3 minute read

Umhverfis- og loftslagsmál varða alla stúdenta

Umhverfis- og loftslagsmál varða alla stúdenta. Þau eru ekki stakur, sérhæfður málaflokkur heldur er um að ræða helstu áskoranir okkar samtíma. Þess vegna er nauðsynlegt að öll svið samfélagsins samtvinni umhverfis- og loftslagsmál í starfsemi sína og tryggi að vægi þeirra séu mikil í allri ákvarðanatöku og er Stúdentaráð þar ekki undanskilið. Stúdentaráð er með skýra stefnu í þessum málaflokkum sem við höfum unnið markvisst eftir til að stuðla að betra og umhverfisvænna háskólasamfélagi.

Í haust skoraði Stúdentaráð á Háskóla Íslands í annað skipti að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og gera aðgerðaráætlun fyrir skólann. Þannig getum við lagt áherslu á alvarleika málsins og verið leiðandi í umræðunni um loftslagsmál. Stjórnendur skólans hafa ekki enn brugðist við áskorun Stúdentaráðs og hefur með aðgerðaleysi orðið eftirbátur annarra vísindastofnana í þeirri þróun heimsumræðunnar að viðurkenna alvarleika málsins, þegar Háskóli Íslands ætti í ljósi stöðu sinnar sem rannsóknar- og vísindastofnun að vera leiðandi í loftslagsmálum.

Advertisement

Fyrir tilstilli Stúdentaráðs hefur úrval grænkerafæðis aukist til muna í Hámu og höfum við unnið jafnt og þétt að frekari aukningu þess í góðu samtali við Félagsstofnun stúdenta. Mið-vegan-dagar hafa verið fastur liður í Hámu á árinu og vegna baráttu Stúdentaráðs verður von bráðar hægt að sjá kolefnisspor máltíða með tilkomu Matarspors. Allt er þetta liður í því að stuðla að fræðslu og aukinni meðvitund í þessum efnum og er það því skref í átt að betri framtíð.

Bættar almenningssamgöngur eru mikilvægur hluti af loftslagsmálum og hefur Stúdentaráð þrýst á úrbætur í málaflokknum, bæði gagnvart háskólayfirvöldum sem og stjórnvöldum. Háskóli Íslands er staðsettur í hjarta Reykjavíkur og háskólasvæðið er þungamiðja stofnleiða almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það verður að vera raunhæfur valkostur fyrir stúdenta að komast á milli staða á skilvirkan hátt, bæði hratt og örugglega án óþarfa kostnaðar fyrir fólk og umhverfi. Stúdentaráð leggur áherslu á að stúdentum og starfsfólki Háskóla Íslands sé tryggt aðgengi að vistvænum samgöngukostum með innleiðingu samgöngukorta á hagstæðu verði, líkt og Stúdentaráð hefur þegar talað um sem U-passa. U-passinn, eða Umhverfispassi, segir til um eitt meginmarkmiða samgöngukortsins sem er að minnka mengun og bílaumferð og efla umhverfisvænni ferðamáta. Við höfum þrýst á betri aðstöðu fyrir hjólandi vegfarendur, bæði með fjölgun yfirbyggðra, aðgangsstýrðra hjólaskýla sem og bættri búningsaðstöðu fyrir þau sem kjósa að hjóla. Þá tryggði Stúdentaráð Háskóla Íslands Grænfánann á nýjan leik í haust og kom að því að skipuleggja átaksverkefnið Hjólað í háskólann í samvinnu við framkvæmda- og tæknisvið.

Mikilvægur árangur hefur náðst en það er þó enn langt í land. Stúdentaráð mun halda áfram að þrýsta á breytingar sem færir okkur nær betra og umhverfisvænna háskólasamfélagi.

—Rebekka Karlsdóttir (hún/hennar)

Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2022 – 2023

This article is from: