Og aftur deyr hún

Page 1


1. Laufin þyrlast um við fætur Geirs þar sem hann krýpur við leiði hennar og strýkur yfir plötuna á hvíta viðarkrossinum. Fyrir tveimur mánuðum lágu þau saman hlið við hlið. Hún hvíldi höfuðið á bringunni á honum og hann vafði lokki úr hári hennar upp á vísifingur. Með henni var heimurinn svo skýr og tilgangur lífsins svo augljós. Fuglar gera jafnvægisæfingar á trjágreinum, svo þungir að greinarnar svigna. Smjatta þöglir á berjum á milli þess sem þeir gjóa augum og fylgjast með kattaferðum. Skynja að hér er söngur þeirra vanmetinn. Hér ríkir þögnin. Þau kynntust á ráðstefnu sem bankinn hélt í Grímsnesi. Hún var viðskiptastjóri í aðalstöðvunum en hann útibússtjóri í Grafarvogi. Til að hrista hópinn saman í upphafi var brugðið á leik. Starfsmönnum var skipt niður í fimmtán manna hópa og þau lentu í sama hópi. Allir áttu að kynna sig með nafni og segja frá einu áhugamáli. Geir tók


strax eftir henni þar sem hún ranghvolfdi augunum og tautaði eitthvað um að hún væri komin aftur í grunnskóla. Hann heyrði hana spyrja konuna við hliðina á sér í kaldhæðni hvort næsti skemmtilegi leikur væri að tala um tilfinningar sínar og segja eitthvað eitt fallegt við næsta mann. Þegar röðin kom að henni sagðist hún heita Alda og hélt tölu sem var maríneruð í kaldhæðni um að heimsfriður, náttúruvernd og íslensk æska væru hennar áhugamál. Stjórnandinn, miðaldra kona með kisugleraugu, setti stút á varirnar og reyndi með herkjum að brosa og þakka henni fyrir áður en hún bauð næsta að kynna sig. Í framhaldi voru flutt erindi sem hóparnir unnu ýmis verkefni út frá. Það leyndi sér ekki að Alda var afburðagáfuð eða eins og pabbi hans sagði gjarnan um gáfað fólk, þá var hún ekki bara hattastandur. Þegar hún talaði hlustuðu aðrir og það var aðdáunarvert hvernig hún kom í veg fyrir


að gripið yrði fram í fyrir henni með augnaráðinu einu. Um kvöldið borðaði hópurinn saman og án þess að hika breytti hann miðum sem lágu á diskunum, eins og uppröðun í brúðkaupsveislu, til að tryggja að hann lenti á sama borði og hún. Átta manna hringborð og þau horfðust í augu. Hún ýfði stutta dökka hárið sem rammaði inn mjólkurhvíta húðina. Dragtin sem hún var í yfir daginn lá eflaust vandlega samanbrotin ofan í flugfreyjutösku en þess í stað var hún í þröngu pilsi sem endaði í pífum og fleginni skyrtu. Hún hafði bætt eilítið við andlitsmálninguna. Grábláu augun drógu hann að sér þegar hún spurði hvort honum hefði fundist ráðstefnan gagnleg. Augu hennar rannsökuðu hans meðan hann hikandi gaf upp eitthvert svar sem vonandi hljómaði gáfulega. Það kom fyrir að karlkyns yfirmenn tækju hann á taugum, en frá því að Frau Gertrude kenndi honum þýsku í


menntaskóla hafði engin kona gert hann svona stressaðan. Eftir því sem rauðvínsglösin tæmdust urðu samræður þeirra persónulegri og þegar leið á nóttina fjarlægðust þau tvö hina í hópnum. Hann bar fyrir sig að sér væri heitt, hún var hjartanlega sammála. Þau ákváðu að fá sér stuttan göngutúr undir því yfirskini að ganga niður matinn. Það var ekki stjörnubjart og tunglið lýsti ekki upp sveitina. Í raun var frekar kalt og vindurinn kom í veg fyrir að hann heyrði allt sem hún sagði. Hvort sem rómantík var að verkum eða tilraun til að halda á sér hita tók hann þéttingsfast utan um hana þegar hótelið var úr augsýn og kyssti heitar varir hennar. Þau veltust um í grasbrekku þar til byrjaði að rigna, þá hlupu þau flissandi til baka. Hann kvaddi hana í lyftunni og hvíslaði að henni herbergisnúmeri sínu. Hann beið spenntur en hún bankaði ekki upp á. Þrátt fyrir vonbrigðin taldi hann sér trú um að það


væri vísbending um kosti hennar – ekki dómur um kvenhylli hans. Daginn eftir skimaði hann eftir Öldu í morgunmatnum, tók þátt í samræðum með hálfum hug því hann var upptekinn við að móta snilldarsetningar sem áttu að heilla hana. Setningar sem hann gat ekki notað því hún var farin heim. Líkt og ástsjúkur unglingur eyddi hann næstu dögum í upplýsingasöfnun á netinu. Komst að því að hún hafði verið í ræðuliðinu í framhaldsskólanum, tekið þátt í stúdentapólitíkinni í HÍ og hlaupið tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni fyrir sex árum. Hún samþykkti vinarbeiðni hans á Facebook og í framhaldinu spjölluðu þau saman á netinu. Hann varð fljótt uppveðraður af lífsviðhorfum hennar, sjálfstæðisanda og frjálshyggju. Þegar þau voru saman fannst honum hann yngjast um mörg ár, verða áhyggjulausari og hamingjusamari. Stundir án hennar fóru í að


skipuleggja næstu stefnumót. Tvisvar leigðu þau sér sumarbústað, voru þar heila helgi án þess að fara í föt. Það var líkt og hann hefði endurfæðst við að kynnast henni. Þetta var eins og klisjukenndur lagatexti þar sem sólin skein bjartar og litir virtust skærari. Hann vissi að hann elskaði hana. Nú liggur hún hér, á milli þeirra er metri af jarðvegi. Söknuðurinn étur hann upp að innan. Án hennar eru dagarnir dimmir, hláturinn hljómlaus og lífið líflaust. Án hennar er lífið allar þær senur sem syrgjendur í kvikmyndum, lögum og bókum fara í gegnum. Án hennar eru bleiku rósirnar sem hann kom með litlausar þar sem þær standa upp úr koparlituðum blómavasanum. Án hennar er líf hans einfaldlega grámygluleg flatneskja. Þögnin í kirkjugarðinum er rofin, hann veiðir símann upp úr frakkavasanum. Með honum tekur hann upp kuðlaðan reikning frá taílenska staðnum þar sem hann kom svo oft við og sótti mat fyrir þau


á leiðinni heim til hennar. Fjórða hringingin. Eiginkonan eitthvað að baula. „Já ég er að koma … Nýmjólk, já ég kippi henni með á leiðinni heim.“


2. Haust. Lykt af gróðri að leggjast í vetrardvala. Lykt sem slekkur hjá manni vonir um að næstu vikur verði stórkostlegar. Niðurdrepandi lykt sem dofnar ekki fyrr en grenilykt jólanna hefur tekið yfirhöndina. Fyrir sjö vikum stóð Þórkatla á sama stað. Horfði ofan í opna jörð og tók við faðmlögum. Heyrði huggunarorð án þess að hlusta og þakkaði fólki fyrir án þess að meina það. Horfði ofan í opna jörð á kistulok sem huldi það líf sem hún þekkti. Hún hreinsar burt fölnandi blómakransa. Horfir á nýjar bleikar rósir. „Kannski kom Rúna með þær eða stelpurnar úr vinnunni þinni. Þú varst alltaf svo vinmörg. Alveg frá því í leikskóla áttirðu alltaf svo auðvelt með að eignast vinkonur,“ hvíslar hún ofan í moldina og lítur á klukkuna. „Ég verð að fara, elskan, en ég kem aftur á morgun. Hann pabbi


þinn biður að heilsa, hann treystir sér ekki, karlanginn, til að koma með mér hingað upp í garð.“ Áður en hún fer kyssir hún tvo fingur og strýkur þeim yfir plötuna á krossinum. Gengur hægum skrefum að bílnum, sest inn og flettir upp dánartilkynningum í Morgunblaðinu sem bíður hennar í farþegasætinu. Tvær konur á aldur við Öldu eru jarðaðar klukkan þrjú, önnur á Akureyri en hin í Hafnarfirði. Hún setur á sig svarta hanska og setur í gír. Kirkjan er þéttsetin þegar hún kemur inn. Vinmörg líka, hugsar hún og brosir með sjálfri sér. Hún sest rétt aftan við miðju, nógu langt frá aðstandendum til að vekja ekki eftirtekt en nógu nálægt til að sjá prestinn almennilega. Ungur maður spilar á gítar á meðan fólkið kemur inn. Hún lokar augunum og andar að sér sorginni í kringum sig.


Þung ilmvatnslykt. Ekkasog. Það er alltaf einhver sem byrjar að gráta áður en athöfnin hefst. Gítarinn hljóðnar og við tekur marr í bekkjum, einstaka hósti og fólk læðist inn á síðustu stundu. Orgelið þenur lungu sín og Máríuvers Páls Ísólfssonar leiðir þau inn í kveðjustund ungu konunnar. Bæn prestsins hreyfir ekki við henni. Hvernig getur hinn góði guð, sem kirkjan predikar um, tekið börn frá foreldrum sínum? En sálmarnir koma við hana. Háir angurværir tónar sem snerta hverja taug sem liggur að hjartanu. Hærra, minn Guð til þín. Sami sálmur og hún hafði valið fyrir útför Öldu sinnar. Tárin byrja að vætla úr augum hennar, komast óhindruð niður að munnvikum og ofan í hálsakot. Ritningarorðin falla í skuggann af hljóðunum þegar fólkið snýtir sér, ræskir sig, hóstar og kemur sér betur fyrir á trébekkjunum. Orgel og kór fylla svo kirkjuna.


Nú legg ég augun aftur, Ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. Mikið átti hún gott þegar hún trúði. Þegar hún gat lagst á bæn og trúað því að einhver góð öfl heyrðu ákall hennar og kæmu henni til hjálpar. Fyrir tæpum tveimur mánuðum átti hún trú og sinnti hversdagslegu amstri, þess fullviss að lífið væri jafn yndislegt og það virtist vera. Sjálfsvíg, sögðu þeir. Þórkatla átti erfitt með að trúa því. Alda var alltaf svo hress og ánægð með tilveruna. Þremur kvöldum fyrir dánardaginn hafði hún komið í mat til þeirra hjóna. Þá kjaftaði á henni hver tuska og þau Hjalti höfðu rætt það eftir að hún fór að Alda hlyti að vera ástfangin, það geislaði svo af henni. Skýjaborgir um álitlegan tengdason,


giftingu og barnabörn hrundu og í staðinn fékk hún útför. Hvers konar guð svíkur trúaða konu á þann hátt? Jarðarför ungu konunnar líður áfram. Þetta er ágætis jarðarför, mikil tónlist og vel valdir sálmar. Presturinn fer með falleg minningarorð, sem er svo sem vitað fyrir fram. Hingað til hefur hún aldrei heyrt neitt neikvætt um látna manneskju í jarðarför hennar. Hún er búin að vera við allmargar jarðarfarir eftir útför Öldu. Bæði finnst henni áhugavert að sjá hvernig aðrir foreldrar velja kveðjustund barna sinna og eins líður henni vel innan um aðra syrgjendur. Finnur samhljóm í söknuði þeirra og nístandi hjartaverk. Jarðarfarir annarra næra sorg hennar. Vinkonur hennar segja henni að leita til sálfræðings. Væru þær þolinmóðar og góðar vinkonur myndu þær bara hlusta á hana sjálfar í stað þess að ætlast til þess að hún borgaði bláókunnugri manneskju fyrir að gera það. Og ekki


getur hún talað við hann Hjalta sinn, hann segir þetta gang lífsins og nú verði þau að halda áfram. Hjalti trúir því meira að segja að Alda hafi svipt sig lífi, segir að stundum leynist dapurt andlit undir glaðlegri grímu. Hvílík vitleysa. Nú snúa þeir kistunni og sex samstiga menn bera hana út. Útgrátið andlit móður ungu konunnar er í fararbroddi á eftir kistunni. Úti er haustsól, falleg en köld. Laufblöð flögra um í frelsi sínu, líkt og börn sem vita ekki að bráðum munu þau deyja.


3. Skóladagurinn búinn. Síðasta haustið í kæruleysi grunnskólans og næsta ár er það framhaldsskóli. Djöfull ætlar hann að velja sér skóla langt frá sínum heimaskóla. Kynnast nýju liði og byrja upp á nýtt. Rigning enn einu sinni, það rignir endalaust á þessu skeri. Ekki ætlar hann að búa hérna deginum lengur en hann þarf. Ölver skilur ekkert í foreldrum sínum að veslast upp á þessu landi. Af hverju í ósköpunum fluttu þau ekki til Spánar eða eitthvað? Ef það væri alltaf sól rifust þau ef til vill minna. „Ég er kominn heim,“ hrópar Ölver um leið og hann hendir skólatöskunni inn á gang og fer úr skónum á ferð. Ekkert svar. Hann brosir og kveikir á tölvunni, fær sér kex og drekkur mjólkina beint úr fernunni. Yndislegasti tími dagsins. Tíminn áður en mamma og pabbi koma heim. Lognið á undan


storminum. Hann kíkir á Twitter, Instagram og aðrar mikilvægar síður. Hendir inn mynd á Insta og bíður eftir að stelpurnar læki. Það tekur ekki langan tíma. Einfaldar þessar tussur. Þegar mamma og pabbi koma heim breytist afslappað andrúmsloftið. Fyrst nöldra þau í honum, sem er upphitun áður en þau hjóla hvort í annað. Eftir mat er hann fljótur að afsaka sig og fer með skólatöskuna inn í herbergi. Á meðan þau halda að hann sé að læra láta þau hann í friði. Útundan sér heyrir hann þræturnar frammi magnast. Svona hefur söngur heimilisins verið síðustu ár. Aðra stundina hefur mamma sakað pabba um að lifa fyrir bankaútibúið og sinna ekki fjölskyldunni og hina stundina vælt yfir að hann sé aldrei í vinnunni og þéni þar af leiðandi ekki nóg. Það lítur samt út fyrir að hún sé hætt að gruna pabba um framhjáhald og pabbi er hættur að hóta því að fara frá þeim þar sem hann ætti örugglega séns í yngri, flottari og geðbetri konur. Kannski gelta þeir hæst


sem bíta minnst, hætta svo að gelta þegar þeir eru farnir að bíta. Og pabbi var sannarlega hættur að gelta. Það er greinilega leikhlé. Pabbi er að horfa á sjónvarpið og stillir hljóðið ískyggilega hátt. Mamma er að ganga frá inni í eldhúsi og lætin eru eins og í eldhúsinu á McDonalds. Ætli hún mundi skæri og velti því fyrir sér hversu djúpt þyrfti að reka þau á kaf í brjóstholið á pabba? Mamma myndi trúlega aldrei drepa hann, er svo upptekin og hefur aldrei tíma til neins. Ekki einu sinni til að drepa. Hún hótaði því samt einu sinni, fyrir rúmu ári. Þá kallaði pabbi hana þurrmjólkaða belju og hún gargaði á hann: „Þegar ég drep þig, Geir, þá múra ég hræið af þér inn í klósettvegginn.“ Svo skellti hún hurðum og pabbi hló ósannfærandi. Áður en þau fóru að sofa fór pabbi út í bílskúr og henti öllu múrefni sem hann átti. Þessir foreldrar, klikkaðir andskotar. Skíra hann í fyrsta lagi Ölver í höfuðið á einhverjum pöbb í


Glæsibæ og eru ekkert að spá í stríðnina sem nafnið hefur í för með sér. Halda í öðru lagi að hann heyri ekkert í þeim þegar hann fer inn í herbergi. Það er ekki eins og herbergið verði hljóðeinangrað við það að loka einum þunnum viðardyrum. Öflug heyrnartól og góð tónlist hafa reyndar oft komið sér vel, en eftir því sem hann eldist hefur hann æ meiri áhuga á rifrildum þeirra. Foreldrar nokkurra bekkjarsystkina voru skilin og má segja að efnahagur krakkanna hafi blómstrað í kjölfarið. Allt í einu tvöfaldaðist öll innkoma; vasapeningar, afmælis- og jólagjafir, samviskubitsseðlar og svo framvegis. Svo ekki sé minnst á að yfirleitt urðu foreldrarnir ánægðari með lífið og tilveruna og hættu þessu eilífðarþrasi. Hann er bjartsýnn á að hagur hans fari að vænkast. Reyndar hefur pabbi verið að faðma mömmu upp á síðkastið, til dæmis í þessi fáu skipti sem hún stendur við eldavélina. Réttara væri að segja að hann væri að reyna að faðma hana því hún


verður á svipinn eins og fermingarbarn sem er knúsað af ókunnugum frænkum. En Ölver hefur í rauninni ekki teljandi áhyggjur af því að þessi nýtilkomna knúsárátta pabba ógni hagsmunum hans. Þegar mamma kemst að því sem hann veit fer hún kannski frá pabba og ching, ching, peningarnir fara að flæða upp úr vösum Ölvers. Hann man samt hvernig þetta var þegar hann var barn. Þegar helgarnar voru skemmtilegar. Berjamór, sundferðir, Bláfjöll, bíóferðir og fleira sem þau gerðu saman sem fjölskylda. Mamma og pabbi hlógu og sleiktu ísinn hvort hjá öðru, brosandi eins og í tryggingafélagsauglýsingu. Þetta man hann en man ekki hvenær nákvæmlega þetta breyttist. Hvort það var um sumar eða vetur. Hann veit bara að það eru rúm sex ár síðan þau fóru öll saman í bíó og nú þegar hann langar í ís rétta þau honum pening og segja honum að redda sér.


4. Geir hefur breyst. Á síðustu tveimur mánuðum er hann orðinn meyr og í stað þess að svara henni fullum hálsi og steyta hnefann framan í hana vill hann faðmast. Hún kann ekki við þetta. Þó svo að samskipti þeirra séu ekki neitt sem Dr. Phil myndi mæla með kunni hún á þessi samskipti og var bara helvíti góð í þeim. Á síðustu vikum finnst henni hún stundum vera að rífast við loftið, því hann horfir á hana með hvolpaaugum, sem áður heilluðu hana, og býður henni faðminn. Hún kann ekkert að takast á við hann svona. Þau voru löngu vaxin upp úr því að sofna í faðmlagi. Eiginlega voru þau vaxin upp úr því að fara að sofa á sama tíma. En nú liggur hann upp við hana, heldur hrömmum sínum utan um líkama hennar og þrýstir sér upp að henni. Tvisvar hefur hún smokrað sér úr faðmi hans en nú eru krumlurnar búnar að ná aftur taki á henni. Í þriðja


sinn smeygir hún sér úr sveittu og hárugu fanginu, læðist fram og sest við stóra eldhúsgluggann. Opnar rifu á gluggann og stelst í sígó. Tifið í veggklukkunni telur niður sekúndurnar og húsið sefur. Þykkur reykur svíður í lungun. Hvernig endaði hún hérna? Hvernig fjarlægðist hún áhyggjulausu stelpuna sem pakkaði tvennum nærbuxum ofan í bakpoka, ferðaðist um Evrópu og svaf í almenningsgörðum þegar ekki var hægt að fá ódýrt rúm á farfuglaheimili? Hvernig breyttist hún í konuna sem kemst ekki einu sinni upp í Borgarfjörð öðruvísi en vera búin að panta bústað eða hótel fyrir fram? Hver er hún orðin? Hún ætlaði aldrei að eignast barn, ætlaði aldrei að lifa fyrir aðra en sjálfa sig. Núna veit hún varla hver þessi hún er. Hún týndi sér í honum. Geir var aðaltöffarinn á Prikinu og hann valdi hana. Fólk talaði um þau sem nýjasta og heitasta parið í borginni: Geir og Lilja, draumurinn sem allir vilja.


