6 minute read

Ekki í okkar nafni? Tálsýnin um friðland

Annað erindið í Hver á sér fegra föðurland eftir Huldu, frá 1944, byrjar svona:

Hver á sér meðal þjóða þjóð,

Advertisement

er þekkir hvorki sverð né blóð

en lifir sæl við ást og óð

og auð, sem friðsæld gaf?

Ísland hefur lengi verið talið friðarparadís og Íslendingar eru gríðarlega stoltir af því, eins og sést á ljóði Huldu sem varð næstum að þjóðsöngnum okkar. Er það þó raunin eða eru sögurnar af friðsæla Íslandi tálsýn?

Ísland hefur verið efst á listum veraldar fyrir jafnrétti og friðsæld í langan tíma. Íslendingar eru stoltir af því að hér sé enginn her og að samfélag þeirra sé öruggt. Frá upphafi mælinga Global Peace Index hefur Ísland ávallt hlotið fyrsta sætið fyrir friðsælasta land heims. Mælingarnar byggjast á öryggi borgara og hernaðarlegri þróun ríkis. Hernaðarleysi okkar spilar því stóran þátt að tryggja okkur þessa stöðu.

Þetta vörumerki sem friðarparadís má gagnrýna sterklega. Við erum hluti af hernaðar- og varnabandalaginu NATO, sem hefur einungis styrkst og staða okkar í því stærri á síðustu mánuðum, vegna augljósra aðstæðna: stríð Rússa gegn Úkraínu. En þetta er gamalt stef, íslenskir friðarsinnar hafa fordæmt aðkomu okkar í NATO frá upphafi þess, við könnumst við þessa gagnrýni.

Undanfarin ár má hins vegar sjá nýja gagnrýni blossa upp í samfélaginu, framkoma ríkisins við flóttafólk og innflytjendur hefur verið hreint út ómannúðleg. Efst í hugum okkar nú eru nýlegar brottvísanir lögreglu á hælisleitendum til Grikklands, þótt að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi dæmt það ómannúðlegt ástand fyrir flóttafólk. Almenningur hefur mótmælt þessu harðlega en útlendingastofnun, stjórnvöld og lögreglan neita að taka ábyrgð og benda öll hvert á annað. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur ekki fordæmt aðgerðirnar og hunsar óskir almennings.

Hvernig getur Ísland verið talið friðsælt land þegar við vísum fólki úr landi með ofbeldi í tuga tali og kerfisbundinn rasismi kemur í veg fyrir að fólk fái skjól? Svarið liggur í skilgreiningu borgara. Öryggi borgara gefur betri einkunn í friðarvísitölunni en hælisleitendur og innflytjendur í umsóknarferli eru ekki skilgreindir sem borgarar. Umsátur og ofsóknir lögreglu og yfirvalda á þessum hópum teljast ekki ógn við íslenska borgara og því erum við enn þá talin friðsælt samfélag.

Við viljum kynna lesendur fyrir viðeigandi kenningu úr smáríkjafræði um vörumörkun ríkja (e.nation branding). Sú kenning bendir á hvernig smáríki nota oft orðspor sitt til að hafa áhrif innan ákveðinna málaflokka á alþjóðasviði. Smáríki hafa sjaldnast mikil völd þegar kemur að efnahagi og hernaði en hins vegar getur orðspor og ímynd smáríkis verið þeirra öflugasta og áhrifamesta tól. Þannig afmarka smáríki sig við sérstök málefni og „vörumerkja“ sig með því. Það er innbyggt í þjóðarímyndinni og flutt út líkt og vörur. Algengt dæmi er t.d. hvernig Norðurlöndin náðu að vörumerkja sig sem frumkvöðlar í loftslagsmálum og eru nú leiðandi afl þegar kemur að þeim aðgerðum. Ísland sem friðland er vörumerking sem hefur hjálpað okkur að ná áhrifum á alþjóðasviði. Ísland var kjörið í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna 2018-19 sem er talið mikilvægasta verkefni sem íslenska utanríkisþjónustan hefur tekið af sér vegna áhrifanna sem við höfðum. Kosningabarátta okkar fyrir setunni var byggð á því að Íslendingar væru þjóð jafnréttis og friðar. Þessi trú er ekki bara treyst erlendis en einnig á Íslandi og hefur verið í langan tíma, eins og sjá má á ljóði Huldu Hver á sér fegra föðurland.

Þó svo að friðsæld sé samofin þjóðernishugmyndum okkar þýðir það ekki að við förum eftir því. Hræsnin er gríðarleg þegar kemur að þessu sviði. Á Íslandi er meirihluti borgara hvítur. Sagan okkar, hefðir og menningararfur er hvítur. Íslendingar eiga langa sögu af því að útiloka þá sem eru öðruvísi. Þessi krafa okkar um að til þess að vera raunverulegur partur af samfélaginu þá þurfi að kunna íslensku er útilokandi, ekki bara fyrir flóttafólk heldur marga af erlendum uppruna. Einnig krefjumst við íslenskuhæfni af fólki en gefum þeim ekki tólin til að læra. Ólíkt öðrum Norðurlöndum eins og Svíþjóð og Noregi þá er tungumálakennsla ekki greidd af ríkinu. Þeir sem vilja læra íslensku þurfa að gera það á eigin tíma utan vinnu og borga nám sitt sjálfir. Auk þess eru of fáir kennarar sem eru menntaðir í íslensku sem öðru máli. Þessi þjóðernisremba okkar er bersýnileg í þessum trega til að inngilda fólk án íslensku. Það þýðir ekkert að hneykslast á að fólk tali ekki íslensku þegar þau fá ekki tækifærin og tólin til að læra hana. Ísland er mjög evrópuhneigt land. Lítil fræðsla er um hluti utan vestrænnar menningar og oft klaufalega farið í meðhöndlun þeirra efna. Það er fín lína á milli þjóðarstolts (e.patriotism) og þjóðernishyggju (nationalism).

Orðræða sýnir oft undirliggjandi rasisma í samfélaginu. Að stjórnmálafólk skuli tala um flóttamannaógnina þegar fjallað er um fjölgun hælisleitenda á Íslandi er skýrt dæmi um innbyggðan rasisma. Raunverulega flóttamannaógnin er að fólki á flótta fer hratt fjölgandi í heiminum, ekki það að þau séu að koma til okkar. Þessi notkun á orðinu ógn er bæði rasísk og afmennskandi. Í stjórnmálum hefur einnig verið sú orðræða að Ísland hafi einfaldlega ekki tök á að taka á móti öllu þessu flóttafólki og vernda þurfi íslensku þjóðina fyrir því. Hræsnin varð augljós þegar stríð blossaði upp í Evrópu í byrjun árs og skyndilega var það hvítt kristið flóttafólk frá Úkraínu sem barði að dyrum. Munurinn á samfélagslegu viðmóti og aðgerðum stjórnvalda var gríðarlegur.

Sem þjóð trúum við á að Ísland sé friðsælt og þegar yfirvöld framkvæmi ómannúðlegar aðgerðir sé það „ekki í okkar nafni“ - en við kusum yfirvöldin. Undirskriftarlistar og mótmæli gera ekkert gagn ef við höldum áfram að kjósa flokka sem vísa fólki úr landi eða eru þeim samsek. Þessar brottvísanir eru ekkert nýtt; Ísland hefur haft grimmilega stefnu gagnvart útlendingum frá upphafi. Ef við viljum rísa undir nafngiftinni sem friðsælasta ríki heims þurfum við að breyta þessari stefnu. Flóttafólki mun bara fjölga og löngu er tímabært á róttækar breytingar á kerfinu.

Lokalínur ljóðsins Ég heyrði þau nálgast eftir Snorra Hjartarson frá 1966 sýna hversu lengi við höfum brugðist þessu fólki.

en hvar er nú friðland

hvar fáið þið leynst

með von ykkar

von okkar allra?

Þau horfðu á mig þögul

og hurfu mér sýn

inn í nóttina

myrkrið og nóttina.

This article is from: