Amma óþekka og tröllin í fjöllunum

Page 1


1. kafli „Drífa sig,“ hrópar amma svo hátt að glymur upp ganginn. „Amma óþekka er tilbúin!“ Fanney Þóra þrífur úlpuna sína. Hún bröltir niður stigann með töskuna sem er svo þung að tröppurnar kvarta sáran í hverju skrefi. Þær langmæðgur eru á leiðinni lengst út á land. Þær ætla að vera í heila viku og mála. Amma er búin að velja stað. Trölladyngju. Fanney Þóra brosir til ömmu sem stendur þarna með hárið krullað og úfið út í allar áttir.


Amma er klædd í útilegufötin sín, ullarpeysuna góðu sem er margþvæld og marglit, bláar hnébuxur, rauðu sokkana og vandlega hnýttu ökklaskóna. Amma sest undir stýri og Fanney Þóra sest í aftursætið. Báðar festa beltin kirfilega og svo er haldið af stað. „Trölladyngja. Þetta er magnað nafn,“ segir amma dreymin. „Hugsaðu þér, þarna hafa tröll legið í dyngju sinni og hrotið svo mikið að landið hefur skolfið og vindar blásið.“ Hún hlær dátt. Það fer smá hrollur um Fanneyju Þóru. Er amma að segja satt? Spurningaflóðið bunar út úr henni: „Eru ennþá tröll þarna?“ „Hvað ef við hittum tröll?“ „Myndi það éta mig?“


Fanney Þóra lítur spennt á ömmu. „Tröll! Auðvitað eru þarna tröll, hvar annars staðar ættu þau að vera?“ Amma hlær innilega. „Tröll eru bestu skinn ef þú stígur ekki á stóru tærnar á þeim,“ bætir hún við, sposk á svipinn.


Hún svingar bílnum umhverfis hringtorgið á Selfossi og brunar svo Flóaveginn á hundrað. Fanneyju Þóru finnst hún vera í rússíbana. Flóavegurinn er allur í mjúkum hæðum og dældum svo maginn í henni hoppar upp í háls og niður í rass. Hún hlær því hana kitlar alla að innan. „Amma, hvernig á ég að forðast að stíga á stóru tærnar á tröllunum?“ „Nú með því að vera ekki að hlaupa eins og fábjáni um allar koppagrundir og trissur.“ Fanney Þóra sér fyrir sér grænar grundir þar sem koppar liggja um allt, allavega á litinn. Hún brosir með sjálfri sér. Hún ætlar að mála svoleiðis mynd og kalla hana Koppagrund.


„En hvað gerist ef ég stíg á stóru tána á trölli?“ „Nú, í fyrsta lagi gargar það. Í öðru lagi hoppar það á öðrum fæti. Og í þriðja lagi grenjar það svo mikið að það rignir í heila viku svo við verðum rennblautar og fáum tröllakvef.“ „Tröllakvef?“ Fanney Þóra lítur spyrjandi á ömmu. „Já,“ segir amma og kinkar kolli. „Tröllakvef er þegar maður fær svo mikið kvef að það rennur grænt slím úr augunum og nefinu. Maður á í erfiðleikum með að kyngja því hálsinn fyllist af þessu viðbjóðslega græna slími. Þannig er sannkallað tröllakvef.“ Svo bætir hún við og hryllir sig: „Ég hef einu sinni fengið tröllakvef og það er viðbjóðslegt.“


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.