4 minute read

Ritstjórn Íslensku leiðarinnar

Valgeir Helgi Bergþórsson

Advertisement

Ritstjóri

Ég heiti Valgeir Helgi Bergþórsson, og er ritstjóri Íslensku leiðarinnar. Mitt helsta starf sem ritstjóri hefur verið verkstjórn s.s. að sjá til þess að allir hafi nóg að gera. Einnig hef ég unnið við að selja auglýsingar og afla greina fyrir blaðið. Ég er Hafnfirðingur en er útskrifaður frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Legg ég núna stund á nám við stjórnmálafræðiskor Háskóla Íslands og stefni ég að því að útskrifast í vor. Ástæðan fyrir því að ég valdi stjórnmálafræði er sú að námið sameinar flest áhugasvið mín, þ.e.a.s. heimspeki, fjölmiðla, sagnfræði, stjórnmál og margt fleira.

Ásthildur Gunnarsdóttir

Aðstoðarritstjóri

Ég heiti Ásthildur Gunnarsdóttir og er aðstoðarritstjóri Íslensku leiðarinnar. Starf mitt hefur að mestu leyti falist í ritun fundargerða, greinasöfnun og að halda utan um ljósmyndun fyrir blaðið. Sjálf er ég stúdent af alþjóðabraut frá Verzlunarskóla Íslands og ætli ég teljist ekki hálfur Reykvíkingur og hálfur Skagfirðingur. Barnsskónum var að mestu slitið í Danmörku og á Bifröst en snemma á táningsárunum lá leiðin til Reykjavíkur.

Ég hóf nám í stjórnmálafræði haustið 2005 og hafði lengi stefnt á þá námsgrein. Ástæða fyrir námsvali mínu er sú að stjórnmálafræði býður upp á fjölbreytileika og er góður grunnur fyrir framhaldsnám í hinum ýmsu fræðigreinum. Námið hefur staðist væntingar mínar að mestu leyti en samt sem áður vonast ég til að Háskóli Íslands leggi enn harðar að sér við að bæta kennslugæði og framboð valgreina. Ég stefni á útskrift vorið 2008 og er að skrifa BA-ritgerð um íbúalýðræði með áherslu á notkun rafrænna miðla til þess að virkja íbúalýðræði. Að námi loknu liggur leið mín í framhaldsnám í stjórnun og hef ég fulla trú á að stjórnmálafræðin muni nýtast mér þar og í atvinnulífinu að námi loknu.

Með fram námi starfa ég sem þjálfari hjá fimleikadeild Stjörnunnar og hef gert síðastliðin þrjú ár, auk þess að æfa sjálf fimleika. Þar að auki spila ég blak með meistaraflokki kvenna hjá Þrótti Reykjavík, ásamt því að starfa sem ritari blakdeildarinnar. Það má því segja að íþróttir skipi stóran sess í lífi mínu. Ritnefndarstörf fyrir Íslensku leiðina hafa verið ákaflega skemmtileg og krefjandi og ég þakka öllum nefndarmeðlimum fyrir gott samstarf.

Útgáfustjóri

Ég heiti Steingrímur Jón Guðjónsson og er á þriðja ári í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Vinna mín við þetta blað hefur verið margvísleg svo sem hugmyndavinnsla en mest hef ég séð um hönnun á útliti blaðsins ( umbrotshönnun ) sem þú heldur nú á.

Ég kem úr Kópavoginum þar sem ég gekk í Kópavogsskóla og síðar Menntaskólann í Kópavogi. Þaðan lá leiðin til Danmerkur í Lýðháskóla á Jótlandi en það var heldur betur skemmtilegur tími.

Nám í stjórnmálafræði er skemmtilegt en um leið krefjandi og opnar ekki aðeins huga manns heldur býður upp á mikla möguleika bæði í framhaldsnámi og atvinnulífi. Aðstaða til náms í Háskóla Íslands hefur einnig stórlega batnað með tilkomu Háskólatorgs og viðbygginga og lít ég framtíð Háskólans björtum augum.

Ásdís Jóna Sigurjónsdóttir

Framkvæmdastjóri

Ég fékk það flotta starfsheiti framkvæmdastjóri, sem þýðir í raun að ég hef verið frekjan í hópnum. Starf mitt fólst í því að fara yfir prentmöguleika og taka ákvörðun um prentkost, vera með bókhaldið á hreinu, afla greina ásamt öllum í ritstjórn og vinna að því að fá nægan pening til að koma blaðinu út. Þá pikkaði ég í fólk þegar þrufti að senda upplýsingar til einstaklinga utan hópsins.

Ég er nýútskrifuð úr stjórnmálafræðinni, en það var mikill léttir þegar það hafðist. Stjórnmálafræðin hefur vissulega verið skemmtileg og undirbúið mig vel fyrir vinnu að rannsóknum og hjálpað mér við að koma upplýsingum, efni, hugsunum og skoðunum frá mér á skilvirkari hátt.

Eftir að hafa lokið náminu sé ég betur hvað það býður upp á marga möguleika fyrir mig hvað varðar framhaldsnám, þar sem efni stjórnmálafræðinnar skiptist í svo marga þætti að möguleikarnir eru fjölmargir, hvort sem um er að ræða framhaldsnám í fjölmiðlafræði, opinberri stjórnsýslu, Evrópufræði, alþjóðaviðskiptum og fleira. Það má því segja að stjórnmálafræðiskor sé einhvers konar náttúrufræðibraut háskólans, sem heldur möguleikunum á hvað þú ætlar að verða þegar þú verður stór opnum aðeins lengur.

Anna Margrét Sigurðardóttir

Alþjóðafulltrúi

Ég heiti Anna Margrét Sigurðardóttir og er í stjórnmála- og viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Ég hef tekið þátt í útgáfu Íslensku leiðarinnar frá upphafi en í því felst að fá greinar í blaðið, auglýsingar o.fl. Ég er titluð alþjóðafulltrúi blaðsins, þar sem ég sá um að útvega grein frá erlendum kennurum. Ég er Kópavogsmær og stundaði nám við Menntaskólann í Kópavogi frá árunum 2001 - 2004. Ég hef einnig farið í háskóla skiptinám til Bandaríkjanna (skólinn hét Oklahoma State University), auk þess sem ég hef farið í tungumála-/starfsnám til Austurríkis. Ég fór í stjórnmálafræði vegna þess að námsráðgjöf HÍ benti mér á hve góður almennur grunnur námið er.

This article is from: