Amma óþekka og huldufólkið í hamrinum

Page 1


1. kafli „Ertu ekki að koma,“ kallar amma upp stigann. „Jónsmessan bíður ekki, nafna mín.“ Fanney Þóra hendist niður stigann í stórum stökkum. „Ég er komin, amma mín,“ segir hún glaðlega og stekkur yfir neðstu fjórar tröppurnar í einu svo bakpokinn flýgur næstum fram af henni. „Hamagangur er þetta í þér,“ segir amma sposk. Þær loka dyrunum og læsa á eftir sér. Fanney Þóra iðar af spenningi. Þær langmæðgur eru nefnilega á leiðinni til Hveragerðis þar sem þær ætla að vera hjá skólasystur og vinkonu ömmu. Sú heitir Sigríður Guðríður og á heima í Frumskógum.


„Eru í alvöru frumskógar í Hveragerði?“ Fanney Þóra starir forviða á ömmu sína. „Já, aldeilis, nafna mín, og fleiri skógar ef þú vilt skoða þig um.“ Amma glottir. „Þú passar þig bara á að týnast ekki í öllum þessum skógum.“ Amma segir henni að í Hveragerði séu líka hamrar og klettar fullir af álfum og huldufólki. Á Jónsmessunni haldi þeir hátíð og flytji búferlum ef þeir ætla á annað borð að flytja. Amma segir að það gerist næstum aldrei því álfar og huldufólk vilji helst af öllu búa í Hveragerði. Þær bruna yfir Hellisheiðina. Amma segir Fanneyju Þóru að taka vel eftir landinu því í landinu búi fleira en augað skynjar. Bæði á láði og legi. Fanney Þóra skilur ekki alveg hvað amma á við.


„Áttu við eins og Tappa og Truntu?“ spyr hún hikandi. „Já, eins og Tappi og Trunta,“ segir amma. „Og Fanney Þóra,“ segir amma alvarleg, „í landinu okkar búa líka álfar og huldufólk. Alveg ágætis verur. En, taktu nú vel eftir … Hér búa líka svartálfar og þeir geta verið afar varasamir.“ Fanney Þóra horfir hugsi á landið renna hjá. „Já, það er ýmislegt sem þarf að varast, nafna mín,“ heldur amma áfram. „Svo það er eins gott að ganga fallega um til að móðga engan. Því þá veit maður ekki hvað gerist!“ Fanney Þóra er agndofa. Hún hafði ekki hugmynd um þetta. Það fer hrollur um hana. Amma er stundum svo forn. Amma stoppar á útsýnisstaðnum við Kambabrún. Saman horfa þær á Kúrigerði sem hvílir undir fallegum hulduhamri. „Kúrigerði,“ segir amma gleiðbrosandi, „er fallegasti bær á Íslandi og gleymdu því aldrei!“


Amma er fædd og uppalin í Hveragerði og hún ELSKAR bæinn sinn. „Sjáðu bara, hvað þetta er fallegt,“ segir amma hrifin og breiðir út faðminn. „Þetta er alveg eins og í alvöru álfasögum.” Fanney Þóra horfir dáleidd á gufustrókana sem puffast rólega upp á milli stöku húsa. Eins og


bómullarhnoðrar tylla þeir sér á trjátoppana sem gnæfa yfir smávöxnum húsum Kúrigerðis áður en þeir halda áfram upp í himininn. „Þetta er sko ekta Kúrigerði. Þarna í Hamrinum býr huldukona sem ég þekki. Hún heitir Blæheiður. Hún er orðin drottning núna. Svo eru álfasteinar víða. Og veistu, Fanney Þóra. Álfar eru mjög hagir smiðir. Þeir smíða úr gulli og silfri. En það kunna svartálfarnir ekki, enda ræna þeir og rupla um allar álfabyggðir. Þeir búa yfirleitt neðanjarðar en ef þeir flytja upp á yfirborðið er það til að gera skandala. Þeir eru illir viðureignar og best að verða ekki á vegi þeirra.“ Amma dansar af stað. „En Kúrigerði er dásamlegt. Eins og sannkallað ævintýri, Fanney Þóra,“ kallar amma ofurglöð og valhoppar að bílnum.


Á leið niður Kambana svingar hún bílnum eins og dansherra, brosandi út að eyrum. Hugur Fanneyjar Þóru er fullur af spurningum sem gefst ekki tími til að spyrja, því nú svingar amma um hringtorgið og brunar inn í Hveragerði. Fanney Þóra hnusar út í loftið og segir: „Oj, amma, varstu að prumpa?“ Amma skellihlær og segir að svo hafi nú ekki verið. Þetta sé ilmur Hveragerðis. Það sé eins gott að venjast honum, hann fari aldrei. Það er fullt af trjám í Hveragerði en Fanney Þóra kemur ekki auga á neinn frumskóg. Hún ætlar að fara að spyrja þegar amma beygir inn götu og á skiltinu stendur „FRUMSKÓGAR“. „Aammmaa,“ hlær Fanney Þóra og amma krunkar undir.



Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.