2 minute read

Ávarp formanns Politicu

Next Article
Ávarp ritstjóra

Ávarp ritstjóra

Innan stjórnmálafræðinnar starfar kraftmikið nemendafélag sem heitir Politica. Á vegum þess fara fram allir helstu atburðir sem snerta félagslíf nema stjórnmálafræðinema.

Í byrjun skólaárs var okkar fyrsta verk að taka á móti nýjum nemendum, enda mikilvægt að nýjum nemum sem koma í nýtt umhverfi með nýju fólki líði vel og kynnist þeim nemendum sem þeir munu eiga samleið með næstu árin.

Advertisement

Starfsemi félagsins var kynnt á nýnemakynningu og svo hófst nýnemaferðin. Ferðinni var heitið til Þorlákshafnar og tók þar við skemmtun sem stóð frameftir nóttu og allir urðu miklir vinir í þeirri ferð.

Næstu vikur fór félagslífið fram á venjubundinn hátt, ótal vísindaferðir sem og aðrar skemmtanir Politicu höfðu ofan af fyrir lesþreyttum stúdentum. Slíkur félagsskapur skilar sér beint til stjórnmálafræðinnar því góðir vinir gera námið mun auðveldara í alla staði, enda var brottfall um seinustu jól eitthvert það lægsta sem um getur.

Politica mætti til leiks á stjórn-hagdaginn með miklum baráttuhug í haust. Á stjórn-hagdeginum mætast stjórnmálafræðinemar og hagfræðinemar árlega og etja kappi í ýmsum göfugum keppnisgreinum er reyna á hug, hjarta og þor. Til að gera langa sögu stutta sigraði stjórnmálafræðin annað árið í röð og verðlaunagripurinn „Hólmsteinninn“ er áfram í fórum Politicu.

Eftir glæsilegan sigur á hagfræðinni tók við hanaslagurinn svonefndi, en það eru árlegar kappræður milli fylkinga háskólans, Röskvu og Vöku. Kappræðurnar eru skipulagðar og haldnar af Politicu og oftar en ekki myndast þar gríðarlega skemmtilegar og fræðandi umræður um málefni háskólans. Kappræðurnar sem haldnar voru þetta árið voru þær mest sóttu frá upphafi og þurfti þrisvar að gera hlé á ræðuhöldum til að koma fólki fyrir í salnum. Tókst dagskráin með eindæmum vel og erum við stolt af því.

Fleiri árvissir viðburðir eru á vegum okkar. Námsferðir stjórnmálafræðinnar eru skipulagðar af Politicu en í ár eru tvær ferðir farnar. Annarri ferðinni er heitið til Bandaríkjanna þar sem viðkomustaðirnir eru New York og Washington. Þar fá nemendur að kynnast starfsemi Sameinuðu Þjóðanna og Alþjóðabankans svo dæmi séu tekin.

Hin námsferðin er til Brussel og þar munu nemendur kynnast helstu stofnunum Evrópusambandsins og NATO. Slíkar námsferðir skila nemendum tveimur einingum og eru mjög gagnlegar og skemmtilegar. Þar fá tilvonandi sendiherrar, starfsmenn sendiráða og alþjóðastofnana tækifæri til að kynna sér þær stofnanir sem hafa hva ð mest áhrif á daglegt líf alþjóðasamfélagsins.

Politica heldur úti kröftugri heimasí ð u www.politica.hi.is og er það sá vettvangur sem stjórnmálafræðinemar nota hvað mest í samskiptum sín á milli. Þar birtast fréttir um starfsemi félagsins, og spjallborð fyrir skoðanaglaða nemendur.

Hér hefur eingöngu verið stiklað á stóru í umfjöllun um starfsemi félagsins, ótal atburðir eru skipulagðir relgulega. Árshátíð Politicu er einn af hápunktum félagslífsins og hefur orðið fréttaefni fjölmiðla sem og alls háskólasamfélagsins.

Viðburðir líkt og danskennsla, bingókvöld og margar fleiri skemmtanir eru skipulagðir reglulega ásamt því að ráðnir eru ritstjórar þessa frábæra blaðs.

Politica hefur beitt sér fyrir réttindabaráttu nemenda og mikill árangur hefur náðst í samvinnu við kennara og starfsmenn skólans.

Það hefur verið okkur öllum sönn ánægja að fá að starfa í þágu félagsins og halda merkjum Politicu á lofti. Viljum við þakka fyrrverandi, núverandi og tilvonandi nemendum stjórnmálafræðinnar fyrir að gera okkur kleift að starfrækja þetta kröftuga félag. Politica er í stórsókn og er tekið eftir krafti okkar og velgengni langt út fyrir veggi skólans.

F.h a fráfarandi stjórnar Politicu, Vignir Örn Hafþórsson, formaður

This article is from: