
2 minute read
Hvað felst í orðinu framtíð?
GREIN & ÞÝÐING ARTICLE & TRANSLATION Jónína Kárdal Náms- og starfsráðgjafi við Háskóla Íslands Career and guidance counsellor at the University of Iceland
Stundum leitum við langt yfir skammt þegar við veltum framtíðinni fyrir okkur og hún blasir jafnvel við í orðinu sjálfu. (Horfið til fyrsta stafsins í hverri fyrirsögn). Hér á eftir fara þankar náms- og starfsráðgjafa um framtíðina í þeirri von að það geti orðið stúdentum til skemmtunar og jafnvel stuðnings.
Advertisement
FRUMKVÆÐI OG FORYSTA Fyrsta skrefið í átt að lausnum er að taka frumkvæði og ganga óhrædd til móts við framtíðina með þá þekkingu, færni og hæfni sem við búum yfir. Forysta felur í sér að taka að sér hlutverk leiðtoga (í hvaða aðstæðum sem er) og takast á við nýjar kröfur og breyttar aðstæður.
RÖKHUGSUN OG LAUSN VANDAMÁLA Í háskólanámi er markvisst verið að þjálfa nemendur í að læra og beita rökhugsun og rýna til gagns þegar tekist er á við vandamál eða áskoranir. Þetta er mikilvægt veganesti við úrlausn á verkefnum framtíðarinnar.
AGI Hér er ætlunin að vísa til sjálfsaga sem er nauðsynlegur til að takast á við ýmsar þrautir og erfiðleika sem okkur kunna að mæta. Sjálfsagi felst í því að velja fremur það sem hjálpar okkur við að ná langtímamarkmiði heldur en að velja eitthvað sem veitir skammvinna ánægju.
METNAÐUR Metnaður kyndir undir það að ná markmiðum okkar og einkennist af ákefð og áhuga. Við höfum metnað til ákveðinna verka og leggjum okkur fram í bæði orði og verki til að ná settu marki.
TÍMI Það hafa margir verið fyrri til að tala um tímann, í orði, ljóði, tónlist og söng. Staðreyndin er að tíminn afmarkast samkvæmt okkar tímatali af 365 dögum og við fáum þennan aukadag einu sinni á fjögurra ára fresti (hlaupársdagur). Við annað hvort bíðum óþreyjufull eftir að tíminn líði, að hann standi í stað eða komi til baka. Niðurstaðan er sú að njóta tímans sem við höfum, vera í núinu en taka tillit um leið til fortíðar og framtíðar.
Í NÁMI Aðgengi að námi og framboð á margvíslegum námstækifærum skiptir sköpum fyrir öll samfélög og framþróun þeirra. Háskóli Íslands leggur metnað í að bjóða upp á framúrskarandi menntun sem stenst alþjóðlegar gæðakröfur. Aðgengi að vísindamönnum í fremstu röð, þátttaka í rannsóknum og nýsköpun er mikils virði fyrir framtíðina.
ÐRAUMAR Þar sem ekkert íslenskt orð byrjar á ð-i verður hér talað um drauma. Við búum öll yfir framtíðardraumum sem sumir urðu til í æsku og aðrir þegar nær dró fullorðinsaldri. Draumar eru drifkraftar. Það er gott að láta sig dreyma um hluti – að leyfa huganum að reika og sjá fyrir sér framtíðina. Draumar gefa drifkraft til framkvæmda og hjálpa til við að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Um hvað snúast framtíðardraumar þínir?
IÐNI – ELJUSEMI Þessi orð fylgja oft metnaði og standa þau þétt saman. Iðni og eljusemi skila oft góðu verki, þau fela í sér að halda áfram þangað til verki er lokið. Ef við bætum við orðinu tími þá er hægt að segja að einstaklingur sem hefur metnað til að ljúka háskólanámi og láta til sín taka sýni iðni og eljusemi á meðan á því stendur. Framtíðardraumur um að útskrifast með háskólagráðu verður þannig að veruleika.
NÝSKÖPUN Það skiptir miklu máli fyrir nútímann að skapa framtíð sem byggir á þekkingu, færni, hagnýtingu vísindalegrar þekkingar og nýsköpun. Sú þekkingarleit og rannsóknir sem stúdentar ástunda í námi ýtir undir skapandi lausnir sem eru góður grundvöllur fyrir nýsköpun. Það er mikilvægt að beita grósku og nýsköpunarhugsun til að takast á við áskoranir framtíðarinnar!