1 minute read

Jólagjafahugmyndir fyrir blanka stúdenta

GREIN Jóhannes Bjarki Bjarkason

Jólagjafainnkaup eru sá hluti hátíðanna sem valda mér mestum kvíða. Það er ljótur siður að halda að verðmæti gjafanna endurspegli á einhvern hátt væntumþykjuna sem er miðluð með þeim. Þrátt fyrir það viljum við auðvitað gefa okkar nánustu það besta og flottasta. Af því þau eiga það skilið! Fyrir stúdent til margra ára hefur þetta verið krefjandi áskorun. Ef þú ert í vanda með jólagjafir geturðu byrjað hér.

Advertisement

1 Heimagerðar gjafir.

Flest fólk hefur tvær hendur og þær er hægt að nota til þess að skapa eitthvað nýtt. Þú getur nýtt sköpunargáfu þína og föndrað, málað, saumað, prjónað eða samið lag til viðkomandi. Það er hagkvæmt, sniðugt og skemmtilegt.

2 Ávísun.

Ef þú þekkir fólk í kringum þig sem er í vanda er um að gera að bjóðast til að hjálpa fólki við að leysa hann. Ávísun á barnapössun fyrir frændfólk þitt, prjónakennsla eða boð í kvöldmat. Öll erum við góð í einhverju sem hægt er að miðla áfram sem jólagjöf.

3 Heimsæktu nytjamarkaði.

Rauði krossinn, Hertex og Góði hirðirinn bjóða upp á notuð föt og hluti fyrir klink og ýmsa fjársjóði er hægt að finna þar. Heppnin gæti verið með þér og þú fundið fullkomna jólagjöf fyrir þín nánustu með smá einbeitingu og þolinmæði.

4 Upplifun.

Ef þú hefur lítinn áhuga á að gefa eitthvað áþreifanlegt er um að gera að gefa fólki minningar eða tiltekna reynslu. Sem dæmi má nefna gjafabréf í bíó, jóganámskeið eða bókasafnskort.

5 Áheit í þeirra nafni.

Ýmis góðgerðarsamtök eða óhagnaðardrifin félög bjóða upp á áheitasöfnun í öðru nafni en þínu. Þannig má styrkja góðgerðarstarf í nafni einhverra annara.

This article is from: