
6 minute read
Tómlætið deyfir tilfinninguna: Hugleiðing um sársauka (annarra) barna
Við fyrstu sýn virðast ljósmyndir nokkuð einfalt fyrirbæri. Þær, ólíkt teikningum, málverkum, skriflegum eða munnlegum frásögnum, fanga augnablik eins og þau bera fyrir augu okkar. Það er ekki mikið pláss fyrir túlkun eða hagræðingu þegar ljósmyndir eru annars vegar, ekki satt? Susan Sontag, bandarískur ljósmyndari og rithöfundur, er ósammála. Hún skrifaði allnokkrar ritgerðir um eiginleika ljósmynda og hvernig þær segja ekki allan sannleikann. Færa má tvenns konar rök fyrir því máli. Í fyrsta lagi ramma ljósmyndir viðfangsefni sitt inn. Þetta er grundvallareiginleiki ljósmynda, óháð því hvort viðfangsefnið er pólitískt eða ekki. Að baki hverrar ljósmyndar er ljósmyndari sem hefur ákveðna sögu að segja. Til viðbótar eru ljósmyndir einnig túlkaðar af hverjum þeim sem lítur hana augum. Myndin er í raun túlkuð tvisvar og þá er augljóst að hún er ekki hlutlaus birting eins augnabliks. Við mótum augnablikið í huga okkar eftir ákveðnum hugmyndum sem við höfum um heiminn. Enn fremur eru myndir pólitískt afl í sjálfu sér. Á sama tíma og myndir ramma inn og skýra frá pólitískum atburðum geta þær einnig haft áhrif á og mótað þessa sömu atburði. Þetta hefur verið augljóst valdhöfum lengi, en áróður ríkja er gjarnan settur fram á myndrænan hátt. Myndir eru því alls ekki kyrrstæð og hlutlaus birting á raunveruleika heimsins.
Stríðsljósmyndir, tómlæti og samúð
Advertisement
Sontag velti þessum eiginleika ljósmynda fyrir sér, einkum í sambandi við stríðsljósmyndun. Hún hafði sjálf reynslu af slíku starfi í Sarajevo á tíunda áratugnum. Í ritgerð sinni, Um sársauka annarra, skrifar hún um það hvernig ljósmyndun fólks á stríðshrjáðum svæðum skapar ákveðna fjarlægð við viðfangsefnin. Það kann að hljómar þversagnakennt, þar sem ljósmyndir gera okkur kleift að sjá, stundum í háskerpu, andlit og aðstæður þeirra sem upplifa stríð. Þá mætti halda að slíkar myndir veki upp samúð og samhug með fólkinu sem birtast okkur. Hins vegar bendir Sontag á það að oft á tíðum vakni upp öfug viðbrögð. Myndirnar ýta undir þá tilfinningu að þessar aðstæður sem þær sýna eigi sér stað einhvers staðar annars staðar. Þá er viðfangsefni myndarinnar stillt upp á móti þeim sem skoðar hana. Þegar við skoðum myndir af stríðshrjáðum svæðum, örugg og vel stödd í upphituðum húsum á Íslandi, er auðvelt að draga línu milli okkar og þeirra sem birtast okkur á myndunum. Við hugsum jafnvel: „svona verður þetta aldrei hér.“ Þá verður jafnvel of freistandi að loka einfaldlega bókinni sem myndin er prentuð í eða vafraglugganum sem hún er sýnd á. Ljósmyndir eru nefnilega bara ljósmyndir og við getum beint athygli okkar eitthvert annað um leið og það hentar okkur. Samúðin sem myndin kann að vekja er því tóm og skilur ekki eftir sig djúpstæð áhrif, að minnsta kosti ekki ofarlega í huga okkar. Eins og Sontag kemur að orði: „[...]tómlætið deyfir tilfinninguna“. Hægt er að skoða þetta nánar með því að skoða myndir af börnum. Börn, sem viðfangsefni ljósmynda, eru afar samúðarkennd. Við lítum á börn sem varnarlausar verur og þegar við sjáum börn í hættu þá er fyrsta hugsun okkar að bjarga þeim úr þeim aðstæðum sem ógnar þeim. Hvernig getur ályktun Sontags um hverfandi samúð gagnvart viðfangsefni ljósmynda átt við þegar umtöluð viðfangsefni eru börn?
Hvað með börnin?
Birtingarmyndir barna á alþjóðavísu, einkum gegnum ljósmyndir, er lítið en stækkandi fræðasvið. Helen Berents, fræðakona á sviðinu, hefur greint frá ýmsum leiðum sem notast við myndir af börnum til að ramma inn eða vekja athygli á atburðum á alþjóðasviðinu. Allt frá fréttamiðlum eða stjórnmálafólki til hjálparsamtaka eða fræðafólks, aðilar með meiri eiginleg völd en börn nota myndir af þeim til að koma skoðunum eða vilja sínum á framfæri. Þá eru börn ávallt peð í valdatafli valdhafa og myndir af börnum eru höndin sem færir þau upp taflborðið. Enn fremur hefur Berents flokkað algengustu birtingarmyndir barna í þessu samhengi. Flokkarnir eru þrír og má merkja sem; börn sem eru til vandræða, börn sem þjást og börn sem eru framúrskarandi. Þegar kemur að stríðsljósmyndun eru fyrstu tveir flokkarnir fyrirferðarmestir. Myndir af börnum í augljósri hættu og börnum sem þjást eru með áhrifameiri ljósmyndum sem nokkru sinni hafa verið teknar. Kim Phúc sem hleypur nakin og grátandi frá Napalm árás í Víetnamstríðinu árið 1973, Alan Kurdi sem liggur hreyfingarlaus í sandinum við gríðarstórt Miðjarðarhafið árið 2015 og Omran Daqneesh sem situr stjarfur í sjúkrabíl, skítugur og blóðugur eftir árás í Aleppo árið 2016. Allt eru þetta myndir sem hafa vakið upp mikla samúð og tekist að hafa áhrif á gang mála á alþjóðasviðinu. Þá mætti halda að þær hreki mál Sontags og sýni fram á að samúðin sem ljósmyndir vekja upp geti haft áhrif til góðs.
Undantekningin sem sannar regluna
Hins vegar má benda á undantekninguna, sem ef til vill sannar regluna. Skoðum birtingarmyndir þeirra barna sem eru til vandræða. Þá er átt við myndir sem sýna börn sem taka virkan þátt í stríði eða stríðsrekstri. Dæmi um slíkt eru myndir af unglingum með riffla eða börnum að taka þátt í ofbeldisfullum aðgerðum ásamt fullorðnum. Almenn viðbrögð við þessum myndum vekja ekki upp samúð með börnunum, heldur er tilfinningunum frekar beint að aðstæðunum eða fullorðna fólkinu í kringum þau. Börnin sitja eftir, eða í versta falli eru talin álíka ógnvænleg og fullorðna fólkið sem umkringir þau. Það sem er áhugaverðast í þessu öllu saman er að myndir af börnum á flótta falla oft í þennan flokk, þrátt fyrir að þau börn séu í augljósri hættu. Þá er sú hætta sem stafar af mögulegum flutningi barnanna og fjölskyldu þeirra inn í nýtt ríki meiri en sú hætta sem hvatti þau til að flýja til að byrja með. Myndirnar vekja upp samúð en sterkari tilfinning, tilfinning um eigið öryggi, situr frekar eftir hjá mörgum þeirra sem skoða myndina. Umfjöllun
sem fylgir myndunum ýtir gjarnan undir þessi viðbrögð þar sem flóttafólk er gjarnan sýnt sem utanaðkomandi hætta í vestrænum ríkjum. Hér kristallast boðskapur Sontags. Sama hve mikla samúð ljósmynd kann að vekja með viðfangsefni sínu þá þarf meira til að sú samúð sitji eftir og umbreytist í aðgerðir í þágu viðfangsefnisins. Þá er viðeigandi að ljúka þessari hugleiðingu á orðum Sontags (úr Um sársauka annarra):