Vinahópur hennar stækkaði. Aldrei hafði hún átt jafn marga vini og kunningja. Næstu ár fóru í að sanna að hann hefði valið rétt. Einfaldast var að verða ólétt. Það yrði erfiðara fyrir hann að fara frá eigin blóði. Löngunin í líf með Geir var svo mikil að hún gleymdi að velta því fyrir sér af alvöru hvort móðurhlutverkið væri eitthvað fyrir hana. Fyrst var Geir svo rómantískur. Gaf henni gjafir af engu sérstöku tilefni. Bauð henni óvænt út að borða, á tónleika og þau sáu flestar kvikmyndir í bíó. Þegar Ölver varð sex ára hætti Geir að kyssa hana þegar hann kom heim úr vinnunni, stuttu síðar hætti hann að kyssa hana yfir höfuð. Nema kannski á jólunum og afmælinu hennar. Skyldukossar og skyldugjafir. Hún man hvernig henni leið þegar hún áttaði sig á því að Geir var farinn að fjarlægjast hana. Hún efaðist um sig, útlit sitt, gáfur og félagsskap. Kvöld eftir kvöld sat hún ein heima með stráknum og fór yfir það í huganum hvað hún hefði gert til að


réttlæta það að hann faðmaði hana ekki lengur, sneri baki við henni uppi í rúmi og spyrði ekki hvernig dagurinn hennar hefði verið. Oft grunaði hana að honum væri sinnt af öðrum konum. Hún var fyrst hrædd um að hann færi frá sér. Gætti þess að vera aldrei í jogging heima, málaði sig vandlega og greiddi og leit alltaf út eins og þau væru við það að skella sér út á lífið. Njósnaði um ferðir hans í hádeginu. Þefaði af jakkafötunum og fór í gegnum vasana þegar hann var í sturtu. Í kvikmyndum fundu eiginkonur oft bréfsnifsi sem sönnuðu tilvist frillna. Hún greip ávallt í tómt. Hafði engar sannanir og hann horfði á hana eins og hún væri ekki með öllum mjalla. Samt vissi hún að hann hafði eitthvað að fela. Með árunum hætti hún að þefa. Fór að vera sama. Með tímanum fór hún að hata óöryggi sitt og þá manneskju sem hún var orðin með honum. Hún fann að líf með honum, í þessu húsi, var ekki það


líf sem hún vildi og þess vegna óþarfi að berjast fyrir því. Í dag sér hún skilnað í hillingum: Geir og Lilja, djöfull langar hana að skilja. Ölver er orðinn unglingur og sér að mörgu leyti um sig sjálfur á meðan hún sér honum fyrir peningum. Kannski vill hann fara í heimavist á Akureyri á næsta ári ef hún selur honum það sem aukið sjálfstæði. Við skilnað fengi hún helming af öllu sem þau eiga. Hún gæti vel keypt sér litla kjallaraíbúð nálægt miðbænum eftir að ofvaxna úthverfishúsið þeirra yrði selt. Aldrei framar þyrfti hún að liggja undir þessum margnotaða manni. Hún nefndi skilnað fyrir nokkrum dögum, Geir hló og eyddi talinu. Sagðist aldrei myndu skrifa undir skilnað, fyrr dræpist hann. Svo varð hann fjarrænn og henni sýndist hann tárfella en hann sneri í hana baki svo hún var ekki viss. Já, nú vill hann vera nálægt henni, sofa hjá henni og kyssa hana. Hvað veldur? Fyrir einhverjum árum hefði


hún fagnað breytingunum og tekið fast utan um hann, talið honum trú um að allt væri í stakasta lagi. Talið sjálfri sér trú um það. En í dag er það of seint, hún hvorki elskar Geir né hjónaband þeirra lengur. Hún elskar þá manneskju sem hún var og þráir að verða aftur. Frjáls og ekki bundin við mann og barn. Og hún er tilbúin til að gera allt til að uppfylla þá þrá. Hún lætur vatnið renna á sígarettustubbinn, hendir honum í ruslið og lokar glugganum. Geir sefur fast þegar hún rennir sér undir sængina við hliðina á honum. Já, Geir hefur breyst. Þó ekki þannig að hana langi til að hjúfra sig upp að baki hans, lauma höndunum utan um hann og kyssa axlir hans góða nótt. Hún teygir úr sér og lætur fara vel um sig, sín megin í rúminu.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.