2 minute read
Ég er komin heim
GREIN ARTICLE Auður Helgadóttir
Það kemur að því einn daginn að við flytjum að heiman, fyrr eða síðar. Ég hélt persónulega að ég myndi aldrei flytja út frá foreldrum mínum, ég hafði það svo næs. Ég borgaði enga leigu, þau splæstu í dýran vegan mat og hráefni fyrir mig (ekki alltaf samt) og ég naut þess að lifa í vellystingum. Ég kunni ekki að setja í þvottavél (og skammast mín mikið fyrir það) og það var ekki fyrr en kærastan mín fór að gera grín að mér að ég áttaði mig á að það væri dálítið barnalegt. Að einhverju leiti var ég hálf ósjálfbjarga, tuttugu ára stúlkan. Nú er ég flutt að heiman og þetta er allt saman að koma hjá mér, hafið ekki áhyggjur, ég kann til dæmis núna að þvo þvott og brjóta hann saman með Marie Kondo tækninni. Núna dugar ekki að sópa litlum vandamálum undir teppið og vita að einhver annar sjái um þau. Skítugur diskur á borðinu fer ekki fet nema þú setjir hann í uppþvottavélina. Þið kunnið að segja að það séu sjálfsagðar upplýsingar, en það vissi ég ekki fyrr en nú (ekki taka mig alveg á orðinu). Man er sífellt að læra hvernig það er að búa fjarri foreldrum sem gripu mann áður.
Advertisement
Þegar þú flytur að heiman hvarflar það ekki að undirmeðvitund þinni að herbergið þitt hverfi með þér. Allt í einu rankar þú við þér og sérð að herbergið þitt er ekki lengur herbergið þitt heldur er nú undirlagt af eigum systkinis þíns. Það er eins og að fá blauta tusku í andlitið þegar það eina sem bíður þín er krumpaður og kaldur sófi þegar þú gistir nótt í foreldrahúsum. Það má þó gleðjast yfir því að herberginu hafi ekki verið gjörbylt í heima-líkamsræktarstöð.
Þetta er skrítið ferli, að flytja að heiman. Þú ert ekki lengur byrði á foreldrum þínum og þarft að fara hugsa um að kaupa klósettpappír og muna eftir að fylla á uppþvottalöginn. Þú þarft að muna eftir svona fullorðins hlutum, peningurinn fer ekki lengur allur í mat á skyndibitastöðum. Það er samt gaman að vera í þessum fullorðinsleik, er það ekki? Mér finnst það. Svo veit ég að fólk hættir hvort sem er aldrei að bora óþarflega mikið í nefið eða ganga ekki strax frá sundfötunum úr taupokanum (jújú, það má venja sig á það, og það kemur með tímanum).
Það er stórt skref að flytja burt úr heimahúsum, hvort sem þú ert góðu vant eða ekki. Það er ákveðið sjálfstæði og frelsi fólgið í því, og eins leiðinlegt og það er að kaupa klósettpappír og fylla á uppþvottalöginn þá ertu líka að sinna þér sjálfu með því. Þú lærir að taka ábyrgð á sjálfu þér smám saman. Þetta er misstórt skref fyrir fólk. Sumir eru að flytja í næsta póstnúmer, í hinn enda bæjarins, þvert yfir landið eða jafnvel út fyrir landsteinana. Það getur verið lítið mál fyrir eina að flytja í annað land en stórt stökk fyrir aðra að flytja í næstu götu. Við erum öll ólík og tökum þetta á mismunandi hraða.