3 minute read

Friður fyrir öll, friður fyrir gleymda fólkið

Ég neita að samþykkja þá hugmynd að mannkynið sé svo hörmulega bundið stjörnusnauðu miðnætti rasisma og stríðs að hinn bjarti morgunn friðar og bræðralags verði aldrei að veruleika.

Þrátt fyrir þessi kraftmiklu og djörfu orð Martin Luther King, Jr. endurspeglast okkar dapri veruleiki því miður ekki í þeim. Ekki misskilja - ég meina ekki að við ættum að gefa heimsfrið upp á bátinn en frekar það að heimsfriður verður aldrei einfalt verkefni. Líttu í kringum þig og taktu eftir ófriðnum sem ríkir um allan heim. Nýlega Úkraínustríðið, aðskilnaðarstefnan sem þvinguð er upp á Palestínumenn og átökin milli Armeníu og Azerbaijan eru allt góð dæmi um átök sem sem hrófla við friði á heimsvísu. Þrátt fyrir að flest lönd í heiminum hafi skrifað undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um friðsamlegar úrlausnir deilna, þrátt fyrir bann við valdbeitingu nema þegar um sjálfsvörn er að ræða og þrátt fyrir vinnu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, hefur heimsfriður aldrei orðið að veruleika.

Advertisement

Engu að síður miðar þessi grein að því að ræða átök sem yfirleitt komast ekki að í sviðsljósinu og kalla eftir friði fyrir öll án mismununar. Frið fyrir gleymda fólkið. Þú gætir verið að velta fyrir þér hvað ég á við með „gleymda fólkinu“. Í þessu samhengi á ég við um innfædda þjóðflokka . Þá gætirðu hugsað með þér hverjir þessir innfæddu þjóðflokkar séu - sem er mjög skiljanlegt, enda þekkjum við ekki öll sögur þeirra sem er nákvæmlega ástæða þess að ég kýs að nota orðin gleymda fólkið.

Hér er vert að nefna að hugtakið „innfæddir þjóðflokkar” á sér enga almenna skilgreiningu í alþjóðalögum. Án þess að flækja málið með lagalegu fagmáli þá er innfætt fólk hluti af ættbálkaþjóðfélögum sem greina sig frá samfélaginu sem býr í landinu vegna félagslegra, menningarlegra og efnahagslegra þátta. Áætlað er að ríflega 370 milljónir manns tilheyri innfæddum þjóðflokkum í Asíu, Afríku, Evrópu og Norður- og Suður-Ameríku. Sem dæmi má nefna Sama á Norðurlöndum og Inúíta í Kanada.

Vegna einstakra siða sinna, menningar og ríkra auðlinda á ósnortnum löndum þeirra hafa innfæddir þjóðflokkar orðið fyrir stórbrotnu óréttlæti í gegnum tíðina. Þetta óréttlæti felur meðal annars í sér þvingaðan brottflutning eða þvingaða aðlögun að ríkjandi samfélagi. Þetta brýtur á grundvallarmannréttindum þeirra, þar á meðal rétti þeirra til lífs. Vegna alvarleika og flækjustigs málsins hafa ýmis bindandi og óbindandi verkfæri verið innleidd til að vernda réttindi þessara viðkvæmu hópa. Gott dæmi um slíkt löglega bindandi verkfæri er ráðstefna Alþjóðavinnumálastofnunar um innfædda þjóðflokka og ættbálkasamfélög. Vert er að nefna að þessar aðgerðir bundu í raun ekki enda á þjáningu innfæddra þjóðflokka þar sem ríki halda áfram að brjóta á réttindum þeirra enn þann dag í dag, með því að leita að og arðræna náttúruauðlindir á landsvæðum þeirra án samþykkis, án þess að einu sinni deila ávinningnum með þeim.

Friður fyrir innfædda þjóðflokka væri einnig liður í því að berjast gegn loftslagsvánni í heild sinni, sérstaklega á átakasvæðum. Rannsóknir sýna til dæmis að í Amazonregnskóginum er minni mengun og minna um skógarhögg á landsvæðum innfæddra þjóðflokka í samanburði við landsvæði sem ríkisstjórnir ráða yfir. Því má færa rök fyrir því að með því að standa vörð um og tryggja réttindi innfæddra þjóðflokka myndum við jafnframt stuðla að friði milli mannkyns og móður jarðar.

Samkvæmt því sem fram hefur komið kallar þessi grein á frið fyrir innfædda sem þjóðflokka en einnig sem einstaklinga sem eiga tilkall til grunnmannréttinda sem tryggð eru öðrum með innlendum og alþjóðlegum lögum. En spurningin sem situr óneitanlega eftir er þessi: Munu þjóðríki forgangsraða réttindum innfæddra þjóðflokka fram yfir efnahagslega hagsmuni sína?

This article is from: