Hrollur: Kvikmyndin

Page 1


Formáli R.L. Stine. Ég fékk martröð í nótt. Mig dreymdi að ég væri að skrifa kynninguna að þessari bók. Fyrir aftan mig muldraði einhver undarlegu þuluna sem lífgar Skell, vondu búktalarabrúðuna: „Karru Marri Odonna Loma Molonu Karrano.“ Ég heyrði þessi hræðilegu orð í draumnum og vaknaði skjálfandi. Ég sneri mér í snatri, átti von á að þar væri brúðan með sitt illkvittnislega glott og ískalda augnaráð, reiðubúin að hrella mig. En … hún var hvergi sjáanleg. Svona martraðir rætast sem betur fer ekki. Næsta morgun fékk ég góðar fréttir. Ég rauk niður til að segja þær eiginkonu minni, Jane. „Jack Black mun leika MIG í Gæsahúðarkvikmyndinni,“ sagði ég. „Jack Black er drepfyndinn!“ Jane kinkaði kolli. „Hann er stórkostlegur. Hann er æðislegur! Hann verður frábær ÉG!“ hrópaði ég og barði í eldhúsborðið. Hundurinn leit upp frá fyrsta lúr dagsins, steinhissa á þessum látum. „Hvernig ætli hann túlki mig,“ hugsaði ég upphátt. „Fágaðan, kannski? Dökkan og dularfullan? Illur snillingur?“


„Örugglega sem brjálæðing,“ sagði Jane. „Eða er það of nálægt sannleikanum?“ Nokkrum vikum síðar flaug Jack til New York borgar, þar sem ég bý, og við hittumst yfir hádegisverði. Við áttum gott spjall og hlógum mikið. „Ég veit hvernig ég ætla að túlka þig,“ sagði Jack mér yfir eftirréttinum. „Ég ætla að leika þig sem þig – bara miklu ógnvænlegri.“ Það hljómaði vel í mín eyru. Ég er nefnilega ekkert ógnvænlegur í eigin persónu. Blaðamaður í Ohio skrifaði einu sinni: „R. L. Stine er álíka ógnvænlegur í eigin persónu og sjóntækjafræðingur.“ Í raun er ég mjög glaðlyndur gaur sem vill helst sitja við tölvuna allan daginn og skrifa eitthvað sem hræðir börn. Mér þótti frábært að Jack Black myndi leika aðalhlutverkið í Gæsahúðarkvikmyndinni. Og varð alveg jafn glaður þegar ráðið var í hlutverk unglinganna þriggja. Dylan Minnette, Odeya Rush og Ryan Lee voru öll sautján ára og hrikalega hæfileikarík og almennileg. Ég skemmti mér konunglega að spjalla við þau á tökustaðnum í Atlanta, þar sem kvikmyndin var tekin upp. 


Eftir að tilkynnt var um gerð kvikmyndarinnar var sífellt verið að spyrja mig: Úr hvaða bók verður kvikmyndin? Þetta var erfið spurning. Og spurningunni varð að svara áður en hægt yrði að skrifa kvikmyndahandritið. Hvaða sögu ætti myndin að segja? Hvaða illa persóna ætti að vera í aðalhlutverki myndarinnar? Ætti það að vera Skellur úr búktalarabókunum? Andsetna gríman? Garðdvergarnir úr Hefnd garðdverganna? Velkomin í Hryllingsland? Einhver úr Skrímslasögunum? Doktor Vitfirringur? Morðóði trúðurinn? Ég er búin að skrifa meira en 125 Gæsahúðarbækur. Það var því vægast sagt erfitt að velja eina þeirra fyrir kvikmyndina. Þá fékk fólkið í handritateyminu frábæra hugmynd: „Af hverju ættum við að byggja kvikmyndina á einni bók? Reynum að troða eins mörgum Gæsahúðarpersónum í söguna og við getum.“ Og það er nákvæmlega það sem gerðist. Handritshöfundarnir settu sér heldur betur stórt verkefni: Nota helling af skrímslum og óþokkum og stórskrítnum skepnum úr Gæsahúðarbókunum. Búa til söguþráð þar sem R. L. Stine og


unglingarnir þurfa að berjast við næstum öll þau óféti sem hafa nokkru sinni birst í sögunum. Já, í einni og sömu bíómyndinni: Snjómaðurinn ógurlegi, gríðarstóra beiðan, þar að auki Skellur með smellum og látum, uppvakningar, höktandi fuglahræður, varúlfurinn úr Fúafeni og hrekkjóttir garðdvergum hvert sem þú lítur. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að sigrast á öllum þessum skepnum og senda þær aftur þangað sem þær eiga heima? Jú … um það fjallar nefnilega kvikmyndin. Í þessari bók er öll sagan rakin. Hér er allur hryllingurinn og hláturinn - og uppákomurnar og óvæntu stefnurnar – sem eru í kvikmyndinni. Og hér er líka … HEY! BÍDDU! Hvað ert þú að gera hérna? Skellur! Farðu! Hypjaðu þig héðan! Martraðir rætast ekki! Skellur – nei … Takk fyrir að taka svona vel á móti mér, R. L. Ég er líka glaður að sjá þig. Þið vitið hvað R.L. stendur fyrir, ekki satt? RÆFILS LÚÐI. Ha – ha – ha. Annars líturðu vel út, R. L. Er þetta nefið á þér eða ertu að éta halakörtu? Flott á þér hárið. Tókstu eftir því að ég sagði hárið, ekki hárin!


Ha – ha – ha. Veistu, ég hef aldrei séð manneskju með börk! Ha – ha. Nei, ég er bara að grínast. Mér finnst þú æði. Æðislega ljótur! Ha – ha – ha. Er þér illt í andlitinu? Það er að drepa mig! Ha – ha – ha. En nóg af þessu kurteisishjali: Ég kíkti bara við til að segja ykkur frá því hver raunveruleg stjarna myndarinnar er. Hér er smá vísbending, það byrjar ekki á R. L. Ha – ha – ha. Njótið bókarinnar, þið öll. Ég er viss um að það verður gaman fyrir ykkur að komast að því hver hlær síðast! HA – HA – HA – HA!


Kafli 1 Ég trúði aldrei að við myndum í alvörunni flytja frá New York borg. Ekki þegar mamma tók utan um mig og sagði, „Zach, við þurfum að byrja upp á nýtt.“ Ekki þegar hún sagði mér að Lorraine frænka byggi í smábæ sem væri akkúrat fullkominn fyrir okkur og að hún hefði fundið frábært starf fyrir mömmu. Ekki fyrr en við pökkuðum öllu dótinu okkur í flutningabíl og ókum af stað. Finnst þér það nokkuð skrítið? Ég á við, hver segir skilið við New York til að flytja í pínulítið, ömurlega glatað krummaskuð lengst útí buskanum? Mamma mín, Gale Cooper, gerir það. Og einhverra hluta vegna þurfti hún að draga mig með. Mamma fullvissaði mig um að ég myndi fíla Madison um leið og við kæmum þangað. Það sem blasti við þegar bíllinn puðaði yfir gamla ryðgaða brú inn í bæinn var skilti sem á stóð: VELKOMIN TIL MADISON, ÍBÚAFJÖLDI 28.245. Þýðing: Velkomin til Hvergibæjar, íbúafjöldi ÞÚ. Krúttlegur miðbær með fjórum byggingum og jafnmörgum manneskjum.


Nokkrir veitingastaðir, þar á meðal núðlustaður sem auglýsti „Miðvikudagssushi!“ Maginn á mér snerist við tilhugsunina um hvað væri kallað sushi hérna. Mamma starði hugfangin út um framrúðuna eins og við værum að keyra á Times Square. „Veistu hvað ég fíla best við þennan bæ? Engir keðjustaðir. Það er tilbreyting.“ Ég seig niður í sætinu. „Fórum við aftur í tímann þegar við keyrðum yfir brúna? Er öruggt að það sé þráðlaust net hérna?“ „Nei, Zach, kvöldunum hérna verja fjölskyldurnar við kertaljós að hlusta á útvarpið.“ Mamma glotti. Hrikalega fyndið, mamma. „Ertu viss um að það hafi ekki vantað aðstoðarskólastjóra neins staðar annars staðar?“ spurði ég. „Kannski Guantanamo Bay? NorðurKórea?“ Hún hló bara. Við stoppuðum á rauðu ljósi, við hliðina á lögreglubíl Madison-bæjar. Lögregluþjónarnir í bílnum voru steinsofandi. Þetta var greinilega svona bær þar sem gerðist aldrei neitt, eða ætti ég að hafa áhyggjur?. 


Nýja húsið okkar var … bara nokkuð venjulegt hús. Garður, grindverk, útidyramotta. Ég stundi. Þetta yrði svona eins og að búa í gamanþætti. „Sjáðu, garður!“ sagði mamma. Hún var jafnvel enn betri í uppgerðarkæti en lélegum bröndurum. Þetta er örugglega á námskránni í aðstoðarskólastjóraskólanum. „Maður fengi aldrei svona garð í New York!“ „Mamma, þú þarft ekki að halda áfram að reyna að selja mér staðinn.“ Ég hífði einn af kössunum úr skottinu. „Ég fylgi þér. Af því ég elska þig -“ „Óóó, elskan, ég elska þig.“ „- Og ég er búin að kanna málið,“ bætti ég brosandi við. „Samkvæmt lögum má ég ekki búa einn fyrr en ég er orðinn átján ára.“ Hún hristi höfuðið og fór inn. Ég notaði tækifærið og leit í kringum mig, reyndi að ná utan um þetta: Þetta er lífið þitt. Það örlaði á hreyfingu í glugga nágrannans við hliðina. Eða svo hélt ég að minnsta kosti. En um leið og ég sneri mér til að gá varð allt grafkyrrt. Það var engan að sjá. Frábært. Hnýsnir nágrannar. Enn eitt til að elska við smábæjarlífið. Í New York borg var maður í raun og veru aldrei einn – en maður var orðinn góður í að


hunsa alla í kringum sig og þeir voru góðir í að hunsa mann. Alveg eins og ég vildi hafa það. Að innan var húsið alveg eins og við var að búast þegar maður sá það að utan. Úthverfaheimili í gamanþáttastíl. „Sjáðu þetta eldhús!“ sagði mamma og sneri sér í hringi í risastóru eldhúsinu. „Það er stærra en gamla íbúðin okkar.“ Hún hafði rétt fyrir sér. Eldhúsið var risastórt. Öll herbergin í húsinu voru risastór miðað við það sem ég var vanur. Sóun á rými að mínu mati. „Við eldum aldrei,“ minnti ég hana á. „En sjáðu allt þetta pláss til að leggja frá sér skyndibitann!“ Svo nam hún staðar og hallaði undir flatt. „Heyrir þú þetta?“ Ég hlustaði af athygli. „Ö … ég heyri ekki neitt.“ „Nákvæmlega.“ Ég skildi hvað hún átti við. Í New York komst maður aldrei langt frá sírenuvæli, bakkandi trukkum, höggborum, bílflautum, öskrandi leigubílstjórum, hurðaskellum – fólki að lifa nánast í fanginu á þér. Í Madison heyrðist ekkert nema fuglatíst og lágt hvíslið í golunni. Ég náði þessu alveg. Ég skildi bara ekki hvers vegna henni líkaði þetta.


„Beina leið frá New York …“ sagði rödd að baki mér. Ég sneri mér við og sá Lorraine frænku, talandi í hnefann á sér eins og hann væri hljóðnemi. „… er systir mín, Gale, og sérstakur gestur hennar, frændi minn Zack!“ „Hæ Lorraine frænka.“ Ég velti fyrir mér hvort hún myndi taka eftir því ef ég mjakaði mér aðeins fjær. Lorraine frænka var kinnaklípir. „Gaman að sjá þig.“ „Gale, hann verður myndarlegri hvert sinn sem ég sé hann,“ bunaði hún út úr sér. „Svo sætur!“ „Takk, Lorraine frænka.“ Svo það sé á hreinu þá er ég ekki sætur. Eina fólkinu sem finnst ég sætur eru skyldmenni mín. „Bara gullfallegur drengur,“ sagið hún. „Og í hreinskilni sagt varstu ófrítt barn.“ Ööö … takk? „Lorraine …“ mamma hristi höfuðið. „Þetta er í góðu lagi,“ staðhæfði frænka. „Hann er myndarlegur núna og það er ekki eins og hann verði aftur ófríður. Myndarleiki er ekki tímabil sem maður gengur í gegnum. Það verður enginn ófríður, myndarlegur og svo aftur ófríður. Hættan er liðin hjá.“ Hún starði út í buskann eitt augnablik og ég sá – á því hvernig hún bretti upp á nefið – að


hún var að rifja upp ungbarnamyndirnar af mér. „Svo ófrítt smábarn.“ „Já, Lorraine frænka, þú segir mér þetta í hvert sinn sem við hittumst.“ „O-ó, ég var næstum búin að gleyma!“ Hún gramsaði í innkaupapokanum og dró upp Yankeesderhúfu. Glimmerskreytta Yankees-derhúfu, tindrandi og glampandi af milljón litlum gervisteinum „Úr nýju herralínunni minni!“ Hún smellti húfunni á höfuðið á mér. „Mjög … fallegt af þér,“ sagði mamma. Ég sá að hún barðist við hláturinn. Hún gaf mér bendingu. „Þakkaðu fyrir þig.“ Það var margt sem mig langaði að segja um derhúfuna. Þakkir voru ekki ofarlega á þeim lista. „Þær verða í takmörkuðu upplagi,“ sagði Lorraine stolt. „Þú munt ekki sjá marga aðra með svona húfu.“ „Ég get ekki ímyndað mér að ég muni sjá nokkurn með svona húfu,“ muldraði ég. „Ég ætla, mmm, að tæma bílinn.“ Ég dreif mig út og skildi mömmu og systur hennar eftir á spjalli. Þær gætu kannski talað aðeins meira um hvað ég er myndarlegur þessa dagana. Sérstaklega með glitrandi nýju derhúfuna.


Ég náði að stafla þremur kössum og komst alla leið upp að húsinu þegar ég fann botninn í neðsta kassanum láta undan. Æi. Ég stakk annarri hendinni undir hann til stuðnings en hallaði staflanum aðeins of mikið og efsti kassinn byrjaði að renna, og þá riðaði allur staflinn … Og svo stóð ég í miðri kassahrúgunni. Einn kassinn opnaðist og úr honum gusaðist heilt fjall af boxerum. Sem var, að sjálfsögðu, fullkomið augnablik fyrir fallegustu stelpu í heimi til að stinga höfðinu út um gluggann á næsta húsi og segja hæ.


Kafli 2 „Svo þú ert nýi nágranninn,“ sagði stelpan og horfði, ekki á mig, heldur á boxerana. Hún var … vá. Hún var með sítt dökkt hár, þykkt og liðað eins og í sjampóauglýsingu. Og skærblá augu, svona augu sem fá mann til að langa til að semja ljóð um himininn og hafið og allt það drasl. Ef ég væri týpan sem skrifaði ljóð. Sem ég er augljóslega ekki. „Komdu sæl,“ sagði ég og hamaðist við að troða nærbuxunum mínum aftur ofan í kassann. „Hvað er maður lengi að keyra frá New York?“ Hvernig vissi hún að ég kom frá New York? „Ég sá það á flottu húfunni þinni,“ útskýrði hún. Ó. Einmitt. Derhúfan. Glimmerskreytta, bleika og fjólubláa, ósmekklegasta derhúfa sem fyrirfannst. Mig langaði að gufa upp á staðnum. Reyndar vildi ég helst að derhúfan gufaði upp. Eða að það myndi kvikna í henni fyrirvaralaust. Þegar hvorugt gerðist, kippti ég henni af mér og tróð henni í rassvasann. „Þetta var sko gjöf frá frænku minni.“ Stúlkan brosti eins og köttur. „Þetta er líka gjöf til mín og allra sem fá að sjá þig með hana.“


Vertu svalur, áminnti ég sjálfan mig … eins og ég hafi nokkurn tíma í lífinu verið svalur. „Verði þér þá að góðu, stúlka-í-glugga. Ég heiti Zach.“ Hún var horfin eins og hendi væri veifað. Og í hennar stað? Óhugnanlegur miðaldra kall með þykk svört gleraugu, í of litlum svörtum jakkafötum. Hann leit út eins og einhvers konar prófessor … ef það væri hægt að vera prófessor í undarlegheitum. „Hæ. Við erum að flytja inn,“ sagði ég og gerði ráð fyrir að þetta væri það sem maður segði við nágrannana í gamanþáttaúthverfum. Maðurinn starði bara á mig, algjörlega svipbrigðalaus. Það var eins og andlitið á honum væri úr vaxi. „Bara við mamma,“ bætti ég við og benti svo á derhúfuna ef það skyldi vera hún sem kom honum úr jafnvægi. „Derhúfan var gjöf.“ Kannski var hann mállaus? Eða kannski var þetta eins og í einni af þessum óhugnanlegu bíómyndum þar sem skrítni gaurinn í næsta húsi er fjöldamorðingi? Prófessor Undarlegur lyfti öðrum handleggnum og benti. „Sérðu grindverkið hérna?“ „Öh, jább?“ Erfitt að sjá það ekki: hátt og svart, úr smíðajárni og lá eftir endilöngum lóðamörkunum á milli húsanna okkar.


„Haltu þig þín megin við það,“ sagði hann. „Haltu þig frá dóttur minni, haltu þig frá mér og við lendum ekki í neinni misklíð.“ Hann skellti glugganum aftur og dró niður gardínuna. Ég heyrði hann snúa einhverju sem hljómaði eins læsingu. Á stórum lási. Og svo er sagt að New York-búar séu ekki vingjarnlegir!


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.