Doddi: Bók sannleikans!

Page 1


Formáli Vegna þess að flestar alvörubækur byrja á formála

Það er alltaf verið að segja að það sé mjög mikilvægt að lesa bækur. Ég trúi því alveg en vandamálið er að finna einhverjar skemmtilegar bækur sem eru ekki hrikalega þykkar. Flestir unglingar eru mjög uppteknir, til dæmis við íþróttaiðkun, lærdóm, tölvu- og símanotkun og ferðir í bíó eða verslunarmiðstöðvar, og geta ekki hangið endalaust yfir sömu bókinni.


Í gær var Blómey, bókasafnsfræðingurinn í skólanum, búin að setja upp stand á safninu með unglingabókum. Mér leist nákvæmlega ekkert á flestar þessara bóka. Mér sýndist þær ýmist hnausþykkar, verulega barnalegar eða yfirþyrmandi ævintýralegar og sumar fjalla um eitthvað sem gerðist í fornöld. Það var ein sem fjallaði um geimverur sem mér fannst svolítið spennandi, en Blómey sagði mér að hún væri frátekin. Ég hef hvorki áhuga á þykkum bókum né fornaldarlegum ævintýrabókum svo ég hef ákveðið að bæta úr þessu og skrifa bók fyrir unglinga sem mega ekki vera að því að lesa mjög mikið og er um eitthvað sem mig myndi langa til að lesa. Bókin á að vera frekar þunn og hún á að innihalda sannleika. Þess vegna fjallar hún um raunverulegt líf mitt. Ef mér tekst að ljúka við þessa bók og fá hana gefna út verð ég frægur rithöfundur. Ég fer örugglega í fjölmiðlaviðtöl og kannski þátt hjá Gísla Marteini og fegursta og besta stúlka Íslands, Hulda


Rós, mun dást að mér í margar vikur eða jafnvel alla ævi. Þessi bók verður sko engin lygasaga, ég ætla að skrifa bók sannleikans!


1. kafli Nú fáið þið að vita aðeins meira um mig

Ég heiti Geirharður Þórarinn Ævarsson Skagfjörð en ég vil helst ekki að það komi fram mjög oft því það er frekar langt og karlalegt nafn. Þess vegna skrifa ég yfirleitt bara Þórarinn Ævarsson. Ég er kallaður Doddi, sem er mjög einfalt. Það verður líka mjög gott að vera kallaður Doddi þegar þessi bók verður þýdd á erlend tungumál og líka þegar ég flyt til útlanda til að rannsaka eitruð skordýr og verð


sjónvarpsmaður eins og David Attenborough. David Attenborough er uppáhaldssjónvarpsmaðurinn minn. Hann veit allt um dýr. Ég þarf samt sennilega að finna mér nýtt eftirnafn þegar ég fer að gera útlenska sjónvarpsþætti, gæti Doddi Skagborough ekki orðið heimsfrægur? Ég á mér nokkur áhugamál; fyrir utan skordýrin er það aðallega kvenfólk. Eða í rauninni aðallega eitt kvenfólk sem heitir Hulda Rós og er í 10. bekk. Svo á ég vin sem heitir Pawel. Hann fæddist í Póllandi og er mjög sennilega dónalegasti Pólverjinn á Íslandi. En hann er líka mesti stærðfræðisnillingur íslenska grunnskólans. Hann er betri í stærðfræði en stærðfræðikennarinn. Við erum báðir í 9. bekk. Á Instagramminu mínu er mynd af Huldu Rós í hvítu bikiníi. Það sést ekkert mikið í hana á myndinni, hún er bara í einu horninu á henni, enda


er myndin tekin áður en við kynntumst. Ég tók hana á símann minn á sandströnd í Svíþjóð. Í vor tilkynnti pabbi nefnilega mér og Grétu að við værum að fara í sumarfrí til Svíþjóðar. Gréta er konan hans, en samt ekki mamma mín, því mamma og pabbi eru skilin. Hún Gréta er tannlæknir með mjög kalda fingur og hún á dóttur sem heitir Lára Björk og er þriggja ára. Lára Björk er einhvers konar umskiptingur eða hugsanlega andsetin og hún átti að koma með til Svíþjóðar. Mér leist ekkert á þessa hugmynd hjá pabba. Ég hafði aldrei heyrt um sólarlandaferðir til Svíþjóðar, og sumarfrí með andsetnu barni og konu sem er með æði fyrir vondum hollustumat var hreinlega ekki það sem ég sóttist eftir að loknu erfiðu skólaári sem einkenndist til dæmis af því að röddin í mér virkaði stundum ekki þegar ég ætlaði að tala. Ég hafði séð fyrir mér að við Pawel myndum hanga dálítið í Kringlunni og drekka ískaffi með karamellusírópi og fara í sund á hverjum degi


og tana okkur í drasl. Svo myndum við kannski byrja að reykja til að verða svalari náungar, jafnvel æfa okkur í að rappa og safna svo nokkrum skordýrum á Klambratúni á sunnudögum. En nei, Pawel fór til Póllands að heimsækja ömmu sína og ég fór til Svíþjóðar.


2. kafli Hér fáið þið upplýsingar um mikilvægan atburð sem gerðist í Svíþjóð

Pabbi minn er með einhvers konar Svíþjóðaræði sem felst meðal annars í því að hann hlustar á hljómsveitina ABBA og les þykkar sænskar glæpasögur. Uppáhaldsbækurnar hans fjalla um leynilögreglumanninn Wallander. Og pabbi vildi einmitt fara í sumarfrí á slóðir Wallanders á Skáni í Svíþjóð. Í fyrravetur las ég svolítið í einni af þessum bókum og það varð sko ekki til að auka spennuna fyrir Svíþjóð.


Leynilögreglumaðurinn Wallander er mjög feitur og leiður á lífinu. Hann drekkur mikið af vískíi og hlustar á óperur. Hann býr í bæ sem heitir Ystad og samkvæmt bókinni er alltaf ískalt rok þar og morð mjög algeng, jafnvel fjöldamorð. Ég fór næstum að grenja þegar pabbi sagði mér frá þessum sumarleyfisplönum. Mér finnst líka ansi furðulegt að pabbi skuli vera svona spenntur fyrir þessum bókum því hann leggur mikið upp úr því að vera grannur og er ekkert sérstaklega mikið fyrir áfengisneyslu, nema kannski ef það er lífrænt rauðvín, að minnsta kosti hef ég aldrei séð hann drekka viskí. Pabbi var sem sagt búinn að ganga frá þessu öllu, kaupa flugmiðana og leigja hús og bíl. Og einn góðan veðurdag vorum við öll komin til Ystad. Ég komst að því samdægurs að það er mjög mikið logið í sænskum glæpasögum. Í fyrsta lagi var sól og hiti alla dagana nema tvo sem við vorum í


Svíþjóð. Á Skáni eru langar hvítar sandstrendur og sjór sem hægt er að synda í. Í Ystad er frábær pítsustaður og Gréta var sérstaklega ánægð með hann því þar er hægt að fá glútenlausa pítsubotna úr spelti, og þarna er líka göngugata með H&Mbúð þar sem fást mjög töff föt á unglinga. Og það er örugglega aldrei neinn drepinn þarna á Skáni. Við sáum að minnsta kosti ekki eitt einasta morð og ekki einn einasta mann sem leit út eins og morðingi. Svo fékkst sjúklega góður ís í vagni á ströndinni og pabbi og Gréta voru alltaf í svo góðu skapi að ég gat keypt mér minnst tvo ísa á dag án þess að þau töluðu um óhollustu sykurs og næringarsnauðar hitaeiningar í íspinnum. Svo má ekki gleyma því að í Svíþjóð eru alls konar áhugaverð skordýr sem ekki eru til á Íslandi. Til dæmis rakst ég á mjög merkilega bjöllu sem ég hef lesið um. Þessi bjalla lítur út eins og hver önnur sakleysisleg græn padda en ef maður kemur við hana, til dæmis með íspinnapriki, gefur hún frá sér


ógeðslega vonda lykt. Lyktin er svo vond að það er eins og margir hafi prumpað samtímis. Andsetna barnið var mesti mínusinn í þessari ferð. Hún rótaði yfir mig sandi og klíndi ís í hárið á mér og var almennt til vandræða. Svo tók hún æðiskast í eina skiptið sem heilsusamlegu hjónin samþykktu að fara á Burger King. Hún fleygði sér öskrandi í gólfið þegar pabbi misskildi hana og setti tómatsósu yfir frönskurnar hennar. Ég reyndi að ímynda mér að barnið gæti ekki að þessu gert vegna þess að ill öfl hefðu yfirtekið sál hennar, en þetta var alveg jafn leiðinlegt fyrir því. Þegar ég hugsa um Láru Björk finnst mér í raun mjög skiljanlegt að fólk sé hætt að eiga jafn mörg börn og í gamla daga. Hins vegar hefur foreldrum fjölgað og það hefur sína kosti og galla. Pabbi minn á fimm systkini en bara tvö foreldri. Mamma á fjögur systkini og hún átti einu sinni tvö foreldri en hún á bara eina mömmu núna. Ég á hins vegar þrjú foreldri ef Gréta er talin með. Mamma mín er


frekar mikið á makaleit.is á netinu svo ég býst fastlega við að fjórða foreldrið bætist við innan skamms. Þróunin hefur sem sé verið sú að einu sinni áttu foreldrar mörg börn en núna eiga börn mörg foreldri. Það besta við þessa ferð var Hulda Rós, en ég vissi samt ekki einu sinni hvað hún hét þegar ég tók myndina sem ég setti á Instagram. Myndin er þannig að á henni sést strönd, blár brúsi með sólkremi, smá af hnénu á mér og neðsti partur af skálm á köflóttum sundbuxum sem voru keyptar í H&M. Efst í vinstra horninu sést Hulda Rós í hvítu bikiníi. Hún stendur og andlitið á henni sést frá hlið en það er ekki hægt að greina það vel því hún er of langt í burtu. Hún er sólbrún og með ljóst hár og tagl. Eftir að ég tók myndina glápti ég á þessa stelpu þangað til ég fann að ég var að fá þokkalega vandræðalega standpínu svo ég velti mér yfir á magann og setti myndina á Instagram.


Ástæða þess að ég vissi ekki hvað hún hét var að við vorum ekki búin að kynnast. Við höfðum bara hist einu sinni við ísvagninn. Hún var að kaupa sér grænan frostpinna og ég var að kaupa mér stærsta Magnum-ísinn sem var til. Við hliðina á mér stóð pabbi sem var að kaupa lítinn íspinna handa barninu sem er haldið illum öndum. Pabbi sagði eitthvað við mig og þá sneri þessi stelpa sér að okkur og sagði: „Mér datt einmitt í hug að þið væruð Íslendingar. Þið eruð þannig týpur.“ „Nú, nú, svo það eru fleiri Íslendingar hér,“ sagði pabbi spekingslega. „Já, ég á heima í Lundi,“ sagði stelpan og brosti. „Við komum hingað á ströndina bara yfir helgina.“


Svo brosti hún aftur og rölti burt í hvíta bikiníinu og sleikti græna frostpinnann. Hún leit einu sinni við, brosti til mín í svona hálfa sekúndu og sneri sér svo við og hristi taglið smá. Hún var með nákvæmlega rétta stærð af brjóstum, réttan háralit, rétta sólbrúnku á fótunum og bara algjörlega fullkomin að öllu leyti. Ég svipaðist um eftir þessari íslensku stelpu í hvíta bikiníinu þegar ég var búinn með ísinn minn og aftur kominn niður á strönd. Ég sá hana með konu og annarri stelpu á svipuðum aldri í sólbaði svolítið frá okkur svo ég tók upp símann og tók myndina. En svo sá ég þessa stelpu ekkert aftur í sumarfríinu. Ég skoðaði bara myndina mjög oft og hugsaði með mér hvað ég væri nú mikill fáviti fyrst


ég hefði ekki kynnt mig og spurt hana hvað hún héti svo ég gæti reynt að finna hana á Facebook eða Instagram og sent henni skilaboð eða njósnað smá um hana á netinu.


3. kafli Hér fer ég aðeins nánar yfir ýmislegt sem fram hefur komið í fyrri köflunum tveimur og segi síðan frá ótrúlegum atburði á Kjúklingastaðnum í Suðurveri

Hulda Rós. HULDA RÓS! Þetta er svo rómantískt nafn. Stundum ligg ég uppi í rúmi á kvöldin og segi það aftur og aftur með sjálfum mér og hugsa um hana þangað til ég er kominn með standpínu. Og þá þarf ég að leysa það mál. Það tekur yfirleitt ekki langan tíma og ég er með lítinn poka undir rúmi sem ég geymi klósettpappírinn í. Ég passa mig


alltaf rosalega vel að það komi ekki blettir í lakið eða sængina þegar ég fróa mér. Hún mamma er nefnilega alveg týpan til að reka augun í sæðisblett og stríða mér svo á honum fyrir framan vinkonurnar sem hún býður svo oft heim í rauðvín á laugardagskvöldum. Mamma er bæði orðheppin og stríðin, sem getur verið erfið blanda fyrir þá sem umgangast hana mikið. En vinkonum hennar finnst hún að minnsta kosti alveg rosalega fyndin og þær emja stundum af hlátri hérna í sófanum og grenja gleðitárum ofan í kámug rauðvínsglösin sín yfir vitleysunni sem vellur upp úr mömmu. „Þú ert alveg óborganleg, Sóley,“ segja þær eða eitthvað í þá áttina. Svo setja þær einhverja skrítna tónlist á og syngja með. Þær geta verið alveg ótrúlega hallærislegar, svona gamlar konur sem halda að þær séu einhverjar skvísur. Kvöldin enda svo yfirleitt á því að mamma sýnir vinkonum sínum menn sem henni líst vel á á makaleit.is og þær vega og meta hver sé besti kosturinn og flissa


mjög kjánalega. Á meðan er ég yfirleitt inni í herbergi og hugsa um skordýr eða um Huldu Rós en stundum er Pawel með mér og við erum að reikna eða ræða um Evrópusambandið. Í alvöru, hafiði heyrt rómantískara nafn? Hulda Rós. Svona eins og falin rós, leynirós. Mér finnst nafnið bæði leyndardómsfullt og töfrandi, alveg eins og hún sjálf, þótt ég myndi líklega aldrei þora að segja neinum frá því. Það þykir nefnilega ekkert rosalega töff fyrir stráka að nota svona orð og ég veit ekki hvert Pawel kæmist ef ég færi að tala um eitthvað svona rómantískt við hann. Annars er ég reyndar alls ekkert viss um að hann myndi almennilega skilja orðin „leyndardómsfullt“ og „töfrandi“. Hann notar aldrei svoleiðis orð og Ásdís, kennarinn okkar, segir að hann þurfi að vera duglegur að lesa bækur á íslensku. Hún hefur áhyggjur af orðaforðanum hjá honum af því að hann er innflytjandi og talar pólsku heima hjá sér


og nennir aldrei að lesa neitt nema stærðfræðibækur og stundum Lifandi vísindi. Ætli hann sé ekki eitt af þessum börnum sem bókasafnsfræðingurinn er að tala um þegar hún segir að krakkar núna lesi ekki nóg. En Pawel hefur bara mjög margt annað að gera, eins og að senda mér dónaleg skilaboð. Hann er nefnilega snillingur í því. Auk þess er hann hrikalega góður í öllu í skólanum nema kannski í íslensku … eða reyndar er ég ekki frá því að hann sé líka betri í henni en flestir aðrir. En þið eruð ábyggilega að velta fyrir ykkur hvernig ég komst að því að stelpan í hvíta bikiníinu heitir Hulda Rós. Það var eiginlega fyrir rosalega heppni, eða kannski voru það örlögin. Þegar ég kom heim frá Svíþjóð hugsaði ég auðvitað mjög mikið um hana. Ég var ábyggilega búinn að sýna Pawel instagram-myndina þúsund sinnum og var meira að segja farinn að spyrja mömmu hvort hún


þekkti til einhverra sænskra bóka sem gerðust í Lundi. Því ef þær væru til gæti ég nefnilega kannski gefið pabba þannig bók og ef hann læsi hana myndi hann kannski fara með okkur til Lundar í næsta fríi og ég gæti kannski rekist á hana aftur. Langsótt? Kannski, en ég var orðinn örvæntingarfullur. Mamma vinnur á Hljóðbókasafninu og veit margt um bækur. Hún er samt í rauninni listakona en hún fær ekki nógu mikið borgað fyrir listaverkin sem hún gerir til að við getum lifað á því. Hún mundi ekki eftir neinum bókum sem gerast í Lundi en lofaði að kanna málið betur. Ég var eiginlega orðinn úrkula vonar um að sjá þessa stelpu nokkurn tímann aftur þegar hið ótrúlega gerðist: Ég rakst bara á hana hérna í Reykjavík og meira að segja í Hlíðunum! Það var á miðvikudegi klukkan um það bil hálfþrjú. Við Pawel vorum búnir að fara í Kringluna


og fá okkur ískaffi með extra rjóma (strákurinn á kaffihúsinu er farinn að þekkja okkur og gefur okkur stundum karamellusíróp líka án þess að rukka fyrir). Við skoðuðum aðeins í búðir, en það var meira til að drepa tímann en til að finna okkur eitthvað, pabbi keypti fullt af fínum fötum á mig í H&M í Svíþjóð fyrir veturinn og foreldrar hans Pawels notuðu líka tækifærið og versluðu á hann í Póllandi, því það er miklu ódýrara. Þegar við vorum orðnir leiðir á Kringlunni röltum við áleiðis heim. Þegar við komum að Suðurveri var Pawel aftur orðinn svangur. Hann langaði í kjúklingabita og þótt hann ætti mjög lítinn pening gat hann skrapað saman fyrir einum. Ég ákvað að fara með honum og fá mér franskar. Ég var reyndar ekkert rosalega svangur en ég hafði ekkert betra að gera og pabbi var nýbúinn að gefa mér vasapeninga. Ég borða sko ekki kjúkling af því að pabbi og Gréta eru búin að segja mér allt um það hvernig er farið með kjúklinga í kjúklingabúum, sem ætti frekar að kalla


kjúklingaverksmiðjur. Það er víst ógeðsleg lykt hjá þeim og þeir sjá aldrei sólina og eru alltaf allir klesstir saman af því að það er svo lítið pláss og svo eru þeir víst vængbrotnir og með sár á fótunum þegar þeir koma í sláturhúsið. Gréta kallar kjúklingabragð meira að segja „bragðið af grimmd“, sem mér finnst kannski fulldramatískt, en eftir að þau sögðu mér þetta þá bara get ég ekki borðað kjúkling. Pabbi varð ótrúlega ánægður og hrósaði mér mikið fyrir „að taka siðferðilega afstöðu“ svona ungur, sem ég veit ekki alveg hvað hann á við með. En Pawel er alveg sama og heldur bara áfram að borða kjúkling þótt ég sé búinn að segja honum þetta allt saman. Jæja, við fórum inn á Kjúklingastaðinn í Suðurveri og hver haldiði að hafi staðið fyrir innan afgreiðsluborðið? Það var engin önnur en íslenska stelpan sem ég hafði séð á ströndinni í Svíþjóð! Hún var auðvitað ekki í hvíta bikiníinu í þetta sinn,


heldur í ljótum kragabol merktum staðnum og hún var með hárnet yfir ljósu taglinu. En ég hefði þekkt hana hvar sem var. Ég trúði varla eigin augum og ég kleip mig þrisvar í lærið, mjög fast, áður en ég þorði að heilsa henni. Og þá gerðist svolítið enn ótrúlegra: Hún mundi eftir mér! Hún var satt að segja miklu sætari en mig minnti, sem ætti eiginlega ekki að vera hægt, en þannig var það nú samt. Og þótt ég roðnaði rosalega og yrði ótrúlega feiminn var ég alveg harðákveðinn í því að gera ekki sömu mistök og í Svíþjóð svo ég spurði hana hvað hún héti og hvað hún væri að gera á Íslandi. Þá sagði hún mér bestu fréttir sem ég hef fengið á ævinni: Að hún héti Hulda Rós og að hún væri flutt til Íslands og myndi byrja í tíunda bekk í Hlíðaskóla í vikunni á eftir. Það hentaði mér ákaflega vel því sjálfur var ég að fara að byrja í níunda bekk í sama skóla. Ég ætlaði varla að trúa því hvað ég var heppinn. Pawel trúði þessu


eiginlega ekki heldur. Hann sagði mér að það væru alveg stjarnfræðilega litlar líkur á því að ég myndi rekast á draumadísina mína, sem ég hafði bara hitt af tilviljun í útlöndum, klukkan hálfþrjú á venjulegum miðvikudegi í ágúst á Kjúklingastaðnum í Suðurveri. Hann fór síðan að reyna að útskýra fyrir mér hversu ólíklegt það í raun og veru var á meðan hann kjamsaði á kjúklingi á leiðinni heim. Ég hafði enga lyst á frönskunum mínum og var eiginlega ekkert að hlusta á hann. Við byrjum ekki að læra tölfræði fyrr en í níunda bekk, sem við vorum ekki einu sinni byrjaðir í þegar þetta gerðist, og auk þess hef ég töluverða reynslu af því að skilja ekki Pawel þegar hann talar um stærðfræði. Ég hafði líka um annað og betra að hugsa: Stelpuna í hvíta bikiníinu sem var komin með nafn. Og nafnið var Hulda Rós.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.