5 minute read

Hringrás hluta: Munasafn Reykjavíkur

Next Article
Rósalind rector

Rósalind rector

GREIN & ÞÝÐING ARTICLE & TRANSLATION Jóhannes Bjarki Bjarkason

MYNDIR PHOTOS Sædís Harpa Stefánsdóttir

Advertisement

Hringrás hluta: Munasafn Reykjavíkur

Viðtal við Anna Worthington De Matos

Á Laugavegi 51 hefur Anna Worthington De Matos nýlega opnað höfuðstöðvar Munasafns Reykjavíkur. Eins og nafnið gefur til kynna er Munasafnið samansafn af tækjum og tólum. Hillur safnsins eru fullar af mismunandi verkfærum, stórum og smáum, ásamt hversdagslegri hlutum eins og tjaldstólum, gítarmögnurum og meira að segja eplaflysjara. Í Munasafninu geta einstaklingar fengið lánaða safnkostina, líkt og á bókasöfnum.

Anna stundaði nám við varðveislu og endurreisn sögulegra hluta og bygginga í London. Eftir nám starfaði hún hjá verktökum í iðninni í nokkur ár en sneri sér seinna að rekstri kráa í Peckham-hverfi London. Anna kom fyrst til Íslands í hringamiðju Brexit og ákvað skyndilega að flytja hingað mánuði eftir fyrstu heimsókn sína.

„Ég var ótrúlega heppin, stöðugt. Þetta var mjög skrýtið. Ég kom til Englands og þurfti að segja herbergisfélaga mínum að ég væri á förum. Við bjuggum saman í þrjú ár og vorum mjög góðir vinir. Hann átti íbúðina og ég var mjög stressuð að segja honum fréttirnar þar sem við ákváðum að gefa hvoru öðru þriggja mánaða frest. Ég gaf honum bara mánuð. Ég sagði honum að ég væri að flytja. Honum var svo létt vegna þess hann hafði selt íbúðina stuttu áður. Það small allt saman. Þegar ég kom til Íslands hafði ég í engin hús að venda. En mamma vinkonu minnar hafði farið til Spánar í sex mánuði svo ég fékk stað til að vera á! Allt small bara saman og mér leið eins og þessi ákvörðun væri skrifuð í skýin,“ segir Anna.

HÓPFJÁRMÖGNUN Á SPÍTALANUM

Hvernig datt þér í hug að reka munasafn í Reykjavík?

„Í Bretlandi átti ég mörg verkfæri. Á barnum sem ég rak vorum við með bílskúr þar sem við geymdum verkfærin og leyfðum fólkinu í nágrenninu að fá þau lánuð,“ segir Anna.

„Svo komst ég að því þegar ég kom til Íslands að ég hafði ekki efni á að kaupa eða leigja verkfæri.“

Anna skráði sig á námskeið hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. „Þetta var frumkvöðlanámskeið fyrir konur, þar sem við reyndum að þróa aðgengi fyrir fólk. Í því námskeiði lærði ég um munasöfn. Seinna fór ég til Toronto til þess að hitta fólkið á bak við Munasafn Toronto sem veittu mér innblástur til þess að stofna Munasafn Reykjavíkur. Ég fór þangað á hárréttum tíma, þegar ég kom var umhverfisvika í gangi. Þar var skiptihátíð, viðgerðarkaffi og munasafnið var að opna. Allt gerðist á svona fimm dögum og mér tókst að sjá allt saman. Það var æðislegt og ég kom til baka full andagift. Svo fór ég beint á spítalann.“

Anna eyddi næstu tveimur vikum á spítalanum eftir heimkomu sína frá Toronto. Henni tókst að skrifa upp fyrstu áætlanir Munasafns Reykjavíkur á spítalanum ásamt því að stofna til hópfjármögnunar á Karolinafund.

„Líkaminn þinn er í rúst en hugurinn stoppar ekki. Þú þarft að halda þér á tánum annars verður þú svolítið klikkuð. Þú getur ekki einblínt á að vera veik,“ segir hún hughreystandi.

„Tveimur vikum seinna útskrifaðist ég af spítalanum og fékk peninginn frá Karolinafund. Þá leið mér eins og ég þyrfti að framkvæma hugmyndina vegna þess að fólk lagði peninginn sinn í þetta og þú þarft að skila því sem þú lofar. Svo hófst vinna við að finna staðsetningu.

HRINGRÁSARHAGFRÆÐI

Anna gat hvorki keypt né leigt verkfæri og þekkti fáa á Íslandi. Það þýddi að hún þurfti að finna nýja leið til þess að verða sér úti um verkfæri.

„Ég þekkti fáa þegar ég flutti hingað, þannig að fá lánað frá öðru fólki var flókið. Ég hugsaði með mér: „Fyrst ég er í þessari stöðu hlýtur annað fólk að vera í henni líka.“ Þannig fæddist hugmyndin um að opna munasafn.“

„Þá las ég mér til um hringrásarhagkerfið. Það er áhugavert vegna þess að hringrásarhagkerfi er vinsælt núna, en ég hafði kynnst munasöfnum á undan hringrásarhagkerfi. Ég gerði það að starfi mínu að læra meira. Því meira sem ég lærði því sannfærðari var ég um að þetta væri leiðin áfram. En það er mikill munur á því hvað hringrásarhagkerfi er í raun og veru og hvað fólk heldur að það sé. Ég held að fræðsla á fyrirbærinu sé mjög mikilvæg.“

Geturðu útskýrt hvað hringrásarhagkerfið er og hvernig þú starfar samkvæmt gildum þess?

„Hringrásarhagkerfið er hagkerfi sem heldur hlutum í hringrás. Ekki bara efnislegum hlutum og aðföngum heldur einnig fjármagni. Mín skoðun á hringrásarhagkerfi er sú að það er ekki í hagnaðarskyni, þrátt fyrir að það sé til fólk sem heldur því fram að það skapi hagnað með því að koma fyrir hringrás í fyrirtækinu sínu. Það er hins vegar grænþvottur,“ segir Anna og bætir við: „Hringrásarstarfsemi þýðir að fyrirtækið þitt er, frá byrjun til enda, kringlótt. Í tilfelli Munasafnsins koma peningar inn í skiptum fyrir aðild að starfseminni. Verkfærin koma inn, við gerum við þau, þrífum þau og lánum þau út. Peningurinn sem kemur inn er notaður til þess að borga leigu og laun,“ segir Anna og fræðir mig um hugtakið. „Það er ekkert auka fjármagn sem verður eftir, þannig það er ekki hægt að græða á kerfinu. En margir trúa því að hringrásarhagkerfi geti verið arðbært. Ég efa ekki að ákveðnir hlutar þess geti verið gerðir arðsamir en ég trúi því ekki að það sé sönn hringrás. Þú ert ekki að halda hlutum í hringrás, þú ert að fjarlægja þá. Í hvert skipti sem þú tekur eitthvað úr hringnum, þá skreppur hann saman. Þannig ég held að hringrásarhagkerfið sé hagkerfi þar sem við hámörkum notagildi alls, endurvinnum og reynum að halda því í hringrásinni eins lengi og við getum.“

Munasafn Reykjavíkur kynnir ekki til leiks nýja hugsun í vistkerfi Reykjavíkurborgar heldur endurnýtir hugmyndina á bak við bókasöfn. Hringrásarkerfi, líkt og bókasöfn nýta, gætu verið eitt svar við þeirri stóru jöfnu sem er hamfarahlýnun. Anna býður samfélaginu að taka þátt í starfi sínu en þegar aðstæður í samfélaginu leyfa er stefnan sett á að halda viðgerðarkaffi og viðburð fyrir frumkvöðla þar sem áhersla verður lögð á hringrásarhagkerfið.

This article is from: