6 minute read
Hampur er til margs nytsamlegur
Horft yfir hampakur.
Mynd / Pálmi Einarsson
Advertisement
Vilmundur Hansen
Af öllum þeim um það bil 400 þúsund plöntum sem greindar hafa verið í heiminum er engin jafn umdeild og á sama tíma jafn nytsamleg og Cannabis sativa.
Plantan telst til tveggja heima. Nytjaplanta með marga möguleika til lækninga og iðnaðar og planta sem getur leyst úr læðingi hlátur og hughrif, vanlíðan og þunglyndi.
Samkvæmt flokkun grasafræðinnar er Cannabis sativa ein tegund sem skiptist í tvær undirtegundir, C. sativa og C. indica, eftir að plantan þróaðist við ræktun í mismunandi áttir frá upprunalegum heimkynnum sínum í Mið-Asíu og við Himalajafjöll. Undirtegundin C. sativa þróaðist í norður frá fjöllunum til textílgerðar en C. indica í suður sem vímugjafi.
Undirtegundin C. sativa, hampur, hefur um aldaraðir gegnt veigamiklu hlutverki vegna þess hversu trefjaríkir stofnar plöntunnar eru. Trefjarnar hafa í aldaraðir verið nýttar í vefnaðarvöru sem var meðal annars hráefni í klæði, segl, tjöld og kaðla sem voru undirstaða landafundanna miklu. Í seinni tíð hafa yrki af C. sativa verið kynbætt þannig að þau veiti vímu.
Talið er að hermenn Napóleons hafi flutt þann sið að reykja plöntuna með sér til Evrópu eftir stríð þeirra í Egyptalandi þar sem slíkar reykingar voru vel þekktar. Kannabis til reykinga er unnið úr þurrkuðum blómum og laufum C. Indica og í seinni tíð einnig úr kynbættri C. sativa.
Plantan fyrst bönnuð í Bretlandi
Reglur til að takmarka neyslu á kannabis voru fyrst settar í Rio de Janeiro í Brasilíu árið 1829 en kannabis var bannað í Bretlandi 1928 og árið 1937 í Bandaríkjunum. Lögin í Bandaríkjunum gerðu ráð fyrir að sérstakt leyfi þyrfti til að rækta
og nota kannabis og hamp en þar sem leyfið var aldrei veitt var í raun um bann að ræða. Viðhorf stjórnvalda í Bandaríkjunum breyttust í seinni heimsstyrjöldinni og var almenningur þá hvattur til að rækta iðnaðarhamp undir slagorðinu „Hemp For Victory“ enda stór hluti þeirrar vefnaðarvöru sem var notuð í stríðinu, eins og fatnaður, reipi, fallhlífar og strigapokar, unnin úr hampi. Ræktunin var stöðvuð aftur árið 1957.
Árið 1974 var á Alþingi ákveðið að flokka kannabisefni sem ávana- og fíkniefni og varð Cannabis plantan þar með ólögleg.
Grasafræði, ræktun og útbreiðsla
Einær, einkynja planta með öflugri trefjarót og stinnum og trefjaríkum stöngli sem getur náð sex metra hæð. Blöðin stakstæð, handskipt og grófsagtennt. Fjöldi smálaufa á hverju blaði eykst eftir því sem plantan eldist, eitt í fyrstu en geta orðið þrettán, sjö til níu
blöð algengust. Smáblöðum á laufum fækkar að jafnaði í eitt næst blómunum. Blómin lítil, grænleit og mörg saman í hnapp á toppi plöntunnar eða blaðöxlum. Einstaka planta ber bæði karl- og kvenblóm. Vindfrjóvgandi í náttúrunni. Fræin olíurík, þrír til fjórir millimetrar að lengd eða svipuð að stærð og brennisteinn á eldspýtu.
Plantan er hraðvaxta og kýs sandblandaðan, næringarríkan og hæfilega rakan jarðveg. Kjörsýrustig er pH 6,5 til 7. Fræin geta spírað við 3° á Celsíus og stönglarnir sem innihalda etanól þola alltaf að mínus 5° á Celsíus. Yfirleitt er plantan ræktuð af fræi en auðvelt er að fjölga henni með græðlingum.
Í dag vex Cannabis sp. nánast á hvaða byggða bóli í heiminum, annaðhvort sem nýbúi í náttúrunni eða í umsjón áhugasamra ræktenda.
Saga hampræktunar
Samkvæmt kínverskri goðsögn færðu guðirnir mannkyninu eina plöntu að gjöf sem átti að uppfylla alla þarfir þess. Plantan er formóðir allra kannabis- og hampplantna í heiminum.
Fornminjar benda til að nytjar á Cannabis sp. nái að minnsta kosti tólf þúsund ár aftur í tímann og að fræ plöntunnar hafi verið nýtt til matar. Seinni tíma minjar benda til að blómin og laufin hafi verið notuð sem vímugjafar við trúarlegar athafnir. Talið er að Kínverjar hafi manna fyrstir ofið léreft úr hampi fyrir um 4.500 árum og um síðustu aldamót voru þeir stærstu framleiðendur á hampþræði í heiminum. Í kjölfar þeirra komu svo lönd eins og Úkraína, Rúmenía, Ungverjaland, Spánn, Síle og Frakkland.
Kannabis er fyrst getið í Veda¬bókum hindúa frá því um 2000 fyrir Krist þar sem plantan er kölluð fæða guðanna. Elsta skráða vestræna heimildin um notkun á kannabis er að finna í riti gríska sagnfræðingsins Heródotusar. Þar segir hann frá sið Skýtha, þjóð sem bjó í MiðAsíu, sem fólst í því að brenna plöntuna og anda að sér reyknum.
Á 17. og 18. öld réðu Rússar stórum hluta verslunar með hamp í heiminum og framleiddu þjóða mest af seglum og köðlum. Spánverjar fluttu hampfræ með sér vestur yfir haf og hófu ræktun á honum í Síle 1545 en fyrsta hampinum var sáð í Norður-Ameríku 1607. Nánar tiltekið í Virginíu þar sem höfuðborg ríkisins Richmond byggðist upp í kringum þá ræktun.
Í frelsisstríði Bandaríkjanna undan Bretum bönnuðu hinir síðarnefndu innflutning á hampi til nýlendunnar og var hampræktun í Bandaríkjunum því mikil allt frá stofnun þeirra. Bæði George Washington og Thomas Jefferson, fyrsti og þriðji forseti Bandaríkjanna, ræktuðu hamp til iðnaðar. Hampur var lengi nothæfur sem gjaldmiðill í Bandaríkjunum og um tíma hægt að borga skatt með honum. Árið 1916 voru bændur í Bandaríkjunum skyldaðir til að rækta ákveðið magn af hampi árlega.
Nytjar
Maríjúana, sem er umdeilt orð notað yfir kannabis með háu THC hlutfalli er, eins og segir hér að ofan, þurrkuð lauf og blóm plantna sem innihalda hátt hlutfall af kannabínóðanum THC. Hass er notað yfir kannabínóða sem hafa verið einangraðir af blómum og laufum THC ríkra plantna og er klístrað, þétt efni. Hassolía er búin til með því að blanda hassi út í burðarolíu. Plantan hefur lengi verið álitin lækningajurt og efni úr henni notuð til að lina þjáningar við langvarandi veikindi. Neysla á kannabis er trúarlegs eðlis hjá rastaförum sem rekja uppruna sinn til Eþíópíu en búddistar líta almennt svo á að víman sem fylgir neyslu kannabis hafi slæm áhrif á hugleiðslu og tefji fyrir hreinsun hugans.
Nytjar á hampi, C. sativa, eru ótrúlega margar og ólíkar. Úr trefjum hamps er meðal annars unninn pappír og vefnaðarvara. Í dag er fatnaður sem í er hampþráður yfirleitt blanda af hampi og bómull eða silki til að mýkja áferðina. Hamptrefjar eru notaðar í trefjaplast og er meðal annars að finna í gólfteppum, áklæði húsgagna og sem byggingarefni og einangrun í húsum, hjólhýsum og bifreiðum. Flestir stærstu bíla- og flugvélaframleiðendur eru í síauknum mæli farnir að nota hamptréni við framleiðslu á innra og ytra borði bifreiða.
Plöntuhlutar hamps eru einnig notaðir sem dýrafóður, undirburður og sem þekja til að halda niðri illgresi í gróðurhúsum. Tilraunir með að framleiða lífdísil úr hampi lofa góðu.
CBD olía er gerð með því að einangra kannabínóðana af CBD ríkum blómum og laufum hamps (C. Sativa) og blanda þeim út í burðarolíu. CBD olía er meðal annars notuð sem fæðubótarefni og kannabínóðarnir nýttir í lyf og bætt út í mat- og drykkjarvörur, húð- og snyrtivörur. Olían úr fræjunum er meðal annars notuð sem íblöndunarefni í málningu, snyrtivörur og öðrum iðnaði. Fræin eru notuð til matargerðar og úr þeim unnin hampmatarolía, hamphveiti, prótein- og trefjaduft, hampmjólk og fleira. Auk þess sem fræin eru gefin sem dýra- og fuglafóður.
Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið CBD af lista yfir lyfjaefni og Evrópusambandið hefur veitt leyfi til að markaðssetja CBD sem matvöru í aðildarlöndum sambandsins.
Þverskurður af hampstöngli. Mynd / Pálmi Einarsson