INNGANGUR: FEBRÚAR 2010
„Herrar mínir, stundin nálgast.“ xxxxxxxxxxxx lyfti brúnum og leit á jakkafataklæddu mennina sjö sem sátu kringum stóra fundarborðið í stærsta fundarherbergi höfuðstöðva bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA í Washington, DC. Þeir voru meðal áhrifamestu manna í landinu, klukkan var að nálgast ellefu um kvöld og þeir höfðu setið þarna síðan um morguninn. Þeir þurftu að taka ákvörðun fljótlega. „Jæja, hver er niðurstaðan?“ spurði xxxxxxxxxxxx óþolinmóður. Þykkur sígarettureykur lá yfir herberginu og gerði stemninguna ennþá drungalegri. Öllum reglum um reykingar hafði verið ýtt til hliðar eftir því sem spennan magnaðist. „Sjáið til,“ byrjaði einn sjömenninganna og nagaði blýantinn sinn, „þetta er áhættusöm tillaga. Að fara aftur til tunglsins, meina ég. Og spurningin er: Er það virkilega þess virði?“ „Fólk var orðið hundleitt á tunglinu áður en síðasta tunglferðin var farin árið 1972,“
sagði annar. „Af hverju haldið þið að það verði eitthvað öðruvísi núna?“ „Maður veit aldrei,“ sagði sá þriðji. „Við gætum sagt að það væru líkur á því að finna mikið magn af Tantal 73 á suðurhluta tunglsins.“ Andrúmsloftið í herberginu breyttist snögglega. „Þið viljið ekki fara aftur til suðurpólsins, trúið mér.“ „Auðvitað ekki.“ „Þið munuð láta lífið þar.“ „Ég geri mér grein fyrir því.“ „Ef þú vilt heyra mína skoðun er best að láta þetta svæði vera.“ „Herrar mínir,“ greip xxxxxxxxxxxx fram í. „Skiljið þið hversu mikilvægt það væri ef við fyndum Tantal 73? Næstum öll nútímatækni byggist á þessu efni. Það myndi breyta öllu. Fólk myndi keppast við að fleygja í okkur peningum.“ „Ætlum við þá að fara þangað til að leita að náttúruauðlindum?“ spurði einn mannanna vantrúaður. „Ég hélt …“
xxxxxxxxxxxx greip fram í fyrir honum. „Nei, það ætlum við ekki að gera.“ Formaður herforingjaráðsins ræskti sig. „Leyfið mér að leggja spilin á borðið, herrar mínir. Við ætlum ekki aftur til suðurhluta tunglsins. Og hvort það finnst Tantal 73 þar eða annars staðar á tunglinu skiptir ekki máli.“ Það kom fát á hópinn og ekki laust við að vottaði fyrir pirringi. „Einhverjir ykkar kannast líklega við Horizon-verkefnið,“ sagði hann. „Áttu við rannsóknirnar í lok sjötta áratugarins? Áætlun um að byggja herstöð á tunglinu? Ég hélt að það hefði verið afskrifað strax ári síðar,“ sagði sá sem hafði tekið fyrstur til máls. xxxxxxxxxxxx hristi höfuðið. „Þetta snerist ekki um herstöð.“ Hann leit á formann herforingjaráðsins. „Heldur rannsóknarstöð. Eingöngu rannsóknarstöð. Er það ekki rétt?“ Formaðurinn svaraði ekki. Hann leit vinalega á manninn. „Stöðin heitir DARLAH 2. Hún
var byggð á áttunda áratugnum undir nafninu Verkefni DP7.“ „En af hverju … af hverju í ósköpunum hefur enginn okkar heyrt um þetta fyrr?“ „Allar upplýsingar um DARLAH 2 hafa verið hernaðarleyndarmál þar til nýlega. Af öryggisástæðum.“ Hann hikaði aðeins, eins og hann væri ekki viss um hvort hann ætti að halda áfram. xxxxxxxxxxxx kom honum til hjálpar: „DARLAH var byggð á árunum 1974-76. Stöðin er í Kyrrðarhafinu þar sem Armstrong og Aldrin lentu árið 1969, eins og allir vita. Engir aðrir hafa lent þar.“ „Er óhætt að spyrja til hvers stöðin var byggð?“ spurði einn þeirra, sem hafði verið þögull fram til þessa. „Við fundum dálítið,“ sagði xxxxxxxxxxxx. „Geturðu verið aðeins nákvæmari?“ „Við vitum ekki hvað það er. Til stóð að halda rannsóknunum áfram og hafa starfsfólk á tunglinu en eins og þið allir vitið voru fjárframlög að mestu stöðvuð eftir árið 1976. Og eins og ég gaf í skyn núna áðan
var fjárskortur ekki eina ástæðan fyrir því að við … hættum við áætlunina. Sannleikurinn er sá … að það sem við fundum þarna uppi er ekki uppgötvun sem maður fær fjármagn í að rannsaka betur. Við hefðum þurft að láta kyrrt liggja. Svo við létum sem ekkert hefði gerst en … svo hvarf merkið.“ „Þar til það birtist aftur í fyrrahaust,“ sagði formaðurinn. „Merkið? Hvað í fjandanum ertu að tala um?“ hrópaði einn fundargestanna upp yfir sig. „Getur einhver vinsamlega útskýrt fyrir mér á mannamáli hvað hér er til umræðu?“ xxxxxxxxxxx leit á manninn, hallaði sér fram og tók eitthvað upp úr skjalatöskunni sinni. Hann lagði möppu á borðið, opnaði hana og dró fram ljósmynd. „Þessa mynd tók James Irwin úr Appolló 15 á tunglinu. Á myndinni er geimfarinn David R. Scott.“ „En … hver er hin manneskjan í bakgrunninum?“ „Við vitum það ekki.“
„Vitið þið það ekki? Hvað er eiginlega í gangi?“ „Allt hefur sinn tíma, herrar mínir. Upplýsingarnar sem þið óskið eftir verða aðgengilegar um leið og við höfum samþykkt einróma að halda áfram með áætlunina. Ekki fyrr. Tölum um annað. Hvernig útskýrum við að á tunglinu hafi verið ónotuð geimstöð í fjörutíu ár án þess að nokkur hafi vitað af því?“ „Ónotuð? Ertu að reyna að segja það að enginn hafi verið í stöðinni?“ spurði einn af geimförunum í herberginu. „Hvað með þá sem reistu hana?“ „Þeir komu aldrei þangað inn. Stöðin var sett saman af vélum, ekki mönnum.“ Einn mannanna stóð brosandi upp: „Við segjum að við höfum verið í fjörutíu ár að prófa þetta til að vera vissir um að stöðin virki fullkomlega.“ „Og gerir hún það?“ spurði einn. „Í meginatriðum, já,“ svaraði maðurinn og brosti vandræðalega. „Í meginatriðum er varla nógu gott, er það?“
Fundargestirnir virtust flestir fullir efasemda, ef ekki beinlínis vantrúaðir. „Hverja ætlar þú svo að senda upp? Og hvað eiga þeir að gera?“ „Hlutverk fyrsta leiðangursins verður bara að kanna þrjú atriði. Í fyrsta lagi: Að prófa stöðina og vera viss um að hún virki eins og hún á að gera. Í öðru lagi: Rannsaka möguleikana á námuvinnslu á Tantal 73, sem myndi gefa Bandaríkjunum mikið forskot í framleiðslu tæknibúnaðar. Og í þriðja lagi – og þetta er það mikilvægasta, herrar mínir: Að ná athygli fjölmiðla og tryggja þannig fjárhagslegan stuðning til að halda rannsóknum áfram og losa okkur við öll … vandamál.“ „Hvaða vandamál?“ spurði einn mannanna. xxxxxxxxxxx lyfti upp hendinni, eins og til að þagga niður í þeim. „Eins og ég sagði komum við að því bráðlega. Hugmyndin er að kynna verkefnið sem hátíðahöld í tilefni af því að það eru fimmtíu ár frá fyrstu tunglferðinni. Við munum smíða nýja og endurbætta útgáfu af hinum sígildu Appollóeldflaugum frá sjöunda og áttunda
áratugnum. Það mun vekja fortíðarþrá hjá fólki, það er alveg öruggt.“ „En enginn yngri en 45 ára man eftir Appollóleiðöngrunum.“ xxxxxxxxxxx beið drjúga stund áður en hann tók aftur til máls. Hann var afar greindur maður og það fór í taugarnar á honum að þurfa að útskýra hvert einasta smáatriði fyrir þessum kjánalegu embættismönnum. Sem betur fer var hann búinn að fara svo oft yfir þetta samtal í huganum að hann taldi sig hafa svör við öllum spurningum. Þar á meðal fullkomið svar við því hvernig ætti að vekja áhuga heimsbyggðarinnar á nýjum leiðangri. „Herrar mínir, hvað ef við sendum nokkur ungmenni til tunglsins?“ Það svaraði honum enginn. Þeir sátu og biðu, því þeir héldu að hann væri að grínast. En þetta var ekkert grín. „Krakka? Af hverju í ósköpunum ætti maður að senda krakka til tunglsins?“ xxxxxxxxxxx brosti umburðarlyndur og svaraði: „Ef við veljum þrjú ungmenni sem
fá að fara með geimförunum getum við bókað að ný kynslóð fær áhuga á tunglferðum. Það myndi vekja heimsathygli.“ „En … það væri algjört brjálæði!“ hrópaði einn mannanna. „Þú varst að enda við að segja okkur að það væri eitthvað þarna uppi. Eitthvað óþekkt. Enginn ykkar getur gefið mér nógu góða skýringu á hvað það er eða hvaða afleiðingar þetta getur haft. Og þið viljið senda óreynd saklaus ungmenni þangað upp sem tilraunadýr!“ „Kostirnir eru fleiri en gallarnir,“ svaraði xxxxxxxxxxx þurrlega. „Það eru litlar líkur á að eitthvað gerist og geimfararnir munu geta komið fyrir mikilvægum búnaði og gert nauðsynlegar rannsóknir. Til einföldunar er best að líta á þetta sem tvo leiðangra í einum. Sá fyrri, okkar hluti, verður að rannsaka möguleika á vinnslu Tantal 73 –“ „Ég hélt – voruð þið ekki að segja að við myndum ekki leita að Tantal 73 á tunglinu?“ „Við ætlum ekki að gera það,“ hélt xxxxxxxxxxx áfram. „Seinni hlutinn verður leiðangur ungmennanna, sem verður
tiltölulega einfaldur – svona eins og örlítið flóknari útgáfa af ferð í Disneyland – og fjölmiðlaathyglin mun koma sjálfkrafa. Þetta er svo gott sem hættulaust og auglýsingatekjurnar munu án efa veita okkur það fjármagn sem við þurfum fyrir annan leiðangur.“ „Verður annar leiðangur?“ „Það er ég hræddur um, já.“ „Ætlar þú líka að senda ungmenni í þann leiðangur?“ „Nei.“ xxxxxxxxxxx hélt á lofti tveimur umslögum sem á stóð: Trúnaðarmál. „Ungmenni til tunglsins, herrar mínir, er lausnin sem við höfum leitað að. Lykillinn.“ Hinir mennirnir í herberginu kinkuðu hægt kolli. „En hvernig veljum við þá sem fá að fara?“ „Við höfum happdrætti.“ xxxxxxxxxxx leit á mennina í síðasta sinn áður en hann fór út úr herberginu og lokaði dyrunum á eftir sér. Hann tók lyftuna niður á fyrstu hæð, gekk út
um bakdyrnar og settist inn í bílinn sem beið eftir honum. Nokkrum sekúndum síðar var hann á leið út úr borginni.
1. HLUTI: JÖRÐIN TÆKIFÆRI – 2018
„Þetta er það alvitlausasta sem ég hef heyrt.“ Mía Nomeland leit áhugalaus á foreldra sína og hélt áfram: „Þetta kemur ekki til greina.“ „En elsku Mía, þetta er algjörlega einstakt tækifæri, finnst þér það ekki?“ Foreldrar hennar sátu þétt saman í sófanum með auglýsinguna á borðinu fyrir framan sig. Auglýsingin hafði birst í hverju einasta krummaskuði í heiminum. Herferðin hafði staðið í margar vikur, í sjónvarpi, útvarpi, á netinu og í blöðunum. NASA var að verða jafnþekkt og Coca Cola og McDonald‘s. „Til hvers? Til að gera sig að fífli?“ „Viltu ekki að minnsta kosti hugsa málið?“ lagði mamma til. „Fresturinn rennur ekki út fyrr en eftir mánuð.“ Mía var uppgefin.
„Nei! Ég vil ekki hugsa málið. Ég þarf ekkert á þessu að halda, ég hef ekkert að gera þarna. Reyndar, þegar ég hugsa málið, þá hef ég eitthvað að gera á öllum öðrum stöðum en á tunglinu.“ „Ef ég væri þú hefði ég sótt um á stundinni,“ sagði mamma hennar. „Ég held að bæði ég og vinir mínir séum mjög glöð að þú ert ekki ég.“ „Mía!“ „Allt í lagi, fyrirgefðu. Það er bara það að mér … mér er alveg sama. Er svona erfitt að skilja það? Fyrir utan að þið hafið alltaf sagt að heimurinn sé fullur af tækifærum og maður verði að grípa sum og hafna öðrum. Er það ekki? Að það sé hvort sem er nóg af tækifærum fyrir allt lífið og meira til? Pabbi?“ Pabbi tautaði eitthvað og leit undan. „Jájá,“ sagði mamma. „Ég læt auglýsinguna liggja hérna á píanóinu, ef þú skyldir skipta um skoðun.“
Svona er þetta alltaf, hugsaði Mía og fór út úr stofunni. Þau hlusta ekki á það sem ég segi. Þau bíða bara eftir að ég hætti að tala. Hún fór upp í herbergið sitt, setti gítarinn í samband við magnarann, stóru heyrnartólin yfir eyrun og byrjaði að æfa sig. Þegar tónlistin var annars vegar gaf hún ekkert eftir. Hún hafði spilað á gítar í tvö ár og í eitt og hálft hafði hún líka verið söngvari í hljómsveitinni Rogue Squadron, nafn sem vísaði til áttunda áratugarins og passaði ágætlega á pönkhljómsveit sem hljómaði eins og eitthvað frá öðru tímabili, kannski 1982. Eða 1984. Henni var alveg sama þótt hún kláraði ekki alltaf heimavinnuna sína, en hún passaði upp á að þekkja tónlistarsöguna betur en allir aðrir. Óendanlega margar klukkustundir á netinu höfðu að lokum gert henni kleift að greina blæbrigðamun á tónlist, jafnvel muninn á tveimur árum á níunda áratugnum. Á meðan jafnaldrar hennar hlustuðu á nýjasta tyggjópoppið, eins og The Hold Ons og The Aching Hearts
og hvað það nú hét, hafði Mía áhuga á því að vita meira. Nýjasta uppgötvun hennar var Talking Heads, hljómsveit sem hún hafði fallið hægt en örugglega fyrir. Eða réttara sagt; hún gerði sitt besta til að falla fyrir þeim því hún vissi að þeir voru góðir. Það var enn svolítið erfitt að hlusta lengi á þá. Svo var hún ekki alveg viss um hvort þetta var síðpönk eða rokk eða bara popp og það flækti málið. En þeir höfðu svona kaldan og rafrænan 80‘s-hljóm sem hún vissi að passaði henni fullkomlega, ef hún bara gæti algjörlega fallið fyrir tónlistinni. Hún hélt áfram að æfa sig á gítarinn í klukkutíma og gerði drög að nýju lagi með hljómum sem hún hafði stolið úr lagi sem hún var nokkuð viss um að enginn hefði heyrt. Það yrði flott að vera með það á æfingu næsta dag. Þegar hún var búin að spila það fimm sinnum og var orðin nokkuð viss um að muna gripin lagði hún frá sér gítarinn, tengdi heyrnartólin við græjurnar og ýtti á play. Tónlist hljómsveitarinnar sem hún var búin að ákveða að sér ætti að líka hljómaði í eyrum hennar.
Hún lagðist á bakið í rúminu og lokaði augunum. *** „Á hvað ertu að hlusta, Mía?“ Pabbi lyfti öðru heyrnartólinu af eyra hennar og spurði eins og það gæti bætt fyrir slæmu stemninguna fyrr um daginn. „Talking Heads,“ svaraði hún. „Þeir voru mjög vinsælir þegar ég var ungur.“ Mía leit á hann en svaraði ekki. „Þetta er frábært tækifæri, Mía. Tunglið. Ég – við - við viljum bara það besta fyrir þig, þú veist það.“ Hún andvarpaði en reyndi samt að brosa til hans. „Pabbi, gerðu það hættu, ókei?“ En hann hætti ekki. „Og fyrir hljómsveitina þína … hefur þú ekki hugsað út í það? Viljið þið ekki verða þekktar og frægar? Ég held það væri ekki slæmt fyrir Rough Squadron ef söngvarinn væri frægur geimfari.“
„Rogue Squadron,“ leiðrétti hún, „hún heitir Rogue.“ „Samt sem áður,“ svaraði hann, „þú veist hvað ég meina.“ Svo fór hann út og lokaði varlega á eftir sér. Mía lagðist aftur á rúmið og hugsaði. Var eitthvað til í því sem hann sagði? Nei, það var það ekki. Hún var tónlistarmaður en ekki geimfari. Hún kveikti aftur á spilaranum sínum, lokaði augunum og gerði sitt besta til að venjast uppáhaldshljómsveitinni sinni. Og David Byrne söng í eyru hennar: No visible means of support and you have not seen nothing yet. Everything‘s stuck together. I don‘t know what you expect staring into the TV set. Fighting fire with fire. *** Þótt það væri bráðum kominn maí var enn kalt í lofti í Noregi. Meðfram götunni stóðu
trén nakin og líflaus að undanskildum örfáum laufblöðum sem höfðu misreiknað sig og sprungið út of snemma. Það voru tvær vikur síðan foreldrar Míu höfðu sett fram þessa ömurlegu hugmynd. Mía stóð úti á skólavellinum og rótaði í mölinni með stígvélunum á meðan hún beið eftir að Silja kæmi af klósettinu. Löngu frímínúturnar voru að verða búnar og nemendurnir skunduðu í átt að byggingunni til að koma ekki of seint. En Míu lá ekkert á. Kennararnir voru hvort sem er alltaf nokkrum mínútum of seinir, þeir sátu uppi á kennarastofu og borðuðu þurrt maríukex og drukku súrt kaffi á meðan þeir baktöluðu einstaka nemendur og gerðu grín að því hvernig þeir litu út eða hvað þeir höfðu sagt. Míu fannst skólinn sem hún gekk í vera skóli þar sem kennararnir, með örfáum undantekningum, hefðu átt að verða eitthvað allt annað en kennarar. Ræstitæknar, til dæmis. Eða kirkjugarðsverðir. Alla vega eitthvað sem hefði ekkert að gera með lifandi fólk. Flestir þeirra höfðu náð kennaraprófi með naumindum fyrir örugglega hundrað árum
og skírteinið vandlega geymt djúpt ofan í skúffu. Í heild var hægt að segja það sama um þá alla: Þeir höfðu fengið vinnu sem kennarar fyrir löngu og höfðu staðnað þar. Þeir voru orðnir vanafastir og höfðu það aðeins of gott í þessum litla heimi sem skólinn var. Hérna höfðu þeir næstum ótakmörkuð völd og gerðu sitt besta til að minna nemendur sína á það eins oft og þeir gátu. Þeir gerðu það samt ekki til að fá ungmennin til að haga sér betur heldur vegna þess að allir vissu að þessi miklu völd hurfu eins og dögg fyrir sólu um leið og kennararnir fóru út fyrir umráðasvæði skólans, í hinn almenna heim, þar sem þeir urðu að umgangast fólk á sínum aldri. Silja kom út af klósettinu. Þær voru einar eftir á skólavellinum. „Flott stígvél,“ sagði Silja. „Ég er búin að vera í þeim í allan dag,“ benti Mía henni á þurrlega. „Ekki eins og ég gangi um berfætt.“ „Var bara að sjá þau núna. Hvar fékkstu þau?“ Mía leit niður á stígvélin sín. Þau voru svört, reimuð upp fyrir ökkla.
„Á netinu. Ítölsk hermannastígvél.“ „Kúl. Eigum við að fara inn eða?“ „Í hvaða tíma ert þú að fara?“ „Stærðfræði,“ svaraði Silja. „Þýska. Hjá Hárinu.“ Mía andvarpaði og gekk af stað með Silju upp á aðra hæð. „Verður æfing í kvöld?“ spurði Silja rétt áður en þær skildu. „Ég reikna með því. Leonóra hringir í mig um leið og hún veit hvort hún kemst.“ „Reiknaðu með mér. Ég get komið klukkan sjö. Ekki fyrr.“ „Sjö er flott. Vel á minnst, ég samdi nýtt lag í gær.“ „Er það? Hvað heitir það?“ „Bomb Hiroshima Again held ég. Ég er ekki búin að ákveða það ennþá.“ „Svalt,“ sagði Silja hlæjandi. „Sjáumst á eftir.“ Mía hélt áfram upp á þriðju hæð og gekk inn í kennslustofuna. Kennarinn var ekki kominn þegar hún settist við næstaftasta borðið og
skannaði í gegnum þýskubókina til að finna út hvað hún átti að hafa lesið fyrir tímann. Hárið kom siglandi inn í kennslustofuna með uppblásinn sundbolta sem var í laginu eins og tunglið. Mía ranghvolfdi augunum þegar hún sá það. Hættu nú alveg, ekki hún líka. En jú, Hárið líka; pínulitla kennslukonan með fáránlega mikla hárið var komin með tunglsýki. Hún hvarf á bak við kennarapúltið og byrjaði að tala á þýsku um hversu spennandi þetta allt var og hversu flott það væri nú ef einhver af hennar nemendum yrði dreginn út. Mía ranghvolfdi augunum aftur. Það var vitað mál að Hárið var búin að vera of lengi í þessum skóla. Allt of lengi. Þar fyrir utan kenndi hún bara þýsku og heimilisfræði, einkennileg blanda sem líklega bætti ekki úr skák. Og svo var það stóra leyndarmálið hennar, sem allir vissu um en hún sjálf hélt að væri vel geymt: Hárið hafði aldrei farið til Þýskalands. Aldrei. Ekki einu sinni. Hún hafði farið til Svíþjóðar, það var allt og sumt. Og það var sumarið 1986 eða
eitthvað álíka og hún hafði komið heim fjórum dögum síðar. Að hún skyldi standa þarna með þetta uppblásna tungl undir handleggnum var kannski ekki eins skrítið og ætla mætti. Heimurinn hafði alveg gengið af göflunum þennan veturinn. Hvern einasta dag voru blöðin, útvarpið, sjónvarpið og netið yfirfull af upplýsingum um tunglið; fræðimenn, prófessorar og geimfarar, allir höfðu eitthvað til málanna að leggja. Hvert sem maður leit var einhvers konar keppni þar sem maður gat unnið hvað sem var aðeins með því að svara nokkrum laufléttum geimspurningum. Á öllum tímum sólarhringsins skráðu ungmenni sig til þátttöku; á netinu eða stóðu í langri röð fyrir framan skráningarkassana sem hafði verið komið fyrir í flestum bæjum um allan heim, til að vera viss um að nafn þeirra yrði með í pottinum. Af öryggisástæðum hafði NASA ákveðið að þau þrjú ungmenni sem yrðu dregin út yrðu að vera orðin fjórtán ára og mættu ekki vera eldri en átján. Þau urðu einnig að vera á milli hundrað og sextíu og hundrað níutíu og
tveir sentimetrar á hæð, urðu að fara í próf til sálfræðings í sínum heimabæ og standast læknisskoðun. Umsækjendurnir urðu að hafa næstum því fullkomna sjón og eðlilegt litaskyn, ásamt blóðþrýstingi sem væri ekki yfir hundrað og fjörutíu í efri mörkum í hvíld og níutíu í neðri. Og svo voru auðvitað öll þolprófin og þjálfunin sem þau urðu að fara í ef þau yrðu svo heppin að verða með þeim útvöldu. Þó að þessar kröfur fækkuðu aðeins þeim sem áttu möguleika voru nú þegar komnar milljónir nafna í pottinn og eftir því sem dagarnir og vikurnar liðu var spenningurinn alveg að fara með fólk. Veðbankar tóku við veðmálum um frá hvaða löndum þau heppnu myndu koma. Það var veðjað um hvort það yrðu stelpur eða bara strákar meðal vinningshafa. Þáttastjórnendur ræddu við sérfræðinga um hvaða áhrif það gæti haft fyrir svona ungar manneskjur að sjá jörðina utan úr geimnum. Og svo voru það umræðurnar. Það voru óteljandi og endalausar umræður í fjölmiðlunum um þessa tunglstöð sem enginn hafði heyrt orð um áður. Hvað var það? Af hverju var hún
þar? Hvaða þýðingu hafði hún og hvaða virkni? Var hægt að treysta því að hún hefði verið byggð á friðsamlegum forsendum? Hárið var að ljúka ræðu sinni og færði sig yfir í bjagaða norsku. Þetta gerðist í hvert skipti sem hún talaði lengi þýsku; það var eins og hún gleymdi móðurmálinu og þyrfti að einbeita sér að því að muna hvernig hún væri vön að tala. „Hlustið nú á mig. Ég gerði svolítið áhugavert fyrir ykkur. Á ég að segja ykkur? Gott og vel. Ég hringdi í NASA. Alveg satt. Í NASA. Ég gerði það til að athuga hve margir nemendur úr þessum skóla væru búnir að skrá sig í happdrættið. Og níutíu og einn úr árganginum hefur skráð sig. En bara fimm þeirra sem eru í þýsku hjá mér. Það eru ekki margir, er það?“ Enginn svaraði. „Petter, Stine, Malene, Henning, vel gert.“ Hin fjögur skráðu ungmenni brostu ánægð til hennar. „Og Mía. Það var óvænt ánægja. Til hamingju.“
Mía stífnaði upp. „Ha? Ég hef ekki skráð mig í neitt.“ „Nú, samkvæmt NASA ert þú skráð.“ Mía hallaði sér fram á borðið og sagði hátt: „Þá eru þau að ruglast eitthvað. Ég hef andskotann ekki skráð mig í neitt asnalegt happdrætti.“ „Svona, svona, það er ekkert til að skammast sín fyrir. Þetta er ekkert asnalegt.“ „Ég skammast mín ekki neitt. Þetta er bara ekki rétt. Og þó svo væri ætti NASA ekki að láta hvern sem er fá þessar upplýsingar.“ Hárið veifaði hendinni og blikkaði til hennar eins og þær ættu sameiginlegt leyndarmál. „Eftir því sem ég best veit var það forsenda fyrir því að skrá sig að NASA gæti gefið upp nöfn þeirra sem tækju þátt í happdrættinu.“ Hún hallaði undir flatt og horfði á Míu. „Jæja, við þurfum ekki að tala um þetta. Það verður hver og einn að ákveða fyrir sig hvort hann vill vera með eða ekki, er það ekki?“ „Hvað áttu við?“ spurði Mía og reiðin sauð í henni. „Ég er búin að segja að ég hafi ekki
skráð mig, skilurðu það ekki? Hvað í andskotanum ætti ég að vilja til tunglsins? Heldurðu að ég hafi ekkert betra að gera? Helvítis!“ „Við segjum ekki svona í tímunum mínum, Mía!“ „Nei við segjum alls ekkert í tímunum þínum, þú heldur bara endalausar einræður um það sem þér hefur dottið í hug á meðan þú situr alein fyrir framan sjónvarpið þitt og klippir á þér táneglurnar!“ Kennslukonan stóð upp og setti tunglið á kennaraborðið. Hún benti á dyrnar með stífum vísifingri. „Þú getur verið úti það sem eftir er af tímanum, Mía. Ég vil ekki hafa þig hérna inni. Þú getur beðið frammi á gangi.“ Mía mótmælti ekki heldur sópaði þýskubókinni út af borðinu þannig að hún lenti í töskunni, stóð upp og gekk út. Gangurinn var auður og hljóður, frá hinum kennslustofunum barst ómur af norskukennslu, stærðfræði og ensku. Án þess að hugsa sig um opnaði hún dyrnar aftur og starði beint á Hárið.
