
4 minute read
Ávarp Ritstjóra
Ávarp Ritstjóra

Mynd: Kata Jóhanness
Advertisement
Hólmfríður María Bjarnardóttir
Árið líður áfram. Árið sem við vildum að slakaði aðeins á og kæmi okkur í kunnulegar rútínur hefur ekki hægt neitt á sér heldur hrist okkur rækilega til og sprungið í loft upp með látum. Áframhaldandi heimsfaraldur, jarðskjálftar og eldgos. Ef einhver hefði sagt mér hvernig þetta skólaár yrði á síðasta skólaári hefði ég tæplega trúað því. En hér erum við samt, og ég vil minna ykkur á að þið eruð að standa ykkur vel. Það er ótrúlega þungt að vera til í heimsfaraldri, hvað þá stunda einhvers konar nám og/eða aðra vinnu.
Ég veit ekki með ykkur en ég er búin að dansa á línu kulnunar nánast alla önnina. Þessi lína er nú orðin ansi gisin og ég er spennt að kveðja þetta skólaár og stíga af henni. Ég ætla í langt frí og kjarna mig aðeins. Ekki gleyma að setja ykkur í fyrsta sæti. Hugsið fallega um ykkur og ekki skamma ykkur fyrir að missa boltann einstöku sinnum, og heldur ekki skamma ykkur fyrir að vera löngu búin að týna boltanum. Ekki gleyma að þið eruð búin að hjakkast í þessu ástandi í meira en ár og það er fullkomnlega eðlilegt að vera þreytt. Í gegnum skólaárið höfum við birt alls kyns ráð sem munu vonandi hjálpa ykkur í þessu ástandi sem fer alveg að verða búið!
Það er loksins vonarglætu að sjá, bólusetningar ganga vel og ég treysti því að heilbrigðisstarfsfólkið okkar, þríeykið og heilbrigðisráðherra munu halda áfram að stýra okkur í örugga höfn í þessum faraldursmálum. Ísland hefur staðið sig nokkuð vel í baráttunni við faraldurinn: heilbrigðisþjónustan hefur staðið sína vakt; vísindasamfélagið hefur skilað sínu; heilbrigðisyfirvöld hafa leitað til fagfólks og farið eftir ráðleggingum þeirra; og almannavarnir hafa staðið sína plikt með nánast daglegum upplýsingafundum. Nú höfum við séð hvernig Ísland getur tekið á alvarlegum málum. Ekki síst nú seinast með viðbrögðum við eldgosi.
Þessar náttúruhamfarir fá fólk e.t.v. til að hugsa til annarra náttúruhamfara, súrnun sjávar, loftslagsmála og hve illa við stöndum við Parísarsáttmálann. Stjórnvöld hafa ekki enn lýst yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála og virðast grafa hausinn í sandinn og fela sig á bak við alls kyns fögur orð um sjálfbærni en eins og er ávarpað í blaðinu er það alls ekki nóg. Við höfum flest tilhneigingu til þess að ýta frá okkur því sem okkur þykir óþægilegt, og hvað er óþægilegra en þær upplýsingar að við séum að eyðileggja jörðina sem við búum á svo mikið að ekki er afturkvæmt. Nú er ekki lengur rúm til þess að horfa fram hjá vandanum og það er fyrir löngu kominn tími til þess að horfast í augu við hann. Þetta er mál sem snýr að okkur öllum og kemur okkur öllum við. Því er við hæfi að þema blaðsins að þessu sinni séu umhverfis- og loftslagsmál.
Loftslagsverkföllin sem hafa átt sér stað út um allan heim ættu að vera engum ókunn. Verkföllin eru að fyrirmynd Gretu Thunberg sem flest ættu að kannast við. Stúdentaráð, Landssamband íslenskra stúdenta, Ungir umhverfissinnar og Félag íslenskra framhaldsskólanema stóðu fyrir fyrsta loftslagsverkfallinu á Íslandi, þann 22. febrúar 2019. En síðan þá hafa mörg eiturefni runnið til sjávar. Það er sorglegt að ungt fólk þurfi að stíga inn í aðgerðarleysi ráðamanna sem virðast hafa sofnað á verðinum. Húsið okkar brennur svo sannarlega og við verðum öll að hjálpast að við að slökkva eldinn. Kannski náum við að bjarga einhverjum herbergjum.
Loftslagsváin hverfur ekki þó svo að undanfarin misseri hafi athyglin skiljanlega beinst að baráttunni við covid og eldgos. Faraldurinn hefur hins vegar kennt okkur ýmislegt og við verðum að muna að nýta þau gagnlegu tæki og tól sem við höfum þurft að styðjast við undanfarið ár. Eins og að það sé hægt að vinna marga vinnu í tölvu sem áður þótti ómögulegt að vinna nema í eigin persónu. Það þarf heldur ekki alltaf að keyra eða fljúga til þess að vera taka þátt í hlutunum. Líkt og á öðrum sviðum snýst þetta um eitt skref í einu, en þó skiptir máli að taka skref í rétt átt og vera meðvituð um umhverfið okkar.
Takk fyrir samfylgdina á þessu skólaári sem er að líða. Ég vona að með því næsta komi fleiri tímar í háskólanum (ekki bara á zoom), vísó, vinir, félagsleg næring og allt það sem við viljum upplifa á þessum dýrmætu háskólaárum. Ég er gífurlega þakklát fyrir hópinn sem hefur staðið á bak við blaðið með mér þetta skólaárið, án allra þessara frábæru einstaklinga væri ekkert blað. Í upphafi skólaársins þegar ég leitaði af fólki til þess að koma til liðs við blaðið talaði ég m.a. við marga erlenda nemendur sem sóttu um að vera með. Þegar ég spurði þau hvað mætti bæta hjá Stúdentablaðinu voru þau öll á sama máli um að það mætti vera aðgengilegra fyrir erlenda nemendur. Við settum okkur þá stefnu að þýða sem mest af blaðinu og efni á samfélagsmiðlum og ég tel það hafa tekist prýðilega. Einnig héldum við okkur við kynhlutlaust tungumál. Hópurinn sem stóð að blaðinu var fjölbreyttur og skemmtilegur og ég vona að raddir þeirra allra skíni í gegnum blaðið, hvort sem það er í gegnum pistla, viðtöl, ljósmyndir, grafík, þýðingar eða prófarkalestur. Blaðið er málgagn allra stúdenta og því er mikilvægt að rödd sem flestra heyrist og að blaðinu sé miðlað á aðgengilegan máta. Ég þakka fyrir okkur og óska öllum lesendum blaðsins gleðilegs sumars.