3 minute read

Úkraínumenn á Íslandi - Sjálfboðastarf Olgu Khodos, Yaroslavs Pavlyuk og Konstantins Stroginov

Síðan Rússland réðst inn í Úkraínu í febrúar á þessu ári hafa fjölmargir úkraínskir flóttamenn flúið stríðið og komið til Íslands. Leiðandi afl í móttöku þeirra er þríeykið Olga Khodos, Yaroslav Pavlyuk og Konstantin Stroginov, en í samstarfi við samtökin Flóttafólk sjá þau til þess að Úkraínumenn upplifi sig velkomna á Íslandi og hljóti þá þjónustu sem þeir þurfa.

Stúdentablaðið kynnti sér starfsemi þeirra í Neskirkju, en um sexleytið á fimmtudagskvöldi fylltist safnaðarheimili kirkjunnar af fólki, mörg þeirra komin til þess að ræða við Olgu, menntaða í sálgreiningu, eða Yaroslav, sálfræðing, eða einfaldlega til að þiggja kaffibolla og spjalla hvert við annað. Yaroslav tók sér tíma í að setjast niður og ræða starfsemina nánar.

Advertisement

„Þetta byrjaði allt fyrir tæpu ári síðan, þegar stríðið braust út. Úkraínumenn fóru að koma hingað til Íslands og við Olga tókum bæði eftir þörfinni fyrir tafarlausa sálfræðiaðstoð. Við erum bæði menntuð í þeirri faggrein, svo við fórum að vinna saman og höfum ekki gert annað síðan. Ég upplifi þetta dálítið eins og einn, samfelldan vinnudag, því við hættum aldrei.“

Fyrir utan sálfræðiþjónustuna er einnig hægt að nálgast föt og leikföng, auk þess sem þau bjóða upp á gagnlegar upplýsingar fyrir flóttafólk sem er nýkomið til landsins.

„Mörg þeirra sem eru að koma frá Úkraínu byrja strax í sjálfboðaliðastarfi hjá okkur, og við reynum að hjálpa þeim sem eru nýkomin að átta sig á því hvernig Ísland virkar - hvernig á að nálgast Klapp-kort eða taka strætó, að fá kennitölu, þess konar upplýsingar. Við skipuleggjum líka viðburði þar sem fólk getur hist og gert hluti saman, prjónað eða tekið þátt í listmeðferð, því það getur hjálpað að vera umhverfis aðra og hafa eitthvað fyrir stafni.“

Yaroslav segir að margir Úkraínumenn sem hingað koma vilji byrja strax að vinna og læra tungumálið svo menntun þeirra geti nýst þeim í starfi á Íslandi.

„Fólk hefur mikinn áhuga á að læra bæði ensku og íslensku. Sum þeirra sem koma eru að bíða eftir stríðslokum, því þau vilja komast aftur heim, en önnur hafa misst heimili sín og vilja vera hér til frambúðar. Mörg hafa nú þegar fundið sér vinnu og eru virkilega spennt fyrir því að læra málið. Það er íslensk kona að nafni S ólborg sem kennir með okkur sem sjálfboðaliði. Hún reynir að koma einu sinni í viku í Áskirkju og kenna íslensku. Fólk elskar tímana hennar og það er magnað að fylgjast með því hvernig hún getur kennt fólki íslensku, á íslensku! En auðvitað er þetta mikil vinna fyrir eina manneskju.“

Yaroslav og Olga ætla sér að vera áfram á Íslandi og veita Úkraínumönnum sálfræðiþjónustu á móðurmáli þeirra, svo lengi sem þeirra er þarfnast. Yaroslav hyggst nýta sér reynsluna hér á Íslandi til þess að skrifa mastersritgerð sína, á meðan Olga hefur áhuga á að fara aftur heim til Úkraínu að stríði loknu til þess að rannsaka þá sem tóku þátt í að verja landið.

Aðspurður því hvernig stúdentar háskólans geti hjálpað, segir Yaroslav að það sé alltaf velkomið að gefa föt, leikföng og annað, því flóttafólk komi oft til landsins með lítið sem ekkert í farteskinu, og að allt gefið geti hjálpað fólki að koma sér fyrir.

Þau sem vilja veita sjálfboðavinnu Olgu, Yaroslavs og Konstantins fjárhagslegan stuðning geta nálgast upplýsingar á heimasíðu þeirra, psyhelp.is, eða stutt Flóttafólk. Föt og leikföng má gefa í Neskirkju á mánudögum og fimmtudögum frá kl.18:00-20:00.

Stúdentablaðið leitar að sjálfboðaliðum sem hafa áhuga á að kenna íslensku og/eða ensku. Fyrirspurnir skulu berast í gegnum studentabladid@hi.is.

This article is from: