3 minute read

Ávarp forseta Stúdentaráðs - Að vera til friðs

Friður er fallegt orð sem lýsir góðu ástandi - ég er sjálf friðarsinni, og ef ég hugsa um heimsfrið og friðsæld sé ég fyrir mér brosandi fólk og rólegheit. Ég hef hins vegar óbeit á orðasambandinu „að vera til friðs.“ Þar hefur friðurinn misst sína góðu orku og vísar til ástands sem er gott fyrir önnur en þau sem eiga að halda friðinn - skipun frá þeim sem ráða til þeirra sem minni völd hafa um að vera ekki að búa til neitt „vesen.“ Stúdentar hafa í gegnum tíðina verið óhræddir við að raska friðnum og þannig verið þrýstiafl á breytingar víða um heim og átt þátt í að búa til betra og réttlátara samfélag. Stúdentaráð Háskóla Íslands á að baki langa sögu um að rugga bátnum og berjast fyrir breytingum eftir sinni eigin sannfæringu, og hefur meðal annars andmælt því að háskólinn sjái um tanngreiningar fólks á flótta og barist fyrir uppbyggingu stúdentagarða, umhverfisvænni háskóla og jafnrétti allra til náms í víðu samhengi, svo fátt eitt sé nefnt. Við eigum „ófriðar“stúdentum fyrri tíma því margt að þakka og okkur ber skylda til þess að halda baráttunni stöðugt áfram.

Undanfarnar vikur hefur Stúdentaráð haft hátt um skrásetningargjöldin sem innheimt eru við skólann, en ráðið hefur um árabil dregið réttmæti gjaldsins í efa. Þetta 75.000 króna „skrásetningar“gjald stendur meðal annars undir kostnaði við skipulag kennslu, skipulag prófa og almennan rekstur háskólans, þrátt fyrir að lögin setji þau skilyrði að gjaldið fari ekki í kostnað vegna kennslu og í rekstrarkostnað. Stúdentaráð telur að með þessu sé Háskóli Íslands að rukka stúdenta meira en skólanum er heimilt samkvæmt lögum. Við höfum kallað eftir því að það sé talað um hlutina eins og þeir eru í raun - að horfst sé í augu við þá staðreynd að þetta eru ekki skrásetningargjöld í orðsins fyllstu merkingu heldur séu þetta í raun skólagjöld sem innheimt eru í opinberum háskóla. Þetta er óþægileg umræða fyrir undirfjármagnaðan háskóla, en þetta er umræða sem við verðum að taka og við verðum að krefjast breytinga. Háskóli Íslands á ekki að þurfa að teygja sig í vasa stúdenta til viðbótar við fjárframlög ríkisins, en nemendur í opinberum háskólum á Íslandi standa undir miklu meira af fjármögnun háskólastigsins heldur en gildir á Norðurlöndunum, löndunum sem við horfum til og viljum bera okkur saman við. Skrásetningargjaldið við Háskóla Íslands er margfalt hærra en þekkist á hinum Norðurlöndunum, þar sem það tíðkast almennt hvorki að innheimta skrásetningarné skólagjöld af stúdentum í opinberum háskólum. Gjaldið felur í sér álögur á stúdenta sem nú þegar vinna í miklum mæli meðfram námi, eða 72% íslenskra stúdenta samkvæmt EUROSTUDENT VII og segjast um 70% þeirra ástæðu þess að þeir vinni með námi vera að annars eigi þeir ekki efni á að vera í námi.

Advertisement

Stúdentar eiga ekki að vera til friðs. Stúdentar eiga að láta í sér heyra, setja spurningamerki við ríkjandi ástand og krefjast breytinga. Skrásetningargjaldið takmarkar aðgengi að háskólamenntun og skerðir þar með jafnrétti allra til náms. Við verðum að halda baráttunni áfram, krefja stjórnvöld um að standa við loforðin um stórsókn í menntun og sjá til þess að opinber háskólamenntun sé fjármögnuð sem skyldi.

This article is from: