Afmælisfagnaður
Félag Borgfirðinga eystri
60 ára Verður haldinn í Digraneskirkju, Kópavogi 15. nóvember, kirkjan opnar kl. 14:30 Vönduð dagskrá og kaffisamsæti.
Í tilefni af 60 ára afmæli Félags Borgfirðinga eystra
B
orgfirðingar vinir og vandamenn – Þetta hafa verið upphafsorð fréttabréfs Félags Borgfirðinga eystra síðastliðin 60 ár . Þetta virðist vera langur tími, en samt ótrúlega stuttur þegar hugsað er til baka. Það er af mörgu að taka þegar á að fara að rifja upp tilurð og tilgang félags sem hefur starfað svo lengi. Um miðja síðustu öld , þegar fólk þyrptist úr sveitum landsins til Reykjavíkur í atvinnuleit og til að taka þátt í breyttu þjóðfélagi, fóru að spretta upp átthagafélög. Átthagafélögin voru liður í því að viðhalda þeirri menningu, sem fólkið úr sveitunum tók með sér til borgarinnar. Fólk lagði ríka áherslu á að glata ekki menningararfi dreifbýlisins heldur varðveita hann og sameina borgarmenningunni. Átthagafélög voru ríkur þáttur í félagslífi innflytjenda í höfuðborginni á 20. öldinni og eins góður maður sagði eitt sinn „Fólk vill flytja úr sveitinni, en það er ómögulegt að ná sveitinni úr fólkinu“. Þetta eru orð að sönnu og er trúlegt að félagsskapurinn í átthagafélögunum hafi hjálpað fólki að aðlagast lífinu í borginni. Starfsemi félaganna var á svipuðum nótum og hefur verið í okkar félagi í gegnum árin.
Félag Borgfirðinga eystra var stofnað 16. nóvember 1949. Vaknaði sú hugmynd í húsi einu í Skerjafirði, sem nefnt var „Stromplausahúsið“, hjá þeim heiðurshjónum Steinólfi Benediktssyni frá Hjallhól og Vigdísi Magnúsdóttur úr Norðurárdal. Borgfirðingar hittust gjarnan hjá þeim og var þá spilað, spjallað og skrafað eins og gengur. Félagið var svo stofnað eins og fyrr segir 16. nóvember 1949 í Tjarnarcafé og var Árni Halldórsson kosinn fyrsti formaður félagsins. Í 3.grein félagslaga stendur eftirfarandi: „Tilgangur félagsins er að auka og viðhalda kynningu milli þeirra sem þetta félag mynda og hinna sem búsettir eru í Borgarfirði eystra og styðja eftir megni framfaramál þeirra á hvaða vettvangi sem því verður við komið! Tilgangi sínum hyggst félagið ná með ýmiss konar fræðslu og skemmtistarfsemi, ennfremur með því að safna minjum er snerta sögu Borgarfjarðar og félagarnir skrái eða láti skrá það sem þeir vita markverðast úr sögu fjarðarins og komi því í vörslu“. Í gegnum árin hefur ýmislegt verið gert til að viðhalda tilgangi félagsins og má nefna skemmtifundi, félagsvist og mörg skemmtileg ferðalög. Ein slík ferð var farin austur, þegar félagsheim-
ilið Fjarðarborg var vígt. Þrjátíu og sex manns tóku þátt í þeirri ferð og kváðu móttökurnar hafa verið ógleymanlegar eins og stendur í „Grænu bókinni“. Af starfsemi félagsins í gegnum tíðina má segja að það sé tvennt, sem hefur staðið af sér tímans tönn en það er barnasamkoman, sem hefur verið haldin allar götur síðan 1956 og kaffidagurinn. Báðar þessar samkomur hafa verið nokkuð vel sóttar og barnasamkoman hefur aðeins einu sinni fallið niður vegna veðurs og það var árið 2007. Þrátt fyrir góðan vilja lögðust þorrablót Borgfirðingafélagsins af á tíunda áratugnum vegna þátttökuleysis. Þorrablót er nú haldið með Loðmfirðingum, Héraðsmönnum og Vopnfirðingum. Þorrablótin höfðu verið aðal fjáröflunarleið félagsins. Var lengi framan af hægt að bjóða öllum eldri borgurum félagsins frítt á blótið. Þegar ljóst var, að félagið stóð ekki lengur undir sér, var farið að senda gíróseðla til félagsmanna til styrktar félaginu. Þess vegna hefur félagið hefur getað starfað áfram og eiga félagsmenn þakkir skildar. Er það von okkar sem leiðum félagið að við séum að gera rétt með því að viðhalda félaginu. Það er trú okkar, að á meðan þokkaleg
þátttaka er í kaffideginm og barnasamkomunni þá séum við að gera rétt. Það að eiga sér stað og hlúa að rótum sínum er liður í að vera til. Við náum svo miklu betur að fóta okkur í lífinu ef við þekkjum ræturnar og menninguna sem við erum sprottin úr. Við minnumst með hlýhug félagsmanna, sem störfuðu ötullega og af miklum eldmóði fyrir félagið og má þar helst nefna Gest Árnason, sem lengst allra var formaður. Nú mörg undanfarin ár hefur Elísabet Sveinsdóttir verið óþreytandi í störfum sínum fyrir félagið og átt frumkvæði að flestu, sem gert hefur verið og setið í stjórn í meira en 50 ár. Félagið hefur lagt ýmsum málefnum lið í gegnum tíðina með styrkjum og gjöfum til mannúðar og menningarmála heima á Borgarfirði. Má lesa um starfsemi félagsins í „Grænu bókinni“ sem gefin var út á 40 ára afmælinu, en þar kennir margra grasa . Eins er kvikmynd unnin af Árna heitnum Stefáns góð heimild um ýmsa merkisatburði í sögu félagsins og Borgfirðinga, ómetanlegt fyrir okkur og komandi kynslóðir.
Afmælisfagnaður Félag Borgfirðinga eystri 15. nóvember 2009, Digraneskirkju, Kópavogi
Dagskráin hefst klukkan 1500 Elísabet Sveinsdóttir býður afmælisgesti velkomna Gyrðir Elíasson skáld les úr verkum sínum Birna Þórðardóttir flytur ljóð við tónlistarundirleik Sigrún Hjálmtýsdóttir og Bergþór Pálsson flytja nokkur lög við undirleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Þegar dagskránni í kirkjunni lýkur, flytja gestir sig yfir í safnaðarheimilið þiggja kaffiveitingar og skemmtidagskrá heldur áfram. Magni Ásgeirsson og Aldís Ásgeirsdóttir flytja tónlistaratriði. Fjöldasöngur þar sem allir geta tekið undir í Borgarfjarðar-lögunum góðu.