Innan múranna

Page 1


Violet: ÞAU RÍSA ÚR SÆTUM ÉG SMEYGI MÉR Á BAK VIÐ TJALDIÐ – það er alveg að koma að þessu, hafið kastljósið klárt, ég er á leið á svið. Þetta er síðasti dansinn minn áður en ég fer úr bænum. Síðasta tækifærið til að láta muna eftir mér, og þau skulu muna mig. Á sviðinu er ég þeirra og þau eru mín. Ég nærist á því sem þau gefa mér og þau drekka í sig það sem ég gef þeim. Utan sviðsins skiptir þetta fólk mig engu. Ég hata nánast alla sem ég rekst á í dagsins önn, mismikið þó. En á meðan ég er að dansa? Á meðan þau horfa á mig og ég leyfi þeim að horfa á mig? Þá er ég barmafull af ást, þá er ég allt önnur manneskja. Eftir þetta kvöld, eftir þessa síðustu laugardagssýningu, pakka ég niður í töskurnar og svo er það Juilliard, stórborgin. Ég komst inn. Ég kláraði menntaskólann fyrir tveimur mánuðum. Ég seldi bílinn minn fyrir viku. Ég er búin að fá herbergi á heimavist. Herbergisfélaginn minn er samtímadansari frá Oklahoma eða einhverju fellibyljaríki. Ég er búin að birgja mig upp af


Grishko-skóm af þeirri stærð og gerð sem ég kann best við því ég er með sterklega fætur og háa rist og get rústað táskóm á tíu dögum ef þannig ber undir. Ég hef talið dagana eins og ég sé að sitja af mér fangelsisdóm og í lok ágúst losna ég úr handjárnunum og fæ frelsið. Ég ætti ekki að segja þetta. Ég ætti ekki einu sinni að hugsa það. Ekki eftir það sem kom fyrir hana, hvert hún var send. Aurora Hills er alvöru fangelsi, með gaddavírsgirðingu og keðjum og svona hólkvíðum appelsínugulum samfestingum sem maður sér í sjónvarpinu, jafnvel þótt það sé ekki kallað fangelsi. Það er fyrir stelpur yngri en átján ára og þess vegna er það kallað „gæsluheimili“. Það var í ágúst sem hún var sett upp í rútu og flutt þangað. Snemma í ágúst, fyrir næstum nákvæmlega þremur árum. Ég ætti að vera tilbúin á sviðsvængnum, sólódansinn minn er annað atriðið eftir hlé, en ég skelli mér í sokka yfir táskóna og ráfa frá sviðinu. Ég tek stefnuna á bakdyrnar, eins og ég sé með eitthvað geislavirkt sem ég þarf að losa í ruslagáminn þar fyrir utan. Fyrir aftan ruslagámana er svæðið sem eldri stelpurnar kölluðu smókgöngin, af augljósum ástæðum. Í rauninni eru þetta samt ekki göng. Trén fyrir ofan vaxa þétt og greinarnar liggja lágt yfir og


mynda þak. En við endann er runnaþykkni svo ef þessi göng liggja eitthvað hef ég að minnsta kosti aldrei séð hvert. Göngin eru öll iðjagræn að innan og nú, í ágúst, áreiðanlega morandi í bitvargi og moskítóflugum. Maður hefði ætlað að einhver myndi höggva þessi tré, setja upp minnismerki, til dæmis garðbekk með nöfnum stelpnanna á, eða í það minnsta drykkjarbrunn, en líklega gerir fólk ekki svoleiðis á stöðum sem það vill helst af öllu gleyma. Ég fer ekki inn, en ég fer heldur ekki. Ég gjóa augunum aftur fyrir mig á leikhúsdyrnar. Ef einhver tekur eftir múrsteininum sem ég notaði til að skorða dyrnar segist ég bara vera að fá mér ferskt loft fyrir sólódansinn. Mögulega fara allir virtustu sólódansararnir; frá New York City Ballet og American Ballet Theatre til Konunglega ballettsins og Bolshoj-ballettsins og þótt víðar væri leitað, út að ruslagámunum til að anda aðeins áður en þeir fara á svið og heilla alla upp úr skónum. Enginn í dansstúdíóinu okkar er nándar nærri eins og góður og ég, svo hvað ætli þau viti um það? En það er ekki ferskt loft sem ég þarfnast. Heldur að kíkja einu sinni enn þarna inn. Það er enginn í göngunum. Enginn hefur hniprað sig saman í skjóli kræklóttrar greinaþekjunnar, svo


ekkert sést utan frá nema legghlífar og skærbleikir skóborðar. Ekkert meinfýsilegt pískur. Engin flissköst. Engar skótær sem troða logandi sígarettustubb niður í moldina. Það er ekkert hérna. Enginn hérna. Ég get ekki útskýrt hvers vegna ég hélt að það yrði einhver hérna. Hvers vegna ég svipast sífellt um eftir henni, alls staðar, hvers vegna ég fæ hroll þegar ég heyri óvænt hljóð eða sé hvikula skuggamynd. Hvern ágústmánuð er eins og Orianna Speerling troði sér inn í heilann á mér. Hvern ágústmánuð líður mér eins og Ori sé komin aftur – það var ég sem fann upp á gælunafninu, Ori – en hún er ekki þarna í smókgöngunum, ekki vottur af henni neins staðar hérna úti, og af hverju ætti það svo sem að vera? Hléið er búið og ég þarf að drífa mig inn á svið. Þegar ég geng fram fyrir ruslagáminn sé ég að bakdyrnar skellast aftur. Einhver hefur sparkað múrsteininum frá. En hver sá eða sú sem gerði það er aðeins of silalegur fyrir mig því ég stekk á dyrnar af öllu afli, skýst gegnum tíma og rúm, alveg eins og ég geri í dönsunum sem ég sem, og ég næ taki á hurðinni rétt áður en hún smellur að stöfum og ég skýst gegnum dyrnar og þær héldu að þær


gætu haft af mér sólóið mitt og það var ekki á dagskránni. Leiftursnöggt, áður en nokkur kemur auga á mig, er ég tilbúin við sviðsvænginn. Ég veit ekki hver þeirra var að fokka í mér en ég veit að engin þeirra horfir á mig, ekki beint. Allir hinir dansararnir forðast að mæta augnatilliti mínu, óska mér ekki einu sinni falls til heilla. Það segir mér að þeir séu allir sekir, hver einn og einasti. Ég átta mig á því þegar ég heyri áhorfendur koma sér í sætin eftir hléið og heyri kliðinn í salnum hljóðna. Þau vilja öll að ég fari, er það ekki? Þau bíða þess með óþreyju að losna við mig. Losum þau þá við mig. Þau munu óska þess að þau hefðu aldrei hitt mig. Ég er næst, á eftir þessari syrpu. Tjaldinu er svipt frá. Klisjukennd tónlist, óljósar hreyfingar úr takt – ekkert sem tekur því að horfa á, ekkert í líkingu við mig. Ég tvístíg í vængnum og gægist út gegnum flauelstjöldin, skima yfir sætin á fremstu bekkjunum. Fröken Willow, danskennarinn minn, leigði þetta leikhús fyrir danssýninguna eins og hún gerir á hverju einasta ári, og ég gleymi alltaf hvað salurinn er stór og sætin mörg. Þarna sé ég móður mína. Föður minn. Frænkur og frændur, sem voru


sennilega dregin hingað með valdi, og mér er alveg sama. Vinkonur mömmu, heil sætaröð af þeim. Danskennararnir mínir – þessi gamli sem pabbi og mamma ráku þegar ég komst ekki inn á sumarnámskeiðið og þessi nýi sem ég hef verið hjá síðan þá. Þarna situr Tommy, kærastinn minn, sem geispar og er á kafi í leik í símanum sínum. Sumar eldri stelpnanna hafa meira að segja stolist fram í salinn til að horfa á mig, hafa smeygt sér í gangsæti svo þær geti skotist aftur bak við þegar atriðið mitt er búið. Ég sé Sörubeth, hún situr ein. Í annarri röð sé ég Ivönu og Renötu og Chelsea P. og Chelsea C. Ég sé fólk úr bænum, til dæmis handóðu konuna í blómabúðinni og hnýsna gaurinn á kaffihúsinu. Ég sé stærðfræðikennarann minn. Ég sé bréfberann minn, þótt hann sé með skyldumætingu því dóttir hans er túlípani í upphafsballettinum. En flestir eru komnir til að sjá mig. Ég myndi segja að meirihluti áhorfenda væri hér til að sjá mig. Fyrir utan þá sem ég þekki sé ég líka ókunnugt fólk, fullt af bláókunnugu fólki aftar í salnum og uppi á svölunum. Ég hef aldrei komið fram fyrir svona marga í einu áður. Það var ekki einu sinni svona mannmargt við réttarhöldin yfir Ori. Tónlistin þagnar og Bianca með hrossasmettið – hún hefði ekkert átt að fá sóló en hún er líka útskrifuð og á


leið í hundómerkilegan ríkisháskóla í New York sem ekki er einu sinni með dansdeild – þrammar af sviðinu og inn í vænginn. Hún fær dauft kurteisisklapp. „Gangi þér vel, Vee!“ segir hún þegar hún gengur fram hjá mér, þótt það sé einmitt það sem aldrei má segja við dansara á leið á svið. Vee er gælunafnið sem Ori gaf mér. Ljósin dofna áður en mér gefst færi á að kíkja upp á efstu svalir, þar sem hún myndi sitja ef hún væri hérna, eins hátt uppi og mögulegt er, til að geta litið beint niður á mig. En hún er ekki hér. Auðvitað ekki. Staðreyndin er sú að hún er dáin og hefur verið dáin í tæp þrjú ár. Ori er dáin vegna þess sem gerðist á bak við leikhúsið, í trjágöngunum. Hún er dáin því hún var send á þennan stað úti í sveit og læst inni með fullt af skrímslum. Og það var mér að kenna að hún var send þangað. Og ef ekki væri hún ekki úti í sal að horfa á. Nei, hún væri hér við hlið mér, í búningi eins og ég, baksviðs hjá mér. Við stæðum hér saman í sviðsvængnum, á leiðinni á svið. Þá væri þetta tvídans en ekki tvö sólónúmer. Ef þetta væri síðasta sýningin okkar hér í bænum áður en við færum í háskóla veit ég að hún hefði viljað hafa það þannig.


Ég hefði orðið kvíðin og hún hefði gripið um herðarnar á mér – hún var hærri en ég og hafði grennri hendur, en gripið var sterkara en maður myndi ætla – og haldið mér kyrri til að róa taugarnar í mér og svo hefði hún sagt við mig: Andaðu, Vee, andaðu. Hún hefði ekki verið heltekin af því að vera fullkomin, eins og ég er núna. Hún hefði verið afslöppuð, liðug, jafnvel brosandi. Hún hefði sagt Biöncu með hrossasmettið að hún væri frábær og að það skipti engu máli þótt hún hefði þrammað gegnum grand jetés-röðina sína eins og hrossastóð. Hún hefði óskað hverjum einasta dansara fótbrots og falls, líka tæfunum, og hún hefði ekki meint það blandið illkvittni eins og ég hefði gert. Ég veit að hún hefði fengið mig ofan af þessum óspennandi búningi, þessu látlausa pífupilsi sem ég er í, hvítu sokkabuxunum og litla hvíta blóminu í hárinu. Hún hefði viljað skarta öllum litum regnbogans. Skærum, sterkum. Eins mörgum litum og hún kæmist upp með – þannig var Ori. Í danstímunum var hún oft í einni rauðri legghlíf og annarri blárri, hátt upp á læri yfir ljósbleikum sokkabuxum, og svo í fjólubláum ballettbol undir grænum ermalausum bol, í skærbleikum brjóstahaldara sem sást í. Hárbandið sem hún


notaði til að halda svörtu hárinu í skefjum var kannski gult með doppum. Mér fannst hún svolítið kjánaleg og skil ekki af hverju fröken Willow lét hana komast upp með þetta. En svo byrjaði Ori að dansa og þegar hún dansaði gleymdi maður öllu um ósamstæðar legghlífar og ótal ósamstæða liti. Maður starði bara á það sem hún gat gert því það var ekki annað hægt. Ori var dansinn eðlislægur; hún fékk aldrei magapínu af stressi eða hafði áhyggjur af því að gleyma sporum. Hún dansaði eins og átti að gera það, á einhvern hátt sem enginn gat leikið eftir, sama hversu nákvæmlega ég fylgdist með hreyfingum hennar, sama hvað ég reyndi að spegla líkama hennar með mínum, sama hvað ég reyndi að liðka útlimina og gera þá frjálsari. Hún var svo full af lífi, neistinn vildi út og sást svo greinilega þegar hún fór út á gólfið. Ég hafði aldrei séð neinn hreyfa sig eins og hún gerði – og fæ líklega aldrei að sjá það aftur. Ef við Ori hefðum dansað tvídans í kvöld hefði hún örugglega verið betri en ég. Áhorfendur hefðu drukkið hana í sig, heillast af henni, elt ljósið hennar um sviðið. Ljósið mitt hefði verið bakgrunnslýsing. Það er sannleikurinn, eða það hefði verið það. Það er ekki lengur sannleikurinn.


