4 minute read

Að láta gott af sér leiða - Sjálfboðastarf Rauða krossins

Rauði krossinn á Íslandi, stofnaður þann 10. desember árið 1924, hefur verið íslensku samfélagi innan handar í tæplega 100 ár. Starfsemin hefur lengi verið brautryðjandi afl á sviði heilbrigðis- félags- og fræðslumála og mörg fyrri verkefni félagsins eru nú starfrækt af íslenska ríkinu, sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum.

Samkvæmt stefnu félagsins til ársins 2030 verður áhersla lögð á fimm megináskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir í nálægri framtíð; hamfarahlýnun, krísur og hamfarir, heilbrgiði, farendur og jaðarsetningu. Starfsemin reiðir sig að stórum hluta á fjölbreytt sjálfboðaverkefni, vettvang sem gerir fólki kleift að taka virkan þátt í að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt.

Advertisement

Saba Karanadze Kobasson (hann/ hans) er einn af næstum 3.000 sjálfboðaliðum Rauða krossins, en auk þess stundar hann nám í mannfræði við Háskóla Íslands. Hann slóst í hópinn fyrir einu og hálfu ári síðan, og lýsir þeim tíma sem gefandi og fjölbreyttum.

„Þetta er mjög sveigjanlegt, sem sjálfboðaliði er eina skyldumætingin þátttaka tvisvar í mánuði, sem er þægilegt því flest okkar vinna eða stunda nám. En þetta er sveigjanlegt í báðar áttir, svo ef þú brennur fyrir einhverri hugmynd eða langar að skipuleggja viðburð, hefurðu tækifæri til þess að láta það verða að veruleika. Við fáum aðgang að alls kyns fróðleik tengdum mannúðarstörfum og hljótum þjálfun - þar sem við lærum að veita flóttafólki sálrænan stuðning, framkvæma skyndihjálp og fleira.“

Verkefni sjálfboðaliða eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg; stuðningur við flóttafólk og innflytjendur, tungumálakennsla, skaðaminnkun svo fátt eitt mætti nefna. Saba hefur orð á því að mörg verkefnanna hafi það að markmiði að færa fólk saman og styðja við þau þannig.

„Ég hef mestmegnis tekið þátt í að skipuleggja félagslega aðstoð fyrir flóttafólk og íþróttatengda viðburði. Það er gagnlegt því mikið af því fólki sem er nýkomið til Íslands er að bíða eftir að umsóknin þeirra verði afgreidd, og það vantar eitthvað að gera, þau þurfa að hitta fólk. Youth Club, verkefnið sem ég er hluti af, styður við fólk með því að leggja áherslu á félagslega þætti. Aðalfundirnir okkar á þriðjudögum einkennast af þúsund hugmyndum um hvað við gætum skipulagt næst. Við syngjum saman, eldum, förum í leikhús, við gerum skemmtilega hluti - mennska hluti.“ Ástæður fyrir þátttöku í sjálfboðastarfi er persónubundin, en algengast er að fólk finni fyrir þörfinni til þess að leggja sitt af mörkum í samfélaginu, að vinna að verðugu málefni og að hjálpa þeim sem minna mega sín. 1) Saba segir að hans eigin áhugi hafi komið til vegna ástríðu hans fyrir alþjóðasamskiptum, auk þess sem hann langaði til þess að láta gott af sér leiða.

„Sumir hlutir eru gerðir í þágu mannlegra gilda, og þú getur tekið virkan þátt með því að leggja rækt við verkefni án þess að það sé í gróðaskyni. Við lifum á öld peninga og vaxta, en starf af þessu tagi opnar augu manns fyrir því að kapítalismi er ekki það sem skiptir mestu máli í heiminum. Ég hef mikinn áhuga á diplómatísku starfi og auðvitað átti það hlut í áhuga mínum, en þess fyrir utan áttaði ég mig á því að suma hluti langar mig að gera í lífinu einfaldlega vegna þess að mig langar það, því þeir samræmast mínum gildum. Ef þig langar að komast að fleiru um heiminn og kynnast öðrum menningarheimum, hvet ég þig til að koma í Rauða krossinn. Þetta er reynsla sem kennir manni margt, bæði í faglegum skilningi en líka í persónulegum skilningi.“

Þau sem hafa áhuga á að gerast sjálfboðaliðar Rauða krossins eru hvött til þess að skrá sig með því að skanna QR-kóðann sem fylgir greininni. Nánari upplýsingar um sjálfboðastörf Rauða krossins er að finna á heimasíðu samtakanna: raudikrossinn.is.

This article is from: