2 minute read
Ávarp ritstýru
Kæru stúdentar, svartasta skammdegið er skollið á, og í rökkri vetrarmánaðanna finnst mér oft skapast meira rými til að hugsa. Þegar við ritstjórnin settumst niður í byrjun skólaárs og ræddum hvaða áherslur við vildum einsetja okkur á komandi ári, sammældumst við um að við vildum reyna að fanga það sem okkur liggur á hjarta, fjalla um hlutina sem eru í umræðunni bæði í háskólasamfélaginu og víðar. Umræðuefnin sem eru efst í huga okkar margra þessa dagana eru ekki í léttari kantinum, en þau eru samt sem áður raunveruleg og skipa veigamikinn sess í nútímanum sem við lifum.
Í þessu tölublaði er áherslan friður, en líka fjarvera hans. Hvort tveggja endurspeglast í dúkristu Regns Sólmundar Evu sem prýðir forsíðuna, og fyrirbærið friður - og stríð - er án efa það sem einkennt hefur árið sem er að líða. Stríð í stóru samhengi, eins og viðbjóðsleg aðför Pútíns að nágrannalandi sínu, Úkraínu, hefur áhrif á litlu eyjuna okkar í NorðurAtlantshafi því hér eru flóttamenn og innflytjendur frá Úkraínu sem þarfnast stuðnings okkar einmitt um þessar mundir. Ég hvet alla lesendur sérstaklega til þess að lesa sér til um sjálfboðastarf Olgu, Yaroslavs og Konstantins (greinin ber titilinn Úkraínumenn á Íslandi), þar er að finna upplýsingar um hvernig hægt er að styrkja þeirra mikilvæga starf og hvernig við, stúdentar, getum lagt lið í baráttu Úkraínumanna hér heima.
Advertisement
Innri friður er einnig eitthvað sem prýðir síður þessa tölublaðs, og stríð í smærra samhengi - stríðið við sjálf okkur, nú þegar prófatíð er nýafstaðin og við erum flest í spennufalli, koffínfráhvörfum og aum í efri vörinni eftir óhóflega nikótínpúðanotkun. Ég mæli eindregið með hugvekju Hugrúnar - geðfræðslufélags, hollráðum sjúkraþjálfunarnema og einlægum pistlum nemenda um hvernig þau stuðla að sínum persónulega friði og stemma stigu við áhrifum þessara streituvaldandi vetrarmánaða.
Hvort sem þú fagnar jólunum í kristnum skilningi, vetrarsólstöðum í heiðnum skilningi eða einfaldlega þeirri staðreynd að framundan blasir við örlítið andrými, óska ég þér gleðilegra og friðsælla stunda á lokaspretti ársins 2022, og ég vona að þú njótir lestursins.
—Lísa Margrét Gunnarsdóttir (hún/hennar)
Ritstýra Stúdentablaðsins 2022 – 2023