Ég lét tjaldið falla. Nú er komið að mér, ég heyri tónlistina mína. Ég stíg fram á sviðið og því næst heyri ég rödd hennar, það sem hún hefði sagt við mig væri hún hérna. Andaðu, Vee. Farðu og vertu æðisleg. Sýndu þeim. Sýndu þeim öllum. Hún var alltaf að segja eitthvað svona. Ég er komin að merkinu mínu. Myrkrið er dregið frá og ég dregst með, nú er ég hávaxin, jafn hávaxin og Ori, því hún var ekki nema sex eða sjö sentímetrum hærri en ég, ég er jafnvel hærri en hún því kannski hef ég vaxið síðan hún fór. Ég stend á tám, á öðrum fæti, án skjálfta, án sveigju. Ljóskeilan fellur beint á mig og mér hitnar í miðju hennar. Ég velti fyrir mér hvernig ég lít út, utan úr áhorfendasalnum, í augum þessa ókunnuga fólks sem situr þar og þekkir mig aðeins svona, sem veit ekki neitt. Ég þarf engan spegil til að finna svarið. Ég lít út eins og ég eigi heima hér. Ég er í nýjum táskóm sem ég liðkaði til í morgun með því að nudda jarkana og slá grjóthörðu boxinu utan í hurð. Mamma saumaði borðana á með agnarsmáum sporum – það er engin leið að sjá þau. Hárið á mér


er strekkt með geli aftur á hnakka og pífupilsið er stífur hringur um mig miðja, ekki eins þunnt og létt og mætti virðast. Ég er öll í hvítu. Ég valdi þann lit. Ég bað um hann. Áhorfendur halda niðri í sér andanum fyrir mig. Ori er ekki á sviðinu, heldur ég. Áhorfendur fylgja sveigðum fótleggnum á mér, handleggirnir í fagurmótuðum boga yfir höfðinu, hryggsúlan löng og teygð. Allur þungi minn hvílir á einni tá. Ég held stöðunni. Í sviðsvængjunum eru að minnsta kosti tólf manns sem óska þess að ég detti, og ég ætla ekki að detta. Nú vex tónlistin smám saman og hver einasta smáhreyfing líkama míns stúderuð í speglinum, þjálfuð og leiðrétt þar til hún er á sínum stað. Þetta er kannski ekki jafn frjálslegur stíll og hjá Ori en þetta er tilkomumikið vegna þess að ég er svo nákvæm. Ég geri engin mistök, ekki ein einustu. Fólkið í áhorfendasalnum heyrir ekki skellina í glænýju skónum þegar líkamsþyngd mín lendir á gólfinu á milli leiftursnöggra pírúetta. Og ef það heyrir þá, ef það situr nógu nálægt sviðinu til að heyra, leiðir það hljóðið hjá sér. Það verður leyndarmálið okkar. Þetta fólk vill að ég sigri. En ég á mér annað leyndarmál. Innra með mér, fyrir innan tjullið og níðþröngt teygjuefnið í þremur lögum, býr margt sem ég get ekki talað um.


Ýmislegt sem Ori vissi, og engin nema Ori. Ef maður fjarlægði fyrsta lagið og annað lagið og þriðja lagið kæmi svolítið ljótt í ljós. Svolítið brenglað. Augu sem voru klóruð úr, blóð sem loðir ennþá við hálsinn á henni, handleggina, andlitið. Stundum finnst mér ég enn vera með blóð á andlitinu. Ég heyri gný og það er ekki hljóðið í splunkunýju táskónum mínum sem snerta gólfið í fyrsta sinn á sinni stuttu ævi. Þetta er inni í höfðinu á mér. Þar er villidýrahjörð á rás. Ég virðist vera að dansa en ég er allt annars staðar. Ég er þarna baka til, hjá ruslagámnum, í trjágöngunum og ég öskra og baða út handleggjunum og það er allt útatað í mold og möl og sprekum og laufum og myrkri, allur heimurinn hefur verið sleginn út eins og heill tanngarður. Ég er stödd þar núna, engu síður en ég er hérna inni. Fyrr en varir er ég komin að lokum dansins. Ég er alveg að missa það en mér tekst samt að klára sólóið mitt með glæsibrag, uppi á öðrum fæti, grafkyrr og stöðug. Þögn. Þau segja ekkert, gera ekkert. Ég heyri þau anda, öll sem eitt. Svo gerist það. Það marrar í sætunum og fólkið stendur á fætur. Ég gaf þeim allt. Í þetta sinn gaf


ég þeim of mikið, og svo átta ég mig, það tekur mig smástund en ég átta mig fljótt. Þau vita í raun og veru ekki neitt, er það nokkuð? Ég sýndi þeim og þau sáu ekkert. Þau byrja að fagna mér. Þetta fólk – fjölskylda mín, vinir, ókunnugir, allir þessir ókunnugu sakleysingjar – þau rísa úr sætum fyrir mér og lófarnir skella saman með sívaxandi ofsa og þau drekkja mér í hávaða eins og þau óskuðu þess helst að ég þyrfti aldrei að fara úr þessum bæ eða af þessu sviði. Þau hylla mig. Þau eru að sýna mér hvað þau elska mig mikið, hvað þau hafa alltaf elskað mig, sama hvað. Að hugsa sér hvað þau eru blind. Þau rísa úr sætum fyrir mér.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.