„Það vita allir að þú hefur aldrei farið til Þýskalands. Kannski það sé eitthvað sem þú ættir að skammast þín fyrir.“ Á hálfri sekúndu breyttist svipur kennslukonunnar og hún varð óumræðilega sorgmædd, eins og hún hefði fengið lífstíðardóm fyrir hræðilegan glæp sem hún hafði gleymt að hafa drýgt. Mía heyrði fagnaðarlætin í nemendunum áður en hún skellti hurðinni og gekk niður tröppurnar út á skólavöllinn. Hún strunsaði að hlaupabrautinni við hliðina á íþróttasalnum, settist á grindverkið og tók upp símann sinn. Óþægilegur grunur læddist að henni. Á hlaupabrautinni fyrir aftan hana hlupu þrjátíu nemendur fram og til baka eins og þeir ættu lífið að leysa. Mía þurfti ekki að líta við til að vita að það var kennslustund hjá skrítna leikfimikennaranum þeirra. Hún var nærri því fimmtug, með yfirvaraskegg og hafði, eins og Hárið, verið þarna síðan í fyrndinni. Hjá henni dugðu engar afsakanir; hvort sem maður var of þungur eða lamaður á báðum fótum var krafan alltaf sú að ná ólympíulágmarki. Mía sneri sér við og leit á
nemendurna, sem voru að niðurlotum komnir eftir venjubundið þrjú þúsund metra hlaup. Mörg þeirra öftustu voru föl, sum ljósgræn í framan og það var bara tímaspursmál hvenær þau hnigju niður og köstuðu upp. Mamma Míu svaraði á sama tíma og sá fyrsti ældi og íþróttakennarinn gargaði eitthvað óskiljanlegt. „Hæ, Mía. Hvað segirðu? Ertu í skólanum?“ Hún kom sér strax að efninu. „Mamma? Skráðir þú mig í þetta tunglferðardæmi?“ Það var þögn í símanum. Algjör þögn. „Mamma?“ „Ja, ég … við, pabbi þinn og ég, við … við héldum að þú myndir sjá eftir því. Seinna. Svo, já, við, sko …“ Mía greip fram í fyrir henni og sagði hvasst: „Skráðir þú mig?“ Þögnin var styttri í þetta sinn. „Já.“ „Hvað er eiginlega að ykkur?“
„Mía, öllum öðrum á þínum aldri finnst þetta frábært tækifæri. Af hverju ætti …“ „En ég er ekki allir aðrir, eða hvað? Þið takið alls ekkert tillit til þess að ég hef aðrar skoðanir en þið. Þið getið bara farið sjálf fyrst þið hafið svona mikinn áhuga. Það er það sem þetta snýst um, er það ekki? Þið getið ekki farið og þess vegna er það næstbesti kosturinn að skrá mig. Haldið þið að við verðum öll fræg og rík, er það málið?“ „Mía, núna finnst mér þú vera óréttlát.“ „Óréttlát, veistu hvað er óréttlátt? Að fara á bak við mig, skilur þú það ekki?“ „Mía …“ En hún var búin að leggja á. Á bak við hana skriðu tveir nemendur yfir markið og lentu með dynk í grasinu. Nokkrum sekúndum seinna var íþróttakennarinn kominn til þeirra og hélt þeim uppi á meðan ælan rann niður íþróttafötin þeirra. Íþróttir. Míu líkaði ekki einu sinni við orðið. Og það hafði ekkert með líkamlegt form hennar að gera. Hún hefði léttilega getað hlaupið
hraðar en flestir á brautinni án vandræða. Hún gat synt í fötum og sótt ógeðslegu dúkkuna á botninn, eða hvað það var sem þau voru beðin að gera, án þess að verða þreytt. Íþróttir. Einhver óþarfasta uppfinning allra tíma, viðhaldið af fólki sem hafði aldrei á ævi sinni opnað bók en hafði samt sem áður knýjandi þörf fyrir að aðrir vissu að það væri kennarar. Í raunveruleikanum snerist þetta um að þau voru viss um að það sem mestu máli skipti í lífinu væri að maður gæti hoppað nógu hátt, hlaupið þúsund hringi á brautinni og unnið andstæðingana í brennibolta. Í samanburði við íþróttir hafði meira að segja tunglferðin tilgang. Mía sat á grindverkinu í nokkrar mínútur og horfði á hlaupið áður en hún hoppaði niður, gaf skít í það að skólataskan hennar var enn í skólastofunni og fór heim.