
5 minute read
Hið góða, hið illa og togstreitan á milli: Draumur, rætist?
Til er útbreidd kenning sem rekur fyrstu verksummerki siðmenningar aftur í tímann um 15.000 ár - kenning sem veltur á grónu lærbeini. Þannig svaraði mannfræðingurinn Margaret Mead spurningu nemanda síns um uppruna samfélags. Samkvæmt útskýringum Margaretar væru dýr í náttúrunni venjulega veidd og étin áður en lærbein gæti gróið. Að stærsta bein líkamans (sem tengist við mjaðmagrindina) hafi verið gróið, veitir vísbendingu um að hinn slasaði hafi fengið hjálp frá öðrum til þess að lifa af.
Hvort við tökum þessa kenningu trúanlega eða ekki málar hún upp áhugaverða mynd af því hvers vegna fólk vill trúa henni - það er djúpstætt í mannkyninu að trúa því að við séum ekki bara fær um að breyta rétt, heldur að gæska sé hluti af því sem gerir okkur mennsk. Er eitthvað til í því, eða erum við einfaldlega með (mjög) háleitar siðferðilegar kröfur til okkar sjálfra?
Advertisement
Hvers vegna er kærleikurinn ofar öllu?
Það virðist undarlegt að líta á gagnlega hegðun og friðsamlegar skoðanir sem undantekningu mannlegrar náttúru sem þarf að lofa þegar hún á sér stað. Sérstaklega í ljósi þess að manneskjur eru félagslynd dýr sem hafa dafnað vegna gjörða fárra í þágu margra. Heimurinn allur hélt áfram að breytast (og breytist enn) því átök hafa sífellt komið upp og verið leyst, hvort sem lausnin leiðir til betra eða verra ástands. Auk þess eru uppgjör átaka oft falin í einni hugmynd sem kynnt er til leiks af litlum hópi eða jafnvel einni manneskju.
Til þess að setja hlutina í samhengi: Samkvæmt sumum útreikningum hafa 50 milljarðar manna verið til á jörðinni síðustu 2000 árin, en samt byggist stór hluti nútímasiðmenningar á predikunum tveggja manna sem fæddust með 1950 ára millibili. Fyrri maðurinn kynnti heiminn fyrir átakalausri heimspeki sem snerist um að elska náungann og fyrirgefa þeim sem gerðu manni illt; seinni maðurinn viðurkenndi að átök væru til staðar í mennskum samböndum en boðaði lausn sem fólst í jafnrétti að öllu leyti fyrir utan skapgerð hvers og eins. Sorgleg endalok biðu beggja þessara manna því þeir umturnuðu samfélaginu og urðu í raun valdur að átökum milli ríkjandi hugmynda þeirra tíma - átök sem leiddu til neikvæðra viðbragða.
Hvaða gagn er í átökum?
Í sannleika sagt er ómögulegt að flokka mannkyn sem gott eða slæmt í eðli sínu, eða einu sinni flokka okkur út frá átökunum sem hafa mótað okkur. James Gordon Rice, dósent við mannfræðideild HÍ, leggur áherslu á þessa staðreynd hvað varðar rannsóknir á átökum.
„Hugtakið átök felur í sér árekstur ólíkra gilda eða baráttu á milli tveggja hópa. Það getur átt við um nánar deilur milli einstaklinga eða lítilla hópa fólks, [...] eða stærri deilur á heimsvísu - ég læt sagnfræðinga og stjórnmála um að spá í átökum á stærri skala, á meðan sálfræðingar rannsaka nánar og persónulegar deilur. Mannfræðingar rannsaka átök sem eru mitt á milli þessara tveggja póla.”
Hann heldur áfram og ber saman tvær mismunandi tegundir faggreina sem virðast andhverfa hvor annarar þar sem þær leggja mismunandi áherslur á mikilvægi átaka innan þeirra sviðs.
„Jean Briggs gaf út fræga þjóðfræðibók snemma á áttunda áratugnum sem heitir Never in Anger ásamt einum af fáum hópum Inúíta sem enn búa á heimskautasvæði Kanada og lifa á hefðbundinn hátt. Í þeirra menningu er lögð áhersla á að að veita átökum og tilfinningahita, sérstaklega ef um reiði er að ræða, aðhald. Gert er ráð fyrir því að börn missi stjórn á tilfinningum sínum, en annað gildir um fullorðna og er sérstaklega litið niður á reiði og ofbeldi Á svipuðum tíma í sögunni gaf Napoleon Chagnon út hina umdeildu bók The Fierce People, þjóðfræðirit sem fjallar um Yanomamö, Amazonættbálk, sem boðar gjörsamlega andstæðan boðskap; þar sem ofbeldi er skilgreint bæði sem viðurkennd leið til að leysa átök og jafnvel sem dyggð.“
Hugmyndin um að átök eigi sér djúpar rætur í mannlegu eðli finnst James ekki skipta máli nema við leggjum áherslu á að skoða félagslega þætti átaka og lærum þannig af þeim.
„Að breyta mannlegu eðli okkar til að bregðast við átökum er ekki endilega mögulegt eða praktískt, en það sem eftir stendur er félagsleg svörun og það er í raun rauði þráðurinn í því hvernig við höfum höndlað átök í gegnum tímans rás, hvort sem svörunin leiðir til umbóta eða gerir illt verra - siðir, málamiðlanir, siðgæðisreglur, lög, refsiaðferðir og stríðsrekstur og svo mætti lengi telja eru allt leiðir hannaðar til þess að koma í veg fyrir eða leysa átök.“
Að bjóða kinnina
Margir þættir lífs okkar eru hvorki góðir né illir í eðli sínu; það er frekar mannlega svörunin við þessum þáttum sem ljáir þeim siðferðilegt vægi. Einmitt þannig virka átök - kringumstæður eða samfélagsleg staða - sem getur haft í för með sér jákvæðar eða neikvæðar afleiðingar, sem veltur á fólkinu sem tengist þeim, skoðanirnar sem það aðhyllist og þeirra eigin sannfæring. Því er miður að þau fáu sem hafa umsvifin til þess að koma af stað samfélagslegum breytingum og stýra átökum taka oft ákvarðanir með sína eigin hagsmuni eða hagsmuni fárra að leiðarljósi. Það er svo margt í okkar samtíma sem er ósanngjarnt, óréttlátt og í ójafnvægi eingöngu vegna þess að samfélagið er byggt upp á brothættu egói ófullkominna manneskja.
Kannski er vegferð mannsins í átt að hinu góða fólgin í höndum fjöldans, þar sem hagsmunir hinna mörgu vega þyngra en einstaklingsmiðuðu gildin sem eru ríkjandi á okkar tímum. Kannski, ef mannfólk væri gott í eðli sínu, myndu átökin sem við stöndum frammi fyrir færa okkur eitt skref áfram í átt að betri heimi. En þar til þetta verður raunin sitjum við uppi með þá staðreynd að við getum boðið hina kinnina, haldið í drauminn og munað að gosdrykkjaauglýsingar prýddar frægu fólki munu aldrei leysa vandann.