aukist áfram og mælingar benda til að ferðatími á helstu akstursleiðum hafi aukist. Ætla má að ekin vegalengd á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu hafi farið úr 20,7 km á hverjum virkum degi árið 2011 í 22,1 km árið 2015 og losun gróðurhúsalofttegunda frá umferð hafi aukist um 6% á hvern íbúa á sama tíma. Fólksbifreiðum á hverja þúsund íbúa (í eigu einstaklinga) fjölgaði um 3-4% á tímabilinu. Ofangreindir mælikvarðar sýna allir að tiltekinn árangur hefur náðst á fyrstu 4 árum verkefnisins, sem styðja við og réttlæta þá ákvörðun sem tekin var á sínum tíma um að setja þetta verkefni í gang. Það er þó ljóst að til að ná þeim markmiðum sem sett eru í samningnum um tvöföldun á hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum frá upphafi til loka tímabilsins þarf að ígrunda vel ráðstöfun þeirra fjármuna sem renna til þessa verkefnis. Stýrihópurinn telur því nauðsynlegt að í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga verði skoðað hvort þörf er á einhverjum áherslubreytingum sem leitt geta til enn betri árangurs og skilvirkni.

Kópavogi 31. mars 2016

Stýrihópur verkefnisins: Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar Hreinn Haraldsson,vegamálastjóri Ellý Katrín Guðmundsdóttir, borgarritari Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri, innanríkisráðuneyti


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.