6 minute read

Heimsókn á heimaslóðir

Next Article
Rósalind rector

Rósalind rector

GREIN ARTICLE Matleena Huittinen & Emilia Voltti

ÞÝÐING TRANSLATION Hólmfríður María Bjarnardóttir

Advertisement

MYNDIR PHOTOS Aðsendar Contributed

Stúdent á fyrsta ári, stúdent á þriðja ári og nýútskrifaður stúdent úr Háskólanum í Helsinki og Aalto háskóla útlista hvað gerir hús að heimili í þeirra augum.

Í mars 2020 pakkaði Vilma Toivonen saman föggum sínum í íbúð sem hún deildi í Helsinki og flutti aftur heim á bernskuheimili sitt, sveitabæ í bænum Haveri. Síðan þá hefur hún eytt meiri tíma bak við stýri á traktor en við námsbækur. „Hvað hefði ég svosem átt að gera í Helsinki meðan fyrirlestrarnir voru á netinu vegna veirunnar? Hér er náttúra og alltaf einhver til þess að spjalla við,“ segir 21 árs landbúnaðar- og skógræktarneminn.

Vilma Toivonen

Á meðan Vilma sneri heim fór hin 19 ára gamla Anastasia Seppänen hins vegar frá sínu heimili. Haustið var tími breytinga fyrir Anastasiu sem flutti í ókunnuga borg, í sína eigin stúdíó íbúð og byrjaði í kennaranámi. „Ég hef þurft að venjast því að hér séu engir vinir og fjölskylda eins og ég er vön. Ég þarf að gera og finna út úr hlutum sjálf, en að búa ein hefur samt verið yndislegt. Ég get gert hluti á minn eigin hátt og þarf ekki að gefa neinum skýrslu um það sem ég er að gera eða fara,“ segir Anastasia og bætir við að hún sé líklega orðin sjálfstæðari en nokkurn tímann áður eftir þessa flutninga.

Vilma nefnir einnig sjálfstæði en tengir það við að hafa fengið sér bíl. Síðan þau kaup áttu sér stað hefur hún verið frjáls ferða sinna, hvenær og hvert sem er, en fjarlægðirnar eru langar úti á landi og íbúar þar óbeint neyddir til þess að fá sér bíl, vilji þeir komast eitthvert af sjálfsdáðum. „Kannski snýst sjálfstæði um að borga þína eigin reikninga og sjá um sjálfan sig,“ veltir hinn 27 ára gamli Juhani Riikonen fyrir sér, en hann er nýlega útskrifaður úr meistaranámi í orkutækni og hefur nú hafið hið svokallaða fullorðinslíf með því að kaupa sér íbúð í Turku og byrja í föstu starfi í Espoo.

Anastasia Seppänen

Skiljum nú við núverandi heimili viðmælenda okkar og ferðumst aftur til barnæsku þeirra. Í hvers konar umhverfi ólust þau upp? Vilma vegsamar þrjúhundruð ára gamalt land fjölskyldunnar, en á því má finna svínabú, tún og skóglendi. Hún býst við því að hún, ásamt systkinum sínum, muni halda áfram að vinna á bænum eftir að faðir þeirra hættir að vinna. Eftir að hafa eytt meiri tíma á bernskuslóðum og í námunda við náttúruna hefur áhugi hennar á skógum aukist og hvatt hana til þess að læra timburvinnslu.

Fjölskylda Juhani bjó í raðhúsi í borginni Paimio sem er fremur lítil. Hann segir það hafa verið góðan stað til að alast upp á, þar sem það er lítil, fjölskylduvæn og friðsæl borg með nægum tækifærum til hreyfingar. Eini gallinn var sá að ef þú gerðir eitthvað heimskupar vissu allir í bænum það innan skamms. Anastasia hefur búið á mörgum mismunandi stöðum þrátt fyrir ungan aldur. Hún bjó lengi með móður sinni, stjúpföður og systkinum en flutti til föður síns þegar hún byrjaði í menntaskóla.

Sögur viðmælenda okkar leiða alltaf aftur að vinum og fjölskyldu. Vilma segir frá því að helmingur ættingja hennar búi í tíu kílómetra radíus við hana. Henni finnst smáir fjölskyldu- og vinahópar fínir en hún kann sjálf betur að meta samheldni lítils samfélags í smábæ. „Þú getur bankað á hvaða dyr sem er og hitt einhvern í kaffi. Ég segi að minnsta kosti alltaf hæ við þá sem ég rekst á í Haveri, jafnvel þó ég þekki þá ekki persónulega!“

Anastasia segir reynslu sína af heimilislífi hafa orðið fyrir miklum áhrifum af fólkinu sem hún ólst upp með; hjá móður sinni var það fjölskyldulíf með litlum börnum meðan hún var einkabarn hjá föður sínum. Henni finnst þessar sundurleitu fjölskylduaðstæður hafa gert hana færa í að takast á við breytilegar aðstæður. Þegar hún var yngri fann hún oft til sektarkenndar, meðal annars yfir því að geta ekki eytt jólunum með öllum meðlimum fjölskyldunnar, en í dag er hún þakklát fyrir það að eiga stóra fjölskyldu. Anastasia segist eiga í eins konar ástar, haturs -sambandi við heimabæ sinn Turku, þar sem hún sótti skóla og bjó. „Það hefur verið hressandi að skipta um umhverfi og mér finnst Helsinki akkúrat staður fyrir mig. Þannig ég flyt ekki lengra frá heimaslóðunum enn um sinn.“

„Besti staðurinn í Paimio, fyrir utan heima, er bílastæðið á bak við menntaskólann. Þangað fórum við oft á bifhjólum til þess að slæpast. Þegar vinahópurinn náði aldri skiptum við hjólunum út fyrir bíla,“ rifjar Juhani upp en óstýrlát æska á bifhjólum kemur reglulega fram í sögum hans. Hann og vinir hans fóru að minnsta kosti aðra hverja helgi til Turku eða stundum Salo. „Við keyrðum þangað og höngsuðum í borginni en fórum vanalega ekki á neina bari. Það var ekki búið að eiga neitt við mitt bifhjól, en ég sá mikið af mismunandi fikti. Sem betur fer slasaðist enginn alvarlega.“

Juhani Riikonen

Þegar líður að útskrift virðast flestir nemendur huga að því að festa rætur einhverstaðar, líkt og Vilma og Juhani, sem bjuggu á há skóla svæðinu í Espoo meðan þau stunduðu nám. Það voru alltaf einhverjir á svæðinu og fírað upp í nokkrum sánum en þegar útskriftin nálgaðist fór Juhani að skipuleggja búflutninga til Turku. Hann sá fyrir sér að það yrði besti staðurinn fyrir hann miðað við núverandi aðstæður. „Ég á ættingja þar og við eigum lítið hús en þar að auki er mikið ódýrara að búa í Turku en í höfuðborginni.“

Þegar Vilma flutti til Helsinki til þess að stunda nám vissi hún að hún yrði ekki þar til frambúðar. Hún vill ekki horfa út um gluggann á blokkir heldur náttúruna. „Það skiptir mig meira máli hvar ég bý en hvar ég vinn, og margir deila örugglega þeirri skoðun. Ég finn ekki frið í Helsinki þar sem krökkt er af bílum alls staðar. Besta leiðin til þess að stefna í borginni, er úr borginni,“ segir Vilma hlægjandi. Juhani er sammála þessu og forgangsraðar staðsetningu heimilisins ofar staðsetningu vinnunnar. Hann hefur búið í Turku en unnið á höfuðborgarsvæðinu í nokkur ár, þrátt fyrir að samgöngur á milli taki um 2 klukkutíma.

Allir viðmælendur okkar voru á einu máli um að heimilið væri sá staður sem þau vilja helst verja tíma sínum. Heima finna þau frelsi, eins og Vilma þegar hún kemst aftur í skóginn eftir að hafa verið í miðri borginni. Anastasia og Juhani tala bæði um mikilvægi þess að hafa tíma, pláss og næði. „Ég þekkti enga staði í Helsinki áður en ég flutti þangað en það mun smám saman verða að heimili fyrir mér. Hér er meira írafár, meiri umferð, fólk og hlutir til þess að gera, en ég hef notið þess því heima hef ég tíma og pláss fyrir sjálfa mig,“ segir Anastasia. Íbúð Juhani í Turku er smám saman að verða að meira heimili. Hann nær að lýsa þessu flókna ástandi: „Staður þar ég get slakað á í einrúmi, það held ég að sé skilgreiningin á heimili. Kannastu við tilfinninguna að ganga að réttri hurð í stigaganginum og finna að þú ert kominn heim?“

This article is from: