![](https://assets.isu.pub/document-structure/221208222712-ef064182026832437ad4211c2a00e2db/v1/f56811c980b0bcbe8b8dd746d0bd0f66.jpeg?width=720&quality=85%2C50)
1 minute read
Ávarp ritstjóra
Íslenska leiðin 2007/2008 er nú komin út og er það mér mikið gleðiefni. Blaðið er að koma út í sjötta skiptið en það var fyrst gefið út árið 2001. Frá þeim tíma hefur því verið tekið opnum örmum af bæði fyrrverandi og núverandi nemendum við stjórnmálafræðiskor, enda hefur verið lögð áhersla á að blaðið sé í senn fræðilegt og skemmtilegt aflestrar. Lestur blaðsins ætti ekki bara að vera ánægjulegur fyrir þá sem setið hafa áfanga í stjórnmálafræði, heldur alla sem hafa áhuga á málefnum líðandi stundar bæði hérlendis og erlendis.
Vinna við undirbúning blaðsins hófst síðasta vor, en þá kallaði ég saman hóp einstaklinga til þess að vinna með mér að útgáfu blaðsins og hefur þessi fríði flokkur starfað einstaklega vel saman. Það hefur verið mér sönn ánægja að vinna með öllum hópmeðlimum og tel ég mig hafa sett saman sterka og góða ritstjórn.
Advertisement
Þegar búið var að skipa ritstjórn var hafist handa við að safna greinum, auglýsingum og styrkjum. Við tókum snemma þá ákvörðun að setja blaðið upp sjálf og skipta því í þrjá kafla sem byggðir eru á námsframboði við stjórnmálafræðiskor, þ.e.a.s. BA í stjórnmálafræði, MA í alþjóðasamskiptum og MPA í opinberri stjórnsýslu. Þótti okkur þessi kaflaskipting draga það besta fram í náminu og einnig sýna hversu víðfemt og gott nám er á boðstólum.
Með útgáfu Íslensku leiðarinnar leggjum við okkar lóð á vogarskálar fræðilegra umræðna, en gefum þó líka hinum almenna lesanda færi á að skyggnast inn í heim stjórnmálafræðinnar. Með þeim hætti er öllum veittur möguleiki á að njóta blaðsins.
Þótt blaðið sé að miklu leyti byggt upp á fræðigreinum er þó að finna efni hér í blaðinu sem frekar er ætlað til skemmtunar en fræðslu. Þar má benda á viðtöl við nemendur, myndir af skemmtunum nemendafélags stjórnmálafræðinema, sem og pistla sem er sérstaklega beint til nemenda við stjórnmálafræðiskor. Þessir pistlar fjalla um líf að loknu námi, veita upplýsingar um skiptinám o.fl.
Að lokum langar mig að þakka fyrir allan þann stuðning sem við fengum við gerð þessa blaðs.
Njótið vel,
Valgeir Helgi Bergþórsson Ritstjóri Íslensku leiðarinnar