6 minute read
Stríðið með augum rússnesks ríkisborgara - Viðtal við Victoriu Bakshina
Victoria Bakshina (hún/hennar) er tungumálakennari, málvísindafræðingur og mastersnemi í þýðingafræði og kínversku. Hún hefur verið búsett á Íslandi í fjölda ára, en heimsótti heimaland sitt, Rússland, þann 18. febrúar síðastliðinn. Hún var því stödd í Rússlandi þegar innrásin í Úkraínu hófst, og ræddi við Stúdentablaðið um hvernig það er að vera Rússi sem er alfarið á móti „sérstökum hernaðaraðgerðum“ –stríði – Pútíns.
„Ég hafði ekki séð fjölskylduna mína í tvö ár vegna heimsfaraldursins og var að fara að undirbúa matarboð daginn sem ég vaknaði við fréttirnar, þann 24. febrúar. Þegar gestirnir mættu var ekki talað um neitt annað. Frændi minn spurði hvort ég ætlaði aftur til Íslands í ljósi fréttanna –hvort ég væri föðurlandssvikari.”
Advertisement
Fljótlega lokuðu mörg lönd umhverfis Rússland lofthelgi sinni, og ferðin heim til Íslands, sem Victoria lítur á sem sitt annað heimili, flæktist.
„Ég hugsaði með mér hvort ég kæmist einu sinni aftur heim til Íslands. Ég flaug frá Síberíu, þar sem fjölskyldan mín býr, og á flugvellinum hugsaði ég með mér að kannski hefði ég þarna hitt þau í síðasta skipti. Ég flaug til Moskvu og beið í marga klukkutíma í kílómetra langri röð til að reyna að taka út evrur - það er bara einn banki í Moskvu sem leyfir manni að opna reikning í evrum.“
Á flugvellinum í Búdapest tók við algjört öngþveiti.
„Á flugvellinum í Búdapest gaf kona sig á tal við mig sem reyndist vera úkraínsk nafna mín, Victoria. Hún er frá Kharkiv og þau fjölskyldan höfðu vaknað við sprengingar, pakkað í skyndi og keyrt í 29 klukkustundir til að komast í burtu. Við sátum á gólfinu á yfirfullum flugvellinum og töluðum saman, og ég skammaðist mín svo mikið sem Rússi að tala við Úkraínumann. Allt í einu byrjuðum við báðar að gráta og ég baðst sífellt afsökunar, á meðan nafna mín endurtók að þetta væri ekki mér að kenna. Ég hjálpaði Victoriu og fjölskyldu hennar eins og ég gat en ég veit ekki hvað varð um þau.“
Á Íslandi hóf Victoria strax að mótmæla fyrir framan rússneska sendiráðið, og lýsir skömminni sem hún og aðrir Rússar finna fyrir í skugga stríðsins.
„Auðvitað hugsum við að við hefðum átt að vera duglegri að mótmæla spillingunni og aðgerðum Pútíns en við gerðum það, við mótmæltum innlimun Krímsskagans án nokkurs árangurs. Lögreglan í Rússlandi hefur brugðist mjög harkalega við mótmælum bæði þá og nú, þar sem mótmælendur eru pyntaðir með raflosti, barðir mjög illa og þeim nauðgað af lögreglumönnum. Skömmin sem fylgir ábyrgðinni sem okkur er ætlað að axla á gjörðum Pútíns er gríðarleg, og við sýndum andstöðu okkar við stríðið í verki strax með því að mótmæla af krafti fyrir framan sendiráðið. Á sama tíma hélt líf mitt einhvernveginn áfram, en þegar ég tók á móti nýjum hópi nemenda í tungumálaskólanum þar sem ég kenni breytti ég kynningunni minni - ég sleppti því að nefna að ég væri frá Rússlandi, af ótta við mögulegt bakslag.“
Stöðuga streitan og fréttir af grimmdarverkum Rússa í Úkraínu höfðu djúpstæð áhrif, bæði andleg og líkamleg.
„Mér leið bara svo illa. Þá hafði ég samband við Natöshu [sem nýverið gaf út bókina Máltaka á stríðstímum] sem var byrjuð að starfa fyrir Rauða krossinn, og hún ráðlagði mér að gerast sjálfboðaliði og hjálpa börnunum í barna- og fjölskyldumiðstöðinni sem var þá starfrækt í Fíladelfíu. Ég smurði samlokur, hellti upp á kaffi, gaf börnum mjólk og talaði við þau, sem hjálpaði mér mjög mikið og kom í veg fyrir að ég einangraði mig alveg. Herkvaðningin í Rússlandi í september og þetta langvarandi stress gerði svo alveg út af við mig, ég féll í ómegin í vinnunni og var frá vinnu og skóla í nokkrar vikur á meðan ég jafnaði mig.“
Á Íslandi hafa fjölmiðlar haft samband við Victoriu og óskað eftir athugasemdum tengdum stríðinu, á sama tíma og móðir hennar í Rússlandi hefur alfarið bannað henni að tjá sig um ástandið.
„Ég hef tjáð mig opinberlega um stríðið undir mínu nafni án þess að segja fjölskyldu minni frá því. Á sama tíma voru þau að senda mér alls konar myndir og pistla frá rússneskum miðlum þar sem talað var um sérstakar hernaðaraðgerðir og að Úkraínumenn væru nýnasistar sem hefðu verið að myrða rússneskt fólk í átta ár án þess að heimurinn hefði neitt um það að segja. Við rifumst um þetta og ég þurfti að draga smá úr samskiptum við þau, því þau trúðu áróðursherferð Pútíns. Mamma hafði samband nýlega og spurði hvað hún ætti hugsanlega að segja ef yfirvöld bönkuðu upp á og spyrðu um mig, og þá rann fyllilega upp fyrir mér í fyrsta sinn að ég væri bókstaflega að leggja alla fjölskylduna mína í hættu með því að tala opinskátt um þetta. Ég sagði mömmu að segja að ég væri gjörsamlega gengin af göflunum og að hún væri búin að afneita mér og slíta sambandinu, til að veita þeim einhvers konar öryggi.“
Þó að fjölskylda hennar búi í öðrum raunveruleika en hún sjálf, reynir hún að halda einhverjum tengslum við þau.
„Ég hef kost á að nálgast upplýsingar frá sjálfstætt starfandi fjölmiðlum, en það gerir mamma mín ekki og ég er hætt að gagnrýna hana eða að reyna að sannfæra hana, því þá mun ég líklegast bara missa fjölskyldu mína líka. Við Natasha skoðuðum myndir af 4. nóvember – eins konar samstöðudegi Rússa – þá eru hátíðarhöld í tilefni dagsins og Rússland málað upp sem heilagt, talað um strákana okkar í Úkraínu og stríðinu líkt við seinni heimsstyrjöldina sem var talið heilagt því þar var hið góða að berjast gegn hinu illa. Mér finnst óþolandi að heyra talað um þetta sem hið góða gegn hinu illa – nú er orðræðan í Rússlandi líka farin að breytast og þetta er orðið stríð Rússlands gegn öllum Vesturheiminum.“
Að lokum ræðir Victoria mikilvægi þess að skilgreina stríðið í Úkraínu sem stríðsglæpi, og að alþjóðasamfélagið bregðist harðar við.
„Mig langar að fólk fatti að þetta er fyrst og fremst spurning um glæpi sem Rússland er að fremja í Úkraínu –en þetta snýst líka um einhvers konar hrun diplómatíu í Evrópu, að skrifa skýrslur og sópa þessu undir teppið virkar ekki lengur og það verður að þvinga Rússland til viðræðna, neyða alla aðila til að tala saman og semja um frið með þátttöku annarra landa. Á sama tíma langar mig að biðja fólk um að sýna Rússum sem eru andsnúnir stríðinu skilning - allir Rússar sem eru á móti stríðsrekstri Pútín eru í mjög viðkvæmri stöðu. Við þurfum á stuðningi að halda og þess væri óskandi að yfirvöld myndu innleiða aðgerðir til þess að veita Rússum sem eru á móti stríðinu skjól og öryggi. Við verðum fyrir aðkasti vegna þjóðernis okkar þó við séum að mótmæla opinberlega og þar með að leggja okkur sjálf og okkar nánustu í hættu.“