4 minute read

Hún hlustar og reynir að skilja, orðlaus - Um Máltöku á stríðstímum eftir Natöshu S.

Bókin lýsir nýjum veruleika og leit að nýrri sjálfsmynd. Sú gamla var allt í einu ekki lengur gild. Þetta sagði skáldið í ræðu sinni er Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar voru afhent, þann 17. október síðastliðinn. Natasha S. sendir frá sér ljóðabók sem er ekki aðeins tíðindamikil, eins og raunar önnur verk sem hún hefur unnið að (Natasha ritstýrði ljóðasafninu Pólifónía af erlendum uppruna og sagt hefur verið að útgáfan marki upphaf innflytjendabókmennta á Íslandi), heldur einnig rúm og víðfeðm. Það er því nánast rökleg framvinda að ljóðabók Natöshu sé fyrsta verk höfundar af erlendum uppruna sem hlýtur þessi verðlaun. Þegar til tíðinda kom hver hlotið hefði verðlaunin í ár má réttilega segja að tíst hafi í mér af gleði.

Þvílíkt heppin sem við erum að svo margt fólk yrki ekki aðeins á þessu litla tungumáli, heldur séu til einstaklingar sem kjósi það – læri það og finni sér rödd innan þess. Máltaka á stríðstímum er verk sem segir frá einstaklingi sem fylgist með því úr fjarlægð er þjóð hennar og móðurland hervæðist, ræðst inn í og segir öðru landi stríð á hendur. Verkið fjallar um skömm, um sorg og höfnun, um sviplegan dauða sjálfs og endurfæðingu nýrrar sjálfsmyndar. Það skiptist í fjóra kafla: Að tala — Að skrifa — Að hlusta — Að skilja.

Advertisement

Við fyrstu sýn virðist verkið vera eins konar túlkun á máltökuskeiði barna, en hefur margræða merkingu. Máltökuskeið ljóðmælanda átti sér stað í heimalandi þar sem stríð er samofið hetjudáð, og minnisvarðar um slíkt einkenna umhverfið. Börn eru svampar sem draga að sér orð og merkingu, og ef stríð er í brennidepli litar það máltökuskeiðið og orðaforðann. Gegnumgangandi þema verksins er margræðni orða og margslungin merking. Ljóðmælandi dregur upp mynd af elskendum á stefnumóti um það leyti sem stríðið hefst, og notar orðalag sem vitnar í nánast meinlausa merkingu sagnarinnar að stríða:

hann stríddi mér

ég hló (7)

Þá bendir hún einnig á merkileg tengsl tungumála, þar sem orðið fjölskylda á úkraínsku merkir föðurland á rússnesku. Ef til vill eru þetta athuganir sem tilheyra þeim sem yrkja á öðru máli en móðurmálinu. Ljóðið sem markar endalok fyrsta hluta bókarinnar segir:

áður en ég slasaðist

var ég bóksali

eins og pabbi minn

svo gekk ég við hækjur

og varð að rithöfundi

þá hófst stríð

ég byrjaði að labba

í glænýja átt

hurðin á bak við mig

lokaðist (24)

Hér má sjá eins konar vísun í máltöku barna, þar sem kenningar um máltöku barna gera almennt ráð fyrir að máltökuskeiði ljúki við kynþroska. Hurðinni í ljóðinu er lokað, eins konar tákn um að skeiðinu sé lokið. Máltaka, hvort sem hún er á sér stað í barnæsku eða eftir að máltökuskeiði er lokið, er orð sem gefur til kynna nýjan hugsunarhátt - nýjar tengingar í heilanum. Jafnvel einhvers konar endurfæðingu.

Málið sem máltakan vísar í er einnig ef til vill annars konar mál - skáldskaparmálið. Ljóðið tjáir einhvers konar hugmyndafræði - að yrkja á máli er að eignast það - gera það að sínu eigin. Og að þegar man gerist skáld sé ekki aftur snúið. Umbrot og útlit ljóðabókarinnar líkir eftir póstkorti, auk þess sem póstkort, sendibréf og orðsendingar eru áberandi þema í verkinu sem gera lesanda kleift að gægjast inn um glugga fortíðarinnar, meðal annars í gegnum lestur bréfasendinga milli föður og dóttur. Strax í byrjun verksins skrifar ljóðmælandi sjálfum sér bréf – orðsendingu sem berst honum svo í lokin. Póstkort eru þeim eiginleikum gædd að ferðast iðulega yfir landamæri, þau eru texti sem ferðast þjóða á milli - ef til vill eins og skáldskapur.

gleymdu ekki

að anda

fara í göngutúra

skrifa

sjá um þig

og aðra (59)

Orða er vant í síðasta kafla verksins, sem inniheldur þrjár tómar síður – ef til vill til að gefa lesandanum rými til þess að bæta inn sinni eigin túlkun, og henda þannig reiður á afstöðu sinni. Þessar þrjár tómu síður má bæði túlka sem rými til þess að bæta sínum eigin ljóðum við - eða einfaldlega til að skilja og melta, sem krefst engra orða.

This article is from: