3 minute read
Ávarp Forseta SHÍ
Ef aldarafmæli Stúdentaráðs hefur kennt okkur eitthvað þá er það að stúdentar þurfa oftar en ekki að beita sér fyrir sömu málefnunum, aftur og aftur. Á þessu skólaári höfum við til að mynda verið að takast á við námslánakerfið, en það er baráttumál sem hefur verið viðvarandi í gegnum söguna. Til dæmis árið 1976 þegar stúdentar mótmæltu nýrri tilhögun og reglum um námslán og aftur 2013 þegar Stúd entaráð stefndi stjórn Lána sjóðs ís lenskra náms manna og ís lenska rík inu vegna breyt inga á út hlutunarreglum sjóðsins. Það sama á við um baráttu okkar um fjárhagslegt öryggi stúdenta síðastliðna mánuði, sem má bera saman við árin 2008 til 2010 þegar mikið atvinnuleysi og fjölgun nemenda blasti við í kjölfar efnahagshrunsins og viðbragða var þörf.
Advertisement
Þetta segir okkur að hlutverk Stúdentaráðs er áríðandi. Við horfum til baka á aldarafmæli ráðsins, fögnum því sem hefur áunnist og nýtum líka ósigrana sem drifkraft. Á slíkum tímamótum er ekki óeðlilegt að spyrja sig hvert veruleikinn muni leiða okkur áfram. Kórónuveirufaraldurinn hefur einkennt líf okkar nær allt síðastliðið ár, fyrir sum okkar hefur hann skyggt á háskólagönguna og fyrir aðra er háskólaganga án hans óþekkt. Það er raunar ógerlegt að horfa til framtíðar án þess að meðtaka þau áhrif sem við höfum orðið fyrir sem einstaklingar en líka sem háskólasamfélag. Faraldurinn hefur aftur á móti ýtt við einu baráttumáli, sem ekki er lengur hægt að líta framhjá.
Stúdentar hafa lengi krafist þess að fyrirlestrar séu teknir upp og séu aðgengilegir í námsumsjónarkerfi skólans. Sömuleiðis að það sé stuðlað að auknu framboði kennslu á rafrænu formi. Þær óskir hafa ekki einungis snúist um að jafnræðis sé gætt heldur hafa umhverfissjónarmið og þráin eftir nútímalegri kennsluháttum spilað stóran þátt. Háskólinn hefur verið ágætlega í stakk búinn til að tileinka sér rafræna kennsluhætti en á fyrra vormisseri var hann krafinn um það í ljósi aðstæðna. Þá kom rækilega í ljós að hann getur vel tekist á við áskorunina vegna þeirra framfara sem hafa þegar orðið. Má þar nefna tilkomu rafræna prófakerfisins Inspera sem hefur almennt reynst stúdentum vel og próftaka þannig orðið skilvirkari, umhverfisvænni og sanngjarnari. Sömuleiðis Panopto sem hefur nýst til að taka upp fyrirlestra, sem og Zoom og Teams sem auðvelduðu fjarkennslu og samskipti nemenda og kennara.
Þegar á haustmisseri var komið varð svigrúmið hins vegar takmarkað á ný, þar sem skólinn lagði áherslu á rafræna kennslu með möguleika á staðnámi og staðpróf eins og mögulegt væri. Víða voru fyrirlestrarnir í rauntíma og við það gerðum við ekki athugasemd, en það var þó jafnframt nauðsynlegt að eiga upptökuna til. Þannig gátu nemendur nálgast fyrirlesturinn seinna, hvort sem það var fyrir próf eða til að geta glósað betur og ítarlegar. Það er raunar lykilatriði í námsferli stúdents. Það var og er því aldrei meiningin að fyrirlestrar séu ekki í rauntíma, heldur að þeir séu öllum aðgengilegir eftirá. Rökin geta þar með ómögulega verið þau að fyrirkomulagið verði að vera svona til þess að nemendur mæti í tíma. Við leggjum mikla áherslu á nýja námsumsjónarkerfið Canvas, alla eiginleika sem það hefur og að öll gögn verði á einum stað, en samt vantar ennþá þennan stóran hluta námsefnisins sem aðgengi að fyrirlestrum er.
Á þetta verður að leggja frekari áherslu og forðast eindregið að snúa aftur í gamla farið. Hugmyndin um rafræna kennslu sem og fjarkennslu merkir eitthvað allt annað í dag og getur ekki verið svo fjarstæðukennd lengur. Markmiðið með þróun fjölbreyttra kennsluaðferða er að styrkja gæði námsins til muna, sem kemur til með að efla starfsemi skólans. Afurðin verður þannig samkeppnishæf við aðra háskóla á alþjóðavísu. Háskóli Íslands hefur sýnt að hann hefur alla burði til þess að bæta kennsluhætti og jafnvel umbylta þeim. Góð aðstaða og aðrar úrbætur fyrir kennara til að nýta í kennslu lofa einnig góðu fyrir bætta kennsluhætti. Það er nefnilega framtíðin, tæknivæddir kennsluhættir í takt við samtímann.